Ber er hver að baki nema sér (húmor)bróðir eigi

Hola amigos,
nú eru nokkrir dagar liðnir síðan að ég bloggaði síðast þannig að það er því alveg gráupplagt að leggjast í smá ritstörf.

Laugardagurinn hófst á því að ég mætti í vinnuna kl 9 og hófst þá þessi týpíska undirbúningsvinna eins og á sér alltaf stað skiljanlega á hverjum morgni og á hverju kvöldi er svo gengið frá. Við sækjum drykki á lager, náum í pappír(mjög mikilvægt að ná í hann því að hann er óþarflega mikið notaður), skerum niður sítrónur o.s.frv. Þennan dag var allt tekið sérstaklega vel í gegn því að eigandinn ætlaði að mæta þennan daginn og er það auðsjáanlegt að allir voru frekar hræddir við hann.
Mér fannst svo töluvert sérstakt að á hverju borði var skilti sem á stóð upptekið á laugardagsmorgni kl. 10. En þá komst ég að því að það er gert til að staðurinn líti út fyrir að vera vinsælli. Um tólfleytið kom svo „the boss“. Það var frekar fyndið að sjá hversu mikil virðing var borin fyrir þessum eldri  manni og get ég ímyndað mér að svipað hafi verið upp á teningnum þegar að miðaldakonungar mættu inn í lítil þorp sem þeir stjórnuðu. Ég hélt samt bara mínu striki áfram í vinnunni og hafði hann voða lítil áhrif á mig.
Þjónarnir sem starfa hérna eru almennt mjög hressir þannig að ég ákvað það að kalla til ferskasta gaursins „Mr. 305“. Hann fór að skellihlæja og svaraði til mín „Mr. Worldwide“(þeir sem skilja þetta ekki geta lesið sér betur til um kúbverska kvennagullið Pitbull hérna:
http://en.wikipedia.org/wiki/Pitbull_(entertainer)) Það er því mjög gott að vera að búinn að eignast húmorbróðir hérna á vinnustaðnum. Hann á það líka oft til að kalla mig Fritzl eftir að ég sagði honum frá sögunni sem ég hafði skrifað í skólanum. Ég gæti líklegast ekki unnið til lengri tíma á stað þar sem að allir væru húmorslausir, það verður alltaf að vera a.m.k. einn sem maður hefur gaman að Pitbull eða annarri vitleysu. Eins og Jón Gnarr sagði forðum daga „það er allt í lagi að vera með fíflagang ef það fer ekki út í sprell“

Þrátt fyrir að allir þjónarnir séu almennt mjög ferskir þá er því miður einn sem er það ekki þrátt fyrir að hann heitir því frábæra nafni Günther. Hann er svona frekar pirruð týpa og nýtir sér það að hann sé góður vinur yfirmannsins. Hann er duglegur að segja við vaktstjórana að hann geti alveg látið Jürgen(yfirmanninn) vita að vaktstjórarnir hafi gert þetta og hitt. Í gamla daga hefði maður kallað þannig dreng klöguskjóðu. Hann var líka einu sinni alls ekki sáttur með mig þegar að ég sagði „tschüss“(óformlegt) við einn viðskiptavininn í stað þess að segja „wiedersehen“(formlegt).

Eftir vinnu var svo planið hjá mér að Steinn myndi koma og við mundum skemmta okkur saman. Því miður fyrir mig var Steinn bara orðinn veikur og hann komst þá því miður ekki. En í staðinn þá héldum við upp á afmælið hans Cecos(já hann átti afmæli á síðasta laugardag). Í þá veislu mættu því ég, Ceco, Tóta og Silja. Albe komst því miður ekki því að hann var að vinna. Það var bara mjög gaman og þá sérstaklega þegar að einhver tók þá ákvörðun að fara inn á youtube og skrifa „hits from 2003“. Við vorum því bara í algjörum þáþrá fíling og það er alltaf gaman.

Daginn eftir(sunnudagur) gerðist svo voða fátt fyrr en um kvöldið þegar að ég, Ítalarnir mínir og ítölsk stelpa(Francesca) sem býr hérna í húsinu fórum á jólamarkað á Karlsplatz. Þegar að við komum þangað var allt því miður lokað en það var þó hægt að kaupa Glühwein á einum stað. Glühwein er heitt rauðvín sem er búið að setja út í einhver krydd og er mjög vinsælt í þýskumælandi löndum á jólamörkuðum(í Vín eru 31 jólamarkaður!) Við fengum okkur því þannig nema hún Francesca(ítalska stelpan) því að hún er með einkyrningasótt. Það er það sem henni finnst mest pirrandi við að vera með þessa veiki er það að hún getur ekki drukkið áfengi. Þetta var skemmtileg reynsla og héldum við svo heim á leið.

Í gær var svo frí hjá mér í vinnunni en ég ætlaði á fótboltaæfingu um kvöldið. Tóta kom með mér því að hún ætlaði að spyrja þjálfarann hvort að stelpurnar sem bjuggu með henni í herbergi mættu æfa fótbolta með kvennaliðinu. Þetta kvöld var hausinn á mér auðsjáanlega eitthvað vitlaus skrúfaður á því að ekki fór betur en svo að ég valdi þrisvar eða fjórum sinnum að fara upp í vitlausan sporvagn þetta kvöldið og það er alveg hætt að gerast hjá mér. Ég skil ekki alveg hvernig ég fór að þessu, það hlýtur bara að vera að Ceco hefur látið mig sniffa lím á meðan ég var sofandi nóttina áður. Loks þegar að við mættum á svæðið voru öll ljós slökkt og ég hef ennþá enga hugmynd af hverju enginn var á svæðinu. Þannig að þá var ekkert annað í stöðunni en að bíta í það súra epli og fara bara sjálfur út að hlaupa.
Ég hljóp þá um svæði í mínu nágrenni sem ég hafði aldrei séð áður. T.d. þá sá ég fjórar uppblásnar tennishallir líkt og þeir í Hveragerði voru að spá í að gera og einnig tók ég eftir því að það voru mikil ljós upp á einu þakinu. Ég ákvað að komast í botn á þessu máli og fór upp á þak. Þá var þarna stórt úti skautasvell upp á þakinu sem var ansi flott fannst mér. Svo sá ég það á einu skilti þarna að á sumrin þá er þessu skautasvelli breytt í gras fótboltavöll. Hversu nett er það?

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Kopfkissen(Koddi, bein þýðing væri þó höfuðkyssari)
Mynd dagsins:
PB250001
Ceco, ég og Albe(sem tók myndina) að Glühweina okkur í gang og Francesca með te á Karlsplatz.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Jónas okkar.     Mér datt í hug þegar þú ert að lýsa vinnustaðnum þínum að þið þurfið alltaf að vera að gera eitthvað.     Þetta hefur hún Magga amma þín upplifað þegar ég var í vinnu í hattabúð hjá hálfdanskri konu.  Fyrst og fremst mátti engin koma til mín í vinnuna og eins mátti engin hringja til mín.         Ef engin afgreiðsla var þurfti ég alltaf samt að vera eitthvað að vinna.  T.d. prjóna handklæði, sauma fóður í hattana og að sjálfsögðu alltaf að vera þurrka allt í kring.   Á morgnana byrjaði ég að bursta alla hattana sem voru fram í búðinni og einu sinni í viku á morgnana að þvo allar hillur inn á saumastofunni. Í lok vinnunnar kl.18 þvoði ég öll gólfin og þegar gólfklúturinn var orðinn slitinn hélt ég að ég mætti kaupa gólfklút en það var öðru nær því þá átti ég að bæta gólfklútinn. Eins og þú manst þéruðumst við allan tímann sem ég vann þarna nema daginn áður en ég hætti nefndi hún við mig hvort ég væri ekki til í að við yrðum dús.     Svo var nú meiri breytingin þegar ég byrjaði í næstu vinnu sem var á dagblaðinu Vísir. Þar var svo dekrað við mig.    Ég byrjaði á auglýsingadeild og átti að taka upp síma og skrifa niður auglýsingar eins og herbergi til leigu og eins að óska eftir herbergi eða íbúð og margt fleira.  Þarna sat ég og las öll dagblöðin og drakk kaffi og beið eftir að síminn hringdi.    En nóg með þetta Jónas minn.  Það er svo gaman að heyra frá þér.  Hér er allt ágætt í fréttum.  Nú fer að styttast að fólkið þitt kemur til þín. Það verður dásamlegt fyrir ykkur öll.    Afi biður að heilsa og hafðu það alltaf sem best.  Þess óska. Amma.

Margrét (IP-tala skráð) 27.11.2012 kl. 15:56

2 identicon

Hæ Jónas

Alltaf gaman að lesa bloggið frá þér og flott að setja inn mynd.  Þú sýnir okkur kannski einhvern jólamarkað í Vín þegar við komum til Vínar. Þá fáum við kannski að smakka Glühwein.

Kveðja pabbi

Guðmundur Jónasson (IP-tala skráð) 28.11.2012 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband