Færsluflokkur: Bloggar

Á ferðalögum er gott að finna sér bílastæðahús og sofa þar í húsbíl

Laugar-og sunnudagur:

Sæl verið fólkið,
ég og Steinn vöknuðum daginn eftir góðan föstudag ferskir og slakir og tilbúnir að takast á við ævintýri dagsins. Veðrið var ekki upp á eins marga fiska og við höfðum vonast eftir og var því ákveðið að rúnta um Bratislava í stað þess að ganga um hana. Stefnt var að stóra kastalanum upp á hæðinni en hægara sagt var að gera það en að segja það. Að lokum fundum við hann þó eftir að hafa spurt eldri konu um leiðbeiningar á þýsku(mjög fáir tala ensku þarna en margir tala þýsku).

Kastalinn var mjög klassískur, bara rosalega stór og örugglega hrikalega dýr. Við tókum þó eftir því að það virtist sem mikið væri eyðilagt þarna. Við fréttum það svo seinna á ferð okkar að stór hluti kastalans hafði eyðilagst í miklum bruna sem hafði átt sér stað í mars 2012. Við kíktum einnig inn á þjóðminjasafn Slóvakíu sem var inn í kastalanum sem ég verð að segja að var nú ekkert rosalega merkilegt. En salirnir sem safnið var inn í voru rosalega flottir.

Eftir dvöl okkar í kastalanum lögðum við húsbílnum inn í bílastæðahúsi sem var rétt hjá kastalanum þá tók Steinn eiginlega bara eina bestu ákvörðun ferðarinnar. Af hverju ekki bara að gista inn í bílastæðahúsinu? Sú nótt kostaði okkur einungis sex evrur og vorum við i upphituðu húsi með frábærri staðsetningu.
Eftir að hafa lagt bílnum áttum við góða stund inn í bílnum, hlustuðum á „hellað dub“ sem Steinn hafði fengið gefins kvöldið áður frá DJ-inum á Babylon og átum og drukkum.

Þar sem að það var um fátt annað að ræða en að fara niður í bæ héldum við ferð okkar þangað. Okkur til þónokkurs ama uppgötvuðum við að það var orðið alveg svívirðilega kalt úti(og við sem höfðum fengið að njóta hlýunnar inn í bílastæðahúsinu). Á ferð okkar fundum við eitt stykki bar sem handritshöfundar Eurotrip höfðu örugglega bara farið inn á því að þarna kostaði hver krús af bjór einungis eina evru.
Á barnum lenti Steinn í því að ein slóvakísk stelpa sem var í þykkari kantinum var að gefa honum undir fótinn. Hún sagði m.a. við hann(að við höldum) að hann væri ansi líkur Brad Pitt. Var Steinn mjög glaður með það enda mjög hrifin af því að vera líkt við Brad Pitt auk þess sem að hann er hrifinn af stelpum sem eru í þokkalegum holdum.

Næsta skref frá því að vera á barnum var svo auðvitað að kíkja við í slóvakíska messu. Þá vorum við á rölti og sáum að kirkjudyr voru opnar, við stigum þar inn og krupum á skeljarnar líkt og aðrir messugestir. Fimm mínútum eftir að við vorum mættir var svo altarisganga. Við gátum þá því ekki annað gert en að taka þátt í því. Við strákarnir höfum því borðað og drukkið hinn slóvakíska Jesúm. Að altarisgöngu lokinni tóku sóknarbörn í hendur á hvoru öðru og blessuðu hvort annað að kaþólskum sið og að sjálfsögðu á slóvakísku, ég hef því tekið í hendina á random slóvakískum gæja og blessað hann á slóvakísku(mér finnst það mjög nett).

Við strákarnir höfðum sammælst um það að í ferðinni yrðum við að prófa sushi-ið hérna þar sem að við erum báðir miklir áhugamenn um það japanska listform. Við fundum stað sem heitir Panda og var það því miður kínverskur staður en hann seldi sushi. Á þeim stað fengum við lítið tréskip og ofan á því voru margir sushi bitar. Þetta var því mjög fögur sjón.

Fundum næst skoskan stað í miðbænum og vildi Steinn endilega kenna mér að drekka viskí. Ég gerði bara eins og hann sagði og var þetta bara hin besta skemmtun. Við fórum síðan útaf staðnum nokkru seinna en áttuðum okkur á því eftir þó nokkuð rölt að við höfðum bara alls ekki borgað fyrir þetta. Jæja skaðinn var skeður og ekkert hægt að gera í því.

Ætluðum við svo aftur á Babylon þar sem að hafði verið spilað „hellað dub“ daginn áður. Þegar við gengum þar inn áttuðum við okkur á því að við hefðum gengið inn á jazz-tónleika. Sú tónlist var jú töluvert frábrugðin því sem við bjuggumst við en okkur líkaði þetta bara vel og settumst við niður og fylgdumst snortnir með.

Að jazz tónleikunum loknum ætluðum við í meiri ævintýraleit um næturlíf Bratislava. Okkur þó til mikillar furðu var voðalega fátt að gerast þar á laugardagsnóttu og héldum við bara heim á leið í bílastæða húsið og sváfum þar vært.
Morguninn eftir vöknuðum við og var stefnan sett á sveitir Bratislava, Steinn er jú alinn upp i sveitinni heima þannig að það voru voðalega fáir aðrir möguleikar í boði.

Við sáum svo fyrsta snjó vetrarins á leið okkar út úr bænum Pernek. Þá keyrðum við upp fjallveg sem var alveg ótrúlega fallegur og umhverfið alveg ótrúlegt. Við gátum því miður ekki klárað að fara upp allan þennan veg því að við vissum ekki hversu langur hann væri og bensínið farið að verða hættulega lítið. Við snerum því og keyptum meira bensín í smábænum Pernek.

Þar sem að við vorum ansi nálægt landamærum Ungverjalands ákváðum við að kíkja aðeins yfir til vina okkar í Ungverjalandi. Á landamærunum lentum við í því að lögregluþjónn ætlaði að sekta okkur um 140 evrur(23.000 kr.) fyrir að vera ekki með ákveðin límmiða til að mega keyra á hraðbrautum Slóvakíu. Við reyndum að malda í móginn og hann sagði þá við okkur að þar sem að þetta væri fyrsta skipti okkar í Slóvakíu þurftum við einungis að borga 50 evrur. Þá kom það sér ansi vel að við áttum ekki svona mikið í seðlum og enginn var hraðbankinn nálægur. Hann leyfði okkur þá bara að fara í gegn og sagði þó við okkur að við þyrftum að kaupa þennan límmiða. Eftir þetta héldum við okkur bara á þjóðvegunum.

Strákarnir kíktu svo við í Gasometer í Vín sem eru gamlir gasturnar sem hafa verið breytt í nokkurskonar verslunar-og skemmtimiðstöð(má líkja þessu við perluna). Þetta er þó töluvert stærra og býr fólk einnig í þessu. Við kíktum að sjálfsögðu á sushi trainið sem var þarna og gat maður borgað 11 evrur fyrir eins mikið af sushi og maður gat ofan í sig látið. Þar sem að við strákarnir erum örugglega með meiri orkuþörf en flestir aðrir get ég svo sannarlega vottað fyrir það að við borðuðum fyrir 11 evrur og rúmlega það!

Í lokin vil ég vil svo bara þakka hinum mikla fagmanni Steini fyrir frábæra helgarferð um Austur-Evrópu
Jónas þakkar fyrir sig

Fastir liðir:
Útlenska dagsins: boh vám zehnaj(blessi þig á slóvakísku)
Mynd dagsins:
IMG_1052
Ég að hafa það notalegt á svefnstaðnum okkar


You were lucky that you came in summer, in winter it can get really depressing

Föstudagur:
Sælt veri fólkið,
eftir ég hafði fengið að gista hjá því mjög svo gestrisna fólki Bjarka og Báru, lögðum ég og Steinn af stað með hippa/húsbílnum hans Steins í heljarinnar för til Slóvakíu með smá stoppi í Ungverjalandi en meira að því seinna.

Við lögðum af stað frekar seint um svona sex e.h. För okkar var heitið til Bratislava og sveitanna allt í kring án GPS tækis því að eins og að Bjarki(maðurinn sem ég bjó hjá) sagði þá er miklu leiðinlegra að ferðast með GPS tæki, miklu betra að villast aðeins.
Við komum því til Bratislava um svona átta leytið, fundum okkur bílastæði þar og ákváðum að þar mundum við gista þar þá nóttina.

Við lögðum af stað frá bílnum svo og leituðum okkur að veitingastað, á leið okkar villtust tveir Ástralir(Simon og Grant) á leið okkar sem höfðu þekkt hvorn annan í þrjár klst. Þeir voru báðir einir á interrail um Evrópu og var annar búin að vera að þrjá mánuði og ætlaði að vera mánuð í viðbót. Við fórum með þeim út að borða á eitt klassískt slóvakískt veitingahús. Þeir höfðu frá mörgu skemmtilegu að segja frá ferðum sínum í Evrópu og frá Ástralíu. Þeir hlökkuðu báðir rosalega til að sjá snjó því hvorugur þeirra hafði gert það þrátt fyrir að annar var 24 og hinn 21 árs.
Annar strákurinn hafði lent í því að hafa verið á farfuglaheimili í Króatíu og hafði svo tekið við stjórn hostelsins því maðurinn sem hafði verið að vinna þar hafði átt konu sem var að eignast barn og hann gat ekki fengið neinn annan til að sjá um það fyrir sig. Ekki vildi svo betur til en að ástralinn vekur alla á hostelinu kl 5 að nóttu til og segir við alla að þeir þurfi að drífa sig út því sjóræningjar eru að gera árás. Það var einn maður sem vildi ekki taka hann trúverðugan þannig að hann hljóp út á næstu húðflúrsstofu og lét húðflúra yfir alla puttana sína ýmis konar sjóræningja merki(sjóræningjafána, fjársjóðskort, o.s.frv.)
Hann dreif sig því svo niður aftur á hostelið og benti þessum manni á húðflúrið og sagði „who‘s the pirate now, cunt!“. Þannig að alla tíð síðan mun okkar maður líta á puttana á sér og hugsa um góðu daganna í Króatíu.

Eftir mat skildu leiðir okkar og fórum við á hið klassíska bæjarrölt. Komum við auga á einhver alveg klikkuð ljós upp í næturhimninum sem voru svipuð og friðarsúlan nema bara á bullandi hreyfingu. Við gátum því ekki gert neitt annað heldur en að komast til botns í hvaðan þau kæmu. Leið okkar lá út að bökkum Dónáar(sem er áin sem rennur í gegnum bæði Bratislava og Vín) þar sem að við komumst að því að ljósin komu frá partýbát sem var fastur við bakkann. Auðvitað fórum við um borð en komumst að því að þetta var vinnustaðapartý(mig grunar þó að þetta var eitthvað mafíupartý miðað við fólkið sem var þarna)

Þá voru góð ráð dýr og fórum við í staðinn á bátinn við hliðina á okkur. Þar reyndist bara vera hin besta stemmning enda tvítugsafmæli í gangi. Við pöntuðum okkur drykki og settumst niður, við komumst svo að því að báðum okkar fannst barþjónninn vera alveg eins og Ron Jeremy. En því miður að þegar að við tókum mynd af honum þá brosti hann eitthvað svo skringilega að hann var ekkert líkur honum þá.

Kvöldið leið og við drifum okkur niður í bæ og komumst að því hvar aðal staðirnir væru. Við römbuðum inn á einhvern stað sem var svo sannarlega ekkert líkur staðnum sem krakkarnir í Eurotrip fóru inn á í Bratislava þegar það kemur að verði. Ég og Steinn hentum okkur í einn ískaldan Apple Martini því Steinn hefur verið dáleiddur af honum síðan að hann fór til Póllands með Verzló þegar hann var í 5 bekk(vorið 2010). Þetta var auðsjáanlega bara elíta Bratislava sem var þarna og höfðum við okkur á brott þegar að við höfðum klárað drykkinn.

Við héldum því rölti okkar áfram og vorum við við það að fara að gefast upp þegar Steinn benti mér á staðinn Babylion. Þetta var nokkuð drungalegur staður ofan í kjallara og kostaði 5 evrur að komast inn. Við tókum áhættuna og komum okkur inn á staðinn. Það var rosalegt dubstep þarna í gangi en ekki margir út á gólfi og lítil stemmning. Við settumst því aðeins niður og hvíldum lúin bein. Eftir smá stund spurði ég Stein hvort að það væri ekki ráðlegt að kíkja aðeins út á gólf. Hann svaraði „jú þetta er hellað dub“ og með þeim orðum lögðum við af stað.

Vorum við því eins og óðir menn næstu þrjá klukkutímanna þar sem að við leyfðum dúndrandi teknóbassa hljóðunum að fljóta í gegnum okkur og lifðum við algerlega í okkar eigin heimi. Stemmningin varð svo bara betri með kvöldinu og var þetta ansi skemmtilegt. Ég var þó farin að taka eftir því mér til þó nokkurra óþæginda að um svona þrítugur sköllóttur karlmaður var búin að vera að horfa á mig í þó nokkurn tíma. Hann fer eitthvað að taka í hendina á mér og spjallar eitthvað smá. Hann hverfur svo í smástund en kemur til baka með drykki fyrir okkur báða. Þar sem að ég hef heyrt ýmsar svipaðar sögur var ég fljótur að hugsa og neitaði honum alfarið. Hann var ekki alveg sáttur og fór eitthvað að þræta en ég stóð fastur á mínu. Guð má vita hvað hefði getað gerst. Ég var því orðinn nokkuð hræddur og bara sáttur með kvöldið þannig að ég og Steinn fórum bara aftur á bílastæðið inn í miðri Bratislava og lögðum okkur þar, himinlifandi og sáttur og ég extra sáttur með að ekkert meira gerðist í sambandi við þennan mann.

Jónas þakkar fyrir sig

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Willst du etwas zu drinken?(Má bjóða þér eitthvað að drekka?)
Mynd dagsins:
IMG_1040
Steinn með vini okkar sem er ógeðslega líkur Ron Jeremy þegar að hann brosir ekki


Mikilvægt er að járna hesta á 8 vikna fresti

Hallo,
jæja í dag(26 okt) er þjóðhátíðardagur Austurríkismanna(dagurinn sem síðasti hermaður fór út úr Austurríki). Í tilefni þess höfum ég og Steinn Orri Erlendsson ákveðið að taka smá austur-evrópu reisu fram á næsta sunnudag í nýja bílnum hans(80‘ módel Volkswagen). Því mun því ekkert blogg verða skrifað fyrr en á sunnudagskvöldið.

En annars þá var gærdagurinn hjá mér bara nokkuð klassískur, skóli og annað gotterí. Horfðum á mynd í skólanum sem var alveg í furðulegri kantinum, þýsk spennumynd sem var samblanda af teiknimynd og leikinni mynd. Hún endurtók sig þrisvar sinnum en í hvert skipti var henni breytt aðeins þannig að endirinn breyttist alltaf.

Á leiðinni heim kom ég við á bókasafni og leigði mér Harry Potter og blendingsprinsinn á þýsku. Held að það sé þokkalega sterkur leikur þar sem að ég kann þessar bækur næstum afturábak og áfram og skil ég því nokkurn veginn mest af því sem er að gerast. Um kvöldið hoppaði ég svo bara upp í lest og ætlaði að fara til Steins þar sem hann býr í Mattesburg. Ég var því miður svo óheppinn að lestin tafðist og missti ég þá af tengilestin í einum bæ á leiðinni. Þá var gott að þekkja góðan mann og kom Steinn að sækja mig bara á þessa stöð sem var þó nokkuð frá þar sem hann býr. Við gistum svo heima hjá fólki sem Steinn er að vinna hjá.

Morguninn eftir rann svo þjóðhátíðardagurinn upp. Í Vín er haldið upp á hann með því að sýna heilmiklar hersýningar. En þar sem að ég er nú staddur í Mattesburg gat ég ekki orðið vitni að því. En í staðinn þá fór ég með þeim félögunum Steini og Bjarka(íslenskur maður sem Steinn er að vinna hjá) að járna hesta(setja skeifur undir hesti). Þannig að það var bara nokkuð cool. En þá er ég bara að leggja af stað í langferð. Jónas þakkar fyrir sig

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Zauberer(Galdramaður)
Mynd dagsins:

feuer 

 

 

 

 

 

 

Eins og „nýi“ bíllinn hans Steins(hann var líka gamall slökkviliðsbíll)


Gott er að vita hvað má segja og hvað má ekki

Hallo,
jæja þá er annar dagurinn næstum að enda kominn. Dagurinn byrjaði á föstum liði, skólanum. Í fyrri tímanum gerðum við margt eins og t.d. að tala um hjúskaparmiðla á internetinu. Þegar að ég var spurður hvort að ég hefði sjálfur notað svona síður eða þekkti einhverja sem hefðu notað þetta rifjaðist upp fyrir mér góðir tímar úr Verzló. En þá skráði hann Jón Briem, vinur minn mig inn á einkamal.is. Ekki skráði hann mig þó beint heldur hana Söru, 18 ára mær úr sveitinni sem væri nýflutt í bæinn og langaði til að kynnast góðum manni. Einnig var Jón svo góður að skilja eftir númerið mitt neðst á síðunni. Ekki létu viðbrögðin standa á sér, ég held að ég hafi aldrei fengið jafn mörg sms á einu kvöldi og aldrei fengið jafn mörg símtöl frá karlmönnum í kvenmannsleit. Svona hélt þetta áfram næstu daganna þangað til að Jón lokaði aðgangnum. Þetta þótti fólkinu sem eru með mér í bekk bara hin besta skemmtun.

Næsti tími byrjaði og það fyrsta sem kennarinn gerði var að ganga rakleiðis upp að mér og biðja mig um að lesa fyrir allan bekkinn söguna sem ég hafði skilað til hans „Josef Fritzl in Traumland“(Josef Fritzl í draumalandi). Þar sem að kennarinn virtist vera mjög vonsvikinn með mig byrjaði ég á því að spyrja hann hvort að honum þætti þessi saga móðgandi. Hann sagði að þetta væri hið versta mál hérna í Austurríki og algjört taboo. Ég baðst því virkilegar afsökunar á þessu og sagði honum að á Íslandi væri þetta almennt talið frekar fyndið(Hermann og Hinrik, ef þið eruð að lesa þetta mæli ég því með að þið skiljið Josef Fritzl húmorinn ykkar eftir heima ef þið farið til Austurríkis). Ég náði því að tala mig út úr þessu og skildum við, ég og Alex við hvorn annan í hinu mesta bróðerni og skilningi. Ég er því búinn á þessum 10 dögum að skjóta mig tvisvar allrækilega í fótinn hvað varðar húmor Austurríkismanna(hef líka einu sinni sagt frekar grófann Hitler brandara við hinn kennarann minn). Ég ætla því alfarið að spara þá kleppsbræður á meðan ég er hérna.

Eftir skóla fór ég heim og hafði það náðugt í dágóðann tíma. Í tilefni að því að ég var búin að lofa strákunum að ég mundi elda í kvöld(plús það að ég er orðinn nett þreyttur á pasta) dreif ég mig niður í búð og keypti hráefnin. Ég eldaði því í kvöld kjúklingarétt sem mun vonandi endast næstu 2-3 daganna svo að pastað verði sparað.

Að mat loknum fór ég að kíkja á æfingu hjá liði í grenndinni en komst að því að ég var orðinn of seinn og enginn var þar lengur. En ég náði hins vegar að finna e-mail adressur svo að þetta var ekki eintóm fýluferð.

Jónas þakkar fyrir sig

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Oida(gaur! á Austurrískri þýsku)
Mynd dagsins:
IMG_1026
Ég nýbúinn að elda ofan í gesti og gangandi


Keyptur miði, er góður miði

Góðan og blessaðan daginn og langt síðan við höfum sést af tveimur mögulegum.

Já nú eru bara liðnir heilir þrír dagar síðan að ég bloggaði síðast og líður mér bara hálf illa yfir því. Margt gott hefur drifið á daga mína síðan þá og ætla ég því að skrifa nokkrar línur um það.

Sunnudagurinn hjá mér reyndist bara vera nokkuð rólegur og var það bara allt í lagi. Gerði mest lítið, kíkti þó reyndar aðeins með ítölunum niður í bæ yfir daginn og keyptum okkur vikupassa í lestarkerfið hérna.

Í gær(mánudagur) var svo margt annað upp á teningum. Ég byrjaði daginn á því að fara í skólann og þessa vikunna reyndist ein rússnesk mær(Rada) vera komin í staðinn fyrir brasilísku eldri borgarana. Hún talar mér til mikils ama þýsku með ekkert rosalega miklum rússneskum hreim(var að vonast eftir bullandi rússneskum hreim). Einnig var mér tilkynnt það að næstu viku verð ég færður upp um hóp.

 Eftir skóla ætlaði ég að gerast svo flottur á því að drífa mig upp á æfingasvæðið hjá fótboltaliðinu Wiener Sportklub til að spyrja þá hvort að ég gæti æft með þeim. Enginn var á svæðinu og var þetta því svoddan fýluferð. Dreif mig heim og beið þá Francesco með mat eftir mér(hvað er að frétta af þessum ítölum? Ég er búin að krefjast þess að fá að elda ofan í þá á miðvikudaginn)

Fyrir kvöldmat ákvað ég svo að drífa mig aftur upp á æfingasvæðið hjá Wiener Sportklub, ég kíkti á þá en fékk þær leiðinlegu fréttir að ég gæti ekki æft með þeim vegna þess að æfingahópurinn þeirra væri fullur og ég mundi vera svo stutt hérna að ég gæti ekki spilað með þeim. Þeir bentu mér í staðinn að kíkja á lið sem heitir Halfort 15 sem er hérna í grenndinni, ég ætla að tékka á þeim á morgun.

Þegar ég kom svo heim voru strákarnir tilbúnir með pasta fyrir mig(hvernig geta þeir alltaf borðað pasta?)
Eftir mat tók ég gott samtal við Ingu á skype þar sem að við ákváðum að ég skyldi koma og heimsækja hana í karateæfingabúðum sem eru í Líege, Belgíu 31 okt- 5 nóv. Ég verð að viðurkenna það að ég er orðinn mjög spenntur fyrir því að hitta hana þar. Þetta var því mjög gott samtal
Sama kvöld talaði ég við Stein Orra sem útskrifaðist úr Verzló árið 2011. Hann býr í bæ sem er í u.þ.b. 1 klst fjarlægð frá Vín með lest. Þar spurði hann mig hvort að ég væri ekki til í að koma með honum i roadtrip einhver staðar í austur-evrópu og þar sem að ég er með svo brenglaða mynd af Bratislava í hausnum á mér eftir að hafa horft á Eurotrip gat ég ekki gert neitt annað en að segja hiklaust já við því.
Hann er víst nýbúinn að fjárfesta í húsbíl sem er 80‘ módel og verður það farartæki okkar um næstu helgi. Næstu tvær helgar verða því alveg uppbókaðar hjá mér. Fyrri helgin austur-evrópa með einum grjóthörðum Steini, seinni helgin listaparadísin Líege í Belgíu með kærustunni minni, algjör classicer.

Um kvöldið reyndi ég að lesa í „Von Habsburg bis Hitler“ en ég verð að viðurkenna það að ég skildi svona 16. hvert orð. Vonandi mun ég skilja svona 12. hvert orð eftir svona tvær vikur.

Í dag fór ég svo í skólann og gerðum við margt í skólanum þann daginn. T.d. skilaði ég inn sögunni „Josef Fritzl in Traumland“ og einnig áttum við að búa til eina hrós setningu um hvert og eitt. Ég fékk það að ég er með „interrestant Haar“ og „interessant das seine Augen Brauer ist blond“( ég veit ekki alveg hvort það er hrós en það er allt annað mál).

Um kvöldið fór ég svo á mína fyrstu jógaæfingu hér í Vín. Það var bara mjög gott nema það hvað ég er rugl stirður miðað við hitt fólkið. Sumar æfingarnar þarna tóku verulega á, kennarinn var samt svo góður að hann lét mig fá einhvern bekk ef hann sá að ég gat ekki gert æfingarnar.
Eftir jóga tímann kom ég við á einum döner stað sem er hérna í grenndinni, það er rugl hvað þetta er gott.

Jónas þakkar fyrir sig

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Einatmen(anda inn, heyrði þetta orð þó nokkuð oft í jóga í dag)
Mynd dagsins:

 actilingua

Flest krakkana sem eru með mér í skóla


Að tala við þýskan strætóbílstjóra sem er á mörkunum við að vera nasisti getur verið skemmtilegt

Góðan morgun öll,
í gær var góður afslöppunardagur hjá mér. Svaf til hádegis og byrjaði í raun ekki að gera neitt fyrr en um svona 4 leytið.
Þá fór ég út að skokka hérna og komst að þvi mér til mikillar undrunar að bara mjög nálægt mér er frekar stór vínberjarakur(örugglega ástæðan fyrir því að borgin heitir Vín?) Það er alveg ótrúlegt að hann sé notaður til vínberjaræktunar þar sem að jörðin þarna er örugglega mjög dýr. Bara alveg við hliðina á stórum leikvangi hjá fótboltaliðinu Wiener Sportklub. Ótrúlegt líka hvað ég mætti mörgum manneskjum á hlaupahjólum, auðsjáanlegt að þessi tískubóla sprakk ekki hérna eins og á Íslandi fyrir 10 árum

Þegar ég var svo komin heim dreif ég mig í sturtu og alles og stuttu seinna var Christian búin að elda fyrir okkur pönnukökur í kvöldmat(was ist los?). Þetta var því frekar furðulegur kvöldmatur, pönnukökur með súkkulaði, sykri, sultu eða Philadelfia.

Eftir mat talaði ég aðeins við Ingibjörgu yfir skype og er hún að fara til Amsterdam og þaðan yfir til Líege þann 31 okt og verður þar í 5 daga í karate búðum. Það er því ágætis möguleiki á því að ég mundi fara þangað yfir og heimsækja hana. Ég er allavega mjög hrifin af þeirri hugmynd.

Um tíuleytið lögðum við fólkið sem búum hérna í húsinu af stað í langferð á írskan pöbb sem er hérna í nágrenninu. Francesco sem ég bý með hafði að sjálfsögðu stungið upp á því að fara þangað þar sem að drengurinn dýrkar Írland. Hann var því með sólheimaglott næstu klukkutímana eftir að hann hafði fengið í hendurnar einn Guinnes og einn Kilkenny(írskir bjórar).

Við hlið mér á borðinu okkar sat þýskur maður(hann var reyndar bara 21 árs en ég hélt að hann væri svona um þrítugt) sem hét Christian Wassermann. Hann býr í litlum bæ rétt hjá Berlín og er strætisvagna bílstjóri. Ég, hann og ítölsku vinir mínir spjölluðum saman allt kvöldið á þýsku. Eftir að hafa skeggrætt ýmis málefni þróaðist tal okkar allt í einu út í Berlusconi, þann mikla meistara. Ítalarnir töluðu um hvað þeir þoldu hann ekki og Christian talaði sömuleiðis um hvað hann þoldi ekki Angelinu Merkel. Ég spurði þá Christian í gríni hvort að það væri ekki bara betra að hafa Hitler í staðinn. Mér til mikillar undrunar var hann ekkert að neita því en hann sagði þó reyndar Hitler hafa gengið fullhart fram í ýmsum málefnum t.d. gyðingamálum. Hann er sérstaklega á móti innflytjendamálum Þýskalands og honum finnst Merkel taka allt of veikt á þeim. Það er samt örugglega frekar algengt hér í mörgum löndum Evrópu að fólki finnst of veikt vera tekið á innflytjendum. En engu að síður var þetta bara hinn skemmtilegasti drengur sem æfði handbolta og hafði því mikinn áhuga um að tala um íslenskan handbolta, hvernig við færum að því að búa til svona marga góða handboltaleikmenn þrátt fyrir að vera svona fá. Þá blossaði þjóðarstoltið að sjálfsögðu upp í mér. Eftir þessa góðu kvöldstund var svo lagt af stað heim á leið.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Bub(strákur á austurrískri mállýsku)
Mynd dagsins:

IMG_1022
Við að henda okkur í nokkra kolsvarta


Söluaðferðinar eru mismunandi

Yellow,
í gær byrjaði dagurinn á klassískan hátt og dreif ég mig í skólann. Í skólanum fékk ég mína fyrstu einkunn í skólanum og fékk ég einn sem er besta einkuninn sem er gefin hérna(1 er best og 6 er verst).
Að skóla loknum þurfti ég að heilsa aðeins upp á Gabriel sem er tengiliður minn hér í Vín til að klára ýmis mál. Á leið minni til hans frá skólanum labbaði kona frá rómönsku Ameríku upp að mér og rétti mér rós og ég þakkaði bara pent fyrir mig og hélt leið minni áfram. Sú gamla ætlaði svo sannarlega ekki að leyfa því bara að gerast og pikkaði í mig og sagði „money“. Ég sneri mér þá bara við og ætlaði að láta hana hafa rósina, hún neitaði og sagði bara aftur „money“ með rosalegum hvolpaaugum. Útaf þessum rosalegu hvolpaaugum og ljótum tanngarði gat ég ekki annað gert en að gefa henni allt klink sem ég átti, sem var ein evra samanlagt. Ein besta sölumennska sem ég hef upplifað. Seinna um daginn hitti ég svo aðra konu sem ætlaði að gefa mér rós en ég var fyrri til og tók ekki við henni. En til að taka það jákvæða útúr þessu þá faxaði ég þessari rós til Ingibjargar og hlýtur hún bara að vera núna á leiðinni til faxtækisins hennar. Þetta var því ekki alveg eintóm sóun á evru.

Fór síðan heim til mín og nokkru seinna ákváðum ég og Francesco að fara í rosalega stóran almenningsgarð sem er nokkurs konar Central Park Vínar sem heitir Praten. Þetta er útivistarstaður Vínarbúa og er hægt að æfa allar íþróttir sem hugurinn girnist hérna, allt frá hafnabolta til rugby og allt þar á milli. Ég var að leita að fótbolta liði og Francesco að rugby liði. Því miður fyrir Francesco er bara hægt að æfa rugby í Vín þarna í Praten(sem er langt í burtu frá íbúðinni okkar) en ég komst að því að það eru nokkur fótbolta lið í nágrenni okkar sem ég gæti mögulega æft með.

Fórum svo heim eftir þetta og ég dreif mig í sturtu á meðan að Francesco eldaði(nokkuð gott að búa með ítölum sem elska að elda).
Gaman að því að klósettkerfið hérna er svoldið steikt, klósettið sjálft er ekki í sama herbergi og vaskurinn þannig að þegar maður er búinn á klósettinnu verður maður alltaf að fara inn í annað herbergi til að þvo sér um hendurnar. Ég hef komið núna inn í þrjár austurrískar íbúðir og alltaf er sama sagan með klósettinn. Það hefur örugglega einhver austurískur læknir sem hefur heitið Dr. Fritzl uppgötvað fyrir svona 58 árum síðan að þetta er miklu hreinlegra en hefur ekki viljað að þessi þekking færi út fyrir landsteinana.

Þegar ég kom úr sturtunni beið eftir mér ilmandi pastaréttur(ótrúlegt en satt). Það er gaman að sjá hvað ítalir(allavega frá Bolzano) eru með öðruvísi borðsiði en við. Þeir nota til dæmis aldrei venjulega diska, bara djúpa diska. Þeir blanda sjaldan saman matnum eins og við íslendingar heldur borða þrjá mismunandi rétti, forrétt, aðalrétt og eftirrétt(sem er samt ekki sætur). T.d. Pylsur í forrétt, pasta í aðalrétt og svo salat í eftirrétt. Eftir matinn hreinsa þeir svo alveg diskinn með brauði.
Að mat loknum spurði ég Francesco hvað hann ætlaði að gera um kvöldið en hann sagðist ekki geta gert neitt vegna þess að hann þurfti að vakna kl. 7 daginn eftir til að mæta í vinnuna. En hann ætlaði þó reyndar að bíða eftir Christian. Þeir félagarnir bíða alltaf eftir hvor öðrum þegar hinn kemur seint heim úr vinnunni með heitan mat, mjög krúttlegt.

Að mat loknum dreif ég mig niður í bæ til að hitta hópinn minn úr skólanum. Við hittumst á bjórhúsi sem var skipulagt af kennaranum mínum og var hún með okkur. Þetta var því í fyrsta skipti sem ég hef farið niður í bæ og djammað með kennaranum mínum. Reyndar er hún bara 22 ára en hún er samt sem áður kennarinn minn.

Eftir að hafa verið á þessu bjórhúsi var ákveðið að drífa hópinn á einn skemmtistað sem er í miðaldakjallara sem hafði verið breytt í skemmtistað. Var það bara hin besta skemmtun og þótti mér leiðinlegt að þurfa að fara þegar að hópurinn fór. Gaman er að segja frá því að inn á næstum öllum stöðum hér í Vín má reykja þannig að þetta er því algjör draumadjammstaður fyrir hana Ingibjörgu mína(hehe djók).
Næst var rölt af stað og farið á einhvern almesta chill staðinn og setið þar í sófa í svona 2 klst og alltaf var kennarinn með okkur. Ég verð að segja að þetta var ekki alveg minn tebolli og var ég alveg ótrúlega nálægt því að sofna.
Var ég því ekkert lítið sáttur þegar rölt var af stað út af staðnum. Þar sem að fólk var ekki lengur í mesta stuði sem sögur fara af var bara lagt af stað í heimferð með smá stoppi á McDonalds. Það er algjör snilld hérna í Vín að samgöngukerfið er líka opið alla nóttina þannig að maður þarf ekki að vera hræddur um að vera ekki með nægan pening fyrir leigubíl heim.

Verið hress, ekkert stress(fingurkoss), bless!

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Links Vertreidiger(Vinstri bakvörður(fótbolti))
Mynd dagsins:

IMG_1021
Fyrsta prófið sem ég tók hérna í Austurríki gekk bara vel + rósin sem ætti vonandi að vera komin í faxtækið hennar Ingibjargar sem allra fyrst 


Að "djöggla" og spila á írskar flautur er góð skemmtun

Jæja hver er ready í smá champagne showers?
Í dag byrjaði dagurinn á því að ég fattaði að eitthverjar skrúfur voru lausar í hausnum á mér. Ég hafði tekið tvisvar í röð vitlausan sporvagn en með smá hugsun og ótrúlegri heppni náði ég að koma mér fyrir á skólabekk áður en skólinn byrjaði.
Í fyrri tímanum áttum við að útskýra fyrir öllum hvað við hefðum gert í lífínu, við hvað við hefðum unnið við o.s.frv. Ég verð að segja það að það var alveg eitt það erfiðasta sem ég hef gert en það er allt annað mál. Mér til mikillar undrunar kom það í ljós að brasilíska konan sem situr við hliðina á mér sem er núna komin á eftirlaun er doktor í skítaflugum og hefur rannsakað aðallega skítaflugur í hartnær 20 ár. Já fólk hefur mjög mismunandi áhugasvið.
Í seinni tímanum var svo fyrsta prófið sem ég hef farið í og gekk það bara nokkuð vel.

Eftir skóla gat ég ekki gert annað en að drífa mig heim og taka mér einn fálka(langa kríu). Ég vaknaði svo við yndislega tóna frá öðrum sambýlismanni mínum honum Francesco. Hann hefur ótrúlegan áhuga á írskri þjóðtónlist og kann mjög vel að spila á írskar flautur. Þeir fóru saman til Írlands og Skotlands síðasta sumar, báðir sambýlismenn mínir og þrír vinir þeirra og eru þeir báðir ásfangnir af þessum löndum.
Svo komst ég einnig að því í dag að þeir eru báðir ótrúlega góðir að „djöggla“(kasta mörgum hlutum upp í loft í einu grípa þá aftur). Annar þeirra getur „djögglað“ með sex bolta og líka með keilum. Ég stakk þá upp á því að þeir ættu að fara bara niður á Stefansplatz og reyna að græða smá aukapening. Þeir virtust bara frekar spenntir fyrir því.

Um kvöldið eldaði Christian svo Kartoffel Puffer(kartöflu kökur) með hrísgrjónum og öðru salati. Þar sem að þeir eru báðir ítalskir þá elska þeir báðir að elda. Ég hef því voðalega lítið gert í því að halda búsáhalda byltingu gegn þeim.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Mein Freund, Freund von mir(Kærastinn minn, vinur minn. Mjög mikilvægt að ruglast ekki á þessu)
Mynd dagsins:

IMG_1017

Kartoffel Puffel sem Christian eldaði, sehr schön.


Á miðvikudögum er löglegt að fara í menningarferðir

What‘s up vanillas?
Í dag byrjaði ég á því að drífa mig í skólann og var mættur bara nokkuð fyrir 9. Skólinn gekk sinn vanagang og ég var búin kl 12:15

Eftir skóla var ekki annað í stöðunni en að drífa sig heim og leggja sig aðeins því að ég hef bara sofið 5 klst síðustu þrjár nætur.
 skólanum höfðum ég og þrjár aðrar stelpur mælt okkur mót í Schönebrunn Schloss(höll) kl hálf 4. Ég dreif mig því þangað og hitti þær(ég er eini strákurinn í bekknum sem er um tvítugt, það er bara einn annar maður en hann er fertugur tjetjeníu búi. Reyndar eru bara átta í bekknum en það er allt annað mál). Þessar stelpur eru allar frá mismunandi löndum ein frá BNA, önnur frá Tyrklandi og sú þriðja frá Sviss, þannig að þetta mjög hvetjandi umhverfi til að tala þýsku í. Það er frekar gaman að því að þessi stelpa sem er frá BNA talar þýsku með bullandi amerískum hreim.
En talandi um Schönbrunn þá var þetta alveg ótrúlega falleg höll. Alveg fáránlega flottir garðar sem eru örugglega snyrtir allir daglega. Við vorum þar í örugglega svona þrjá tíma að dást að þessu og taka myndir.
Eftir að hafa verið þarna í ágætis tíma drifum við okkur á kaffihús rétt hjá höllinni. Ein stelpan í hópnum Julia frá Sviss sagði við okkur að við yrðum að prófa melange sem er mjög týpískur austurrískur kaffi drykkur. Ég sagði bara já þrátt fyrir að ég er ekki mesti kaffi unnandi sem sögur fara af. Fyrir mér var þetta bara mjög klassískur kaffi drykkur þannig að með því að setja nægan sykur og nægan rjóma ofan á náði ég að pína þessu ofan í mig.

En allaveganna eftir þessa yndislegu kaffidrykkju fór ég heim. Á leiðinni heim keypti ég mér litla stílabók til að skrifa í öll orð a þýsku sem mig vantar. Þegar ég kem svo heim á kvöldin ætla ég að setja það svo inn í excel og þýða orðinn(mér fannst þetta vera alveg frábær hugmynd hjá mér).

Þegar heim var komið annar Ítalinn(Christian) heima. Þar sem að garnagaulirnar voru byrjaðar að öskra á okkur báða ákváðum við að elda saman mat. Hann sauð pylsur og hrísgrjón með tómatsósu og grænum baunum á meðan að ég steikti egg í brauði. Þetta var því bara dýrindis máltíð sem var svo fullkomnuð með ricola salati.

Þar sem að ég er búin með bloggið núna fyrir miðnætti(ótrúlegt en satt) þá held ég að eina vitið sé að læra fyrir prófið á morgun en það er úr þýskri málfræði(Präteritum). En ef maður er svo heppinn þá ætti ég líka að geta heyrt í fólkinu mínu á Íslandi í gegnum skype. Þetta lítur því bara út fyrir dýrindis kvöld.

Fastir dagskrá liðir:
Þýska dagsins:
das Eichhörnchen(íkorni, mjög skemmtilegt hvernig þetta er borið fram)
Mynd dagsins:
 66365_288722831243888_1927356593_n

Ég og Yagmür, stelpa frá Tyrklandi(hún minnir mig mikið á Stóma-Stínu, ekki beint í útliti heldur frekar í persónuleika og stærð)

Smá hugleiðingar um Austurríki:
Austurríkismenn elska endurvinnslu, sem er að sjálfsögðu mjög jákvætt en getur verið smá pirrandi. Við erum með einhverjar fimm mismunandi tegundir af tunnum til að endurnýta hluti. Allt hérna er bara mjög hreint og ég held að þetta sé hreinasta stórborg sem ég hef komið í


Í Sviss borðar fólk fondue

Wie geht‘s?
Í dag byrjaði ég á því að ofmeta almenningssamgöngurnar hér og sjálfan mig. Þannig að til þess að gera langa sögu stutta var ég mættur aðeins of seint í skólann. Þannig er mál með vexti hér í Vín að maður verður að plana ferð sína vel áður en maður leggur af stað í langferð. Það er ekki bara hægt að hoppa upp í bíl og stilla gps tækið á áfangastað og gefa vel í.
Ég hafði það bara mjög gott í skólanum, ég held að ég hafi aldrei áður upplifað timann líða jafn hratt og í þessum skóla. Reyndar er hann bara frá 9:00-12:15 en það er allt annað mál.

Eftir skólann ákvað ég að gera mér kostakaup og kaupa eitt stykki regnhlíf. Það eru nefninlega allir hér í Vín með regnhlíf þegar að það rignir þannig að ég ákvað að gerast alvöru Vínarbúi. Á leiðinni heim fór ég svo sjálfur í smá menningarferð, skoðaði ráðhúsið og háskólann. Það er alveg makalaust hvernig næstum hver einasta bygging hér í miðbæ Vínar getur verið svona falleg. Það er örugglega stytta á flestum þeirra. Í háskólanum ákvað ég að fjárfesta í einni bók: „Von Habsburg bis Hitler-Österreich vor dem Anschluss“. Það verður örugglega alveg sjúklega erfitt að lesa hana en vonandi mun hún hjálpa mér að læra fyrr þýskuna.

Þegar að ég var svo komin heim var ekki annað í stöðunni en að seðja soltinn maga. Ég eldaði mér því alveg frábæran hádegismat: Soðnar pylsur, steikt egg og ricolasalat(ég veit, eitt furðulegt combo).

Í fyrradag komst ég að því að það er ein islensk stelpa sem býr í sama húsi og ég. Hún býr á Akureyri og hún er í alveg sama verkefni og ég og kærastinn hennar er að gera nákvæmlega það sama í París. Hún er búin að vera hér í mánuð og hefur því séð margt hér í Vín. Þar af leiðandi var ekki annað í stöðunni en að fara með henni í smá bæjarferð og fá hana til að ausa úr viskubrunni sínum. Þetta reyndist bara vera hinn besti túr, það hefði reyndar mátt vera betra veður en hún sagði mér margt um Vín sem ég vissi ekki og sýndi mér staði sem ég hafði ekki séð. Þegar klukkan var svo farin að nálgast sjö um kvöld þurfti ég svo að skilja við hana því að mér hafði verið boðið í fondue matarboð til einnar stelpu sem er með í skólanum og kærastans hennar.

Þegar að ég mætti á staðinn fékk ég mjög vinalegar móttökur og reyndust gestgjafar mínir vera miklir höfðingjar heim að sækja. Þetta reyndist vera hið besta matarboð og gestirnir voru ekki af verri endanum. Í þessu matarboði reyndust vera tveir austurríkismenn, einn svisslendingur, tveir tyrkir, einn japani og að sjálfsögðu einn íslendingur. Allar þessar manneskjur reyndust vera mjög spennandi(tveir voru götulistamenn) en japaninn stóð þó svo sannarlega upp úr. Hann heitir Teppei Chico og er 32 ára japanskur götulistamaður. Hann byrjaði að sýna listir sínar þegar hann var átján og er búin að vera að næstum stanslaust síðan þá. Hann hefur farið útum allan heim, allt frá Síle til Kína og allt þar á milli. Hann er búddisti og hélt fyrir mér heillangan fyrirlestur á heimspeki sína um það að maður eigi bara að njóta lífsins og gera það sem maður vill gera. Hann hefur aldrei átt gsm síma í sínu lífi og á heldur ekki bankareikning. Hann er alltaf á ferðinni og er í dag í Vín og eftir tvo daga í Salzburg og eftir það ætlar hann til suðaustur Asíu til að skemmta þar.
Í þessu matarboði var mikið talað þýsku og náði ég bara að halda uppi ágætissamræðum á þýsku. Er ekki frá því að ég er búin að læra fullt á þessum tveimur dögum.

Af þeim fáu austurríkismönnum sem ég hef kynnst er svo ekki hægt að segja annað en að þetta sé skemmtilegt fólk, mjög hjálpfúst og kurteist. En þeir eru þó fullfljótir að skipta yfir í enskuna finnst mér.

Fastir liðir:
Þýska orð dagsins:Es freut mich(Gleður mig að kynnast þér)
Mynd dagsins:

fondu3

Fondue er mjög góður og skemmtilegur matur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband