21.11.2012 | 11:49
Gott var að hitta rúsínuraðarann
Servus kæru lesendur,
ég og Beowulf(a.k.a. Steinn Orri Erlendsson) vöknuðum daginn eftir(sunnudagur) og fengum okkur morgunmat. Jón borðaði einnig með okkur því hann var á leiðinni í þýsku tíma en við á leiðinni að skíða. Jón eldaði sér hafragraut og okkur til mikillar furðu raðaði hann rúsínum niður mjög varlega einni í einu. Það fannst Steini vera mjög furðulegt og fannst honum Jón skjóta langt yfir markið með þessum gjörningi. Það er mjög furðulegt því að Steinn er mjög slakur gæi og tekur vel í allt, nema auðsjáanlega þetta. Eftir þetta var Jón ekki kallaður neitt annað nema rúsínuraðarinn.
Að morgunmat loknum kíktum við upp í fjall og ætluðum að byrja að skíða. Þá komst ég að því að ég gat bara ekki mögulega troðið mér í skíðaklossana sem ég hafði passað svo vel í daginn áður. Þá voru góð ráð dýr og ákvað ég í staðinn að taka skónna til meiri reynslubolta og sjá hvort að þeir hefðu eitthvað ráð fyrir mig. Þá komst ég að því að útaf því að ég hafði geymt skíðaklossana mína inn í bíl þá væru þeir svo kaldir að þeir hefðu dregist saman og þurfti að hita þá upp til þess að ég kæmist í þá. Boðskapur þessarar litlu sögu er því að aldrei að geyma skíðaklossana sína inn í bíl yfir nótt þegar maður er á skíðaferðalagi.
Við fórum upp í brekkurnar og renndum okkur eins og við ættum lífið að leysa. Í brekkunni sáum við örugglega svona tíu gaura sem höfðu allir hunda á milli fótanna að renna sér niður brekkuna, frekar spes.
Þegar við vorum búnir að skíða náðum við í Jón sem var þá nýbúinn að ljúka skólanum. Við fórum saman í bæ sem var rétt hjá sem heitir Zell am See og er mjög fallegur skíðabær sem Íslendingar stunda víst nokkuð grimmt. Þar mun Jón koma til með að vinna í vetur sem skíðakennari. Við duttum í léttan kvöldmat þar á króatískum stað og skutluðum við svo Jóni heim til sín.
Síðan lögðum við af stað heim á leið. Á leið okkar tókum við eftir nokkrum stórum húsum sem stóðu uppúr öllum hinum húsunum í litlu þorpunum. Þetta voru svona hús sem voru rauðupplýst og á þeim stóð t.d. night club Jackline eða night club Claudia. Það er því nokkuð auðvelt að geta giskað á hvers konar klúbbar þetta voru.
Á leiðinni heim spjölluðum við Steinn um heima og geima eins og gengur og gerist þegar menn keyra saman í lokuðum hippabíl í fimm klst. Kom það upp úr krafsinu að Steinn ætlar að láta þennan bíl bara vera hérna í Vín næstu árin og sagði hann við mig að ég mætti fá að nota hann ef hann væri ekki að nota hann. Þá fór hugurinn að reika og gat ég ekki hægt að hugsa um hvað það væri algjört draumaferðalag að fara með henni Ingibjörgu minni um Miðjarðarhafið á honum með viðkomu í Feneyjum. Ég væri allavega mjög hrifinn af því.
Steinn henti mér svo út í Wiener Neustadt sem er mjög nálægt Vín og hoppaði ég þar upp í lest. Á lestarstöðinni voru tveir ansi grunsamlegir gaurar sem voru rauðir um augun. Ég hélt að það væri allt í lagi bara að labba fram hjá þeim og reyna að veita þeim sem minnsta athygli og þá væri bara allt í fínasta. En nei, ég var ekki svo heppinn, þeir fóru eitthvað að bregða mér og var mér bara ansi brugðið enda voru þeir örugglega á einhverju sem var aðeins sterkara en appelsín og viðbrögð þeirra voru því í þeim dúr.
En svo gerðist ekkert meira og komst ég heim heill á húfi. Um nóttina kom svo Tóta(Þórhildur Briem), gömul bekkjarsystir mín og flutti inn í húsið(stigaganginn) þar sem ég á heima. En hún er komin hingað til að stunda tungumálanám næsta mánuðinn og flytur hún svo í lítinn skíðabæ í vestur-Austurríki um jólin til að fara að vinna þar.
Daginn eftir fór ég svo og hitti hana Tótu og sýndi ég henni um bæinn. Við tókum þetta klassíska túristarölt þar sem að ég sýndi henni allar hallirnar, húsin og jólamarkaðinn í Vínarborg.
Ég sýndi henni svo hvar væri best að kaupa inn matinn og skildi svo við hana því ég þurfti að fara á fótboltaæfingu
Fastir liðir:
Þýska dagsins: Guthaben(símainneign, en bein þýðing væri líklegast gott að hafa)
Mynd dagsins:
Útsýnið frá fjallinu
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.