Gott var að hitta rúsínuraðarann

Servus kæru lesendur,
ég og Beowulf(a.k.a. Steinn Orri Erlendsson) vöknuðum daginn eftir(sunnudagur) og fengum okkur morgunmat. Jón borðaði einnig með okkur því hann var á leiðinni í þýsku tíma en við á leiðinni að skíða. Jón eldaði sér hafragraut og okkur til mikillar furðu raðaði hann rúsínum niður mjög varlega einni í einu. Það fannst Steini vera mjög furðulegt og fannst honum Jón skjóta langt yfir markið með þessum gjörningi. Það er mjög furðulegt því að Steinn er mjög slakur gæi og tekur vel í allt, nema auðsjáanlega þetta. Eftir þetta var Jón ekki kallaður neitt annað nema „rúsínuraðarinn“.
Að morgunmat loknum kíktum við upp í fjall og ætluðum að byrja að skíða. Þá komst ég að því að ég gat bara ekki mögulega troðið mér í skíðaklossana sem ég hafði passað svo vel í daginn áður. Þá voru góð ráð dýr og ákvað ég í staðinn að taka skónna til meiri reynslubolta og sjá hvort að þeir hefðu eitthvað ráð fyrir mig. Þá komst ég að því að útaf því að ég hafði geymt skíðaklossana mína inn í bíl þá væru þeir svo kaldir að þeir hefðu dregist saman og þurfti að hita þá upp til þess að ég kæmist í þá. Boðskapur þessarar litlu sögu er því að aldrei að geyma skíðaklossana sína inn í bíl yfir nótt þegar maður er á skíðaferðalagi.
Við fórum upp í brekkurnar og renndum okkur eins og við ættum lífið að leysa. Í brekkunni sáum við örugglega svona tíu gaura sem höfðu allir hunda á milli fótanna að renna sér niður brekkuna, frekar spes.

Þegar við vorum búnir að skíða náðum við í Jón sem var þá nýbúinn að ljúka skólanum. Við fórum saman í bæ sem var rétt hjá sem heitir Zell am See og er mjög fallegur skíðabær sem Íslendingar stunda víst nokkuð grimmt. Þar mun Jón koma til með að vinna í vetur sem skíðakennari. Við duttum í léttan kvöldmat þar á króatískum stað og skutluðum við svo Jóni heim til sín.

Síðan lögðum við af stað heim á leið. Á leið okkar tókum við eftir nokkrum stórum húsum sem stóðu uppúr öllum hinum húsunum í litlu þorpunum. Þetta voru svona hús sem voru rauðupplýst og á þeim stóð t.d. night club Jackline eða night club Claudia. Það er því nokkuð auðvelt að geta giskað á hvers konar klúbbar þetta voru.

Á leiðinni heim spjölluðum við Steinn um heima og geima eins og gengur og gerist þegar menn keyra saman í lokuðum hippabíl í fimm klst. Kom það upp úr krafsinu að Steinn ætlar að láta þennan bíl bara vera hérna í Vín næstu árin og sagði hann við mig að ég mætti fá að nota hann ef hann væri ekki að nota hann. Þá fór hugurinn að reika og gat ég ekki hægt að hugsa um hvað það væri algjört draumaferðalag að fara með henni Ingibjörgu minni um Miðjarðarhafið á honum með viðkomu í Feneyjum. Ég væri allavega mjög hrifinn af því.

Steinn henti mér svo út í Wiener Neustadt sem er mjög nálægt Vín og hoppaði ég þar upp í lest. Á lestarstöðinni voru tveir ansi grunsamlegir gaurar sem voru rauðir um augun. Ég hélt að það væri allt í lagi bara að labba fram hjá þeim og reyna að veita þeim sem minnsta athygli og þá væri bara allt í fínasta. En nei, ég var ekki svo heppinn, þeir fóru eitthvað að bregða mér og var mér bara ansi brugðið enda voru þeir örugglega á einhverju sem var aðeins sterkara en appelsín og viðbrögð þeirra voru því í þeim dúr.
En svo gerðist ekkert meira og komst ég heim heill á húfi. Um nóttina kom svo Tóta(Þórhildur Briem), gömul bekkjarsystir mín og flutti inn í húsið(stigaganginn) þar sem ég á heima. En hún er komin hingað til að stunda tungumálanám næsta mánuðinn og flytur hún svo í lítinn skíðabæ í vestur-Austurríki um jólin til að fara að vinna þar.

Daginn eftir fór ég svo og hitti hana Tótu og sýndi ég henni um bæinn. Við tókum þetta klassíska túristarölt þar sem að ég sýndi henni allar hallirnar, húsin og jólamarkaðinn í Vínarborg.
Ég sýndi henni svo hvar væri best að kaupa inn matinn og skildi svo við hana því ég þurfti að fara á fótboltaæfingu

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Guthaben(símainneign, en bein þýðing væri líklegast „gott að hafa“)
Mynd dagsins:
IMG_1111
Útsýnið frá fjallinu


Breskt fólk er ákveðinn þjóðflokkur sem hefur enga sína líka

Góða kvöldið kæra fólk,
um helgina hoppaði ég upp í húsbílinn hans Steins Orra Erlendsson og úr varð bara hið besta ferðalag þar sem að við hittum vin okkar hann Jón Briem og treggáfaða breska vini hans.

Föstudagur og laugardagur:

Það byrjaði allt þannig að ég kom tók lestina frá Vín til Wiener Neustadt þar sem að Steinn(a.k.a Beowulf en ég kem því að seinna) sótti mig og við lögðum af stað í ferðalag til Kaprun, lítill skíðabær sem vinur minn hann Jón Arnar Briem býr í og stundar þar skíðanám því hann mun koma til með að vera skíðakennari bráðum.
Steinn var mættur að sækja mig um svona ellefu leytið um kvöldið og tók ferðalagið um fimm klst. Þannig að við tókum þá sniðugu ákvörðun að gista bara á leiðinni í stað þess að keyra alla leið enda kl. orðin hálf fjögur að nóttu til og við áttum þó nokkuð mikið eftir að keyra. Við ætluðum fyrst að leggja við eitt hús en komumst að því að hann hét Relax-Club Tiffany og ákváðum við því að hætta við það og leggja í staðinn fyrir framan Spar(matvöruverslun) og sofa til sjö þegar að búðin mundi opna. Við vöknuðum því morguninn eftir, keyptum inn og lögðum af stað og vorum mættir til Jóns um tíu leytið.

Það voru miklir fagnaðarfundir að hitta þennan litla dreng(hann er hálfum sentimetra minni en ég) og var það svoldið fyndið að þegar að ég sá hann fyrst kallaði ég mjög hátt til hans „what‘s up vanilla face?“ og við hlið hans var gamall austurrískur reynslubolti sem líkaði auðsjáanlega ekki að heyra svona endemis vitleysu svona snemma í morgunsárið og hristi höfuðið allrækilega.
Jón sagði okkur frá ýmsu skemmtilegu sem á daga hans hafði drifið og þá aðallega um norður-írskan dreng sem var með honum í námi. Hann hafði víst týnt passanum sínum, símanum sínum, veskinu sínu og ýmsu öðru á mismunandi dögum. Svo tók hann víst einnig upp á því að vakna í skottinu á einhverjum sendiferðabíl í skíðaúlpu sem einhver lítill strákur án þess að hafa hugmynd um hvernig hann hafði komst þangað. Og til þess að toppa þetta allt þá borðaði hann pottalepp(korkur sem maður setur undir potta) því hann hafði engan pening á sér og var svangur.
Við fórum aðeins upp í húsið hans Jóns og kíktum á strákana sem Jón býr með. Þetta var bara mjög flott hús en því miður býr hann bara með Bretum svo að hann hefur fá tækifæri til að tala þýsku en þeir bresku bæta það upp með því að vera mjög skemmtilegir. Ég fékk svo tækifæri til að láta ljós mitt skína og fékk ég algjört þáþráar kast við að tala við þá enda fékk ég að njóta þess að tala með mínum brightoníska hreim án þess að einhverjir íslendingar voru að skammast yfir því.

Eftir að hafa heilsað upp á strákan lögðum ég og Steinn í ferð upp á fjallið sem er við bæinn sem heitir Kitzsteinhorn og er það eitt af fáum skíðasvæðum í Austurríki sem er opið á þessum tíma. Jón var svo góður að lána mér skíðin sín því að hann var í þýskuskóla þennan daginn. Það er því gott að eiga góða vini á réttum stöðum-ekki bara í bönkunum. Ég skíðaði og Steinn var á bretti og var það bara mjög góð skemmtun.
Þegar við snæddum hádegisverðinn okkar sátum við, við hliðina á austurrískri fertugri konu og var Steinn svo góður að bjóða henni súkkulaði og tel ég það bara vera einn besta ísbrjót sem ég hef heyrt. Hún afþakkaði en í staðinn sköpuðust töluverðar samræður og spurðu hún okkur hvort að við værum þýskir. Það var mjög stolt andartak hjá okkur Steini og lifðum við á því næstu klukkutímanna. Einnig sagði Steinn við aðra fertuga hálf þýska-hálf írska konu „Magst du ein wunderschön Bananen Traum?“(„Má bjóða þér einn alveg yndislegan banana draum?“(Banana Traum er fáránlega vont jógúrt sem að við gátum ekki mögulega borðað)). Hún gersamlega skellti upp úr og sagði að þetta væri ein besta pick-up lína sem að hún hafði áður heyrt frá karlmanni, þrátt fyrir að það hafði alls ekki verið hugsunin hjá Steini.

Að skíðaferðinni lokinnfórum við í Towern Spa sem Jón gat reddað okkur inn. Það er víst alveg rándýrt að fara þangað og er þetta alveg rosalegt 2007 dæmi. Við getum orðað það þannig að fara þangað finnst mér vera mjög góð hugmynd að fyrsta stefnumóti og er þetta líklegast svona staður sem að væri talið mjög óeðlilegt á Íslandi að halda ættarmót á því að allir eru kviknaktir þarna inni. Mér leist ekkert alltof vel á þetta en eftir að Steinn sagði að hann hafði fæðst nakinn þá náði ég að sannfærast(reyndar sagði Jón að hann hafði fæðst í jakkafötum en það er allt annað mál).Við vorum því bara slakir í spainu naktir með köllum á öllum aldri og eldri konum eins og ekkert væri eðlilegra. Svo komumst við að því að það er víst líka til Spa fyrir fólk sem vill vera í fötum en hún er miklu minni og lélegri. Það eru því frekar skýr skilaboð þarna.

Að spainu loknu drifum við okkur aftur upp í hús til Jóns þar sem að bresku drengirnir héldu partý. Herra Bacon tók á móti okkur(það er gæi sem er rauðhærður og elskar beikon og er því kallaður Bacon) og vísaði okkur inn í partýið. Þeir ensku voru ekki lengi að gefa Steini gælunafn og kölluðu hann „Beowulf“ og „Goliath“ enda stór og massívur drengur sem maður vill ekki mæta í dimmu húsasundi þrátt fyrir að hann sé mjög ljúfur maður. Einnig fékk ég nafnið „Iceman“ og eitthvað nafn úr Die Hard sem ég man bara alls ekki en er grjóthart.
Ég komst að því að eitt af því skemmtilegasta sem Bretar gera í partýum er að syngja svona bergmálssöngva. Þar syngur einn og allir herma eftir honum þegar hann er búinn, getur verið mjög fyndið ef góður maður stýrir. Þeir sungu sama lag og litlu stelpurnar í Þrótti gera í stúkunni á Valbjarnarvelli.

Við ræddum heilmikið við þá og kemst ég að því að Bretar hafa alls ekki mikið álit á sjálfum sér. Þeir töluðu til dæmis um hvað þeir væru heimskir upp til hópa og hvað þeir væru yfirhöfuð bara ómyndarlegir. Jón hafði nefnilega sagt þeim frá því að víkingarnir hefðu komið til Englands og stolið öllu fallega kvenfólkinu og var sá maður bara mjög vonsvikinn yfir því. Mig langaði til að sanna mál mitt fyrir honum og sýna honum mynd af Ingibjörgu minni málinu til stuðnings en ég náði að halda aftan að mér.
Einnig var þarna einn 18 ára drengur sem var að bíða eftir smsi frá fyrrverandi kærustunni sinni um hvort að hann væri að verða pabbi eða ekki. Ég er því miður ekki ennþá búinn að komast að niðurstöðu málsins.
Það er einnig gaman að því að að enginn þeirra talar einhverja þýsku en samt ætla þeir einhvern veginn að verða allir þýskumælandi skíðakennarar.
Að partýinu loknu kíktu við aðeins á eina skemmtistaðinn í bænum enda ekki stór bær. Ég fór svo heim til þeirra og fékk að gista á sófanum þeirra sem var bara hið besta mál enda skítkalt úti.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Grüss Gott(stytting af „Grüss dich Gott“ sem þýðir halló, en bein þýðing er „megi guð heilsa þér“)
Mynd dagsins:
IMG_1108

Steinn í stíl við bílinn sinn(hann vakti mjög mikla lukku í þessari mussu sinni á skíðasvæðinu)


Það er til eitthvað sem heitir að vera reglusamur og eitthvað annað sem heitir að vera mjög reglusamur!

Heilir og sælir kæru lesendur,
ég vaknaði bara fresh fresh í gær og dreif mig í vinnuna ásamt ítölunum mínum. Þeir voru sendir í að hjálpa eitthvað til með að mála og yfirfara geymsluna þannig að ég sá þá ekkert meir þann daginn. Við getum orðað það svoldið þannig að dagurinn byrjaði ekkert rosalega vel og leið mér hreint út sagt bara illa um morguninn vegna þess að rúmenski maðurinn sem var yfir mér á þessum tíma á örugglega við einhver geðræn vandamál að stríða og þolir ekki auk þess nýtt starfsfólk, sem er mjög slæmt þar sem að Salm Braü sem ég vinn hjá er alltaf að fá nýtt útlenskt starfsfólk og sum kunna takmarkaða sem enga ensku hvað þá þýsku. Honum líkar semsagt mjög illa hvað ég geri allt hægt og hvað ég sé lélegur(minnir mig líka mjög oft á það og hefur margoft sagt við mig að hann langi til að reka mig heim). Hann er auk þess bara mjög dónalegur og hef ég verið að velta því fyrir mér hvort að það sé eitthvað sem er eitthvað tengt við austur-evrópu lönd því að ítölsku strákarnir sem búa með mér segja að einn annar rússneskur þjónn sem vinnur þarna sé ennþá dónalegri en hann. Auk þess sem fólkið í St. Pétursborg var mjög dónalegt þegar Verzló fór þangað.
Þennan daginn vann ég með strák frá Spáni sem er viðskiptafræðingur sem hafði búið í Vín í sex mánuði. Skemmst er frá því að segja að hann talaði að sjálfsögðu enga þýsku og mjög, mjög takmarkaða ensku þar sem að hann er alltaf bara með Spánverjum hérna(hvernig fara þeir að þessu?). Mér finnst nógu erfitt að tala ekki mjög góða þýsku hérna!

En með tímanum fór þetta að batna ansi vel og undir lok dagsins leið mér bara ágætlega, ég kom með Freyjumix fyrir starfsfólkið og var það mjög vinsælt og var ég farinn að gera allt hraðar og betur og gera færri mistök og þar með var ég farinn að fá færri og færri skammir frá vini mínum honum Florin(mér fannst þó alltaf betra þegar hann fór út í reykingapásur). Það gæti líka verið að hann linast með deginum því að á hverjum morgni setur hann á sig stór headphone og hlustar á þau í klst. Við það peppast hann mjög mikið upp held ég, en svo róast hann þegar áhrif tónlistarvímunnar(eða einhverjar annarar vímu) renna af honum.

Svo ég tali nú eitthvað um staðinn þá er þetta mjög flottur staður, hann virkar frekar lítill að utan en svo er þetta mjög stórt þegar maður kemur inn vegna þess að það er heilmikill kjallari undir honum og hefur verið bruggaður bjór í þessu húsi síðan 1516.
Einnig finnst mér frekar skrítið með þennan stað miðað við allt annað í Vín hvað hann er óumhverfisvænn. Það er notað bara pappír í allt og alveg rosalega mikið af honum, það er ekkert grín(eitt af því sem Florian hefur skammað mig fyrir er hvað ég nota lítinn pappír!)
Ég hef líka mjög gaman að því að það kemur á hverjum degi ein mjög reglusöm manneskja til okkar. Hún heitir Frau Eliz og er um áttrætt, frekar tannlaus og kann að segja góðan daginn á íslensku og fullt af öðrum tungumálum. Hún kemur alltaf klukkan þrjú, fær sér einn bjór, fer svo á klósettið kl. kortér í fjögur, er þar í akkúrat hálftíma, fær sér svo annan bjór og fer svo kl. 5. Þetta hefur hún víst gert í einhver þrjátíu ár og talar að sjálfsögðu með rosamiklum austurrískum hreim, ég er bara ekki frá því að þessi austurríski hreimur minni bara töluvert mikið á skoskan hreim, hann er það slæmur.

Þegar ég var búin í vinnunni fór ég á fótbolta æfingu en kom við í H&M til að kaupa mér svartar buxur fyrir vinnuna. Ég sofnaði auðvitað í U-bahninum og kom því of seint á æfingu(mjög pirrandi vandamál oft á tíðum). Um kvöldið bauð Steinn(sem fór með mér til Bratislava) mér svo með sér á skíði og ætlum við að kíkja til vinar míns hans Jóns Arnar Briem þar sem að hann er skíðakennari í einum litlum skíðabæ hér í Austurríki og svo kemur frænka hans og fyrrverandi bekkjarsystir mín hún Þórhildur Briem á næsta sunnudag og mun hún koma til með að vera hérna í Vín í mánuð í þýskuskóla(mætti halda að ég væri bara mættur upp í Skot(Briem-ættar óðalið))

Í dag mætti ég svo og fékk þær góðu fréttir að maðurinn sem mundi vera yfir mér héti José og væri spænskur(ítölsku strákarnir höfðu talað um að það væri best að vinna með honum). Það reyndist bara vera alveg satt því að hann var bara mjög fínn, sultuslakur og talaði bara fína þýsku. Reyndar var hann Florian líka að vinna en hann var ofan í kjallara og gerðist það því mjög sjaldan að ég þurfti að vinna með honum. Reyndar var það svo gott að einu sinni fékk hann eitthvað reiðiskast og sagðist ekki vilja með mér langur og fór því bara ofan í kjallarann og var þar restina af deginum, ég þakkaði honum að sjálfsögðu bara pent fyrir það þannig að hann heyrði.

Seinna um daginn var ég mjög sáttur þegar að nokkrir þjónar voru að fara yfir listann hverjir höfðu pantað borð. Þá fóru þeir allir að hlægja og ég skildi ekki af hverju, þá var það útaf því að einhver Herr Fritzl hefði pantað borð. Ég hló að því að sjálfsögðu með þeim og sagði þeim frá sögunni minni í skólanum þegar að ég skrifaði um „Jósef Fritzl í draumalandi“. Þeim fannst það mjög fyndið og finnst mér gott að vera búin að finna austurríska menn sem finnst þetta líka fyndið.
En jæja þá er komið nóg af þessu. Nú þarf ég að fara að pakka ofan í töskur því að ég er að fara að hitta hann Stein og saman ætlum við að renna okkur niður brekkur á hinum ýmsu farartækjum.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Servus(Hæ á Austurrísku, fólk notar þetta miklu meira en „Grüss gott“ og fólk skilur varla þegar ég segi „Hallo“)
Mynd dagsins:
IMG_1107
Ég með Frau Eliz sem hefur keyrt í sig tveimur bjórum kl. 3 á hverjum degi hérna í Salm braü síðustu þrjátíu árin

P.s. Fyrir þá sem ekki vissu það þá er ég bara hættur við að fara til Spánar og kem ég því bara alveg heim í febrúar, sorrý lean mean Stein machine(Steini Grand) að ég get þá ekki notað Borat-skýluna sem að þú gafst mér í afmælisgjöf á ströndum Spánar, ég held að ég lúkki samt bara alveg jafn vel í henni í Nauthólsvík. Mér fannst þetta bara vera nóg komið að vera fram i febrúar. Ég get bara einhvern tímann seinna flutt út til Spánar.


Það er ekkert grín að vera starfsmaður í þjálfun

Góða kvöldið kæru hálsar,
í gær staulaðist ég á lappir og dreif mig í vinnunna á veitingastaðinn/bjórhúsið Salm Braü. Var ég bara þokkalega jákvæður fyrir vinnunni og hlakkaði meira að segja bara svo lítið til að byrja þrátt fyrir að ítalarnir sem ég bý með séu alltaf að væla yfir henni(enda lít ég á þá sem talsverða aumingja).
Um leið og ég kom fann ég samt ansi vel fyrir því að ég væri „nýi gæinn“, ég var látinn í öll auðveldustu verkefnin eins og það á auðvitað að gera við nýtt starfsfólk. Í byrjun vaktar var ég að sjálfsögðu látinn sækja allt og fara með allt þar sem að það er mjög auðvelt og kostar ekki mikla reynslu. Í einni(af svona 37) af þessum ferðum mínum tók ég eftir nokkrum ansi skemmtilegum ljósmyndum á veggjunum og sú sem stóð að sjálfsögðu upp úr var af þeim mikla meistara Hugo Chavez þar sem hann var með nokkrum refum að hafa gaman. Ég var því mjög stoltur að vinna á stað sem hefur tekið við peningum frá félaga mínum honum Hugo.
Ég hafði smá verið að vonast eftir því að fá að vinna í Lederhosen(októberfest búningur) en því miður varð ég ekki svo heppinn og má sjá mynd af mér í hinum rétta vinnu búningi hér fyrir neðan. Seinna komst ég að því að fólkið sem er í svona búningum hafa öll unnið í svona 5 ár eða meira þannig að það er ansi ólíklegt að ég fái að gera það miðað við að ég verði hérna í 2 og hálfan mánuð í viðbót.

Þegar vaktin svo byrjaði var ég svo heppinn að Silja(íslenska stelpan sem býr í sama húsi og ég) var látin sýna mér á allt. Ég fékk því mjög góða kennslu en svona tekur því miður bara tíma að læra og vonandi verð ég orðinn góður eftir nokkra daga. Silja sagði mér það að þjónarnir hérna væru ansi mikið fyrir það að rembast við það að segja brandara(því miður eru þeir oftast frekar slæmir) og tók ég strax eftir því. Það leið ekki langur tíma þangað til að ég var farinn að heyra klassíska brandara á borð við „wie geht‘s JonAAAAAAAS“(hvað segiru JonAAAAAAAS?“ og „hasst du ein Bruder Jonasbrother?“(átt þú bróðir Jonasbrother?). En ég hló bara þeim, hef örugglega heyrt báða þessa brandara samtals svona 184 sinnum.
Starf mitt eins og staðan er í dag felst aðallega í því að vera á bakvið barinn og hella ýmsum drykkjum í glös og þrífa þau svo. Þetta hljómar eins og starf sem er ekkert rosalega mikið að gera í en þetta er alveg frekar mikil vinna því að þetta er mjög stór staður og mikið stress alltaf í starfsfólkinu því að það er alltaf mikið að gera(já austurríkismenn eru alveg að fá sér bjór kl. 10 á mánudögum og borða Spareribs með því)

Þegar að ég var búinn í vinnunni fór ég á æfingu en átti nokkuð erfitt uppdráttar þar sem að ég var ansi þreyttur eftir fyrsta vinnudaginn. Þegar ég var búinn á æfingunni hoppaði ég upp í sporvagn og kom mér heim með þó léttu stoppi í kjörbúð því að okkur vantaði eitt og annað á heimilið. Í búðinni varð ég nett hræddur eftir að konan sem var fyrir framan mig fékk gjörsamlega brjálæðiskast eftir að henni fannst hún fá 10 centum of lítið í afgang. Hún hélt alveg einn grimman reiðilestur yfir aumingjas asísku kassadömunni og hélt áfram þessum reiðisöskrum út alla búðinna. Ég vona að hún hafi frekar verið bara snargeðveik heldur en klikkaður rasisti. Nema að rasismi sé bara ákveðin tegund af geðveiki?
Þegar ég kom út úr búðinni sá ég búð sem seldi bara Play station 1 og Nintendo 64 leiki. Ég veit ekki alveg hvernig þannig búð getur lifað af en það er auðsjáanlega bara nóg af fólki hér í Vín sem þarfnast þessarar þáþráar(nostalgíu).

Daginn eftir vaknaði ég og kom mér aftur í vinnuna. Nú mætti ég deginum ríkari en þó kannski ekkert mikið betri. Við gerðum þessi klassísku verk, ég fór út með ruslið, sótti eitthvað inn á lager og fyllti á. Þegar að það var svo komið að hádegismatnum var sagt við mig að ég mætti panta hvað sem er af matseðli og þurfti bara að borga helmingsverð, ég skellti mér því að sjálfsögðu á Spare ribs. Þegar að ég var við það að fá matinn þá kom maðurinn sem var yfir mér og hélt yfir mér ágætis reiðilestri(einn af mörgum þennan daginn). Þar sem að hann sagði að ég mætti ekki panta mér spare ribs því að það tæki alltof langan tíma að gera og borða og auk þess fengi ég ekki helmingsafslátt af mat sem kostaði yfir 10 evrur af matseðli. En ég fékk þó að borða þetta því að ég var nýr og vissi ekki af þessu auk þess sem ég fékk afsláttinn góða.

Þessi sami maður hélt mér svo reglulega uppfærðum þar sem að hann skammaði mig fyrir eitt og annað,(þokkalega pirraður gæi frá Rúmeníu, örugglega á kókaíni og er svona 150 cm með alltof stórann haus miðað við líkama(frekar fyndinn týpa)) enda var ég nýr og gerði margt vitlaust auk þess sem að það er ekkert rosalega mikið pláss hérna á vinnustaðnum og finnst mér ég alltaf vera fyrir. Einnig er ég stundum ekki alveg viss á því hvernig ég eigi að taka því að það er einn karlkyns kokkur sem er alltaf að brosa til mín og hefur nokkrum sinnum gefið mér fingurkoss.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Rote Teppisch(rauða teppið, það þýðir að ég eigi að sópa af rauða teppinu. Gerist mjög reglulega)
Mynd dagsins:
IMG_1105
Ég í vinnugallanum mínum


Hvað er það sem er fullt hús matar sem engar dyr eru á?-Gólfið mitt

Góðan daginn,
á síðasta föstudag var síðasti dagurinn minn í skólanum, þannig að í þessari viku byrja ég að vinna. Ég að mæta á eftir kl. 14 til að hitta herra Jörgen sem er eigandi staðarins Salm Bräu(veitingastaður sem bruggar sinn eigin bjór) og mun hann fara yfir með mér hvað ég mun koma til með að gera á staðnum.
Ég fór á fótbolta æfingu og var það mjög gaman auk þess að ég kynntist mínum fyrsta Gunther hér í Austurríki, það var mjög mikilvægt augnablik fyrir mig þar sem að ég er mikill áhugamaður um Gunthera. Einnig á ég alltaf eftir að segja að það er geðveikt að við hendum alltaf sveittu fótboltagöllunum okkar í hrúgu og svo eru þau þvegin og fersk fyrir næstu æfingu. Ég er mjög hrifin af þessu fyrirkomulagi verð ég að segja.
Að æfingu lokinni þegar að ég kom heim mætti mér ansi mikil æt hamingja. Foreldrar hans Ceco(gaurinn sem ég bý með) höfðu komið í heimsókn og bara komið með svona 40 kg af mat sem er algjörlega geggjað! Ekki nóg með að allir skápar voru fullir heldur einnig gólfin. Um kvöldið komu þau svo til okkar og við borðuðum saman þar sem að mamman eldaði. Foreldrar hans Ceco eru algjörir fagmenn og er mamma hans mjög skemmtileg og pabbinn einn mesti silfurrefur sem ég hef kynnst. Þar sem að þau eru frá Süd-Tirol sem tilheyrði Þýskalandi þangað til að Versalasamningarnir voru undirritaðir eftir fyrri heimstyrjöldina þá er menning þeirra töluvert frábrugðin menningu t.d. fólks frá Róm. Helmingurinn af fólkinu í bænum sem þau búa í tala t.d. þýsku. Þetta útskýrir af hverju Mo-Do er þýsku mælandi Ítali og er Gema tanzen mállýska frá Süd-Tyrol (Þeir sem vita ekki hvað ég er að tala um geta hlustað á eftirfarandi lag:
http://www.youtube.com/watch?v=savFCAxjCvM). Einnig er ég búinn að kenna strákunum að segja alltaf „gut, gut, super gut“.
Auk þess sem þessir Ítalar tala ekki nærrum því jafnmikið með höndunum og flestir ítalar mundu gera en þau eru samt alltaf að segja „mamma mia“(án gríns, alltaf)
Um kvöldið var svo haldið út á lífið en þar sem að það voru allir svo þreyttir var farið snemma heim sem var svosem allt í góðu.

Á laugardaginn hitti ég svo íslenskan dreng sem er nýfluttur hingað í húsið. Gaman er að segja frá því að ég þekkti hann ekki neitt fyrirfram en eftir smáspjall komst ég að því að ég vissi bara alveg hver þetta var og hvað hann hét. Hann heitir nefnilega Sigurður Ýmir Richter og var í Verzló bara í þriðja bekk. Hann hafði nefnilega verið með krökkum úr bekknum mínum í bekk í Verzló þannig að ég hafði heyrt eitthvað um hann auk þess sem það vakti ansi mikinn áhuga hjá mér að hann væri barnabarn Sigurðs H. Richters hins mikla meistara sem stýrði þáttunum „Nýjasta tækni og vísindi“ sem ég horfði á dáleiddur þegar ég var minni
(brot úr þætti:
http://www.youtube.com/watch?v=j11sglsWisI)

Um kvöldið buðu foreldrar hans okkur út að borða og var að sjálfsögðu haldið á ítalskan veitingastað. Í sporvagninum á leiðinni settist ég niður og á næstu stöð kom alveg gjörsamlega sjúkur trúður með gula hárkollu og settist við hliðina á mér. Við getum bara orðað það þannig að ég var þá orðinn töluvert lítill í mér því að frá því ég var lítill hef ég alltaf verið ansi hræddur við trúða og létti það mjög af mér þegar að hann fór út. Við fengum okkur pizzu og enginn var glaðari heldur en strákarnir því að þeir höfðu ekki fengið pizzu í þrjár vikur og voru þeir farnir að fá fráhvarfseinkenni. Ég fékk mér pizzu af matseðli sem hét eitthvað pepperoni. Svo kom pizzan og þá komst ég að því að þetta var bara alls ekki það pepperoni sem ég var að búast við, neibb þetta var einhvers lags chilli rót og þar sem að ég er ekki með sterkustu bragðlauka í heima ákvað ég að gefa Ceco bara allt pepporonið mitt. Þegar reikningurinn kom ætlaði ég svo að fá að borga fyrir matinn minn en foreldrarnir þvertóku fyrir það gjörsamlega. Ekki nóg með að þau komu með svona 40 kg af mat fyrir okkur heldur bættist pizza við í þokkabót! Sögðu að í kvöld væri ég gestur þeirra.

Sunnudagurinn leið eins og vera ber og hélt ég í ferð með íslendingunum sem búa hérna í smá bæjarferð, þeim Silju og Sigurði. Silja er frá Akureyri og Sigurður úr Hafnafirði. Við fórum í þessa klassísku túristaferð skoðuðum hallir og bæinn. Silja þurfti svo að drífa sig í vinnuna og ég kenndi Sýma(Sigurður Ými) að borða kepab þar sem að hann hafði orðið fyrir slæmri kebap reynslu í Bratislava.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Schnupfen(kvef, frekar fyndið hvernig þetta er borið fram)
Mynd dagsins:
DSC_0081
Allur maturinn sem foreldrarnir komu með(þetta er meira að segja ekki allt!)


Allt er vænt sem vel er grænt(oftast)

Sælt veri fólkið,
frá því að ég kvaddi Ingibjörgu mína á mánudaginn í Belgíu hefur eitt og annað gengið á í lífi mínu hér í Vínarborg.

Á þeim merka degi þriðjudegi kom ég mér þæginlega fyrir í skólanum og úr varð ágætis skóladagur. Að skóla loknum þurfti ég að drífa mig því að það var ekki alltof langur tími á milli þess að ég var búinn í skólanum og þangað til að ég þurfti að mæta á fótboltaæfingu.
Þetta var fyrsta æfingin min hjá liðinu Helfort SPC. Þegar ég mætti þangað fékk ég ansi góðar móttökur, mér var boðin bara heilgalli til þess að æfa í og allir í liðinu tóku í hendina á mér og buðu mig velkominn.

Þegar komið var út á æfingasvæðið fannst mér eitthvað gruggugt með hvernig mönnum ég var að æfa. Þarna voru þrír bara töluvert feitir gæjar og menn voru ekkert rosalega góðir, þá fóru að renna á mig tvær grímur hvort að þetta væri eitthvað sniðugt.
Mér til mikillar gleði kallaði svo annar þjálfari á mig og sagði mér að koma til hans. Það voru töluvert betri gæjar og var ég því mjög sáttur að fá að æfa með þeim í staðinn. Æfingin gekk bara vel og ekkert meira um það að segja, nema þá kannski það að ég á rosalega erfitt með að skilja þá því að þeir tala svokallaða Vínarþýsku sem er mjög ljótt afbrigði af þýsku verð ég að segja.
Að æfingu lokinni fór ég svo í sturtu og ætlaði bara heim á leið eins og gengur og gerist heima. Strákarnir voru ekki alveg að taka vel í það og buðu mér inn á veitingastaðinn sem er inn í félagshúsinu. Það er víst alltaf siður hjá þeim og þjálfurunum að setjast niður, drekka bjór(sem var ókeypis) eða eitthvað annað og ræða málin. Ágætis siður finnst mér þrátt fyrir að mér finnist það ekki passa að keyra bjór svona í mig strax eftir æfingu. Í hvert skipti sem einhver fór tók svo þessi aðili í spaðann á öllum og kvaddi(ekki nóg að gera bara eins og á Íslandi að segja hástöfum „bless“ og fara)

Daginn eftir fór ég fyrst niður í ráðhús til að skila dvalarleyfisumsókn(Meldzettel) áður en ég fór í skólann. Á leið minni þangað tók ég eftir því að stelpa í grænum jakka fór að kalla hallo, hallo. Ég hélt að hún væri að tala við einhvern annan þannig að ég hætti að spá í því. En eftir því sem meira hún kallaði hallo og var alltaf að horfa á mig og enginn var fyrir aftan mig fór mig að gruna að hún væri að tala við mig.
Ég labbaði því til hennar og spjallaði aðeins við hana. Ég fékk þá tilfinningu að ég væri besti vinur hennar og var hún full mikið spennt fannst mér yfir því hvað ég væri að gera hérna og hvar ég væri í skóla o.s.frv. Eftir ágætan tíma þá spurði hún mig hvort að ég þekkti eitthvað til Green Peace. Þá loks skildi ég af hverju hún var svona ofurvinaleg því almennt eru Austurríkismenn ekki opnasta fólk í heimi. En vegna þess að skrifstofan lokaði eftir 10 mín þá þurfti ég að drífa mig og sagði ég því við hana að ég þyrfti að fara. Þarna kom það sér ansi vel að skrifstofan lokaði snemma því annars væri ég núna kannski í Green Peace.
Ég fór í skólann og að honum loknum ætlaði ég á yogaæfingu. Því miður fyrir mig hafði ég lesið eitthvað vitlaust á töfluna og komst að því að æfingin hafði byrjað 45 mín áður en ég bjóst við. Þannig að ég var því of seinn og missti því af æfingunni.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Gurke(klobbi á vínarþýsku)
Mynd dagsins:
IMG_1101
Ég í æfingagalla Helfort SPC, sveittur og nýkomin af æfingu


Íslenskar stelpur geta einnig stigið tryllta afríska ættbálkadansa

Sunnudagur:

Bonjour,
við vöknuðum þann daginn upp við fuglasöng, hvín í trjám, Belga að borða baguette og sólargeisla, nei djók. Við bjuggum rétt hjá einhverjum verksmiðjum þannig að umhverfið var ekkert upp á rosalega marga fiska þrátt fyrir að hótelið hafi verið algjör snilld.
Þetta var klassískur dagur, Inga fór í æfingabúðir og ég kom til hennar í pásunni hennar og að þeim loknum fórum við upp á hótel...

Að þessu sinni vorum við bara ansi snemma á því og fórum við út að borða um svona 8 leytið(vorum vanari að vera mætt um svona 10 leytið). Fórum á ítalskan stað, sem seldi jú að sjálfsögðu pizzur. Þar sem að ég er orðinn ansi vanur ítalskri pasta menningu þá ákvað ég í staðinn að fá mér flatböku og var Inga bara sammála mér í því. Á staðnum sáum við mesta menningarmóhoka sem við höfum séð. Það var maður þarna sem var einn og slakur á því með rosalega góða mottu að lesa bók með góðu rauðvíni á borðinu og notaði saltstaukana til að halda blaðsíðunum niðri á meðan að hann gæddi sér á girnilegri máltíð. Verst að við náðum ekki mynd af honum!
Á matseðlinum sá ég ansi girnilega flatböku sem hét eitthvað á frönsku en ég náði að skilja það þannig að kokkurinn mundi velja hvað hann setti ofan á þá kringlóttu. Þetta tók Inga líka vel í og varð hún því fyrir valinu. Þegar maturinn kom sáum við að kokkurinn hafði svo sannarlega ekki brugðist okkur og gengum við bæði fersk, södd og glöð útaf staðnum.

Þar sem að þetta var síðasti dagur okkar í Brussel og Inga búin í æfingabúðunum ákváðum við aðeins að lyfta okkur upp. Næsta Pakistana hornbúð varð fyrir valinu og keyptum við einhverja fljótandi gleði af þeim ágæta manni Jawaharlal Nehru, nei djók hann hét Manmohan Singh.
Það var gott að sjá hve gleðin var mikil hjá Ingibjörgu og löbbuðum við inná stað sem hét Le Passion-Afrikan bar. Eins og giska mátti á voru einungis menn frá myrkustu skógum Afríku þarna og steig Ingibjörg trylltan dans með einni vinkonunni þarna. Svo tryllt var Ingibjörg að hún var farinn að segja oft og reglulega og nokkuð hátt: „Úggabúgga“ og annað í svipuðum gír við vinkonuna sem svaraði til baka með öðrum afrískum frösum(mjög fyndið að fylgjast með þessu)
Að þessu loknu fórum við að athuga hvort að við gætum fundið meira líf í borginni. En því miður er ekki hægt að segja að Líege sé djammhöfuðborg Belgíu í nóvember á sunnudagskvöldum og létum við því gott heita og fórum heim og hvíldum lúginn bein. Brottför frá hótelinu daginn eftir var svo áætluð kl. 6:30 daginn eftir, þar sem að lestin sem við þurftum að taka fór kl. 07:00

Mánudagur:

Hann má eiga það þessi morgunn að hann var ansi strembinn. Vöknuðum hálf sex því sumir áttu eftir að pakka. Þegar að við tékkuðum okkur útaf hótelinu tróðum við eins miklum mat og við gátum ofan í plast poka auk hnífum og skeiðum(mest af þessu var reyndar tekið af mér í öryggishliðinu seinna um daginn, en meira um það seinna)

Hoppuðum upp í lest á lestarstöðinni sem var í 2 mín og 27 sek fjarlægð frá hótelinu okkar. Stefnan var sett á Brussel midi og tók það lestina klst að komast þangað. Þar veltum við okkur út og því miður gafst ekki mikill tími til að kveðja því næsta lest sem Ingibjörg þurfti að ná kom 13 mín seinna á öðru spori. Við fundum lestina og Ingibjörg klöngraðist upp í. Þetta var gríðarlega erfið kveðjustund og féllu þónokkur íslensk tár á belgíska grundu. Það var meira en orð fá lýst erfitt að horfa á eftir stelpunni sinni fjarlægast mig á vélvæddri eimreið eftir að hafa eytt með henni 5 sólarhringum af hreinni gleði. Við erum þó sífellt núna byrjuð að tala um hve stutt það er í jólin því þá munu fjölskyldan mín og Inga koma til mín til Vín og dvelja þar í tvær vikur og get ég ekki beðið eftir jólunum(er í fyrsta skipti sem ég er glaður með að sjá jólaauglýsingar í byrjun nóvember)

Eftir þessa leiðinlegu kveðjustund þá fann ég næstu lest og var hugsunin að koma sér til Charleroi sem er flugvallarbærinn við Brussel. Eftir að allt hafði gengið eins og í sögu var næst komið að öryggishliðinu á flugvellinum(ba ba baramm). Þar sem að við höfðum gleymt að láta Ingu taka nestispokann á lestarstöðinni þá var ansi mikið sem ég mátti ekki ferðast með sem var ofan í pokanum því ég var eingöngu með handfarangur. Bara á einu bretti var því rifið af mér járnhníf(skiljanlega), jógúrt, tvær plastflöskur, nútelladollu(mjög pirrandi!) og geldollu.
Var ég svo svolítið stressaður þegar að ég var að koma að hliðinu mínu að fluginu því ég var að ferðast með Ryan air og á þeim bæ má aðeins hafa eina tösku sem má mest vera 10 kg. Ég rétt slapp og var góður á því.
Þegar ég var komin upp í flugvélina dundi annað áfallið yfir mig, ég hafði verið svo vitlaus að henda brottfararspjaldinu mínu rétt áður en ég kom inn í flugvélina og var úr heilmikið mál, ég fékk yfir mig ágætis spurningaflóð en með því að (þykjast) vera vitlaus túristi og blikka yfirflugfreyjuna á réttan hátt náði ég að vinna mér inn sæti í flugvélinni.

Þegar ég lenti í Bratislava tók ég rútu til Vínar og hér er ég svo í Kastnergasse 9, nýbúinn að skokka um stræti Vínarborgar og góður á því.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Ich vermisse dich(ég sakna þín)
Mynd dagsins:
koss í líege

Ég og Ingibjörg á járnbrautarstöðinni í Líege með geimskutlunni úr Tinnabókunum í bakgrunni


Landlægur hársjúkdómur er örugglega staðreynd í Líege

Sælir kæru lesendur, nú er ég staddur á flugvellinum í Brussel að bíða eftir fluginu mínu til Bratislava. Fyrir ekki svo löngu síðan var ég að kveðja stóru ástina mína hana Ingibjörgu og kem ég ekki til með að sjá hana fyrr en um jólin. Maður á erfitt með að ímynda sér hvað það er erfitt að kveðja á svona stundu og er þaði í raun ekki fyrr en maður prófar það á eigin skinni sem maður finnur hvað það er erfitt og óska ég engum að þurfa að upplifa það. Síðustu fimm sólarhringar eru búnir að vera hreint út sagt yndislegir og fóru fram úr mínum björtustu væntingum þótt að þær höfðu verið gífurlega miklar fyrir.

Föstudagur:

Föstudagurinn var nokkuð klassískur hjá okkur. Inga mætti í æfingabúðirnar og ég kom svo þegar hún hafði pásu. Þar sem að það var H&M búð inn í miðbæ Líege gat Inga ekki staðist mátið við að kíkja þar inn og fór ég að sjálfsögðu með henni. Þar sem að tískan er víst frekar öðruvísi þar en heima þá var víst ekkert rosalega í boði fyrir hana. Við keyptum okkur belgíska vöfflu og drifum okkur svo aftur að stað í æfingabúðirnar.
Í æfingabúðunum kom það mér svo lítið á óvart að þessi mikli karate meistari Sensai Junior Lefévre, grjótharður margfaldur heimsmeistari í karate kyssti alla karlmenn þegar hann heilsaði þeim. Ég hafði reyndar aðeins verið að taka eftir þessu en þarna kom það greinilega í ljós að allir frönskumælandi belgískir karlmenn kyssa hvorn annan þegar að þeir heilsast!
Á leiðinni heim úr strætó sá ég einnig það þegar að við mættum öðrum strætó, þá sendu strætóbílstjórarnir hvorum öðrum fingurkoss eins og að þeir ættu lífið að leysa eins og þeim fannst auðsjáanlega ekkert eðlilegra.

Um kvöldið höfðu svo krakkar frá Luxembourg sem voru með Ingu í karatebúðunum boðið okkur með sér út að borða á veitingastað í grenndinni. En þar sem að sérstök áhersla hafði verið lögð á höfuðhögg í æfingabúðunum um daginn var Inga með bullandi hausverk(já það er ekkert grín að vera í karate) og var því ekkert sérstaklega sniðugt kannski að fara með. Stelpan ætlaði aðeins að taka sér létta kríu til að reyna að ná þessu úr sér en úr varð ansi langur fálki. Þar sem að ég var orðinn ansi svangur fannst mér ansi sniðugt að fara í smá matarleit. Eftir ágætt bæjarrölt fann ég líbanskan veitingastað og þar sem að ég er ansi mikið fyrir það að prófa framandi mat þá skellti ég mér á hann og tók matinn með upp á hótel. Ingibjörg var svo líka þessi lifandi ósköp ánægð með matinn enda líka alveg glorsoltin og eins og allir vita þá elskar hún líbanskan mat.

Laugardagur:

Við vöknuðum um morguninn og fengum okkur morgunmat á hótelinu sem er algjör munaður og unaður. Inga dreif sig svo upp í karate búðirnar og ég var slakur uppi á hóteli á meðan. Þegar Inga fékk hvíld frá karate búðunum þá dreif ég mig til hennar og hjálpaði henni með smá heimanám sem hún hafði fengið í eðlisfræði. Þá kviknaði áhugasami eðlisfræði nördinn í mér og hafði ég bara gaman að því.

Þar sem að æfingabúðirnar voru búnar ansi seint hjá henni þá fórum við frekar seint út að borða. Við röltum af stað og vorum við í leit að mjög belgískum stað. Við fundum einn þannig og henti ég mér bara í úllen dúllen doff aðferðina þegar maður átti að panta matinn þar sem að ekki var möguleiki að skilja matseðilinn. Ég endaði á því að fá einhverjar kanínu kjötbollur sem reyndist bara vera hið mesta lostæti og Inga endaði á að við höldum í kjúklingarétti sem var líka mjög fínn.

Að mat loknum var förinni næst heitið á tívolíið sem var í grenndinni. Þar tókum við ástfangna parið á þetta og hentum okkur í parísarhjólið en ekkert í sjúku tækinn því að þau snérust öll rosalega hratt og ég get alls ekki farið í tæki sem snúast mjög hratt, þá fer ég bara að æla og þar sem að ég er ekkert rosalega nettur þegar að ég æli(ekkert rosa flinkur í drekanum) auk þess að Ingibjörgu finnst kanínur krúttlegar, þá ákváðum við að sleppa því. Við gæddum okkur í staðinn á crepes með auka nutella(Ingibjörg bað að sjálfsögðu um meira nutella).
Þegar að við röltum svo heim eftir góða tívolí fórum við að spá í því hvort að einhver landlægur hársjúkdómur væri í Belgíu. Við trúðum allavega ekki öðru miðað við allan þennan fjölda hárkollubúða sem við höfðum séð á þessum fáu dögum

Góður dagur var þá á enda liðinn og komin tími á endurnærandi hvíld

Fastir liðir:
Útlenska dagsins:Plus nutella s'il vous plaît(meira nutella, vinsamlegast)
Mynd dagsins:
SDC10535

Við fyrir framan parísarhjólið í Líege


Menn í Líege nota mismunandi aðferðir til að heilla mademoiselleurnar

Ég lagði af stað til Líege í Belgíu þann 31.okt, á síðasta miðvikudag. Förinni var heitið að hitta hana Ingibjörgu mína í karate æfingabúðum þar sem hún tekur þátt í þeim með landsliðinu í karate. Mamma fann mjög ódýran flugmiða þar sem að ég flaug í gegnum Bratislava og var því sá flugmiði keyptur.
Ég tók rútuna frá Vín sem tekur u.þ.b. 2 klst. Í rútunni var ég svo góður að sofna og vaknaði við það að allir voru að fara út, ég fylgdi þá straumnum og fór út. Mér fannst þessi staður vera ansi ólíkur öllum þeim flugvöllum sem ég hef áður farið á en tók þó sénsinn og fór að leita að hvar ég gæti tékkað mig inn. Eftir mikla leit að svoleiðis stað komst ég að því að þetta væri lestarstöðin í Bratislava. Ég dreif mig því aftur að rútunni og var hún alveg að fara að leggja í hann, mér til mikillar lukku náði ég að stöðva rútuna og komast aftur inn í hana(hefði verið nett pirrandi að vera strandaglópur í Bratislava með flugmiða í farteskinu útaf svona heimskulegum mistökum)

Flugið gekk vel og komst ég heill á húfi til Líege með því að fljúga fyrst til Brussel og taka þaðan lest til Líege. Það fyrsta sem ég sá á lestarstöðinni var risastór hani að tala við afgreiðslufólkið(mjög fyndið), þegar ég fór svo út sá ég fullt af fólki í búningum. Ég fattaði þá að það væri hrekkjavaka.

 Ég tékkaði mig svo fyrst inn á hótelið þar sem að hún Ingibjörg var ennþá með landsliðinu að skoða æfingasvæðið. Þar sem að ég hafði nægan tíma ákvað ég að skoða mig aðeins um hérna.
Stelpa sem er með mér í skóla í Vín hafði áður sagt mér að Líege væri helsta listaborg Belgíu og ættu margir listamenn heima þar. Ég hafði því töluverðar væntingar til borgarinnar áður en ég kom. Við getum þó orðað það þannig að þessar væntingar hafa alls ekki verið fullnægðar. Kannski er það þó bara einhver óheppni eða Vínarhrokinn í mér. Mér finnst húsin hérna almennt bara frekar ljót og tel ég Bratislava til að mynda mun fegurri borg, en nóg um það.
Ég sá ýmislegt á þessari stuttu göngu minni um borgina og til að mynda komst ég að því að rétt hjá hótelinu okkar er stærsta drasl tívolí(ferðatívolí) sem ég hef einhvern tíman séð. Við ætlum samt að sjálfsögðu að kíkja aðeins á það í kvöld(mjög rómantískt held ég, hægt að vinna stóra bangsa þar og svoleiðis).

Inga lét mig svo vita að hún væri alveg að vera komin upp á hótel. Ég dreif mig því af stað til hennar og á leið minni var ég svo heppin að hitta farandblómasala. Ég gat því ekkert annað gert en að fjárfesta í blómvönd til að færa stelpunni minni.
Þegar ég var svo að labba ganginn á hótelinu mínu, varð ég vitni að fallegustu sjón sem ég hef einhvern tímann séð. Þarna stóð Ingibjörg í landsliðsgallanum sínum, búin að vera að ferðast allan daginn, með allar töskurnar í kringum sig, hágrátandi. Ég hljóp því til hennar og úr urðu miklir og innilegir fagnaðarfundir.
Um kvöldið fórum við á kínverskan veitingastað og reyndist það bara hinn besti staður.

Ingibjörg sagði mér frá ýmsu skrítnu sem hafði komið á daga hennar, sumt fannst mér mjög fyndið en annað bara mjög rangt. Hún hafði t.d. lent í því að ætla að fara á klósettið í lestinni. Þegar hún reif í hurðarhúninn fann hún að það var læst. Nokkrum sekúndum seinna kíkir ansi grunsamlegur svertingi út, lítur mjög grimmilega á hana og aðra lestargesti , fer svo aftur inn og skellir að sér. Gaman væri að vita hvað hann hafði verið að gera þarna inni.
Einnig lenti hún seinna í því að strætóinn sem þau fóru upp í var fullur. Henni þó til mikillar lukku var einn eldri maður svo góður að bjóða henni sæti í kjöltunni sinni. Ótrúlegt en satt þá neitaði hún honum og ákvað að standa bara í staðinn, manninum til mikillar furðu og leiðinda.

Morguninn eftir(fimmtudagur) fengum við okkur staðgóðann morgunmat á hótelinu(var ég búinn að minnast á það að þetta er mjög töff hótel). Eftir morgunmat þurfti Inga að drífa sig í æfingabúðirnar og fór ég með henni. Í strætónum settumst við á bakvið einn eldri svartan mann. Hann var svo góður að færa sig yfir í hitt sætið sem snéri andspænis okkur og gerði ekkert annað alla ferðina en að stara á Ingibjörgu. Þetta þótti okkur miður skemmtilegt og er ég farinn að taka upp á því að reyna að skýla Ingu meira og meira því þetta er farið að gerast óþæginlega oft. Já það er ekkert grín að vera sæt stelpa hér í Líege.

Æfingabúðirnar sem Inga er í eru undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið í París í karate og þjálfarinn í þeim er þrefaldur heimsmeistari í kata og kumite, þetta er því eitthvað rosalega stórt nafn í karate heiminum(Senseï Junior Lefevre). Á leið okkar í karate búðirnar brá mér allrosalega. Tveir sjúkir hundar eru inn í búri við innganginn og geltu á okkur alveg á fullu(helluhart!)
Inga fékk 2 klst pásu á milli æfinga og drifum við okkur niður í bæ. En þar sem að við höfðum ekki pælt í því að frönsku mælandi hluti Belgíu væri kaþólskur þá komumst við að því á eiginn skinni að ekkert var í gangi niður í bæ á þessum degi. Allar búðir lokaðar og svoleiðis vegna þess að á 1 nóv er allra heilaga messa og er það mjög hátíðlegur dagur hjá kaþólikkum.

Þegar pásan var svo liðin dreif Inga sig svo aftur í æfingabúðirnar. Hún fattaði að hún hafði gleymt að taka með sér aukanærbuxur og vildi að sjálfsögðu ekki fara aftur í sömu sveittu nærbuxurnar. Ég spurði hana í djóki hvort að hún vildi bara ekki mínar og mér til mikillar furðu var hún bara geðveikt til í það. Mér fannst það því bara drullu fyndið að lána kærustunni minni nærbuxurnar mínar sem ég var í og dreif mig því bara inn á klósett og vippaði mér úr þeim og lánaði henni svo þær sem hún svo notaði á æfingunni.

Um kvöldið ætluðum við svo að fara eitthvert út að borða en því miður voru allir veitingastaðir lokaðir mjög snemma út af allra heilaga messu. Við náðum þó loks að finna einhvern kebab stað(blessaðir séu múslimar) og gerðum við okkur hann að góðu.

Fastir liðir:
Útlenska dagsins:
je ne pas parle français. Anglais, allemand?(ég tala ekki frönsku. Ensku, þýsku?(það tala mjög fáir ensku hérna, allir næstum bara frönsku))
Mynd dagsins:
SDC10513
Við gátum ekki annað gert en að belgja belgískum vöfflum í okkur


Óður til gleðinnar í Líege

Sælt veri fólkið,
síðustu dagar hafa verið aðeins tíðindaminni heldur en dagar mínir í Bratislava um síðustu helgi. Margt gott hefur þó gerst og mun gerast næstu daga, hæst ber þar að nefna fund minn með ástinni minni í Líege í Belgíu á morgun.

En ég mætti í skólann kl 14:15(það er nýi tíminn sem ég mæti á) á mánudaginn og var ég þá komin í nýjan bekk með nokkrum gömlum bekkjarfélögum einnig.
Eins og gamli bekkurinn minn er hann alls ekki svo einsleitur, nýju nemendurnir sem ég hef kynnst eru ein stelpa um tvítugt frá Ítalíu, Silvia, ein stelpa um tvítugt frá ítölsku mælandi Sviss, Frederika, einn strákur frá Kólumbíu sem er 18 ára en lítur út fyrir að vera svona 28, Sebastin, tvítug stelpa frá Taívan kölluð Rachel(heitir samt eitthvað allt annað). David frá frönskumælandi Sviss, algjör mottupardus og loks Jorge, mexíkóskur maður um svona sextugt.

Þar sem að skólinn var þá búinn um svona hálf sex leytið þurfti ég að drífa mig heim þar sem að mér hafði verið boðið í matarboð í minni eigin íbúð. Vinir og kærasta herbergisfélaga mína höfðu þá verið boðin í mat. Ótrúlegt en satt þá var spaghettí í matinn. Þetta matarboð byrjaði bara ansi vel, flestir ítalarnir töluðu bara góða þýsku og talaði ein stelpan við mig heillengi um Sigurrós. Svo versnaði gamanið aðeins og allir byrjuðu að tala ítölsku við matarborðið. Ég sat því þarna eins og illa gerður hlutur í þó nokkurn tíma.

Í dag fór ég svo í skólann bara ferskur á því og lauk honum með þá tilhugsun að ég mun ekki stíga fæti mínum þar inn fyrr en á næsta þriðjudag útaf för minni til Belgíu. Það er svoldið leiðinlegt hérna að það er alltaf orðið dimmt eftir að ég er búinn í skólanum. Ætli það sé þó ekki nokkuð eðlilegt þar sem að ég er búinn alltaf um hálf sex.

Eftir skóla dreif ég mig á jógaæfingu og held ég að ég hafi verið smá betri en í síðasta tíma en það er bara mitt hlutlæga mat. Eftir jóga fór ég að leita mér að fótbolta liði og heimsótti liðið Helbfahrt 15 sem er í grennd við heimili mitt hér í Vín. Mér til mikillar gleði leyfði þjálfarinn mér að mæta á æfingu á næsta þriðjudag og geri ég fastlega ráð fyrir því að mæta. Þetta lið æfir þrisvar í viku og spilar einn leik. Ég held að það henti mér bara ágætlega.

Svo er ég bara búin að vera að pakka og annað síðan þá fyrir stóra daginn á morgunn þegar að ég fæ loksins að eyða einhverjum tæplega sex dögum með stelpunni minni(Ingibjörgu) í Líege. Þannig að menn eru orðnir ansi spenntir fyrir því

Jónas þakkar fyrir sig

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Sternelf(Starálfur, lag eftir Siggurrós)
Mynd dagsins:
IMG_1094
Ég að borða pasta með fimm þýskumælandi Ítölum


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband