21.12.2012 | 07:21
Konur ættu að geta haldið ættarnafni sínu þegar þær gifta sig ef það er mjög cool
Yellow gute Junge, gute Mitarbeiter(lesist með nefmæltum ungverskum hreim)
nú er farið að líða að leiðarlokum hér hjá mér í Schladming(skíðasvæði í Mið-Austurríki) ásamt fagmönnunum úr 6-X(Vilhjálmur-Wilcox, Bjarki Brynjars, Oddur Björns, Matti-Jón Oddur og Jón Bjarni, Ólafur Axel-Óli á mæknum og Steinn-Lean mean Stein machine) útskriftarárgangi 2011 úr Verzló og erum við á leiðinni á morgun til Vínar. Allir nema Steinn eru á leiðinni heim til Íslands en ég og Steinn verðum eftir hér í Austurríki. Daginn eftir mun ég svo alls ekki fá verri heimsókn en þá koma Ingibjörg og fjölskyldan mín í heimsókn í tvær vikur. Atburður sem ég hef verið spenntur fyrir síðustu mánuðina.
Þriðjudagur:
Þá voru menn vaktir með Thunderstruck með AC/DC og er það ein besta leiðin til að vakna. Steinn henti sér svo í það að elda hafragraut, en brenndi grautinn í annað skiptið í röð þannig hann missti þar með þau réttindi að vera yfirhafragrautstæknir kofans. Síðan var drifið sig upp í fjall og skíðað allan liðlangan daginn. Í fjallinu lenti Steinn í því að hann var að renna sér niður og komst einhvern veginn uppá hús og hoppaði neðan af því án þess að taka eftir því fyrirfram að þetta væri hús. Svo var seinna um daginn að sjálfsögðu fengið sér Wiener Schnitzel og Schiwasser, auk slurks af heitu súkkulaði í lok dags.
Þegar menn voru búnir að renna sér nóg var komið sér fyrir á trúðabar og voru sumir menn í því að láta gullna drykki renna um hálsinn. Ég var reyndar bara úti mest allan tímann fyrir utan barinn úti því að þar gat ég komist í ókeypis Wi-Fi. Á þessum trúðabar var einn gríðarlega vinsæll leikur að negla niður nagla í trjábút með klaufinni.
Að þessu loknu var keyrt heim og svalað matarþörfinni. Um kvöldið var svo haldið uppá það að einungis sex dagar væru til jóla með pomp og prakt. Þegar líða tók á kvöldið þá fórum við að hugsa okkur til hreyfingar og kíkja niður í bæ. Þar sem að við búum lengst uppí fjalli var ekki annað hægt en að fá leigubíl. Við kíktum því yfir til herra Kornberg sem býr hérna við hliðina á og báðum um númer hjá leigubílastöðinni. Herra Kornberg var því miður farinn að sofa en dóttir hans var heima, þannig að hún gat gefið okkur upp númer hjá leigubíl. Okkur til algjörar furðu þá hafði hún skipt um eftirnafn eftir að hún hafði gifst. Hver mundi skipta um eftirnafn ef að hún heitir Kornberg?
Leigubíllinn kom svo og keyrði okkur niður í bæ. Þar fórum við inn á skemmtistað sem heitir tenne.com. Þar var ekki margt í gangi en það var ekki annað í stöðunni að hafa gaman þar. Margt skemmtilegt gerðist það kvöld. T.d. þá dansaði Steinn við dvergapar sem var nokkuð kómískt því að Steinn er jú töluvert stærri og breiðari en venjulega gengur og gerist hjá mönnum. Einnig lenti Matti í því að drengur sleikti á honum nefið upp úr þurru.
Þegar okkur fannst svo vera komið nóg þá hringdum við aftur í ungverska leigubílstjórann og kom hann að sækja okkur(fyrirtækið hans hét MaxiTaxi, hversu gott nafn?). Okkur leið nú ekkert alltof vel í bílnum hjá honum því að hann var ekkert að hata að ýta aðeins við bensíninu, tala í símann á fullu og spjalla við Matta allt á sama tíma auk þess sem að við vorum að keyra mjóan glerhálan fjallveg. Við komumst þó allir heilir og haldnir heim og lögðum okkur eftir það.
Miðvikudagur:
Í dag var svo síðasti dagurinn okkar í fjallinu og var því hugsunin að reyna að nýta daginn sem allra best. Ég t.d. henti mér á stökkpalla sem ég hélt að ég mundi aldrei þora á, en það var alveg fáránlega gaman. Við skíðuðum svo yfir á önnur skíðasvæði því að nóg var af þeim allstaðar og höfðum við aðgang í þau öll. Fyrir ykkur sem eru að spá eitthvað í því að fara í skíðaferð mæli ég alveg hiklaust með Schladming því að þetta er alveg rosalega stórt, flott og skemmtilegt skíðasvæði.
Við fengum okkur svo hádegismat upp í fjalli og lenti ég þar í því leiðinlega atviki að hnerra óvart þannig að smá líkamsvessi skvettist á úlpurnar hjá fólkinu við hliðina á okkur. Þetta var því hið vandræðalegasta atvik en náði ég að sætta alla málsaðila með því að segja entschultigung og þrífa það af.
Við kvöddum svo fjallið í síðasta skiptið og héldum heim á leið. Þar sem að bíllinn er rúmlega þrítugur og ekki fjórhjóladrifinn þá gekk það ekkert rosalega vel að keyra upp mjög hálan fjallveginn. Við þurftum því allir sem einn að ýta bílnum upp síðasta kílómeterinn, en það var bara gaman. Við erum svo núna að horfa á Dortmund-Hannover 96 í þýsku Bundesligunni og eftir það ætlum við í saunu og ísbað. Þetta lítur því út fyrir gott kvöld.
Fastir liðir:
Þýska dagsins: Das ist ein altes Bus(Þetta er gamall strætó(Leigubílstjórinn sagði þetta um hippabílinn hans Steins))
Mynd dagsins:
Við að ýta bílnum hans Steins síðasta kílómeterinn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.