Bíddu Varsjá, bíddu mín

Góða kvöldið kæru lesendur,
nú sit ég hér í flugvél Wizz Air á leið frá Póllandi til Íslands ásamt Eyjólfi „Srdan“ Unnarssyni og Magnúsi „barnabjargara“ Ólafssyni og erum við allir þrír klæddir í Legia Warsawa fótbolta treyjur eins og sönnum pólskum fótboltabullum sæmir.
Eyjólfur (Eyjó) og Magnús (Maggi) eru drengir sem ég kynntist í verkfræðinni í HÍ. Eyjó kynntist ég í iðnaðarverkfræðinni fyrir þremur árum síðan vegna sameiginlegs áhuga á Gísla Einarssyni (þáttastjórnanda Landans og ullarpeysutöffara), „Grænu þrumunni“ (græna rennibrautin í sundlauginni á Borgarnesi) og síðast en ekki síst Venna Páer (bestu og vanmetnustu grín þættir Íslandssögunnar).  Magga kynntist ég hins vegar síðasta haust í tölvunarfræðinni vegna sameiginlegrar ástar á skrítinni þýskri menningu.
Maggi og Eyjó hefðu einungis einu sinni hist fyrir þessa ferð og þá í u.þ.b. 20 mín. Ég hafði þó u.þ.b. 0% áhyggjur af því að þeir myndu ekki fúnkera saman þar sem báðir drengirnir eru yfirburða skemmtilegir með meiru, góðir bullarar en samt með góða virkni á milli eyranna. Alveg eins og ég vil hafa fólkið sem ég umgengst.

Ævintýrið byrjaði síðastliðið miðvikudagskvöld þar sem við höfðum sammælst um að hittast heima hjá mér kl 18 og taka rútuna þar rétt hjá. Ekki vildi betur til en að herra Eyjólfur gleymdi sér aðeins og heyrði ég ekki frá honum fyrr en 18:20 þar sem hann var að koma af æfingu. Þetta var síðasta rúta kvöldsins svo það var ekki séns að redda sér upp á flugvöll með rútunni.
Sem „betur fer“ höfðu mamma og pabbi akkúrat „ákveðið“ að skella sér í ferð um Reykjanesið þetta miðvikudags kvöld enda alltof langt síðan að þau kíktu á Ólsen-Ólsen veitingastaðinn í Reykjanesbæ og vorum við því svo heppnir að fá að sitja í hjá þeim á leið þeirra á Ólsen-Ólsen.

Við flugum því af stað seint á miðvikudagskvöldi og lentum að staðartíma kl 04:00 í Varsjá. Íbúðin sem við leigðum átti ekki að vera tilbúin fyrr en kl 13:00 og því höfðum við nægan tíma til að drepa.  Við höfðum skoðað veðurspánna fyrir Varsjá og leit hún bara rosa vel út, oftast sól og 10-20°C. Það sem hafði þó gleymst var að skoða hvernig veðrið væri þegar við myndum lenda. 30. mars kl 04:00 var hvorki 20°C né sól og engin kaffihús opin og við ekki með hlý föt. Það var því mikið fagnaðarefni hjá föruneyti aulahúmorsins þegar klukkan varð sjö og eitt kaffihúsið opnaði.

Við nutum þess að sitja þarna og keyptum við allir að sjálfsögðu einhverja rétti sem enginn hafði smakkað áður. Ef ég gæti skrifað það sem stóð á matseðlinum þá væri ég mjög sáttur með sjálfan mig. Pólska er ekki tungumál sem auðvelt er fyrir okkur að skrifa. T.d. höfðum við mjög gaman að því að reyna að bera fram eitt skilti sem við sáum „Institut Gluch... svo bara einhverjir random stafir "(https://drive.google.com/file/d/0B3ok6mkyvQesTmJZa0lyWjJnU2M/view?usp=sharing)

Eftir mikið af góðu gríni á kaffihúsinu góða þá var ákveðið að skella sér í einn laufléttan klellara (klipping). Ég og Maggi skelltum okkur í stólinn en Eyjó fékk það vanmetna hlutverk að horfa á. Ég held að við höfðum báðir verið u.þ.b. hálftíma í stólnum þar sem þvegið var á okkur hárið, hárið ryksugað (án gríns, haha) og nostrað vel við það að klippingu lokinni. Hvað borguðum við svo fyrir þetta? Jú 35 slota eða rétt rúman 1000 kall. Ekki nóg með það heldur kostaði flug og gisting í þriggja herbergja íbúð í þrjár nætur í miðbæ Varsjá 25.000 kr. Já, það er ansi hagstætt að ferðast til Póllands. 
Eins gott að hárgreiðsludaman nostraði við hárið á Magga í svona 15 mín eftir klippinguna því hann setti upp húfu strax að henni lokinni. 
Maggi hélt svo áfram að eiga stórleik, því að á lestarstöðinni ákvað hann að taka út pening. Við vorum ekki búnir að kíkja á hvernig gengið væri á slotanum gagnvart krónunni og giskaði Maggi því í hraðbankanum á hversu mikinn pening hann væri að 
fara að fara að taka út. Þeir valkostir sem voru í boði voru allt frá 1000 slotum til 4000 slota. 
Hann giskaði því á að 2500 slotar væri bara svona þokkaleg upphæð, mesta lagi 20.000 kr. Það kom svo upp úr krafsinu að það væri u.þ.b. 80.000 kr. Mjög gott að vera með 80.000 kr. í seðlum í landi þar sem allt kostar á bilinu 1/5 til 1/3 af verðlaginu heima.

Klukkan eitt gátum við svo farið í íbúðina og hittum manninn sem átti hana. Íbúðin var alveg ótrúlega snyrtileg og þriggja herbergja og best af öllu var að við borguðum u.þ.b. 5.000 kr. fyrir nóttina. Á minnsta rúminu var bangsi og Eyjó notaði mjög fleyga línu til að sannfæra Magga um að best væri fyrir Magga að sofa í minnsta rúminu: „Í ljósi stærðar okkar tel ég best fyrir alla að þú fáir bangsann“. Maggi veðraðist allur upp og var ekki lengi að segja já við þessum rökum.

Við skelltum okkur svo niðrí bæ þar sem við fórum í „Free guided tour“. Þá er farið í göngu um bæinn með leiðsögumanni og það kostar ekki neitt en í staðinn getur fólk borgað tips ef þeim finnst túrinn góður. Túrinn sem við fórum í þennan daginn fjallaði um hvernig Varsjá var þegar kommúnistar réðu ríkjum. Sem betur fer náði Eyjó að halda aftan að öllum kommúnista bröndurum sem hann langaði til að segja við leiðsögukonuna. Ef þeir hefðu ekki virkað hefðu næstu tveir tímar orðið óþægilegir. Í göngunni keyrði embættismaður frá Slóveníu fram hjá okkur í lögreglufylgd í forgangsakstri. Leiðsögukonan sagði okkar að það væri mjög eðlilegt að embættismenn eða lögreglumenn nýttu sér sírenurnar óspart í Varsjá. Grínaðist hún með það að embættismaðurinn væri örugglega að skutla dóttur sinni sem væri orðin of sein á ballett æfingu.
Um kvöldið skelltum við okkur svo á pubcrawl en það er ein af mínum uppáhalds leiðum til að kynnast næturlífi borga og mæli ég eindregið með að fólk geri það þegar í borgarferð er farið. 
Pubcrawl er ekki flókið fyrirbæri. Þá hópast margir saman á einum stað og leiðsögumaður röltir svo með hópinn um ölkelduhús bæjarins. 
Í pubcrawlinu komumst við að því að rokkhljómsveitin Korn ætti að halda tónleika á föstudagskvöldið og Legia Warsawa (aðalfótbolta liðið í Varsjá) ætti leik á laugardagskvöldið. Því pöntuðum við að sjálfsögðu miða á báða viðburði daginn eftir. Hvað kostuðu miðarnir á leikinn? Jú, 35 slota(1.000 kr.) alveg eins og klippingin. Draumur í dós!

Morguninn eftir rölti ég niðrí búð sem var rétt hjá og gerði ýmis kosta kaup en meðal annars keypti ég pólska pylsu. Eyjó hafði mikið talað um þannig enda er hann að vinna með búlgörskum manni sem hefur gefið honum vel undir fótinn varðandi þær. Því fékk Eyjó drauma vakningu sem var þannig að ég setti niðursneidda pylsu upp í munninn á honum. Það sem maðurinn var ánægður með það. Maggi var ekki alveg jafn ánægður með sína vakningu sem fór þannig fram að ég lyfti honum og endaði hann standandi á gólfinu. Þá mælti hann: „Þetta er ekki í lagi!“.

Sumarið var mætt þennan daginn, 20°C og sól. Við áttum því ansi góðan dag þar sem rölt var um miðbæ Varsjár, skoðað höll menningar og vísinda einnig þekkt sem langatöng Stalíns enda var þetta gjöf hans til Póllands en Pólverjar voru ekkert svo hrifnir af þessu eins og flestu sem Sovétríkin gerðu (https://drive.google.com/file/d/0B3ok6mkyvQesZW11bXVXOVBETnM/view?usp=sharing).


Um kvöldið var svo farið á Korn tónleika, þegar við pöntuðum miða á tónleikana voru einungis átta miðar eftir þannig að við vorum auðsjáanlega á leiðinni í veislu.
Ég verð að viðurkenna það að ég hafði ekki hlustað mikið á Korn fram að þessu en Eyjó og Maggi voru miklir aðdáendur.
Á tónleikunum var allt að frétta, við fengum því miður einungis pláss í sætum en við höfðum þó gott útsýni yfir pyttinn sem myndaðist. Þar voru menn auðsjáanlega búnir að fá sér eitthvað sterkara en appelsín og örugglega eitthvað sterkara en Gumma Torfa(G&T). Það var mjög gaman að sitja við hliðina á Eyjó enda mætti halda að hann hefði dáið og væri kominn til himnaríkis. Svo mikil gleði skein úr andlitinu á honum þegar söngvarinn öskraði hvað eftir annað í míkrófóninn(https://www.youtube.com/watch?v=L6tYqP7HO9E&feature=youtu.be)

Eftir það fórum við á vit ævintýranna í Varsjá. Það kvöld tók Maggi 200 kg í bekk, bjargaði barni úr brennandi byggingu, rústaði mér í sjómann, rústaði Eyjó í sjómann, lamdi fjóra tveggja metra menn og skoraði tvö mörk fyrir Legia Warsawa. Svo vaknaði hann.

Daginn eftir fórum við í gamla bæinn í Varsjá sem er í raun og veru ekki svo gamall því 90% af Varsjá var sprengt upp í seinni heimstyrjöldinni, þar með talinn gamli bærinn. Sólin skein og það var 20°C, Eyjó hætti þó ekki að minnast á hvað hann saknaði kalda morgunsins þegar við mættum fyrst í bæinn. Eyjó þarf nefnilega ekki annað en að hugsa um sól og þá verður hann kaffibrúnn, það vill enginn verða svoleiðis.
Í gamla bænum fórum við í annað „free walking tour“. Það var heldur Pétur skemmtilegur túr eins og sá fyrri og sagði leiðsögumaðurinn okkur frá einni óvenjulegri aftöku aðferð sem notuð var til að taka af lífi mann sem ætlaði að reyna að drepa kónginn.
Hægri höndin hans var skorinn af, síðan var hann skorinn í sneiðar á meðan hann var á lífi, sneiðarnar brenndar og askan skotin úr fallbyssu yfir ánna Vistula sem rennur í gegnum Varsjá til að minna fólk á að gera svona ekki. Fólk í gamla daga hafði ansi svartan húmor!

Um kvöldið fórum svo á leik með Legia Warsawa. Það var rosaleg upplifun. Stuðningsmannaklúbburinn var meira en til í að deyja fyrir félagið og við að sjálfsögðu líka. Það kæmi mér á óvart ef það væru ekki hópslagsmál að leik loknum! 
Eyjó gerði það sem flestir menn frá Hvammstanga myndu gera og leitaði eftir Blikum frá Kópavogi. Það gerði hann með því að syngja „Babbabababa Breiðablik“ (https://www.youtube.com/watch?v=R5UrcLXtcZg&feature=youtu.be). Ótrúlegt en satt þá virtust engir Blikar taka undir með honum. Ég hugsaði líka mjög hátt „Liiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiifiiiiiiiiiiiiiiiiiii ÞRÓTTUR“ en enginn virtist taka undir þá hugsun með mér. Það voru reyndar litlir strákar þarna í grenndinni sem auðsjáanlega töluðu Lwow mállýskuna en erfitt er að gera greinarmun á hugskeytum sem innihalda „Þróttur“ og „Wigor“ á þeirri mállýsku vegna tvöfaldrar mállykkju sem myndast í efri barka.

Annars var ekki að spyrja að því, Legia endaði á að sigra leikinn og við gengum glaðir út í nóttina með þrjú stig og allir í Legia búningum. Við fengum því mikið af jákvæðum kommentum niðrí bæ það kvöldið.

Daginn eftir var svo komið að síðasta deginum okkar og ennþá var 20°C og sól. Við tókum bröttu töffarana á þetta, skelltum okkur beint á útikaffihús og sátum og röppuðum um daginn og veginn. Við sátum þarna líklegast í einhverja 3-4 klst og höfðum það rosa notalegt. 
Á leiðinni upp á flugvöll hittum við svo mann sem sagði „Legia“ og svo bara endalaust af random orðum mynduð með random bókstöfum úr stafrófinu eins og við skiljum pólsku. Við héldum að hann væri bara að segja hvað við værum flottir í þessum Legia treyjum og sögðum bara „Dobre, dobre, da, da“ (gott, gott, já, já) á móti.
Hann hætti svo ekkert að tala við okkur þannig að við báðum hann að segja þetta á ensku. Þá kom það upp úr krafsinu að hann væri heimilislaus og væri að biðja okkur um pening. Það var því rosa gott hvað við vorum jákvæðir á það sem hann var að segja fyrst.
Maggi endaði á að fá blóð úr honum yfir höndina á sér þegar maðurinn tók í höndina á Magga. Maggi stressaðist allsvakalega upp og hefði líklegast stressast minna við það að fá fullt af köldu vatni yfir sig í sturtunni frá Eyjó.

Góðir hlutir taka þó alltaf enda og því var næsta skref að fara upp á flugvöll og segja bless við þetta yndislega land sem Pólland er.

Mynd dagsins:

20170401_192620

 

 

 

 

 

 

 

Stuðningsmannaklúbburinn Styrmir gerðu sér glaðan dag á Pepsi-Arena (áður þekktur sem Polish army stadium)


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband