20.10.2012 | 13:29
Söluaðferðinar eru mismunandi
Yellow,
í gær byrjaði dagurinn á klassískan hátt og dreif ég mig í skólann. Í skólanum fékk ég mína fyrstu einkunn í skólanum og fékk ég einn sem er besta einkuninn sem er gefin hérna(1 er best og 6 er verst).
Að skóla loknum þurfti ég að heilsa aðeins upp á Gabriel sem er tengiliður minn hér í Vín til að klára ýmis mál. Á leið minni til hans frá skólanum labbaði kona frá rómönsku Ameríku upp að mér og rétti mér rós og ég þakkaði bara pent fyrir mig og hélt leið minni áfram. Sú gamla ætlaði svo sannarlega ekki að leyfa því bara að gerast og pikkaði í mig og sagði „money“. Ég sneri mér þá bara við og ætlaði að láta hana hafa rósina, hún neitaði og sagði bara aftur „money“ með rosalegum hvolpaaugum. Útaf þessum rosalegu hvolpaaugum og ljótum tanngarði gat ég ekki annað gert en að gefa henni allt klink sem ég átti, sem var ein evra samanlagt. Ein besta sölumennska sem ég hef upplifað. Seinna um daginn hitti ég svo aðra konu sem ætlaði að gefa mér rós en ég var fyrri til og tók ekki við henni. En til að taka það jákvæða útúr þessu þá faxaði ég þessari rós til Ingibjargar og hlýtur hún bara að vera núna á leiðinni til faxtækisins hennar. Þetta var því ekki alveg eintóm sóun á evru.
Fór síðan heim til mín og nokkru seinna ákváðum ég og Francesco að fara í rosalega stóran almenningsgarð sem er nokkurs konar Central Park Vínar sem heitir Praten. Þetta er útivistarstaður Vínarbúa og er hægt að æfa allar íþróttir sem hugurinn girnist hérna, allt frá hafnabolta til rugby og allt þar á milli. Ég var að leita að fótbolta liði og Francesco að rugby liði. Því miður fyrir Francesco er bara hægt að æfa rugby í Vín þarna í Praten(sem er langt í burtu frá íbúðinni okkar) en ég komst að því að það eru nokkur fótbolta lið í nágrenni okkar sem ég gæti mögulega æft með.
Fórum svo heim eftir þetta og ég dreif mig í sturtu á meðan að Francesco eldaði(nokkuð gott að búa með ítölum sem elska að elda).
Gaman að því að klósettkerfið hérna er svoldið steikt, klósettið sjálft er ekki í sama herbergi og vaskurinn þannig að þegar maður er búinn á klósettinnu verður maður alltaf að fara inn í annað herbergi til að þvo sér um hendurnar. Ég hef komið núna inn í þrjár austurrískar íbúðir og alltaf er sama sagan með klósettinn. Það hefur örugglega einhver austurískur læknir sem hefur heitið Dr. Fritzl uppgötvað fyrir svona 58 árum síðan að þetta er miklu hreinlegra en hefur ekki viljað að þessi þekking færi út fyrir landsteinana.
Þegar ég kom úr sturtunni beið eftir mér ilmandi pastaréttur(ótrúlegt en satt). Það er gaman að sjá hvað ítalir(allavega frá Bolzano) eru með öðruvísi borðsiði en við. Þeir nota til dæmis aldrei venjulega diska, bara djúpa diska. Þeir blanda sjaldan saman matnum eins og við íslendingar heldur borða þrjá mismunandi rétti, forrétt, aðalrétt og eftirrétt(sem er samt ekki sætur). T.d. Pylsur í forrétt, pasta í aðalrétt og svo salat í eftirrétt. Eftir matinn hreinsa þeir svo alveg diskinn með brauði.
Að mat loknum spurði ég Francesco hvað hann ætlaði að gera um kvöldið en hann sagðist ekki geta gert neitt vegna þess að hann þurfti að vakna kl. 7 daginn eftir til að mæta í vinnuna. En hann ætlaði þó reyndar að bíða eftir Christian. Þeir félagarnir bíða alltaf eftir hvor öðrum þegar hinn kemur seint heim úr vinnunni með heitan mat, mjög krúttlegt.
Að mat loknum dreif ég mig niður í bæ til að hitta hópinn minn úr skólanum. Við hittumst á bjórhúsi sem var skipulagt af kennaranum mínum og var hún með okkur. Þetta var því í fyrsta skipti sem ég hef farið niður í bæ og djammað með kennaranum mínum. Reyndar er hún bara 22 ára en hún er samt sem áður kennarinn minn.
Eftir að hafa verið á þessu bjórhúsi var ákveðið að drífa hópinn á einn skemmtistað sem er í miðaldakjallara sem hafði verið breytt í skemmtistað. Var það bara hin besta skemmtun og þótti mér leiðinlegt að þurfa að fara þegar að hópurinn fór. Gaman er að segja frá því að inn á næstum öllum stöðum hér í Vín má reykja þannig að þetta er því algjör draumadjammstaður fyrir hana Ingibjörgu mína(hehe djók).
Næst var rölt af stað og farið á einhvern almesta chill staðinn og setið þar í sófa í svona 2 klst og alltaf var kennarinn með okkur. Ég verð að segja að þetta var ekki alveg minn tebolli og var ég alveg ótrúlega nálægt því að sofna.
Var ég því ekkert lítið sáttur þegar rölt var af stað út af staðnum. Þar sem að fólk var ekki lengur í mesta stuði sem sögur fara af var bara lagt af stað í heimferð með smá stoppi á McDonalds. Það er algjör snilld hérna í Vín að samgöngukerfið er líka opið alla nóttina þannig að maður þarf ekki að vera hræddur um að vera ekki með nægan pening fyrir leigubíl heim.
Verið hress, ekkert stress(fingurkoss), bless!
Fastir liðir:
Þýska dagsins: Links Vertreidiger(Vinstri bakvörður(fótbolti))
Mynd dagsins:
Fyrsta prófið sem ég tók hérna í Austurríki gekk bara vel + rósin sem ætti vonandi að vera komin í faxtækið hennar Ingibjargar sem allra fyrst
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.