15.10.2012 | 20:53
Týndur maður er vel ferðaður maður
Grüss gott,
í gærkvöldi kom ég frekar seint að kvöldi til. Mér voru fengnir lyklar og helstu upplýsingar um íbúðina og annað sem ég þurfti svosem um skólann og hvernig ég mundi komast þangað. Þegar í íbúðina var komið komst ég að því að sambýlismenn mínir næstu mánuðina eru tveir ítalskir strákar þeir Francesco og Christian, þeir líta út bara fyrir að vera hinir mestu fagmenn. Francesco er reyndar með ágætis geitarskegg, en það er alveg hægt að vinna með það. Í húsinu þar sem ég bý búa einungis Spánverjar og Ítalir nema það er reyndar ein stelpa frá Akureyri sem býr þarna. Ég er þó reyndar ekkert búin að hitta hana.
Ég vaknaði svo eldsnemma um daginn því að það tekur u.þ.b. 40 mín að fara í skólann. Ég lagði af stað til að ná í lestina en mér til skammar reyndist hún vera farin, ég var þó reyndar ekkert það pirraður því önnur lest kom svona 1 mín og 48 sek seinna. Til að komast í skólann þarf ég að taka 3 sporvagna og ganga ágætisstund.
Þegar að ég mætti í skólann var svo bara vel tekið á móti mér og ég settur strax í action. Hópurinn sem lærir með mér er mjög misleitur. Þarna eru tvær konur um fimmtugt frá Brasilíu sem eru að ferðast um alla Evrópu að fara í mismunandi málaskóla, það eru tvær stelpur um tvítugt frá Sviss sem tala hvorugar þýsku(önnur talar ítölsku og hin frönsku). Þarna er maður frá Tsjétsjéníu um fertugt sem vill alls ekkert láta bendla sig við Rússland. Þegar að hann talaði svo þýsku var ég alveg viss um að ég var að heyra rússnesku. Svo er ein stelpa frá Tyrklandi og ein frá Bandaríkjum Norður Ameríku. Í þessum tímum gerðum við ýmislegt svo sem að skrifa ævintýri á þýsku, ég skrifaði um tröll sem fór í partý en dó svo áfengisdauða út í garði og svo þegar sólin kom morguninn eftir breyttist það í stein.
Í skólanum tók ég eftir að ég gerði bæði svo lítið af því að ofmeta mig og vanmeta mína þýsku kunnáttu. Stundum var ég því lítill í mér og stundum var ég að fljúga aðeins of hátt.
Eftir skólann hafði enginn í hópnum tíma til að gera neitt með mér þannig að ég tók mér það bessaleyfi að ferðast bara um Vín sjálfur. Mér var reyndar boðið í Tófú matarboð annað kvöld þannig að það jafnaði það út.
Ég hóf því ferð mína um víðáttur Vínarborgar og komst að því eftir nokkra stund að ég var orðinn týndur. En sagt er að týndur maður sé vel ferðaður maður. Ég tók því þá meðvituðu ákvörðun að vera ekkert að gera of mikið mál úr því og hélt bara för minni áfram. Ég hafði lofað sjálfum mér því að fara sem allra fyrst í kleller(klippingu) þegar að ég hefði tíma. Mér til mikillar undrundar komst ég að því að næstum engin hárgreiðslustofa er opin á mánudögum hér í Vín. Þannig að þegar að ég sá eina frekar mikla hárgreiðslubúllu vera opna hikaði ég því ekki við að henda mér þar inn. Ég hafði prentað út mynd af Granit Xhaka(fótboltamaður) og sagði einfaldlega við hárgreiðslu mannin: So wie er, bitte schön. Ég kom því út úr stofunni nýklipptur, sáttur og 10 evrum fátækari.
Áður en ég fór út þá höfðu báðir foreldrar mínir brýnt það fyrir mér að fá mér austurrískt sim-kort, ég varð því að ósk þeirra á fyrsta degi og nú er nýja gsm númerið mitt: 0043-69917037922
Ég komst svo heim að ég held með hjálp frá heimilislausum manni, ótrúlegt hvað sá kunni vel á almenningssamgöngurnar hérna. Þegar ég kom svo upp í íbúð voru herbergisfélagar mínir ferskir að gera eitthvað af sér í tölvunum sínum. Ég spurði þá hvort að við ættum ekki að elda og þar sem að þeir eru báðir ítalskir þá voru þeir ekki lengi að galdra fram túnfiskpasta sem er mun betra en það hljómar.
Eftir þessa klassísku máltíð kom ítölsk stelpa hingað niður og spurði hvort að við vildum ekki kíkja aðeins á spánverjana sem búa hér fyrir ofan, við að sjálfsögðu þáðum það og komum okkur fyrir í sparistellingunum inni í stofunni þeirra. Þessir Spanjólar eru búnir að vera hér í þó nokkra mánuði en kunna næstum ekkert í þýsku því þeir hanga alltaf saman. Ég kom svo hingað niður eftir það og er í þessum töluðu orðum að klára þetta blogg mitt.
Ég er samt ekki frá því að ég tali bara betri þýsku í kvöld en ég gerði í morgun. Við herbergisfélagarnir tölum bara saman þýsku en í neyðartilfellum grípum við til enskunnar eða kíkjum í orðabók. Ég tel að þeir séu bara á svipuðu stigi og ég í þýskunni.
Maður hefur komist að nokkru um Austurríki og fólkið sem býr þar á þessari stuttu dvöl minni. Það er mjög þæginlegt að þeir eru fljótir að hjálpa útlendingum, ólíkir Þjóðverjum að mjög mörgu leyti þrátt fyrir að þeir deila jafn miklu, mun afslappaðari þegar það kemur að seinkomu og margt annað í svipuðum dúr. Þar sem að ég er í mála skóla hef ég ekki fengið neitt almennilegt tækifæri til að kynnast Austurríkismönnum nema kannski kennurunum en þvert á móti hef ég kynnst mikið af fólki frá S-Evrópu.
En nú held ég að þetta sé komið gott og ætla ég að reyna núna að klára heimavinnuna sem var sett fyrir
Fastir dagskrá liðir:
Þýska orð dagsins: Langweilige Pensionister(Leiðinlegir eldriborgarar)
Mynd dagsins:
Við herbergisfélagarnir(Verðið að ýta á hana til að sjá hana betur)
7,8 Gute nacht, Jónas
Athugasemdir
Djöfull á þetta eftir að vera mikil snilld hjá þér! Þú mikli ferðamógúll.
P.s. Geggjuð saga um tröllið sem dó áfengisdauða :)
Maximus Thorlacius (IP-tala skráð) 15.10.2012 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.