3.11.2012 | 20:25
Menn í Líege nota mismunandi aðferðir til að heilla mademoiselleurnar
Ég lagði af stað til Líege í Belgíu þann 31.okt, á síðasta miðvikudag. Förinni var heitið að hitta hana Ingibjörgu mína í karate æfingabúðum þar sem hún tekur þátt í þeim með landsliðinu í karate. Mamma fann mjög ódýran flugmiða þar sem að ég flaug í gegnum Bratislava og var því sá flugmiði keyptur.
Ég tók rútuna frá Vín sem tekur u.þ.b. 2 klst. Í rútunni var ég svo góður að sofna og vaknaði við það að allir voru að fara út, ég fylgdi þá straumnum og fór út. Mér fannst þessi staður vera ansi ólíkur öllum þeim flugvöllum sem ég hef áður farið á en tók þó sénsinn og fór að leita að hvar ég gæti tékkað mig inn. Eftir mikla leit að svoleiðis stað komst ég að því að þetta væri lestarstöðin í Bratislava. Ég dreif mig því aftur að rútunni og var hún alveg að fara að leggja í hann, mér til mikillar lukku náði ég að stöðva rútuna og komast aftur inn í hana(hefði verið nett pirrandi að vera strandaglópur í Bratislava með flugmiða í farteskinu útaf svona heimskulegum mistökum)
Flugið gekk vel og komst ég heill á húfi til Líege með því að fljúga fyrst til Brussel og taka þaðan lest til Líege. Það fyrsta sem ég sá á lestarstöðinni var risastór hani að tala við afgreiðslufólkið(mjög fyndið), þegar ég fór svo út sá ég fullt af fólki í búningum. Ég fattaði þá að það væri hrekkjavaka.
Ég tékkaði mig svo fyrst inn á hótelið þar sem að hún Ingibjörg var ennþá með landsliðinu að skoða æfingasvæðið. Þar sem að ég hafði nægan tíma ákvað ég að skoða mig aðeins um hérna.
Stelpa sem er með mér í skóla í Vín hafði áður sagt mér að Líege væri helsta listaborg Belgíu og ættu margir listamenn heima þar. Ég hafði því töluverðar væntingar til borgarinnar áður en ég kom. Við getum þó orðað það þannig að þessar væntingar hafa alls ekki verið fullnægðar. Kannski er það þó bara einhver óheppni eða Vínarhrokinn í mér. Mér finnst húsin hérna almennt bara frekar ljót og tel ég Bratislava til að mynda mun fegurri borg, en nóg um það.
Ég sá ýmislegt á þessari stuttu göngu minni um borgina og til að mynda komst ég að því að rétt hjá hótelinu okkar er stærsta drasl tívolí(ferðatívolí) sem ég hef einhvern tíman séð. Við ætlum samt að sjálfsögðu að kíkja aðeins á það í kvöld(mjög rómantískt held ég, hægt að vinna stóra bangsa þar og svoleiðis).
Inga lét mig svo vita að hún væri alveg að vera komin upp á hótel. Ég dreif mig því af stað til hennar og á leið minni var ég svo heppin að hitta farandblómasala. Ég gat því ekkert annað gert en að fjárfesta í blómvönd til að færa stelpunni minni.
Þegar ég var svo að labba ganginn á hótelinu mínu, varð ég vitni að fallegustu sjón sem ég hef einhvern tímann séð. Þarna stóð Ingibjörg í landsliðsgallanum sínum, búin að vera að ferðast allan daginn, með allar töskurnar í kringum sig, hágrátandi. Ég hljóp því til hennar og úr urðu miklir og innilegir fagnaðarfundir.
Um kvöldið fórum við á kínverskan veitingastað og reyndist það bara hinn besti staður.
Ingibjörg sagði mér frá ýmsu skrítnu sem hafði komið á daga hennar, sumt fannst mér mjög fyndið en annað bara mjög rangt. Hún hafði t.d. lent í því að ætla að fara á klósettið í lestinni. Þegar hún reif í hurðarhúninn fann hún að það var læst. Nokkrum sekúndum seinna kíkir ansi grunsamlegur svertingi út, lítur mjög grimmilega á hana og aðra lestargesti , fer svo aftur inn og skellir að sér. Gaman væri að vita hvað hann hafði verið að gera þarna inni.
Einnig lenti hún seinna í því að strætóinn sem þau fóru upp í var fullur. Henni þó til mikillar lukku var einn eldri maður svo góður að bjóða henni sæti í kjöltunni sinni. Ótrúlegt en satt þá neitaði hún honum og ákvað að standa bara í staðinn, manninum til mikillar furðu og leiðinda.
Morguninn eftir(fimmtudagur) fengum við okkur staðgóðann morgunmat á hótelinu(var ég búinn að minnast á það að þetta er mjög töff hótel). Eftir morgunmat þurfti Inga að drífa sig í æfingabúðirnar og fór ég með henni. Í strætónum settumst við á bakvið einn eldri svartan mann. Hann var svo góður að færa sig yfir í hitt sætið sem snéri andspænis okkur og gerði ekkert annað alla ferðina en að stara á Ingibjörgu. Þetta þótti okkur miður skemmtilegt og er ég farinn að taka upp á því að reyna að skýla Ingu meira og meira því þetta er farið að gerast óþæginlega oft. Já það er ekkert grín að vera sæt stelpa hér í Líege.
Æfingabúðirnar sem Inga er í eru undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið í París í karate og þjálfarinn í þeim er þrefaldur heimsmeistari í kata og kumite, þetta er því eitthvað rosalega stórt nafn í karate heiminum(Senseï Junior Lefevre). Á leið okkar í karate búðirnar brá mér allrosalega. Tveir sjúkir hundar eru inn í búri við innganginn og geltu á okkur alveg á fullu(helluhart!)
Inga fékk 2 klst pásu á milli æfinga og drifum við okkur niður í bæ. En þar sem að við höfðum ekki pælt í því að frönsku mælandi hluti Belgíu væri kaþólskur þá komumst við að því á eiginn skinni að ekkert var í gangi niður í bæ á þessum degi. Allar búðir lokaðar og svoleiðis vegna þess að á 1 nóv er allra heilaga messa og er það mjög hátíðlegur dagur hjá kaþólikkum.
Þegar pásan var svo liðin dreif Inga sig svo aftur í æfingabúðirnar. Hún fattaði að hún hafði gleymt að taka með sér aukanærbuxur og vildi að sjálfsögðu ekki fara aftur í sömu sveittu nærbuxurnar. Ég spurði hana í djóki hvort að hún vildi bara ekki mínar og mér til mikillar furðu var hún bara geðveikt til í það. Mér fannst það því bara drullu fyndið að lána kærustunni minni nærbuxurnar mínar sem ég var í og dreif mig því bara inn á klósett og vippaði mér úr þeim og lánaði henni svo þær sem hún svo notaði á æfingunni.
Um kvöldið ætluðum við svo að fara eitthvert út að borða en því miður voru allir veitingastaðir lokaðir mjög snemma út af allra heilaga messu. Við náðum þó loks að finna einhvern kebab stað(blessaðir séu múslimar) og gerðum við okkur hann að góðu.
Fastir liðir:
Útlenska dagsins: je ne pas parle français. Anglais, allemand?(ég tala ekki frönsku. Ensku, þýsku?(það tala mjög fáir ensku hérna, allir næstum bara frönsku))
Mynd dagsins:
Við gátum ekki annað gert en að belgja belgískum vöfflum í okkur
Athugasemdir
Sæt mynd af Ingibjörgu og geðveikt að þið getið hist!!
Halldóra (IP-tala skráð) 5.11.2012 kl. 17:02
Gat ekki orðað þetta mikið betur sjálfur
Jónas Guðmundsson, 5.11.2012 kl. 22:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.