Best er að enda fyrstu ferðirnar sínar á skíðum í austurrískum sjúkrabíl

Góðan daginn kæru lesendur,
nú sit ég hér á járnbrautarstöðinni á flugvellinum í Vín nýbúinn að kveðja fjölskylduna og Ingibjörgu. Ég hafði mjög mikla ánægju af þessari heimsókn og er ég mjög þakklátur fyrir að hafa fengið þau til mín. Það var leiðinlegt að kveðja þau en gott til þess að hugsa að ég kem heim eftir fjórar vikur.

Á síðasta laugardag(29 des.) fórum við á skíði í Schladming, skíðasvæði sem er frekar nálægt þar sem að við bjuggum í Kaumberg. Skíðaólánið hélt áfram að elta okkur og mun ég koma betur að því seinna. Það fyrsta sem við sáum þegar að við mættum voru fullt af slökkviliðsmönnum út um allt og mátti jafnvel halda að það hefði kviknað í einhverju en svo reyndist ekki vera heldur var heimsbikarsmótið á skíðum í gangi. Ég sá t.d. nokkra alveg eins bíla eins og Steinn Orri á þarna(30 ára gamlir Volkswagen slökkviliðsbílar).
Við leigðum okkur skíði og keyptum okkur miða í brekkurnar. Ég var fyrir því óláni að setjast á eitthvað járn sem að skíði voru á og runnu þau þannig til að þau skullu á hausnum á svona fjögurra ára strák og getum við bara orðað það þannig að ég fékk ekkert rosalega fallegan svip frá mömmu hans auk þess sem strákurinn fór að hágráta. Frábær leið til að byrja daginn! Síðan var hafist handa við að renna sér. Flestar brekkurnar voru lokaðar útaf þessu heimsmeistaramóti og því bara tvær brekkur til að velja á milli. Við völdum óvart erfiðari brekkuna og er það kannski ekki alveg það sniðugasta þegar að skíðabyrjandi er í hópnum. Ferðin þurfti því að enda á rassinum en það er bara gaman að því. Við vorum svo sniðugari að velja auðveldari leiðina næst og var hún líka bara ansi skemmtileg.Svo var brekkunum lokað klukkan fjögur því að það þurfti að troða brekkurnar. Þá var komið rugl mikið fólk því að allir voru komnir að horfa á skíðakeppnina(ég hélt með Michaelu Kirschgasser en Ingibjörg með Yurgoslevu Lovelenu).

Klukkan sex byrjuðum við svo að renna okkur aftur í brekkunum því að þær voru upplýstar. Það var samt ekkert rosalega sniðugt að skíða þá því að það var mjög erfitt að komast aftur niður að skíðalyftunni því að það var svo mikið af fólki fyrir. Það gerðist t.d. þrisvar fyrir Ingibjörgu að reka skíðin í hausinn á öðru fólki. Hún vann mig því 3-1 þennan daginn í að reka skíði í hausinn á fólki.
Þegar við vorum ekki búin að vera lengi að skíða þá datt Inga á skíðunum og meiddi sig ansi illa. Hún náði þó að harka af sér og gat skíðað alveg niður. Þar var þetta orðið það sárt hjá henni að ég náði í lækni til að kíkja á þetta. Læknirinn bað okkur um að koma inn í sjúkratjaldið sem var þarna rétt hjá. Eftir að þó nokkuð margir læknar höfðu kíkt á þetta var ákveðið það að senda hana upp á næsta spítala í sjúkrabíl til að taka röntgen mynd til að vera alveg viss að það væri í lagi með hana.

Þetta var því í fyrsta skipti sem að bæði ég og Ingibjörg höfum farið upp í austurrískan sjúkrabíl. Í sjúkrabílnum var svona 23 ára strákur sem var alveg út úr heiminum vegna áfengisneyslu og rosalega blóðugur í framan auk þess sem að sjúkraliðinn hét Günther.
Það tók þennan dreng svona örugglega þrjár mínútur að átta sig að rosa skvísa var komið í rúmið við hliðina á honum. Þá tók hann við sér og byrjaði að tala við hana. Það eina sem hann sagði við hana var reyndar „wie geht‘s?“(hvernig hefur þú það?) svona tíu sinnum en það var bara gaman að því. Svo var hann líka mikið að snerta hana en þá fannst mér og Günther félaga okkar hann ganga yfir strikið og vorum við því mikið í því að fjarlæga krumlurnar þessar 25 mínútur sem bílferðin tók.

Síðan þegar að við mættum á spítalann var tekið mynd af fætinum hennar og reyndist hann bara vera í góðu lagi. Við gátum því farið heim og Inga gat prísað sig sæla með að fóturinn var ekki í einhverju rugli.

Daginn eftir vildi Patrekur svo ólmur halda til Bratislava í Slóvakíu sem er rétt hjá til að sjá hvort ímynd hans af bænum væri eins og raunveruleikinn. Það var farið í skoðunarferð og tók keyrslan um tvær klst. Hópurinn var kominn með ansi háa standarda eftir að hafa skoðað bæði Vín og Búdapest sem eru báðar ótrúlega fallegar borgir.
Við komumst að því að svipað var uppá teningnum í Bratislava og í Austurríki, mest allt var lokað á sunnudögum, við tókum þó reyndar gott rölt á þetta og fundum loks H&M búð sem var ekki lokuð og var að sjálfsögðu kíkt aðeins við í henni.
Síðan var gengið inn í litla miðaldagötu sem hefur líklegast verið aðalverslunargatan hér áður fyrr. Þar var mest allt opið og fórum við inn á veitingastað þar. Það var einhvers konar slóvakískt steikhús og var ég mjög sáttur með réttina þar sem að þeir voru vel útilátnir. Í miðri máltíð varð svo rafmagnslaust og því alveg dimmt inn á staðnum. Ég var alveg viss um það að þegar ljósin yrði kveikt að þá væri allt horfið úr öllum vösum og veskjum hjá okkur en okkur til mikillar gleði reyndist svo ekki vera.

Við fórum svo útaf staðnum og röltum meðfram Dóná, þar sýndi ég þeim bátinn þar sem að ég og Steinn rötuðum óvart inn á eitthvað mafíupartý síðast þegar að við vorum þar. Við héldum svo göngutúrnum áfram og enduðum inn í kirkju sem var eins og allar aðrar kaþólskar kirkjur, alveg rosalega falleg og með jólalandi sem var allt á hreyfingu, mjög flott. Þetta var þó ekki sama kirkja og ég og Steinn fórum í messu í síðast sem við vorum þarna.
Eftir góðan göngutúr um Bratislava að kvöldi til var svo haldið heim á leið og voru allir nokkuð sammála um það að þeim líkaði mjög vel við borgina þótt að það eigi þó aðeins eftir að taka til hendinni þarna.

Fastir liðir: !
Þýska dagsins: Sie mussen mit dem Krankenwagen fahren!(Þú ferður að fara með sjúkrabíl)
Mynd dagsins:

SDC10748

 


 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Skíðaferðir sem enda ekki uppá spítala eru tímaeyðsla 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Jónas okkar.   Ósköp er gaman að vita að þú komir heim eftir 4 vikur.  Gott að Ingibjörg meiddist ekki meira en hún hefði getað meiðst mikið.  Það verður dásamlegt þegar Bjarmi kemur líka heim og þið farið að slá blettinn hjá afa og ömmu.  Hafðu það sem best Jónas okkar.  Kveðja.  Amma og afi.

Margrét (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 18:12

2 identicon

Þakka ykkur fyrir,

já það verður gott að koma heim. Takk fyrir að skrifa alltaf skemmtilegar athugasemdir á þetta blogg mitt

Jónas Guðmundsson (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband