31.12.2012 | 18:00
Sumir ungverskir karlmenn vinna í Laugarásbíó
Á jóladag var svo vaknað og hrist af sér slenið með því að göngutúra sig í gang. Steinn skildi við okkur eftir góða heimsókn og gengum við upp að kastala sem er hérna í grenndinni sem heitir Araburg. Hann var upp á hárri hæð og var því ágætis mál að fara alla leið þar upp, reyndar var amma sem er orðin 74 ára svo góð að komast þangað upp en hún er líka í hörkuformi þar sem að hún gerir mjög mikið af því að fara í gönguferðir, t.d. upp í gettóið í Mosfellsbæ.
Annan í jólum var svo haldið að Schönbrunn höllinni sem er inn í miðri Vín og er hún í svipuðum stíl og Versalir, semsagt nóg af gulli og öðru blingi. Þar var ákveðið að gerast túristar og fórum við í skoðunarferð um höllina með heyrnartæki í eyrunum þar sem að var sagt frá ýmsu fróðlegu. Ég t.d. vissi ekki að það tæki Sisi keisaraynju tvo klukkutíma á dag að greiða á sér hárið, en nú veit ég það.
Síðan var haldið heim á leið og borðað restina af gæsinni sem var enn mjög góð. Að máltíð lokinni var síðan haldið upp á annan í jólum með því að horfa á Steindann okkar 3 sem Patti gaf mér í jólagjöf. Við ýttum bara á spila allt og föttuðum við því ekki hvenær einn þáttur endaði og sá næsti hófst. Þannig að þrátt fyrir að okkur finnist þetta vera ansi skemmtilegir þættir þá var þetta orðið nokkuð leiðigjarnt þegar að við föttuðum að við vorum komin á fimmta þátt.
Þann þriðja jóladag var svo haldið til Vínar þar sem að farandsölu maður sá auðsjáanlega að við vorum menningarþyrst og bauð okkur að kaupa miða á eitt stykki óperu sem var þar rétt hjá. Þar sem að við vorum jú þarna gátum við ekki gert annað en að kaupa miða af þessum manni sem var í ansi skemmtilegum 18. aldar búning. Á meðan að við biðum eftir að klukkan mundi slá átta var hent í sig einum McDonalds Mcdaginn(engar strengjabrúður Satans þarna á ferð sem fá sér Burger King(http://www.youtube.com/watch?v=EOg3lPpJUYk)).
Óperan hófst og var þetta ansi tilkomu mikið verk, svo tilkomumikið að það var stelpa sem sat þarna ein og grét allan tímann. Hún bað svo í lok sýningar einn starfsmann sem hún þekkti auðsjáanlega ekki fyrir og var með gullkeðju um hálsinn að fylgja sér á hótelið sitt.
Um miðja sýningu verð ég þó að segja að ég var orðinn nokkuð skelkaður því að karlkyns ballett dansarinn var örugglega búinn að líma eitthvað á sér andlitið eða var á einhverjum töflum sem lét hann vera með mjög sjúkt sólheima glott á sér allan tímann, en það var bara gott grín. Eftir að hafa skipst á skoðunum um óperuna sem voru almennt mjög jákvæðar fyrir utan það að ég og Pattarinn tókum gott sessíon í því að grínast aðeins með karlkyns ballett dansarann með sjúka svipinn héldum við heim á leið.
Fimmtudagurinn síðasti var svo tekinn eldsnemma enda var hugmyndin að fara til Búdapest og tók það þrjá og hálfan tíma að keyra þangað. Við lögðum því af stað og þar sem að fólk var ansi þreytt sveif andi Óla lokbrá yfir fólkinu í bílnum, sem betur fer hélt pabbi sér þó vakandi allan tímann. Fyrsta sem ég svo sé þegar að ég vakna í Ungverjalandi er tannlaus maður að þrífa framrúðuna á bílnum okkar alveg óumbeðið. Það var því frekar sjúkt og fór hann svo ekki fyrr en mamma var búin að borga honum.
Við lögðum svo bílnum á bílastæðahúsi í miðri Búdapest sem var ansi þröngt og á pabbi skilið gott hrós fyrir að leggja svona vel þessari 9 manna rútu í þetta níðþrönga bílastæði. Við vissum ekki alveg hvað við áttum að gera af okkur þarna í Búdapest þannig að við leituðum því að hop off-hop on strætó eins og er í flest öllum stórborgum. Fyrsti sölumaðurinn sem yrti á okkur vildi svo skemmtilega til að væri að selja miða í svona strætóa en ekki sólgleraugu og Rolex úr. Þannig að við keyptum af honum miða og tókum rúnt um borgina.
Þar var margt skemmtilegt að sjá, sérstaklega hina ótrúlega fegurð Búdapest. Strætóinn stoppaði svo upp á einni hæðinni og gátum við farið þar út. Við gerðum það því að við gátum svo farið aftur upp í hann stuttu seinna. Á hæðinni löbbuðum við framhjá einum veitingastað og maðurinn sem var þar fyrir utan byrjaði aðeins að spjalla við okkur. Þá kom það upp úr krafsinu að þessi ungverski maður hafði verið að vinna í Laugarásbíó í Reykjavík, rétt hjá þar sem ég bý. Skemmtileg tilviljun? Þar sem að við vorum svo upprifin að hann hafði verið að vinna þar þá gátum við ekki gert annað en að fara inn á veitingastaðinn sem hann vann á. Það var alveg rosalega flottur, gamaldags staður í kjallara. Við gæddum okkur þar að sjálfsögðu á eitt stykki special Gullas Suppe.
Síðan var ferðinni haldið áfram og var endað á lokastöð. Þá var bara orðið dimmt og röltum við því í áttina að bílnum og keyrðum heim á leið.
Þar sem að fólki fannst það mögulega ekki hafa fengið nóg af gjöfum þetta árið þrátt fyrir að enginn hafði farið í jólaköttinn þetta árið var ákveðið að skella sér í stórt outlet mall þennan daginn. Það er rosalega gott að fara þarna, er á ameríska vísu og selur merkjaföt á útsölu allan ársins hring. Það var því hægt að kaupa allt frá Nike til Prada(strákurinn var duglegur þar) á útsölu.
Ég henti mér á nýja Timberland skó og þrjár Calvin Klein skyrtur allt á góðum afslætti, á meðan að Ingibjörg skellti sér á Ralph Lauren vesti og húfu, Calvin Klein buxur og Nike íþróttatopp. Auk þess sem að Patti fjárfesti í einu Burton snjóbretti. Þannig að þetta var bara hin besta verslunarferð.
Fastir liðir:
Þýska dagsins: Ich habe in Laugarásbíó gearbeitet(Ég vann í Laugarásbíó)

Mynd dagsins: Við að taka túristamynd í Búdapest
Athugasemdir
Flott blogg, kveðja pabbi
Guðmundur Jónasson (IP-tala skráð) 31.12.2012 kl. 18:28
Elsku Jónas okkar. Gleðilegt ár. Þú ert frábær. Mikið er gaman að heyra frá þér og hvað allt gengur vel. Enn og aftur vertu alltaf svona eins og þú ert. Þess óska amma og afi.
Margrét (IP-tala skráð) 1.1.2013 kl. 11:49
Gleðilegt ár gaman að geta fylgst með ykkur á þessu bloggi
sjáumst hressa og kát fljótlega
kveðja frá Tómasarhaganum
Gísli og Eva (IP-tala skráð) 1.1.2013 kl. 18:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.