31.12.2012 | 09:10
Að skvetta vatni á messu gesti: Ómetanlegt
Góðan daginn kæru lesendur,
frá því að ég bloggaði síðast hef ég lifað hinu ljúfa lífi í faðmi fjölskyldunnar og Ingibjargar hér í Kaumberg(kaum þýðir varla og berg þýðir fjall þannig að þorpið heitir því Varlafjall) þúsund manna þorpi suðvestan af Vín.
Semsagt þá fór ég á þar síðasta föstudag(21. des) á flugvöllinn með lest og sótti fjölskylduna og Ingibjörgu. Það var rosalega góð stund að vera loks sameinaður með þeim öllum. Við fórum og ætluðum að ná í bílaleigubílinn, en svo kom í ljós að hann var bara rugl skítugur og alls ekki í sama stærðarflokki og hann átti að vera í. Við sættum okkur svo sannarlega ekki við það og eftir mikið samningaferli kom það uppúr krafsinu að með því að borga smá aukagjald fengum við eitt stykki níu manna rútu.
Ég og Ingibjörg komum okkur svo fyrir heima hjá mér og fjölskyldan á hóteli í grenndinni því að við þurftum að bíða eina nótt eftir því að fólkið sem á húsið í Kaumberg myndi fara útúr því. Við nýttum þetta kvöld til að fara á jólamarkað fyrir framan ráðhúsið í Vín. Það er einn stór markaður með fullt af handunnum vörum en auðvitað vorum við mest í því að kaupa matinn sem var þarna eins og allir aðrir þarna.
Daginn eftir tókum við svo léttan göngutúr um nágrennið við íbúðina mína og skoðuðum vínekrur sem eru bara inn í miðri borginni, stórfurðulegt! Síðan var keyrt útúr borginni og komið sér fyrir í Kaumberg sveitasælunni með borgarbrag. Þar hittum við hjónin sem áttu heima þar og voru þau bara mjög fersk. Húsið sem við búum í er alveg sjúklega stórt og kósý hús.
Eftir að hafa dáðst að húsinu í ágætis tíma þurftum við að drífa okkur í matbúðina því að allar matbúðir voru lokaðar næstu fjóra daga útaf jólunum og sunnudögum(allar búðir eru lokaðar á sunnudögum í Austurríki).
Þar sem að við erum í Austurríki var ekki annað í stöðunni en að kíkja aðeins á skíði á Þorláksmessu. Við fórum í fjall sem hét Anneberg en reyndist heppnin ekki vera mjög hliðholl okkur því að það rigndi á meðan og snjórinn því blautur og leiðinlegur. En við þetta hardcore fólk létum ekki smá let it rain over me aðstæður aftra okkur og dembdum ég, Inga og Pattinegger okkur í fjallið. Þetta var í fyrsta skipti sem að Ingibjörg fer á skíði og verð ég að hrósa henni fyrir að vera bara ansi lunkinn byrjandi. Síðan var haldið til Vínar því að hugmyndin var að fara á jólamarkað sem er á Karlsplatz sem er í miðbæ Vínar en þar sem að við keyrðum fram hjá öðrum fyrir framan Schönbrunn höllina var frekar farið þangað. Sömu sögu var að segja af þessari jólamarkaðsferð og síðustu, það var til fullt af fallegu handgerðu dóti en auðvitað vorum við samt mesti í því að kaupa mat.
Svo var runnin upp aðfangadagur. Ég og Steinn höfðum talast á deginum áður og buðum við fjölskyldan honum að vera með okkur á aðfangadag. Hann kom svo til okkar uppáklæddur og flottur á því um fjögur leytið og var honum hent í það verkefni að kveikja strax í arninum. Það verkefni leystu Patti og Steinn með glæsibrag með því að hella bara djöfulli nóg af hreinu etanóli á eldinn og það virkaði. Um sex leytið hringdu svo jólin inn og var mamma búin að elda þessar dýrindis gæsabringur sem voru ekki af verri endanum. Auk þess sem að forrétturinn bauð upp á súpu og eftirrétturinn upp á Rísalamand. Eins og flestum fjölskyldum er lagið þá héldum við upp í stofu til að opna pakkana. Ég held að allir hafi bara verið nokkuð sáttir með sína og brutust ekki út ein einustu slagsmál vegna þess að fólk var ósátt með sinn pakka, sem ég tel nokkuð jákvætt.
Eftir að hafa opnað alla pakkana og spilað spil sem ég fékk í gjöf var haldið á vit ævintýranna í miðnæturmessu í Kaumberg. Við höfðum hugsað okkur fyrr um daginn að fara í messu í miðri Vín(Stephansdom) klukkan hálf fimm en vegna þess að okkur fannst það bjóða upp á fullmikið stress var hætt við það. Ég er mjög þakklátur fyrir að hætta við það því að miðnæturmessan í Kaumberg var ekki af verri endanum, þegar að við komum inn í kirkjuna var verið að spila bara mjög poppuð kirkjulög í eldgamalli sveitakirkju. Veislan hélt svo áfram þegar messuhaldið hófst, presturinn hafði þá kveikt í reykelsi og spúði því framan í öll verðandi fermingarbörnin sem voru þarna og hóstuðu þau alltaf þegar að hann gerði það. Þegar fólkið vildi svo signa sig fór það alltaf niður á annað hnéð og signaði sig, eitthvað sem ég hef aldrei séð áður. Ég og pabbi fórum svo að sjálfsögðu í altarisgöngu því að maður verður jú að borða hold krists. Reyndar fylgdi ekkert vín með í kaupbæti því að djákninn hafði örugglega drukkið það allt því að hann gerði ekki neitt annað alla messuna nema að drekka messuvínið.
Í lok messunnar mátti svo halda að við værum á rokktónleikum með smá votti af poppmenningu inn á milli. Því að presturinn skvetti vatni yfir alla sóknina auk þess sem að tónlistin undir var ekki þessi klassíska tónlist sem að maður er vanur í kirkjum, mætti jafnvel halda að gítarleikarinn í Bee Gees væri að spila.
Við héldum svo heim á leið eftir viðburðarríkt kvöld sem að ég held verði ekki endurtekið í bráð.
Fastir liðir:
Þýska dagsins: Alles ist auf Sonntags geschlossen(Allt er lokað á sunnudögum)
Mynd dagsins:
Steinn, Patti, Ingibjörg og ég fyrir framan jólatréð okkar(Við erum ekki öll svona lítil, Steinn er bara stór)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.