20.12.2012 | 15:43
Skíðamennska og danskeppnir eru gott tvist
Sælt verið þið kæra fólk,
dagurinn hjá mér í dag kenndist af ansi mikilli skíðamennsku enda er ég með fullt af vinum af Steins í austurrísku ölpunum.
En jæja semsagt þá vaknaði ég í morgunn alveg skítkaldur og skildi ekki af hverju það var svona rosalega kalt að stinga hendinni út fyrir sængina. Ég komst þá á að því nokkru seinna að Matti hefði slökkt á kyndingunni kvöldið áður því að hann hélt að þetta væri saunan. Briemfantarnir, Jón og Tóta, skildu svo við okkur snemma um morguninn því að báðu voru þau á leiðinni í vinnuna daginn eftir í sitthvorum bænum. Ég kvaddi þau og óskaði þeim alls hins besta á nýja vinnustaðnum.
Við strákarnir fengum okkur svo morgunmat og drifum okkur eftir það upp í fjall. Við vorum þar alveg til fimm þegar það var orðið ansi myrkt. Það var alveg rosalega fallegt að horfa yfir allt þegar maður var efst upp í brekkunni og sjá hvað þokan var yfir öllum dölunum í nágrenninu en við vorum fyrir ofan þokuna.
Einnig kíktum við á stökkpalla garð og auðvitað hentu brettastrákarnir sér á stóru pallana en ég hélt mig við þá minni. Það var alveg rosalegt kick að fljúga aðeins á skíðunum. Jafnvel þótt að ég var ekki nema kannski 0,278 sek í loftinu, því að adrenalínið(hormón sem seytt er úr nýrnahettunum inn í blóðrásina(Oddur og Villi eru læknanemar)) var á bullandi framleiðslu á meðan, sem var gaman. Síðasta ferðin okkar svo í fjallinu einkenndist svo af þónokkurri hræðslu, allavega af minni hálfu því að það var orðið ansi dimmt í fjallinu, við vorum þeir einu eftir í brekkunni og svartaþoka yfir öllu auk þess sem að síðasti hluti brekkunnar var sá brattasti, en það var bara betra. Síðustu hundrað metrana fórum við svo í kapp bara á skíðaskónum, það er mjög skemmtileg týpa. Ótrúlegt en satt þá rennur maður þokkalega vel á því.
Við duttum svo á barinn á skíðaskónum eftir þetta klukkan svona hálf sex. Skemmst var frá því að segja að staðurinn var frekar tómur fyrir utan einn hóp af svona fertugum köllum sem voru allir í eins bláum bolum nema einn. Sá maður var í svarti skyrtu sem hann var búinn að hneppa frá tveimur efstu og tveimur neðstu og bauð mér í súludans keppni, þar sem að það voru tvær súlur þarna á gólfinu. Fyrst afþakkaði ég nú bara pent en eftir að hafa undirgengist rosalegan hópþrýsting frá strákunum auk gífurlegs uppklapps gat ég ekki vílað mér undan áskoruninni. Þannig að núna er ég búinn að upplifa það að fara í súludans keppni á skíðaskóm við fertugan austurrískan karlmann kl. hálf sex á sunnudagskvöld, sem er nákvæmlega ekki neitt til að skammast sín fyrir. Taka skal þó fram að ég fækkaði ekki einustu flík á meðan að sýningu stóð og hélt mér að sjálfsögðu í skíðaklossunum út allan gjörninginn.
Við komum okkur svo aftur heim og héldum til rekkju nokkru seinna.
Í dag var ég svo vakinn að hermannasið af honum Bjarka hermanni og var skellt í sig góðum árbít því að það er jú ansi mikilvægt að vera vel nærður í fjallinu. Eitt það fyrsta sem var gert þennan daginn var að skella sér á leið sem stóð með stórum stöfum að væri lokuð. En þar sem að það eru svo margir töffarar í þessum hóp þá láta svona skilti menn vilja bara ennþá meira fara þá leiðina. Mér fannst alveg rosalega gaman í byrjun því að þetta var leið sem var alls ekkert troðinn og fullt af náttúrulegum stökkpöllum og engar hindranir svo sem tré. Þegar að við komum svo neðar í þá brekku versnaði heldur gamanið því að nú voru komin ansi mörg tré í brekkuna. Flest allir strákarnir áttu þokkalega auðvelt með þetta en við getum orðað það þannig að ég bætti mig heilmikið í því að standa upp á skíðum eftir þessa ferð. Við renndum okkur svo allan daginn fyrir utan smá Schnitzel og kakó pásu. Í lok dagsins var svo búið að loka öllum lyftum og lentum við í því að renna okkur óvart á stað sem endaði bara í lyftu þannig að við gátum ekki skíðað alveg neðst í brekkuna sem var mjög pirrandi. Við tókum því uppá því að ganga í gegnum skóginn og vonast eftir því að lenda inná annari braut. Bjarki leiddi hópinn þar sem að hann er ansi vanur því að ganga í snævi þöktum skógum Noregi, en þó án skíðaskóa. Við komumst loks á leiðarenda en það kostaði ansi mikið þrekverki. Þá var orðið töluvert dimmt og nokkuð erfitt að skíða niður en lífið er langhlaup en ekki spretthlaup og komumst við niður á leiðarenda.
Eftir það var drifið sig heim og skellt sér í ísbað og saunu. Strákarnir spurðu mig hvort að ég vildi ekki vera með þeim fram á fimmtudaginn því að planið var að ég mundi fara snemma á þriðjudeginum og ég gat ekki sagt annað heldur heldur en já takk við því. Svo var farið þokkalega snemma að sofa til að geta gert sig tilbúinn fyrir daginn á morgunn.
Fastir liðir:
Þýska dagsins:Schiwasser(Skíðavatn, tegund af hindberjasafa sem er ansi vinsæll hér í fjöllunum
Mynd dagsins:
Hópurinn í brekkunni(Verðið að afsaka, myndin er ekkert rosalega góð)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.