14.6.2016 | 10:34
Af svindlurum og skemmtilegum sölumönnum
Bonjour kæra fólk,
nú eru menn staddir á þeim öndvegis stað Lyon í Frakklandi ásamt Frakklandsbjörgu, Einari Þór Gunnlaugssyni, Einari Sigurvinssyni, Aroni Val Jóhannssyni og Kristjáni Högna Kristjánssyni. Það fer að líða að því að haldið verður út á völl að horfa á Ísland-Portúgal. Fyrst ætla ég samt að segja frá ferðinni til þessa.
Svaðilförin byrjaði á því að ég og Flugbjörg mættum út til Parísar á Charles de Gaulle flugvöllinn um 5 leytið um morguninn 10 júní. Á Leifsstöð hafði einhver sadisti troðið ljótum EM Carlsberg höttum upp á allt starfsfólkið og af einhverjum ástæðum taldi Hattabjörg það vera mjög sniðugt að við fengum svona líka, þeir voru jú ókeypis. Í dag eru þessir hattar sem betur fer týndir. Er til Parísar var komið ákváðum við að taka neðanjarðar lestina á hótelið okkar. Til að lífga upp á ferðalagið vorum við svo heppinn að sjá það var maður í passamynda klefa sem var búinn að girða niður um sig en var samt í nærbuxum. Þetta var því mjög góð byrjun á ferð.
Á leið okkar á hótelið undruðumst við mjög hversu góðir allir Frakkarnir voru í ensku og hvað allt gekk vel fyrir sig auk þess að þeir voru allir mjög almennilegir. Ein stoppistöðin hét Stalingrad og var ég mjög spenntur fyrir að kíkja á hana en því miður sá Ingibjörg ekki alveg jafn mikla þörf fyrir að kíkja á hana.
Eftir að við vorum búin að tékka okkur inná hótelið fórum við í góða skoðunarferð um París og vorum við líklegast ekkert betri en hinir túristarnir. Inga gerði mér þó grein fyrir því að ef ég ætti að sjást með henni þá skildi ég ekki vera í hvítum tennis sokkum og mokkasíum. Ég fjárfesti því í ökklaháum sokkum og allir voru sáttir.
Eins og gengur og gerist þegar komið er til jafn stórar borgar og Parísar þá er allt að gerast, sérstaklega yfir sumartímann. Af öllu því sem gerðist þá vakti líklegast skeljaleikurinn mesta kátínuna hjá okkur. Skeljaleikurinn er svindlara leikur sem spilaður hefur verið allt frá miðöldum í Evrópu. Þá er einn spilari sem heldur á þremur bollum og hefur einn bolta. Síðan ruglar hann hvar boltinn er og fólk á að veðja á hvar boltinn er. Það sem margir grunlausir túristar vita oft hins vegar ekki er að spilarinn kippir boltanum upp og er því enginn bolti undir. Sjá: https://www.youtube.com/watch?v=P6Hnm5s4tCY
Það sem var hvað skemmtilegast við að fylgjast með þessu var að það var fullt af fólki sem var auðsjáanlega með spilaranum í liði og voru að veðja á hvar boltinn væri auk þess sem einn gerði ekki annað en að fylgjast með hvort að lögreglan væri að koma.
Ég prófaði upp á grínið að leggja 1 evru undir en ég mátti víst bara leggja 100 evrur undir. Þessi teymi voru svo út um alla París.
Til að halda áfram með svindlið þá kom hópur af fólki upp að okkur og sagðist vera frá International deaf organisation og báðu okkur bara um að skrifa undir. Svo kom það víst í ljós að við áttum líka að borga þeim eitthvað smotterí. Við sögðumst ekki hafa pening og sem betur fer. Um kvöldið lásum við um túrista gildrur í París og þá var akkúrat talað um þetta að þegar búið var að borga fara svo vasaþjófar og ræna veskinu því þeir vita hvar það er staðsett.
Við héldum óhrædd ferð okkar áfram um París og skoðuðum hluta af Louvre og Eiffel turninn. Við Louvre safnið hittum við einn ansi skemmtilegan mann frá Jamaíka. Hann fór að troða einhverju armbandi upp á Armbandsbjörgu og sagði við mig: Youre lucky to have such a sexy wife, its good for the bonga, bonga. Ég spurði hann hvað bonga, bonga þýddi og hann svaraði að sjálfsögðu gillí,gillí, hakúna matata. Lesendur mega skilja þetta á hvaða hátt sem er.
Ingibjörg fékk Frakklands armaband en ég fékk Jamaíka armband. Ingibjörg spurði af hverju ég fékk ekki líka Frakklands armband en það kom víst upp úr dúrnum að ég væri Jamaica man eins dökkur á hörund og ég er.
Hjá Eiffel turninum fórum við í lauflétta göngutúr við Signu, í raun var eina ástæðan fyrir því svo ég gæti sungið Our last summer með Abba án þess að vera að ljúga því, ...by the Eiffel tower...walks along the Seine...
Til að halda áfram þessum útópísku Abba draumum gangandi fórum við í siglingu um Signu og var það hin fínasta skemmtun að vera duglegur með hinum Asíu búunum að taka mynd af sér að þykjast halda á Eiffel turninum eða eitthvað álíka.
Í lok siglingar fórum við að Notre Dame kirkjunni og fengum okkur að borða þar rétt hjá. Ég get með stolti sagt að ég er búinn að krossa út af bucket listanum hjá mér að borða snigla.
Eftir að hafa haldið til í höfuðborg rómantíkur og lista í tvo daga fórum við Parísarbjörg til Lyon til að hitta fyrir fyrrnefnda vini okkar sem verða ferðafélagar okkar restina af ferðinni. Vegna ýmiskonar verkfalla hér í Frakklandi er ekkert grín að fara á milli staða og enduðum við á að taka 6,5 klst rútu til Lyon. Það var svo sem allt í góðu þar sem við sváfum stærsta part ferðarinnar.
Lyon er töluvert öðruvísi borg en París. Að sjálfsögðu minni en auk þess eru allar götur þrengri og metro kerfið lélegra auk þess sem það eru miklar brekkur hérna. Við höfum því gjörnýtt tækifærið og hamast vel á tveimur jafnfljótum. Hér í Lyon er belgíska stuðningsmannaliðið langsýnilegast, þeir eru allir rauðklæddir og mjög skemmtilegir. Belgar töpuðu þó í gær gegn Ítalíu og gaman verður að sjá hvort að stuðningsmennirnir halda uppteknum hætti í dag.
Au revoir
Franska dagsins: Ne parlent pas langlais(Tala ekki ensku)
Gerist óþægilega oft hér í Lyon en eiginlega aldrei í París.
Mynd dagsins:
Ein klassísk túristamynd af okkur Parísarbjörgu
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.