Rauði baróninn lifir!

Ciao amici,
helgin hjá mér bauð upp á eitt og annað og vona ég það kæru lesendur að ykkur muni hún finnast nokkuð spennandi líkt og mér finnst hún þegar að ég hugsa til baka.

Á laugardaginn var, beið ég spenntur eftir því að fá Kínverjann sem átti að flytja inn í herbergið til mín, mundi koma en því miður komst ég að því að vegna vandræða með vegabréfsáritun mun það bíða betri tíma að ég bý með dreng frá Austurlöndum fjær. Reyndar mun það gerast einhvern tímann bráðlega að franskir drengir flytja hingað inn og hún Francesca sem sér um þetta talaði um að þeir muni líklegast ekki tala neina þýsku né ensku. Þannig að það er frábært.
Um kvöldið kom svo Kai, þýskur vinur minn sem býr hérna í húsinu til mín. Við vorum á leiðinni í partý til spænska stráksins sem ég talaði um í síðasta bloggi. Að sjálfsögðu spilaði hann bara fyrir mig þýska tónlist og hafði ég gaman að því. Sérstaklega af hljómsveitinni Böse Onkels(Reiðir frændur). Þessi hljómsveit er víst bönnuð á öllum útvarpstöðum í þýskalandi vegna þess að þeir voru svo öfgahægri sinnaðir þegar að þeir voru unglingar en núna eru þeir allir um fimmtugt og hafa þeir breytt textum mjög mikið og syngja núna gegn öfgaflokkum en eru samt ennþá bannaðir. Þegar að þeir héldu lokatónleikana sína mættu 500.000 manns á þá þrátt fyrir að fjölmiðlar séu ekki með þeim í liði, sem mér finnst ansi gott. Mæta einhvern tímann 500.000 manns á tónleika hjá Justin Bieber?(Ég veit það ekki, bara að spyrja)

Við fórum svo í þetta partý og var það virkilega gaman fannst mér. Þarna voru um 15 gestir og einungis fjórir frá sama landinu, tveir Spánverjar og tveir Þjóðverjar. Um helmingurinn af þessu fólki hafði verið með honum Adrian(Spánverjinn) á Íslandi í HR.
Fólkinu fannst ég því vera spennandi og hafði það mjög gaman af því að spyrja mig út í hitt og þetta, auk þess sem að það sagði mér skemmtilegar sögur frá Íslandi. Þegar ég skoðaði gestalistann á facebook tók ég einnig eftir því að þrír höfðu tekið upp á því að kalla sig –son eða     –dóttir(Borisdóttir, Míjósson og Rennerson) Í teitinu var að sjálfsögðu líka boðið upp á töluvert magn af íslenskri tónlist og margir þarna inni gátu sungið með lögunum þannig að manni leið smá eins og maður væri bara heima. Ég spjallaði líka við einn Kínverja í svona kortér á ensku og skildi varla orð af því sem að hann sagði, það lítur því allt út fyrir að ég var kannski bara heppinn að Kínverjinn sem átti að flytja inn kom ekki. Hann var t.d. alltaf að rugla saman r og l sem er frekar fyndið finnst mér.

Við fórum svo inn á skemmtistað í miðbænum. Þar lenti ég í því að ég var að dansa við einn dreng í smá tíma sem ég hafði ekki hugmynd um hver væri. Fannst þó eitthvað einkennilegt hvað flest allir aðrir störðu mikið á þennan strák. Ég komst svo að því í dag að þetta væri Matthias Schweighöfer(http://en.wikipedia.org/wiki/Matthias_Schweigh%C3%B6fer) en það er mjög þekktur leikari í hinum þýskumælandi löndum en hann hefur leikið í bíómyndum með bæði Brad Pitt og Tom Cruise auk þess sem að hann lék aðalhlutverkið í Rauða Barónum. Þannig að þrátt fyrir að Manfred von Richtofen hafi verið skotinn niður í fyrri heimstyrjöldinni þá heldur hann áfram að lifa í mynd ungs drengs sem dansar í takt við íslenskan kollega.

Daginn eftir(sunnudagur) reif ég mig svo upp til að klifra ásamt honum Hannesi og fjölskyldunni hans(þessi fjölskylda á húsið sem að við leigðum þegar að fjölskyldan mín og Ingibjörg vorum stödd hér í Kaumberg síðustu jól). Við fórum í klifurhús og hafði ég bara gaman að því. Þetta tók að sjálfsögðu rosalega á en mér fannst ég bara vera orðinn nokkuð góður í þessu í lokin. Aðalmálið var líklegast að komast yfir lofthræðsluna og átta sig á því að maður væri alveg öruggur. Litla stelpan þeirra sem er rétt rúmlega fimm ára tók að sjálfsögðu líka mjög virkan þátt og var hún ansi góð. Reyndar alveg ótrúlega góð fannst mér. Hannes var svo sjálfur ekkert að klifra og var bara þarna til að hjálpa mér og litlu stelpunni þeirra, algjör fagmaður.
Í Austurríki er klifur mjög vinsæl íþrótt og eru til alveg rosalega mikið af klifurhöllum út um allt auk þess sem að fólk fer mikið upp í fjöllin til að klifra, sérstaklega í Vestur-Austur/ríki(hehe). Í höllinni sá ég einnig fjórar „manneskjur“ þar sem að ég var bara alls ekkert viss hvort að þetta voru karlmenn eða kvenmenn. Voru með karlmanns líkama en samt sýndist mér andlitið þeirra minna eitthvað á kvenleika. Hannes gat heldur alls ekki borið kennsl á hvort að þetta voru karlmenn eða kvenmenn.
Að klifrinu loknu var svo kominn tími til að fara heim og bauð Hannes mér með sér og fjölskylduni hans á skíði næstu helgi og gat ég að sjálfsögðu ekki gert annað en að þakka fyrir það boð og segja já.

Í dag fóru svo Ítalarnir heim til sín í tveggja vikna frí. Þeir koma svo hingað aftur þann 31. janúar, deginum áður en að ég fer heim. Flytja samt ekki aftur í sömu íbúð heldur fundu þeir einhvern stúdentagarð sem að þeir ætla að búa á. Í morgun var svo í fyrsta skiptið sem að það kyngir niður snjó á meðan á dvöl minni hefur staðið og líkt og heima þá fer öll borgin í rugl. Þannig að mjög margir komu seint í skólann í dag, en ég var bara á mjög flottum tíma. Í skólanum í dag talaði kennarinn um Vínarböll sem eru mjög lík því og voru hérna áður fyrr(eitthver svona týpa: http://en.wikipedia.org/wiki/Cotillion). Ég hafði virkilega hugsað mér að fara á eitt svona áður en ég fer enda er balla tímabilið að byrja næstu helgi. En kennarinn sagði okkur frá því að karlmenn þyrftu að klæðast smóking eða kjólfötum og það kostaði allt frá 70 € til 120 € að fara þannig að ég held að ég sleppi því bara.
Ég fór svo áðan út að hlaupa í stuttbuxum í snjónum vegna þess að ég hafði sett íþróttabuxurnar mínar út á svalir um daginn til að lofta um þær en svo þegar ég ætlaði að ná í þær þá voru þær horfnar. Ég fékk því töluvert af skrítnum augnaráðum á meðan að á hlaupinu stóð. Fólk ekki vant því að sjá gaur vera hlaupandi þegar snjórinn er töluverður.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Ottakringer strasse, heute macht ma Party((Ottakringer gata, hérna skemmtum við okkur í dag) uppáhalds austurríska lagið mitt)
Mynd dagsins:

SAM_9820

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það var alltaf draumur hjá mér þegar að ég var lítill að klifra upp á Mount Everest, stundum verður maður þó að gera málamiðlanir(ég er þessi þarna í rauðu buxunum)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Jónas, það er gaman að lesa bloggið þitt og fá að fylgjast með hvað þú ert að gera.  Ég var að skoða myndina af þér á klifurveggnum og trúi ekki örðru en þú hafir verið lofthræddur þarna uppi. Kveðja pabbi

Guðmundur Jónasson (IP-tala skráð) 15.1.2013 kl. 09:49

2 identicon

Þú þekkir mig ágætlega sé ég pabbi, jú maður var vel lofthræddur þarna uppi haha

Jónas Guðmundsson (IP-tala skráð) 18.1.2013 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og tveimur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband