29.10.2012 | 11:44
Á ferðalögum er gott að finna sér bílastæðahús og sofa þar í húsbíl
Laugar-og sunnudagur:
Sæl verið fólkið,
ég og Steinn vöknuðum daginn eftir góðan föstudag ferskir og slakir og tilbúnir að takast á við ævintýri dagsins. Veðrið var ekki upp á eins marga fiska og við höfðum vonast eftir og var því ákveðið að rúnta um Bratislava í stað þess að ganga um hana. Stefnt var að stóra kastalanum upp á hæðinni en hægara sagt var að gera það en að segja það. Að lokum fundum við hann þó eftir að hafa spurt eldri konu um leiðbeiningar á þýsku(mjög fáir tala ensku þarna en margir tala þýsku).
Kastalinn var mjög klassískur, bara rosalega stór og örugglega hrikalega dýr. Við tókum þó eftir því að það virtist sem mikið væri eyðilagt þarna. Við fréttum það svo seinna á ferð okkar að stór hluti kastalans hafði eyðilagst í miklum bruna sem hafði átt sér stað í mars 2012. Við kíktum einnig inn á þjóðminjasafn Slóvakíu sem var inn í kastalanum sem ég verð að segja að var nú ekkert rosalega merkilegt. En salirnir sem safnið var inn í voru rosalega flottir.
Eftir dvöl okkar í kastalanum lögðum við húsbílnum inn í bílastæðahúsi sem var rétt hjá kastalanum þá tók Steinn eiginlega bara eina bestu ákvörðun ferðarinnar. Af hverju ekki bara að gista inn í bílastæðahúsinu? Sú nótt kostaði okkur einungis sex evrur og vorum við i upphituðu húsi með frábærri staðsetningu.
Eftir að hafa lagt bílnum áttum við góða stund inn í bílnum, hlustuðum á hellað dub sem Steinn hafði fengið gefins kvöldið áður frá DJ-inum á Babylon og átum og drukkum.
Þar sem að það var um fátt annað að ræða en að fara niður í bæ héldum við ferð okkar þangað. Okkur til þónokkurs ama uppgötvuðum við að það var orðið alveg svívirðilega kalt úti(og við sem höfðum fengið að njóta hlýunnar inn í bílastæðahúsinu). Á ferð okkar fundum við eitt stykki bar sem handritshöfundar Eurotrip höfðu örugglega bara farið inn á því að þarna kostaði hver krús af bjór einungis eina evru.
Á barnum lenti Steinn í því að ein slóvakísk stelpa sem var í þykkari kantinum var að gefa honum undir fótinn. Hún sagði m.a. við hann(að við höldum) að hann væri ansi líkur Brad Pitt. Var Steinn mjög glaður með það enda mjög hrifin af því að vera líkt við Brad Pitt auk þess sem að hann er hrifinn af stelpum sem eru í þokkalegum holdum.
Næsta skref frá því að vera á barnum var svo auðvitað að kíkja við í slóvakíska messu. Þá vorum við á rölti og sáum að kirkjudyr voru opnar, við stigum þar inn og krupum á skeljarnar líkt og aðrir messugestir. Fimm mínútum eftir að við vorum mættir var svo altarisganga. Við gátum þá því ekki annað gert en að taka þátt í því. Við strákarnir höfum því borðað og drukkið hinn slóvakíska Jesúm. Að altarisgöngu lokinni tóku sóknarbörn í hendur á hvoru öðru og blessuðu hvort annað að kaþólskum sið og að sjálfsögðu á slóvakísku, ég hef því tekið í hendina á random slóvakískum gæja og blessað hann á slóvakísku(mér finnst það mjög nett).
Við strákarnir höfðum sammælst um það að í ferðinni yrðum við að prófa sushi-ið hérna þar sem að við erum báðir miklir áhugamenn um það japanska listform. Við fundum stað sem heitir Panda og var það því miður kínverskur staður en hann seldi sushi. Á þeim stað fengum við lítið tréskip og ofan á því voru margir sushi bitar. Þetta var því mjög fögur sjón.
Fundum næst skoskan stað í miðbænum og vildi Steinn endilega kenna mér að drekka viskí. Ég gerði bara eins og hann sagði og var þetta bara hin besta skemmtun. Við fórum síðan útaf staðnum nokkru seinna en áttuðum okkur á því eftir þó nokkuð rölt að við höfðum bara alls ekki borgað fyrir þetta. Jæja skaðinn var skeður og ekkert hægt að gera í því.
Ætluðum við svo aftur á Babylon þar sem að hafði verið spilað hellað dub daginn áður. Þegar við gengum þar inn áttuðum við okkur á því að við hefðum gengið inn á jazz-tónleika. Sú tónlist var jú töluvert frábrugðin því sem við bjuggumst við en okkur líkaði þetta bara vel og settumst við niður og fylgdumst snortnir með.
Að jazz tónleikunum loknum ætluðum við í meiri ævintýraleit um næturlíf Bratislava. Okkur þó til mikillar furðu var voðalega fátt að gerast þar á laugardagsnóttu og héldum við bara heim á leið í bílastæða húsið og sváfum þar vært.
Morguninn eftir vöknuðum við og var stefnan sett á sveitir Bratislava, Steinn er jú alinn upp i sveitinni heima þannig að það voru voðalega fáir aðrir möguleikar í boði.
Við sáum svo fyrsta snjó vetrarins á leið okkar út úr bænum Pernek. Þá keyrðum við upp fjallveg sem var alveg ótrúlega fallegur og umhverfið alveg ótrúlegt. Við gátum því miður ekki klárað að fara upp allan þennan veg því að við vissum ekki hversu langur hann væri og bensínið farið að verða hættulega lítið. Við snerum því og keyptum meira bensín í smábænum Pernek.
Þar sem að við vorum ansi nálægt landamærum Ungverjalands ákváðum við að kíkja aðeins yfir til vina okkar í Ungverjalandi. Á landamærunum lentum við í því að lögregluþjónn ætlaði að sekta okkur um 140 evrur(23.000 kr.) fyrir að vera ekki með ákveðin límmiða til að mega keyra á hraðbrautum Slóvakíu. Við reyndum að malda í móginn og hann sagði þá við okkur að þar sem að þetta væri fyrsta skipti okkar í Slóvakíu þurftum við einungis að borga 50 evrur. Þá kom það sér ansi vel að við áttum ekki svona mikið í seðlum og enginn var hraðbankinn nálægur. Hann leyfði okkur þá bara að fara í gegn og sagði þó við okkur að við þyrftum að kaupa þennan límmiða. Eftir þetta héldum við okkur bara á þjóðvegunum.
Strákarnir kíktu svo við í Gasometer í Vín sem eru gamlir gasturnar sem hafa verið breytt í nokkurskonar verslunar-og skemmtimiðstöð(má líkja þessu við perluna). Þetta er þó töluvert stærra og býr fólk einnig í þessu. Við kíktum að sjálfsögðu á sushi trainið sem var þarna og gat maður borgað 11 evrur fyrir eins mikið af sushi og maður gat ofan í sig látið. Þar sem að við strákarnir erum örugglega með meiri orkuþörf en flestir aðrir get ég svo sannarlega vottað fyrir það að við borðuðum fyrir 11 evrur og rúmlega það!
Í lokin vil ég vil svo bara þakka hinum mikla fagmanni Steini fyrir frábæra helgarferð um Austur-Evrópu
Jónas þakkar fyrir sig
Fastir liðir:
Útlenska dagsins: boh vám zehnaj(blessi þig á slóvakísku)
Mynd dagsins:
Ég að hafa það notalegt á svefnstaðnum okkar
Athugasemdir
Þakka þér fyrir frábæra ferð kallinn minn.
Steinn Orri Erlendsson (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 18:04
Þakka þér fyrir sömuleiðis
Jónas Guðmundsson, 29.10.2012 kl. 18:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.