La Bella vita

Hei, hvordan går det?

Nú sit ég hér á flugvellinum í Osló, nánar tiltekið í Gardermoen að bíða eftir flugi heim til Íslands.
Síðustu þrír dagar hafa verið „veldig bra“(með norskri skíðastökksendingu: https://youtu.be/nikVNrviHug?t=3m50s)

Ég tók lestina á laugardagsmorgninum frá Stokkhólmi og var kominn til Osló kl 15. Þessi lestarferð nýttist mjög vel enda fátt jafn þægilegt eins og að sofa í lest.
Hostelið sem ég gisti á í Oslo var staðsett mjög miðsvæðis og nálægt Karl Johann. Með mér í herbergi voru 5 aðrar manneskjur og og er það mjög skemmtilegt þegar maður ferðast einn. Ég og 27 ára mexíkanskur efnaverkfræðingur sem hét Jessica fórum og skoðuðum bæinn. Hún talaði mjög takmarkaða ensku þannig barnaenskan kom sterk inn. Það var því ekkert auðvelt að tala við hana um vinnuna hennar, en ég skildi það allavega þannig að hún sér um efnaferla á efnum sem notuð eru í bílaiðnaðinum. 

Við fórum að skoða virkið við sjóinn og þótti mér mjög fyndið að sjá hermennina þar, grafalvarlegir en í mjög steiktum búningum (http://www.euroisme.eu/wpcontent/uploads/euroisme_2016_oslo_pm_klein-4.jpg).
Ég á  vin sem heitir Bjarki Brynjarsson og er í norska hernum, ég veit ekki hvort að hann hafi einhvern tímann klætt sig svona upp en honum finnst mjög þægilegt að slaka á í netabol þannig að það kæmi mér ekkert á óvart að hann klæðir sig í álíka föt. Því miður hitti ég hann ekkert í þessari ferð en ég náði ekkert í hann þar sem hann var örugglega í einhverju tveggja vikna tjaldferðalagi með hernum um fjöll Noregs þar sem þeir þurfa að veiða sér til matar og kveikja eld með ísmolum eða eitthvað álíka hart.

Við Jess héldum svo ferð okkar áfram um Osló þar sem kíkt var á óperuhúsið. Það var rosalega líkt Hörpu að mínu mati. Ég ætla ekki að draga neitt úr arkitektinum sem teiknaði Hörpu en hann hefur auðsjáanlega fengið að taka pínu „sneak peak“ á teikningarnar af óperuhúsinu í Osló.

Þar sem Osló er ekki ódýrasta borg í heimi ákvað ég að taka laufléttan nirfil á þetta og fjárfesti í klassískri frosni pizzu. Kool aidið fékk þó að vera áfram í hillunni (https://www.youtube.com/watch?v=UnAbszcy3bs).
Vinur minn hann Jón Arnar Briem sem var skíðakennari í Austurríki lifði á þessu kombói þar enda klassískt kombó. Reyndar var kool aidið minna drukkið en það skiptir ekki öllu máli, aldrei að eyðileggja góða sögu með sannleika.

Um kvöldið kíkti ég aðeins út. Annar staðurinn sem ég fór á var púra teknóstaður sem hét Villa og mér fannst ekki mikið að vera að frétta af honum enda ég ekki mikill teknó maður. Hinn staðurinn sem ég endaði inn á hét Oslo Camping og það var gaman að því þar sem fólk var bæði að spila minigolf og dansa á sama tíma. Mjög gott grín!

Næsta morgun við morgunverðarborðið hitti ég norska stelpu sem hét Sara og ítalskan dreng sem hét Carlo. Þessi Sara var á leiðinni út en herra Carlo var mjög ferskur drengur. Hann er akkúrat sú týpa af mönnum sem ég hef mest gaman af. Töluvert mikið á milli eyrnanna en samt meira en til í gott bull. Ég og Carlo fórum ásamt vinkonu hans, Francesca á safnarölt. Eins og ég skildi þau þá eru þau að læra ferðamálafræði í París en koma bæði frá S-Ítalíu og lifa því skv. orðunum „La bella vita“

Í menntaskóla höfðu þau bæði lært listasögu þannig að það var yndislegt að vera með þeim á safninu. Við fórum á Nasjonalmuseet sem hefur að geyma mögnuð verk eftir listamenn á borð við Monet,  Picasso og Munch. Af þeim verkum sem eru þarna er líklegast frægast af öllu „Ópið“ eftir Munch.
Þrátt fyrir að herra Carlo var mikill grínisti þá var hann mjög alvarlegur þegar að hann skoðaði þessi verk og sagði mér frá ýmsu sem tengdist verkunum. Ég er ekki mikill safnamaður en með jafn góða leiðsögumenn og þau Francesca voru þá var þetta virkilega skemmtilegt. Það sem var líka svo skemmtilegt var hvað þeim þótti þetta merkileg listaverk og þau búa í París!

Eftir Nasjonalmuseet var förinni heitið á Nóbel safnið. Við urðum fyrir töluverðum vonbrigðum með það enda mjög ruglingslegt safn að okkar mati.

Um kvöldið elduðum við okkur saman pastarétt, ótrúlegt en satt!
Eins og ítölum er einum lagið þá elskuðu þau að elda. Francesca sagði mér það að þegar hún væri pirruð eða stressuð fyndist henni ekkert betra en að elda góðan mat. Mér fannst það mjög fyndið. Hún sagði mér það líka að þegar hún hefur ekkert til að tala um við fólk þá talar hún um mat. Þetta er örugglega bara svipað og þegar við Íslendingar tölum um veðrið þegar við höfum ekkert til að tala um.
Einnig fannst mér mjög fyndið að biðja þau um að telja upp allar mögulegar tegundir af pasta og kaffi. Þau nefndu u.þ.b. 50 pasta tegundir og 30 kaffitegundir.

Um kvöldið fórum við svo á skemmtistað sem hét Blå og var jazz-latínó staður. Fyrr um kvöldið voru jazz tónleikar og síðan var spiluð latínó tónlist að þeim loknum. Að sjálfsögðu dönsuðu þau eins og alvöru latínó fólki er einum lagið, s.s. mjög vel. Það var því mjög gaman að reyna að losa þessar fótbolta/íslendinga mjaðmir sem ég er með. Í lok kvöldsins taldi ég mig þó geta sagt án þess að vera of hrokafullur: „My hips don‘t lie“.

Ég vaknaði svo í morgun eldferskur og fór í morgunmat með herra Carlo og ungfrú Francescu þar sem rætt var um heima og geima. Þau sögðu mér frá hinum yndislega „La bella vita“ lífstíl og ég sagði þeim ýmsar skrítnar/fyndnar staðreyndir um þýska tónlist auk þess að segja þeim frá Íslandi. „La bella vita“ er eitthvað sem maður verður auðsjáanlega að kynnast.

Mynd dagsins:

1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Pikachu að dansa til að safna pening

Frá vinstri: Francesca, Pikachu, ónefndur maður, Carlo og ég


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband