Færsluflokkur: Bloggar

Týndur maður er vel ferðaður maður

Grüss gott,
í gærkvöldi kom ég frekar seint að kvöldi til. Mér voru fengnir lyklar og helstu upplýsingar um íbúðina og annað sem ég þurfti svosem um skólann og hvernig ég mundi komast þangað. Þegar í íbúðina var komið komst ég að því að sambýlismenn mínir næstu mánuðina eru tveir ítalskir strákar þeir Francesco og Christian, þeir líta út bara fyrir að vera hinir mestu fagmenn. Francesco er reyndar með ágætis geitarskegg, en það er alveg hægt að vinna með það. Í húsinu þar sem ég bý búa einungis Spánverjar og Ítalir nema það er reyndar ein stelpa frá Akureyri sem býr þarna. Ég er þó reyndar ekkert búin að hitta hana.

Ég vaknaði svo eldsnemma um daginn því að það tekur u.þ.b. 40 mín að fara í skólann. Ég lagði af stað til að ná í lestina en mér til skammar reyndist hún vera farin, ég var þó reyndar ekkert það pirraður því önnur lest kom svona 1 mín og 48 sek seinna. Til að komast í skólann þarf ég að taka 3 sporvagna og ganga ágætisstund.
Þegar að ég mætti í skólann var svo bara vel tekið á móti mér og ég settur strax í action. Hópurinn sem lærir með mér er mjög misleitur. Þarna eru tvær konur um fimmtugt frá Brasilíu sem eru að ferðast um alla Evrópu að fara í mismunandi málaskóla, það eru tvær stelpur um tvítugt frá Sviss sem tala hvorugar þýsku(önnur talar ítölsku og hin frönsku). Þarna er maður frá Tsjétsjéníu um fertugt sem vill alls ekkert láta bendla sig við Rússland. Þegar að hann talaði svo þýsku var ég alveg viss um að ég var að heyra rússnesku. Svo er ein stelpa frá Tyrklandi og ein frá Bandaríkjum Norður Ameríku. Í þessum tímum gerðum við ýmislegt svo sem að skrifa ævintýri á þýsku, ég skrifaði um tröll sem fór í partý en dó svo áfengisdauða út í garði og svo þegar sólin kom morguninn eftir breyttist það í stein.
Í skólanum tók ég eftir að ég gerði bæði svo lítið af því að ofmeta mig og vanmeta mína þýsku kunnáttu. Stundum var ég því lítill í mér og stundum var ég að fljúga aðeins of hátt.

Eftir skólann hafði enginn í hópnum tíma til að gera neitt með mér þannig að ég tók mér það bessaleyfi að ferðast bara um Vín sjálfur. Mér var reyndar boðið í Tófú matarboð annað kvöld þannig að það jafnaði það út.
Ég hóf því ferð mína um víðáttur Vínarborgar og komst að því eftir nokkra stund að ég var orðinn týndur. En sagt er að týndur maður sé vel ferðaður maður. Ég tók því þá meðvituðu ákvörðun að vera ekkert að gera of mikið mál úr því og hélt bara för minni áfram. Ég hafði lofað sjálfum mér því að fara sem allra fyrst í kleller(klippingu) þegar að ég hefði tíma. Mér til mikillar undrundar komst ég að því að næstum engin hárgreiðslustofa er opin á mánudögum hér í Vín. Þannig að þegar að ég sá eina frekar mikla hárgreiðslubúllu vera opna hikaði ég því ekki við að henda mér þar inn. Ég hafði prentað út mynd af Granit Xhaka(fótboltamaður) og sagði einfaldlega við hárgreiðslu mannin: So wie er, bitte schön. Ég kom því út úr stofunni nýklipptur, sáttur og 10 evrum fátækari.
Áður en ég fór út þá höfðu báðir foreldrar mínir brýnt það fyrir mér að fá mér austurrískt sim-kort, ég varð því að ósk þeirra á fyrsta degi og nú er nýja gsm númerið mitt: 0043-69917037922

Ég komst svo heim að ég held með hjálp frá heimilislausum manni, ótrúlegt hvað sá kunni vel á almenningssamgöngurnar hérna. Þegar ég kom svo upp í íbúð voru herbergisfélagar mínir ferskir að gera eitthvað af sér í tölvunum sínum. Ég spurði þá hvort að við ættum ekki að elda og þar sem að þeir eru báðir ítalskir þá voru þeir ekki lengi að galdra fram túnfiskpasta sem er mun betra en það hljómar.
Eftir þessa klassísku máltíð kom ítölsk stelpa hingað niður og spurði hvort að við vildum ekki kíkja aðeins á spánverjana sem búa hér fyrir ofan, við að sjálfsögðu þáðum það og komum okkur fyrir í sparistellingunum inni í stofunni þeirra. Þessir Spanjólar eru búnir að vera hér í þó nokkra mánuði en kunna næstum ekkert í þýsku því þeir hanga alltaf saman. Ég kom svo hingað niður eftir það og er í þessum töluðu orðum að klára þetta blogg mitt.

Ég er samt ekki frá því að ég tali bara betri þýsku í kvöld en ég gerði í morgun. Við herbergisfélagarnir tölum bara saman þýsku en í neyðartilfellum grípum við til enskunnar eða kíkjum í orðabók. Ég tel að þeir séu bara á svipuðu stigi og ég í þýskunni.

Maður hefur komist að nokkru um Austurríki og fólkið sem býr þar á þessari stuttu dvöl minni. Það er mjög þæginlegt að þeir eru fljótir að hjálpa útlendingum, ólíkir Þjóðverjum að mjög mörgu leyti þrátt fyrir að þeir deila jafn miklu, mun afslappaðari þegar það kemur að seinkomu og margt annað í svipuðum dúr. Þar sem að ég er í mála skóla hef ég ekki fengið neitt almennilegt tækifæri til að kynnast Austurríkismönnum nema kannski kennurunum en þvert á móti hef ég kynnst mikið af fólki frá S-Evrópu.

En nú held ég að þetta sé komið gott og ætla ég að reyna núna að klára heimavinnuna sem var sett fyrir

Fastir dagskrá liðir:

Þýska orð dagsins: Langweilige Pensionister(Leiðinlegir eldriborgarar)

Mynd dagsins:

Herbergisfélagar

Við herbergisfélagarnir(Verðið að ýta á hana til að sjá hana betur)

7,8 Gute nacht, Jónas


Menn eru mættir

Sælt veri fólkið,
fyrst að þú lesandi góður ert að lesa þetta blogg þá grunar mig að þú vitir eitthvað um í hvers konar ævintýri ég er að leggja af stað í. Þannig er mál með vexti að frá þvi að ég var lítill drengur(sem ég er reyndar enn) hefur mig alltaf langað til að kunna þónokkuð mörg tungumál og hef ég til að mynda búið í ekki verri löndum en Bretlandi og Danmörku og hef þar af leiðandi lært þær þjóðtungur. Næsta skref í þessari málþróun hjá mér hlaut því að færast yfir í hina ylhýru þýsku tungu. Ég lærði reyndar þýsku í Verzló en af einhverjum óskýranlegum ástæðum lærðist mér ekki að tala hana á þessum tveimur og hálfu ári þannig að ég gæti gert mig skiljanlegan eða skilið aðra á hinni glaðværðu sólarströnd El Arenal á Mallorca sem var þýsk sólarnýlenda.
Ég sá mig því knúin til að sækja um hjá Nínukoti þegar ég sá auglýsingu frá þeim um Work & Travel verkefni í Austurríki fyrir rúmlega ári síðan. Þetta Work & Travel verkefni gengur út á það að maður byrjar í málaskóla í mánuð og byrjar síðan að vinna þegar málaskólanum er lokið. Þegar maður sækir um þetta verkefni er í leiðinni hægt að sækja um svokallaðan Da Vinci styrk sem ég var svo heppinn að fá þannig að ég fæ skjólagjöldin næstum felld niður. Málaskólinn sem ég verð í er í hjarta Vínar og þegar ég verð svo búinn í honum hef ég vinnu í Austurrískum bjórkjallara sem er líka í miðbæ Vinar og heitir Salm Braü.

En svo að ég tali nú um daginn í dag,
ég vaknaði eldsnemma í morgun og dreif mig út á flugvöll ásamt mínu heittelskaða fólki, pabba og Ingibjörgu. Eftir erfiða kveðjustund fór ég upp í flugvél og nokkru seinna vaknaði ég í kongens Kastrup.
Þar sem að ég hafði mælt mér mót við Magnús Pétur Lýðsson aka „Steik & Blowdjob föstudagar“ aka mottu Maggi í jólaskapi, við Kongens Nytorv í Kaupmannahöfn ákvað ég að drífa mig upp í samgöngu úrbótina Metro(neðanjarðarlestakerfi Köben) og hitta hann. Miklir fagnaðarfundir urðu þegar við höfðingjarnir hittum hvorn annan og var Magnús að sjálfsögðu á helsta samgöngutæki Köben, stigvélinu(reiðhjól). Við félagarnir röbbuðum svo um daginn og veginn á meðan að hann sýndi mér töfra Kongens. Hann sagði mér frá ýmsu sem á daga hans hafði drifið og til dæmis það að hann stundaði matreiðslunám í Lýðhásskóla hér í Köben. Þar sem að bestu stundir okkar Magnúsar hafa verið á dönskum knæpum var því alveg gráupplagt að henda sér í eina öl. Magnús stakk upp á einum ágætis stað og áttum við góða drykklanga stund þar. Það var því mikil nostalgía sem átti sér stað sem kristallaðist svo loks í því þegar að við félagarnir fórum í reiðtúr á stígvélunum okkar um bæinn. Þar sem að veðrið var nú ekki upp á jafn marga fiska og maður hafði vonað stakk Magnús upp á því að við skyldum koma okkur fyrir á einhverjum veitingastað bæjarins og kæta soltna maga.
Eftir að hafa skeggrætt þetta málefni hvert skyldi fara þá komst ég að því mér til mikillar undrunar og gleði að Maggi reyndist vera sushi pervert. Eftir góða máltíð á green sushi var þó komin tími fyrir mig að halda á leið á vit ævintýranna upp í næstu flugvél til Vínar. Ég kvaddi Magnús með þeim fögru fyrirheitum að hann mundi mögulega koma og heimsækja mig til Vín enda væri það ekkert nema sannur heiður fyrir mig að fá þann meistara í heimsókn.

Flugið gekk snurðulaust fyrir sig og er ég núna staddur í lest á leið frá flugvellinum til miðbæjar Vínar, nálægt þeim stað þar sem að ég mun búa á meðan á dvöl minni stendur hér í Vín.
Það lítur allt út fyrir að þessi ferð fari vel í mig, mér finnst mjög gaman að stíga svona út í óvissuna og hef ég til að mynda mjög lítið glöggvað um staðinn. Ég ætla frekar að upplifa þetta allt „first hand“. Ég hef þó reyndar litið aðeins á veðurspánna og verð ég að segja að hún sé ansi girnileg, um og yfir 20 stiga hiti út alla vikuna.

En jæja þá er lestaferðin næstum á enda tekinn,
grüss Jónas

Fastir dagskrá liðir:
Þýska orð dagsins:Gedämpfte Holzhändler(Gufusoðinn timbursali)

Mynd dagsins

Hérna bý ég i Kastnergasse 9


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband