Allt er vænt sem vel er grænt(oftast)

Sælt veri fólkið,
frá því að ég kvaddi Ingibjörgu mína á mánudaginn í Belgíu hefur eitt og annað gengið á í lífi mínu hér í Vínarborg.

Á þeim merka degi þriðjudegi kom ég mér þæginlega fyrir í skólanum og úr varð ágætis skóladagur. Að skóla loknum þurfti ég að drífa mig því að það var ekki alltof langur tími á milli þess að ég var búinn í skólanum og þangað til að ég þurfti að mæta á fótboltaæfingu.
Þetta var fyrsta æfingin min hjá liðinu Helfort SPC. Þegar ég mætti þangað fékk ég ansi góðar móttökur, mér var boðin bara heilgalli til þess að æfa í og allir í liðinu tóku í hendina á mér og buðu mig velkominn.

Þegar komið var út á æfingasvæðið fannst mér eitthvað gruggugt með hvernig mönnum ég var að æfa. Þarna voru þrír bara töluvert feitir gæjar og menn voru ekkert rosalega góðir, þá fóru að renna á mig tvær grímur hvort að þetta væri eitthvað sniðugt.
Mér til mikillar gleði kallaði svo annar þjálfari á mig og sagði mér að koma til hans. Það voru töluvert betri gæjar og var ég því mjög sáttur að fá að æfa með þeim í staðinn. Æfingin gekk bara vel og ekkert meira um það að segja, nema þá kannski það að ég á rosalega erfitt með að skilja þá því að þeir tala svokallaða Vínarþýsku sem er mjög ljótt afbrigði af þýsku verð ég að segja.
Að æfingu lokinni fór ég svo í sturtu og ætlaði bara heim á leið eins og gengur og gerist heima. Strákarnir voru ekki alveg að taka vel í það og buðu mér inn á veitingastaðinn sem er inn í félagshúsinu. Það er víst alltaf siður hjá þeim og þjálfurunum að setjast niður, drekka bjór(sem var ókeypis) eða eitthvað annað og ræða málin. Ágætis siður finnst mér þrátt fyrir að mér finnist það ekki passa að keyra bjór svona í mig strax eftir æfingu. Í hvert skipti sem einhver fór tók svo þessi aðili í spaðann á öllum og kvaddi(ekki nóg að gera bara eins og á Íslandi að segja hástöfum „bless“ og fara)

Daginn eftir fór ég fyrst niður í ráðhús til að skila dvalarleyfisumsókn(Meldzettel) áður en ég fór í skólann. Á leið minni þangað tók ég eftir því að stelpa í grænum jakka fór að kalla hallo, hallo. Ég hélt að hún væri að tala við einhvern annan þannig að ég hætti að spá í því. En eftir því sem meira hún kallaði hallo og var alltaf að horfa á mig og enginn var fyrir aftan mig fór mig að gruna að hún væri að tala við mig.
Ég labbaði því til hennar og spjallaði aðeins við hana. Ég fékk þá tilfinningu að ég væri besti vinur hennar og var hún full mikið spennt fannst mér yfir því hvað ég væri að gera hérna og hvar ég væri í skóla o.s.frv. Eftir ágætan tíma þá spurði hún mig hvort að ég þekkti eitthvað til Green Peace. Þá loks skildi ég af hverju hún var svona ofurvinaleg því almennt eru Austurríkismenn ekki opnasta fólk í heimi. En vegna þess að skrifstofan lokaði eftir 10 mín þá þurfti ég að drífa mig og sagði ég því við hana að ég þyrfti að fara. Þarna kom það sér ansi vel að skrifstofan lokaði snemma því annars væri ég núna kannski í Green Peace.
Ég fór í skólann og að honum loknum ætlaði ég á yogaæfingu. Því miður fyrir mig hafði ég lesið eitthvað vitlaust á töfluna og komst að því að æfingin hafði byrjað 45 mín áður en ég bjóst við. Þannig að ég var því of seinn og missti því af æfingunni.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Gurke(klobbi á vínarþýsku)
Mynd dagsins:
IMG_1101
Ég í æfingagalla Helfort SPC, sveittur og nýkomin af æfingu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband