Jólamarkaðarnir eru farnir að setja betri fótinn fram

Heilt veri fólkið,
síðustu dagar hafa verið bara nokkuð svipaðir hjá mér, vinna, æfingar, skoða mig um og hvíla mig þess á milli.

En allavega þá var þriðjudagurinn nokkuð klassískur. Við strákarnir vöknuðum og Ítalarnir skelltu í sig nokkrum súkkulaði kexum eins og þeir gera á hverjum degi. Alveg ótrúlegt, þeir borða aldrei neitt annað en kex á morgnanna og eins gera Spánverjarnir þeirra Tótu og Silju víst. Ég þurfti svo aðeins að monta mig við Ítalanna því að Ingibjörg hafði verið í viðtali útaf karateinu við FM Suðurland sem mér hafði þótt ansi skemmtilegt og fyndið, því það er ekki á hverjum degi sem fólk kemst í viðtal á 1,2 Selfossi http://www.youtube.com/watch?v=8upRl-MP3H0, enda er gott að vera merkilegur en það er merkilegra að vera góður...í karate.

Ég kom mér svo í vinnunna, hún var bara allt í lagi þennan daginn. Ekkert frábær enda frekar lítið að gera þann morguninn og ég að vinna með Florin. Það er víst eitthvað rosamikilvægt í þessari vinnu að vera alltaf að gera eitthvað, en til hvers að vera að gera eitthvað ef það hefur engan tilgang? Það er t.d. ein spænsk stelpa sem sagði við mig að hún væri alltaf að þrífa sama borðið svo yfirmennir héldu að hún væri að gera eitthvað. Það hljómar bara smá eins og atvinnubótavinnan á Íslandi á kreppuárunum þegar einn vinnuflokkur var látinn moka skurð og næsti vinnuflokkur átti að fylla upp í hann.

Það er töluvert skrítið að vita af því að margir sem ég er að vinna með, s.s. þeir lægst settu séu meira og minna annað hvort verkfræðingar eða viðskiptafræðingar. Þannig að ef fólk er spænskt og er að vinna á þessum veitingastað má nokkurn veginn gera ráð fyrir því að það sé bara vel menntað en útaf slæmu efnahagsástandi á Spáni þá fær það enga vinnu þar og tekur því bara með opnum örmum að vinna á Salm Bräu sem mér finnst bara nokkuð sorglegt, ég sagði t.d. við einn strákinn að hann gæti mögulega fengið vinnu í Noregi og virtist hann vera bara frekar spenntur fyrir því.
Í vinnunni þá er ég að vinna með konu frá Rússlandi sem heitir Oxana, við getum bara orðað það þannig að hún er ekkert rosalega að hjálpa ímynd minni af rússnesku fólki enda bara töluvert óþolinmóð og pirruð týpa.
Ég var því frekar sáttur þegar maður kallaði í mig og bað hann um að hjálpa sér að taka til ofan í einhverri geymslu og var það pottþétt það skemmtilegasta í vinnunni þann daginn(mér finnst mjög leiðinlegt að hafa lítið að gera, sérstaklega í vinnunni)
Að vinnu lokinni fór ég á fótboltaæfingu og var hún bara töluvert fín. Mjög gaman að geta farið sáttur í rúmið því að þessar fótboltaæfingar rífa mig alveg töluvert upp eftir leiðinlegan vinnudag.

Á miðvikudaginn var ég í fríi og gerði því ekkert sérstaklega mikið, fór reyndar út að skokka og ætlaði að fá hann Ceco(Francesco) með mér út að hlaupa en þessir Ítalir eru bara svo miklir aumingjar oft finnst mér(en samt mjög fínir). Hann sagði að þar sem að hann væri að fara á rugby æfingu daginn eftir þá gæti hann alls ekki farið út að skokka í dag(was?)
Seinna um daginn var svo ansi gott að fara á yoga æfingu þar sem að slökun var í botni en sama má því miður segja líka um stirðleikann. Mér finnst alveg ótrúlegt að sama hvað ég reyni finnst mér þá eiga vöðvarnir eitthvað rosalega erfitt með að lengjast. Enda var ég spurður af nýja kennaranum hvort að ég æfði nokkuð fótbolta, því að hún sagðist geta séð það á mér. En ég tók alveg vel í það, því mér finnst það alveg sjálfur frekar fyndið.

Í gær(fimmtudagur) fór ég á kvöldvakt og var þar allt annað upp á teningnum. Það var töluvert skemmtilegra enda nóg af gera, ég var að vinna með Ceco og ég hafði annan vaktstjóra yfir mér auk þess sem að við fengum fullt af ókeypis mat í lok vaktarinnar, sem var geggjað!

Í dag fór ég svo á kvöldvakt. Ég og Albe(Cristian) herbergisfélaginn minn vorum þá að vinna saman. Á leiðinni í vinnuna sáum við hvernig stærsti jólamarkaðurinn hérna í Vín fyrir framan ráðhúsið var upplýstur. Það var alveg rosalega flott að sjá hann enda er þetta bara eins og klippt út úr einhverri ævintýra bók og er þessi jólamarkaður víst búin að vera til í ýmsum myndum síðan 1294.
Þegar að við fórum svo aðeins lengra með sporvagninum fannst okkur vera frekar furðulegt hversu margir lögreglubílar mættu okkur. Aðeins seinna þegar að við fórum út úr vagninum sáum við heilmikið að fólki vera öskra eitthvað saman og héldu á myndum af manni sem ég þekkti ekki og myndir af fána sem ég þekkti heldur ekki sem mér fannst frekar skrítið. Þegar ég fór svo að heyra orðaskil aðeins betur heyrði ég þá eitthvað: „darara Kúrdistan, barara Kúrdistan“. Þá voru þetta auðsjáanlega Kúrdar að berjast fyrir sjálfstæði Kúrdistans sem Kúrdar vilja meina að eigi að vera þar sem hluti af núverandi Tyrklandi, Íran og Írak er í dag(http://www.globalis.is/Atoek/Kurdistan). Ég hef reyndar rætt við tvo Tyrki sem ég hef kynnst hérna í Vín um þetta og þau eru rosalega á móti þessu enda væri kannski annað skrítið og skynjaði ég bara létt hatur þar á Kúrdum.

Við mættum svo í vinnuna og loks fékk ég að vinna þar sem að það er nóg að gera og er þetta það sem Florin er alltaf að hamra á. Ég verð nú að viðurkenna það að þetta var ekki nærrum því jafnslæmt og ég bjóst við og hefur mér bara aldrei þótt jafn gaman í vinnunni.
Í vinnunni kynntist ég tveimur nýjum skemmtilegum karakterum, einum frá Kasakstan sem ég ákvað að spara að segja Borat brandara við enda hefur hann pottþétt örugglega heyrt þá alla svipað og ég með Jonasbrothers. Og einnig kynntist ég svona sextugum austurríkis manni að nafni Franz sem er eins Alpa Austurrískur og það gerist. Með mjög áberandi Jesú hálsmenn og rosalega flottur á því í lederhosen og það besta við hann finnst mér er það að hann tekur stundum upp á því að jóðla.
Ég er svo mjög sáttur með það að á morgun kemur Steinn hingað til Vínar eftir að ég er búinn í vinnunni og ætlum við að gera eitthvað af okkur saman.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Mahlzeit(Verði þér að góðu)
Mynd dagsins:
jólamarkaður

Mynd af jólamarkaðinum fyrir framan ráðhúsið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er gaman að heyra frá þér og hvað þú ert duglegur að kynnast fólki.            Kveðja.  Amma og afi.

Margrét og Jónas. (IP-tala skráð) 24.11.2012 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband