Það eru ekki allir Spánverjar sem geta sungið með lögunum "Lífið er yndislegt" og "Viltu dick?"

Sæl öll,
á mánudaginn síðasta var fyrsti skóladagurinn hjá mér í nýja skólanum og var allt gott að frétta þaðan.

Ég var mættur í skólann í dag kl. 9 í byggingu sem væri ekki beint hægt að lýsa sem hinni klassísku skólabyggingu. Skólinn er nefnilega staðsettur í skýjakljúf sem er beint á móti óperunni.
Ég fór í minn fyrsta tíma og gaman er að segja frá því að ég þekkti kennarann því að hún hafði kennt mér í þýskuskólanum sem ég var í síðast.
Í upphafi tímans kynntum okkur hvert fyrir öðru, þarna var fólk frá hinum ýmsu löndum en þó aðallega frá Austur-Evrópu. Rússnesk stelpa sem býr í Moskvu og að læra í háskólanum í Moskvu germanska málfræði(hversu steikt?), ungverskur maður sem tekur lestina á hverjum degi frá Ungverjalandi í tvo tíma til að koma í skólann, óeðlilega hress kona frá Venezúela, rúmensk stelpa um tvítugt sem er gift austurrískum manni, ítalskur maður með hökutopp og íranskur maður sem er að læra tónsmiðar. Jább mjög marglitaður hópur.

Þegar klukkan sló svo 12 þurfti ég að færa mig yfir í aðra stofu því að ég er líka í öðrum þýskuhóp sem er á aðeins hærra stigi. Þar var kennarinn alveg rugl samkynhneigður og hafði ég bara mjög gaman að honum. Páll Óskar er bara nokkuð gagnkynhneigður miðað við þennan. Ég er svo mjög sáttur með það að þetta er fyrsta manneskjan sem hefur einhvern tímann leiðrétt mig á þýskunni og það er ekki útaf því að þetta er í fyrsta skipti sem ég tala málfræðilega vitlaust.
Sömu sögu var að segja um þennan hóp. Þarna var kona frá Kosta Ríka, stelpur frá Ítalíu, Slóvakíu og Kosovo, strákar frá Tyrklandi og Íran og maður frá Kúbu sem kennir latneska dansa hér í Vín. Þetta var erfiðasti þýskutími sem ég hef farið í en ég tel það bara af hinu góða. Hann var samt ekki þannig að ég skildi ekki neitt og lærði ég því bara fullt held ég. Ég fór svo beint heim eftir skóla og á leiðinni leit ég inn í einn kebab sölubás þar sem að gaur blés reyknum frá sígarettunni bara beint á kjötið. Ég held því að ég haldi mér frá því að kaupa Kebab á þessum stað.

Um kvöldið var mér og herbergisfélögum mínum boðið í mat upp til hina Ítalanna. Boðið var að sjálfsögðu upp á spaghetti og í eftirrétt var einhver geggjaður eftirréttur sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir. Þetta var allavega svona ítalskt brauð og ofan á það var sett einhverslags eggja og sykurskrem, á erfitt með að lýsa þessu en var allavega mjög gott. Þar sagði hún Francesca mér að það er kínverskur strákur að nafni Wu að fara að flytja inní herbergið með mér seinna í vikunni sem er bara snilld. Þegar nokkuð var liðið á kvöldið kom svo þýskur strákur til okkar og átti ég ansi gott spjall við hann. Hann heitir Kai og er frá Stuttgart og er að læra að vera leikskólakennari.

Þriðjudagurinn var svo bara nokkuð klassískur og lítið sem í raun gerðist. En svo kom miðvikudagurinn með ágætis skriðþunga. Eftir skóla var fyrsti jógatími ársins 2013. Því miður gerðist ekkert kraftaverk í sambandi við liðleikann minn yfir jólin og er kennarinn ennþá dugleg að koma með dæmi um hvernig á að gera einhverja teygju og hvernig á ekki að gera sömu teygjuna. Þið getið ímyndað ykkur í hvaða flokki ég enda í.

Um kvöldið var okkur aftur boðið í mat. Ég ætlaði bara að vera örstutt því ég átti eftir að gera heilmikið af heimavinnu enda er ég á tvöföldu námskeiði en í þetta skiptið hitti ég spænskan strák sem hafði búið á Íslandi. Hann var mjög hress gæi og dróst þetta matarboð mjög á langinn. Hann hafði verið í HR á tölvubraut þar, en hann fór víst aldrei í skólann því að það var svo mikið að gera í félagslífinu hjá honum víst. Það var auðsjáanlegt að hann var mjög hrifinn af íslenskri menningu og sem dæmi þá gat hann rappað við allt lagið „Viltu dick“ með Blaz Roca þrátt fyrir að hann kynni varla íslensku. Einnig sagði hann mér að hann fílaði Ingó Veðurguð, Frikka Dór, Retro Stefson og FM Belfast auk þess sem hann kunni allan textann við „Lífið er yndislegt“.
Einnig heldur hann mjög góðu sambandi ennþá við vini sína á Íslandi þrátt fyrir að það séu rúmlega tvö ár liðin síðan að hann fór. Hann þoldi þó ekki í sambandi við Ísland hvað margir strákar vilja alltaf fara í slag á djamminu og er það eitthvað sem ég held að ég sé bara fullkomlega sammála honum með.

Fastir liðir:
Franska/þýska dagsins: Le Vasistas(Gluggi sem er fyrir ofan hurðar(þegar þýskir hermenn voru í seinni heimstyrjöldinni í Frakklandi spurðu þeir stundum Frakka „Was ist das?“(Hvað er þetta?) og bentu á þessa glugga. Því varð þetta orð til á frönsku)
Mynd dagsins:

b

 

 

 

 

 

 

 

 

 Húsið sem að skólinn minn er í. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Jónas okkar.  Ósköp er gaman að fá að fylgjast með öllu sem gerist hjá þér. Það er aldeilis farið að styttast að þú komir heim.  Mikið held ég að þú hafir gott af því að vera í þessum skóla.  Vonum að allt gangi vel og hafðu það alltaf sem best. Þess óska amma og afi.

M (IP-tala skráð) 14.1.2013 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband