Breskt fólk er ákveðinn þjóðflokkur sem hefur enga sína líka

Góða kvöldið kæra fólk,
um helgina hoppaði ég upp í húsbílinn hans Steins Orra Erlendsson og úr varð bara hið besta ferðalag þar sem að við hittum vin okkar hann Jón Briem og treggáfaða breska vini hans.

Föstudagur og laugardagur:

Það byrjaði allt þannig að ég kom tók lestina frá Vín til Wiener Neustadt þar sem að Steinn(a.k.a Beowulf en ég kem því að seinna) sótti mig og við lögðum af stað í ferðalag til Kaprun, lítill skíðabær sem vinur minn hann Jón Arnar Briem býr í og stundar þar skíðanám því hann mun koma til með að vera skíðakennari bráðum.
Steinn var mættur að sækja mig um svona ellefu leytið um kvöldið og tók ferðalagið um fimm klst. Þannig að við tókum þá sniðugu ákvörðun að gista bara á leiðinni í stað þess að keyra alla leið enda kl. orðin hálf fjögur að nóttu til og við áttum þó nokkuð mikið eftir að keyra. Við ætluðum fyrst að leggja við eitt hús en komumst að því að hann hét Relax-Club Tiffany og ákváðum við því að hætta við það og leggja í staðinn fyrir framan Spar(matvöruverslun) og sofa til sjö þegar að búðin mundi opna. Við vöknuðum því morguninn eftir, keyptum inn og lögðum af stað og vorum mættir til Jóns um tíu leytið.

Það voru miklir fagnaðarfundir að hitta þennan litla dreng(hann er hálfum sentimetra minni en ég) og var það svoldið fyndið að þegar að ég sá hann fyrst kallaði ég mjög hátt til hans „what‘s up vanilla face?“ og við hlið hans var gamall austurrískur reynslubolti sem líkaði auðsjáanlega ekki að heyra svona endemis vitleysu svona snemma í morgunsárið og hristi höfuðið allrækilega.
Jón sagði okkur frá ýmsu skemmtilegu sem á daga hans hafði drifið og þá aðallega um norður-írskan dreng sem var með honum í námi. Hann hafði víst týnt passanum sínum, símanum sínum, veskinu sínu og ýmsu öðru á mismunandi dögum. Svo tók hann víst einnig upp á því að vakna í skottinu á einhverjum sendiferðabíl í skíðaúlpu sem einhver lítill strákur án þess að hafa hugmynd um hvernig hann hafði komst þangað. Og til þess að toppa þetta allt þá borðaði hann pottalepp(korkur sem maður setur undir potta) því hann hafði engan pening á sér og var svangur.
Við fórum aðeins upp í húsið hans Jóns og kíktum á strákana sem Jón býr með. Þetta var bara mjög flott hús en því miður býr hann bara með Bretum svo að hann hefur fá tækifæri til að tala þýsku en þeir bresku bæta það upp með því að vera mjög skemmtilegir. Ég fékk svo tækifæri til að láta ljós mitt skína og fékk ég algjört þáþráar kast við að tala við þá enda fékk ég að njóta þess að tala með mínum brightoníska hreim án þess að einhverjir íslendingar voru að skammast yfir því.

Eftir að hafa heilsað upp á strákan lögðum ég og Steinn í ferð upp á fjallið sem er við bæinn sem heitir Kitzsteinhorn og er það eitt af fáum skíðasvæðum í Austurríki sem er opið á þessum tíma. Jón var svo góður að lána mér skíðin sín því að hann var í þýskuskóla þennan daginn. Það er því gott að eiga góða vini á réttum stöðum-ekki bara í bönkunum. Ég skíðaði og Steinn var á bretti og var það bara mjög góð skemmtun.
Þegar við snæddum hádegisverðinn okkar sátum við, við hliðina á austurrískri fertugri konu og var Steinn svo góður að bjóða henni súkkulaði og tel ég það bara vera einn besta ísbrjót sem ég hef heyrt. Hún afþakkaði en í staðinn sköpuðust töluverðar samræður og spurðu hún okkur hvort að við værum þýskir. Það var mjög stolt andartak hjá okkur Steini og lifðum við á því næstu klukkutímanna. Einnig sagði Steinn við aðra fertuga hálf þýska-hálf írska konu „Magst du ein wunderschön Bananen Traum?“(„Má bjóða þér einn alveg yndislegan banana draum?“(Banana Traum er fáránlega vont jógúrt sem að við gátum ekki mögulega borðað)). Hún gersamlega skellti upp úr og sagði að þetta væri ein besta pick-up lína sem að hún hafði áður heyrt frá karlmanni, þrátt fyrir að það hafði alls ekki verið hugsunin hjá Steini.

Að skíðaferðinni lokinnfórum við í Towern Spa sem Jón gat reddað okkur inn. Það er víst alveg rándýrt að fara þangað og er þetta alveg rosalegt 2007 dæmi. Við getum orðað það þannig að fara þangað finnst mér vera mjög góð hugmynd að fyrsta stefnumóti og er þetta líklegast svona staður sem að væri talið mjög óeðlilegt á Íslandi að halda ættarmót á því að allir eru kviknaktir þarna inni. Mér leist ekkert alltof vel á þetta en eftir að Steinn sagði að hann hafði fæðst nakinn þá náði ég að sannfærast(reyndar sagði Jón að hann hafði fæðst í jakkafötum en það er allt annað mál).Við vorum því bara slakir í spainu naktir með köllum á öllum aldri og eldri konum eins og ekkert væri eðlilegra. Svo komumst við að því að það er víst líka til Spa fyrir fólk sem vill vera í fötum en hún er miklu minni og lélegri. Það eru því frekar skýr skilaboð þarna.

Að spainu loknu drifum við okkur aftur upp í hús til Jóns þar sem að bresku drengirnir héldu partý. Herra Bacon tók á móti okkur(það er gæi sem er rauðhærður og elskar beikon og er því kallaður Bacon) og vísaði okkur inn í partýið. Þeir ensku voru ekki lengi að gefa Steini gælunafn og kölluðu hann „Beowulf“ og „Goliath“ enda stór og massívur drengur sem maður vill ekki mæta í dimmu húsasundi þrátt fyrir að hann sé mjög ljúfur maður. Einnig fékk ég nafnið „Iceman“ og eitthvað nafn úr Die Hard sem ég man bara alls ekki en er grjóthart.
Ég komst að því að eitt af því skemmtilegasta sem Bretar gera í partýum er að syngja svona bergmálssöngva. Þar syngur einn og allir herma eftir honum þegar hann er búinn, getur verið mjög fyndið ef góður maður stýrir. Þeir sungu sama lag og litlu stelpurnar í Þrótti gera í stúkunni á Valbjarnarvelli.

Við ræddum heilmikið við þá og kemst ég að því að Bretar hafa alls ekki mikið álit á sjálfum sér. Þeir töluðu til dæmis um hvað þeir væru heimskir upp til hópa og hvað þeir væru yfirhöfuð bara ómyndarlegir. Jón hafði nefnilega sagt þeim frá því að víkingarnir hefðu komið til Englands og stolið öllu fallega kvenfólkinu og var sá maður bara mjög vonsvikinn yfir því. Mig langaði til að sanna mál mitt fyrir honum og sýna honum mynd af Ingibjörgu minni málinu til stuðnings en ég náði að halda aftan að mér.
Einnig var þarna einn 18 ára drengur sem var að bíða eftir smsi frá fyrrverandi kærustunni sinni um hvort að hann væri að verða pabbi eða ekki. Ég er því miður ekki ennþá búinn að komast að niðurstöðu málsins.
Það er einnig gaman að því að að enginn þeirra talar einhverja þýsku en samt ætla þeir einhvern veginn að verða allir þýskumælandi skíðakennarar.
Að partýinu loknu kíktu við aðeins á eina skemmtistaðinn í bænum enda ekki stór bær. Ég fór svo heim til þeirra og fékk að gista á sófanum þeirra sem var bara hið besta mál enda skítkalt úti.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Grüss Gott(stytting af „Grüss dich Gott“ sem þýðir halló, en bein þýðing er „megi guð heilsa þér“)
Mynd dagsins:
IMG_1108

Steinn í stíl við bílinn sinn(hann vakti mjög mikla lukku í þessari mussu sinni á skíðasvæðinu)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Grüss Gott

Það er gaman að fá að fylgjast með ferðum þínum og öllu því fólki sem þú ert að umgangast.  Það er eins og maður upplifi þetta með þér.

Kveðja pabbi

Guðmundur Jónasson (IP-tala skráð) 19.11.2012 kl. 23:28

2 identicon

Elsku Jónas.  Alltaf jafn gaman að fá að fylgjast með lífi þínu í útlöndum.            Bestu kveðjur.  Amma og afi.

Margrét (IP-tala skráð) 20.11.2012 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband