Síðan hvenær hefur það verið bannað að grínast í lögregluþjónum sem ætla að sekta mann?

Komið þið sæl,
eins og gengur og gerist þegar að ég fer með Steini eitthvert í skíðaferðalög lendir maður í einhverjum ævintýrum og það var einnig raunin í þetta skiptið.

Föstudagurinn byrjaði bara nokkuð klassískt. Vaknaði ferskur og skellti mér upp í lest til Wiener Neustadt þar sem að Steinn a.k.a Lean mean Stein machine(I'm so proud of it I put my name on it: http://www.ehow.com/how_5669317_use-lean-mean-grilling-machine.html#page=0) kom og sótti mig. Við þurftum aðeins að koma við hjá honum til að sækja eitt og annað. Þennan dag hafði verið haldið barnaafmæli á þessu heimili og eins og siður er til þá fylgir oft mikil sykurneysla barnaafmælum. Það var því nóg af öskrum og látum þegar að menn mættu á svæðið.
Eftir nóg af öskrum og látum var okkur ekki til setunnar boðið og keyrðum af stað til hans Jóns Briems sem er skíðakennari í Zell am See eins og hafði verið ákveðið áður. Á leiðinni stoppuðum við í bæ sem heitir Wagrain. Ég hafði nefninlega talað við hann Snorra Stefánsson sem var í 6-X í fyrra í Verzló og hann sagði að hann væri staðsettur í þessum litla skíðabæ ásamt fjölskyldu sinni. Það var því alveg upplagt að heilsa aðeins upp á hann. Ég, Steinn, Snorri og vinur hans Sölvi duttum því inná ítalskan veitingastað þar sem að við sátum á borði með fullt af nokkuð ölvuðum Dönum. Þar sem að ég hef nú búið í Danmörku áður og svoleiðis tala ég nú ágætis dönsku og reyndi ég að tala dönsku við þá. Mér til mikils óhugnaðar komst ég þó að því að ég gat það varla ekki því að ég var alltaf að blanda þýsku inn í dönskuna.

Við Steinn héldum svo ferð okkar áfram og komumst loks til Zell am See en þar lentum við í því að löggan tók okkur í svona random check. Það reyndist vera allt í góðu með ökumanninn og öll skjöl. En svo þegar löggan fór að líta á farartækið sjálft kom annað hljóð í lögreglumanninn. „Das ist kaputt, das ist kaputt und das ist kaputt“(þetta er bilað) var eitthvað sem að heyrðist nokkuð reglulega frá lögreglumanninum. Á sama tíma bauð Steinn þeim uppá bjór en því miður létti það ekki mikið skap lögregluþjónanna. Einnig létti það alls ekki heldur skapið þeirra þegar þeir báðu Stein að stöðva vélina. Þá sögðu þeir „stop“ og ég stóðst því ekki mátið því að segja „hammer time“(http://www.youtube.com/watch?v=otCpCn0l4Wo). Við þurftum því að fara með þeim upp á lögreglustöð og Steinn talaði við þá. Hann þurfti að borga sekt upp á rúmlega 250 € auk þess þá átti hann eftir að borga fyrir viðgerðina en samt endaði samtalið á því að Steinn bauð þeim að gista heima hjá sér á Íslandi einhvern tímann líkt og sönnum fagmanni sæmir.

Jón kom svo og náði í okkur á tveimur jafnfljótum. Þar sem að við höfðum ekki neinn bíl til að styðjast við þurftum við að labba með allt dótið upp í húsið hans Jóns. Það var töluvert mikið mál því að oftast þegar að maður fer í skíðaferðir þá fylgir mikið dót með. Við skelltum þar af leiðandi öllu dótinu á nokkurs konar segl því að við höfðum sett það yfir allt skottið þar sem að bíllinn lyktaði eins og hestur(Steinn vinnur við það að járna hesta). Við héldum því á því til hans Jóns en á leiðinni hittum við pólskan vin hans Jóns, Lukasz og hjálpaði hann okkur að halda á dótinu. Hann sagði okkur það að hann hafði aldrei ímyndað sér í sínu villtustu draumum að einn daginn mundi hann hjálpa þremum Íslendingum með skíðadótið þeirra á segli á föstudagskvöldi.

Við mættum svo til hans Jóns og er þetta hús sem hann býr í nokkuð sérstakt. Það hefur víst ekki verið búið í því í 10 ár og var það nokkuð greinilegt. Hann býr með níu öðrum útlendingum en þó aðallega Dönum. Eftir smá spjall og svoleiðis var skellt sér í rúmið.

Daginn eftir var vaknað og ég, Jón og Steinn skelltum á skíði enda var Jón í fríi. Þennan daginn fórum við á skíðasvæði sem ég og Steinn höfum áður verið á og heitir Kitszsteinhorn(held að það sé skrifað svona) og renndum okkur. Það voru algjörar toppaðstæður þennan daginn enda sól og mjög gott skyggni. Það var þó að hrjá mig ansi mikið að ég var í of litlum skíðaskóm og það er ekkert frábært. Fæturnir mínir fengu ansi vel að kenna á því. Það haftraði mér þó alls ekki að henda mér á stökkpallana enda er ég orðinn ansi háður þeim eftir að ég var með strákunumí Schladming(bangsapabbi(ákveðinn vinahópur stráka kallar sig þetta sem voru saman í 6-X í Verzló)).

Við komum okkur svo aftur til Zell am See eftir góðan skíðadag og skelltum okkur á indverskan/ítalskan veitingastað(eitt skrítnasta kombó sem ég veit). Ég og Steinn hentum okkur auðvitað á þann rétt sem okkur fannst fyndnasta nafnið á en Jón var bara leiðinlegur og fékk sér lasagna. Ég fékk mér svo einhvern klassískan indverskan gulróta eftirrétt sem reyndist vera ansi góður þrátt fyrir að vera ekki sá girnilegasti. Langt og gott bananasplitt freistaði hinna drengjanna.
Við héldum svo heim á leið að hitta hina krakkana í húsinu. Þau höfðu keypt fyrir sig og okkur miða í partý í kastala sem var í grendinni. Var því ekki annað í stöðunni en að fara þangað.
Þetta var ansi flott partý enda haldið í kastala sem var þúsund ára gamall. Sögunördinn í mér vaknaði þarna ansi vel. Partýið var þó reyndar ekkert upp á rosalega marga fiska en það skipti engu máli, þetta var haldið í eldgömlum kastala! Síðan var haldið heim á leið og lagt sig fyrir skíðaátök morgun dagsins.

Þýska dagsins:Halt, hammer Zeit(Stop, hammer time)
Mynd dagsins:

IMG_1165

 

 

 

 

 

 

 

 

Útsýnið frá Kitszsteinhorn, þetta er Steinn þarna í gula jakkanum. Alltaf auðvelt að finna hann í fjallinu.


Það er gott að hafa hlustað á Snæbjörn í gegnum árin

Sæl verið þið, þið miklu meistarar,
afsakið mig hversu langt er síðan að ég bloggaði. Málið er það einfaldlega að ég hef ekki haft tíma í það. Nú er ég í tvöföldu þýsku námi og það tekur bara sinn tíma að stunda það nám og að skrifa eitt svona blogg er nokkuð tímafrekt og stundum verður maður því miður bara að velja og hafna.

Eins og mætti búast við þá er eitt og annað búið að gerast hjá mér þessa síðustu eina og hálfa viku frá því að ég bloggaði síðast.
Um síðustu helgi var ég ansi mikið með honum Kai, þýskum vini mínum sem er 23ja ára og er leikskólakennari hérna í Vín en kemur frá Stuttgart(hann þekkti ekki Ásgeir Sigurvinsson, was?). Hann er algjör fótboltaaðdáandi þannig að það er ansi auðvelt fyrir mig að spjalla við hann um eitt og annað. Vil ég sérstaklega þakka honum Snæbirni vini mínum fyrir að hafa frætt mig um þýskan fótbolta í gegnum tíðina, þar sem að hann er nú gífurlegur áhugamaður um þýskan fótbolta og gæti hann örugglega stillt upp frábæru þýsku landsliði í gegnum tíðina og skilyrðið væri að allir leikmennirnir þyrftu að vera með M&M(möllet og mottu).

Á föstudagskvöldið síðasta fórum við félagarnar(ég og Kai) saman út á lífið og fórum við á klúbb sem er hérna í nágrenninu sem heitir Ride Club en því miður fyrir mig var enginn Matthias Schweighöfer á staðnum eins og helgina áður.
 Daginn eftir fórum við svo saman strákarnir saman að horfa á leik hjá Rapid Wien, en það er eitt af tveimur bestu liðunum hérna í Austurríki. Þetta var æfingaleikur gegn einhverju fjórðu deildarliði svo að það var ekki beint hægt að segja að þetta hafi verið mest spennandi leikur sem ég hef einhvern tímann séð(Rapid vann 8-0).

Húsið þar sem ég bý í er búið að vera nokkuð tómlegt síðustu vikurnar, en í þessari viku þá er búið að flytja inn fullt af fólki og núna er búið í hverju einasta herbergi. Fyrst fluttu inn þó nokkuð mikið af Spánverjum og Ítölum og tala þau öll meira og minna ensku þannig að það er í góðu. Er búinn að kynnast ágætlega einum spænskum dreng sem býr í næsta íbúð og heitir hann Rafael. Hann er að vinna hjá Salm Bräu líkt og ég gerði. Eftir að hafa unnið þar í viku, hætti hann. Mér fannst því gott að sjá að ég var ekki einn um þetta.

Seinna í vikunni gerðist svo alveg undur og stórmerki þegar rosa stór hópur af Frökkum flutti hingað inn og eignaðist ég tvo nýja íbúðarfélaga. Þeir tala næstum enga ensku og hvað þá þýsku. Hversu geggjað? Þessi hópur eru samansettur af krökkum sem eru í bakaranámi í Frakklandi, réttara sagt í Brittany og eru að vinna í bakaríum hér í Vín í þrjár vikur. Strákarnir vakna alltaf á hverjum degi rétt rúmlega fjögur því að þeir þurfa að vera mættir í vinnuna klukkan fimm. Samt fara þeir alltaf að sofa á eftir mér, veit ekki alveg hvernig þeir höndla þetta.

Ég fór svo í fyrradag niður í ráðhús því að ég þurfti að skrá mig út úr landinu því að ég er alveg að fara heim. Þrátt fyrir að mér líki bara ágætlega við dvölina hérna verð ég að segja að ég er orðinn ansi spenntur fyrir heimkomu.

Í gær var ég svo í skólanum líkt og alla virka daga nema föstudaga og þar sagði kennarinn okkur frá sið sem er víst nokkuð algengur í Austurríki en þó meira út til sveita og mér finnst furðulegur. Fjörtíu dögum fyrir páskasunnudag er það hefð hjá mörgu fólki að fasta og lifa einungis á vökva og hefst það því þann 8. feb. Ok, Jesú gerði þetta í fjörtíu daga þegar að djöfullinn var að reyna að freista hans en í alvörunni að fólk geri þetta ennþá finnst mér bara stórfurðulegt.
Um kvöldið fór ég svo á mína fyrstu fótbolta æfingu eftir vetrarfrí og var það bara ágætt. Ekkert frábært reyndar því að við skokkuðum alltof lengi á rosalega lágu tempói í kringum völlinn í lok æfingar og var ég mjög sáttur þegar að þjálfarinn sagði okkur að hætta.
Eftir hlaupið hélt hann svo ræðu sem að ég skildi bara ekki eitt einasta orð í. Ástæðan er sú að hann talar Vínarþýsku og ráðlegg ég þeim öllum sem hafa áhuga á því að fara og læra þýsku að gera það frekar í Þýskalandi þar sem að háþýska er töluð. Ekki nóg með að Vínarbúar tali með allt öðru vísi hreim og áherslum heldur hafa þeir líka töluvert annan orðaforða. Ég hef séð austurískar-þýskar orðabækur sem eru bara þykkar og oft á tíðum skilja Þjóðverjar Austurríkismenn ekki og öfugt.

Hjá mér er svo planið um helgina að heilsa uppá hann Stein vin minn og saman ætlum við að fara til hans Jón Briems á skíði. Þannig að það verður vonandi bara snilld.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Wer die qual hat, hat die wahl(Sá á kvölina, sem á völina(eitthvað grunar mig að við Íslendingar höfum stolið þessum málshætti))

Mynd dagsins: 

Voller

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Rudi Voller kæmist vafalaust í liðið hans Snæbjarnar, enda afburða leikmaður með afburðagott M&M 


Rauði baróninn lifir!

Ciao amici,
helgin hjá mér bauð upp á eitt og annað og vona ég það kæru lesendur að ykkur muni hún finnast nokkuð spennandi líkt og mér finnst hún þegar að ég hugsa til baka.

Á laugardaginn var, beið ég spenntur eftir því að fá Kínverjann sem átti að flytja inn í herbergið til mín, mundi koma en því miður komst ég að því að vegna vandræða með vegabréfsáritun mun það bíða betri tíma að ég bý með dreng frá Austurlöndum fjær. Reyndar mun það gerast einhvern tímann bráðlega að franskir drengir flytja hingað inn og hún Francesca sem sér um þetta talaði um að þeir muni líklegast ekki tala neina þýsku né ensku. Þannig að það er frábært.
Um kvöldið kom svo Kai, þýskur vinur minn sem býr hérna í húsinu til mín. Við vorum á leiðinni í partý til spænska stráksins sem ég talaði um í síðasta bloggi. Að sjálfsögðu spilaði hann bara fyrir mig þýska tónlist og hafði ég gaman að því. Sérstaklega af hljómsveitinni Böse Onkels(Reiðir frændur). Þessi hljómsveit er víst bönnuð á öllum útvarpstöðum í þýskalandi vegna þess að þeir voru svo öfgahægri sinnaðir þegar að þeir voru unglingar en núna eru þeir allir um fimmtugt og hafa þeir breytt textum mjög mikið og syngja núna gegn öfgaflokkum en eru samt ennþá bannaðir. Þegar að þeir héldu lokatónleikana sína mættu 500.000 manns á þá þrátt fyrir að fjölmiðlar séu ekki með þeim í liði, sem mér finnst ansi gott. Mæta einhvern tímann 500.000 manns á tónleika hjá Justin Bieber?(Ég veit það ekki, bara að spyrja)

Við fórum svo í þetta partý og var það virkilega gaman fannst mér. Þarna voru um 15 gestir og einungis fjórir frá sama landinu, tveir Spánverjar og tveir Þjóðverjar. Um helmingurinn af þessu fólki hafði verið með honum Adrian(Spánverjinn) á Íslandi í HR.
Fólkinu fannst ég því vera spennandi og hafði það mjög gaman af því að spyrja mig út í hitt og þetta, auk þess sem að það sagði mér skemmtilegar sögur frá Íslandi. Þegar ég skoðaði gestalistann á facebook tók ég einnig eftir því að þrír höfðu tekið upp á því að kalla sig –son eða     –dóttir(Borisdóttir, Míjósson og Rennerson) Í teitinu var að sjálfsögðu líka boðið upp á töluvert magn af íslenskri tónlist og margir þarna inni gátu sungið með lögunum þannig að manni leið smá eins og maður væri bara heima. Ég spjallaði líka við einn Kínverja í svona kortér á ensku og skildi varla orð af því sem að hann sagði, það lítur því allt út fyrir að ég var kannski bara heppinn að Kínverjinn sem átti að flytja inn kom ekki. Hann var t.d. alltaf að rugla saman r og l sem er frekar fyndið finnst mér.

Við fórum svo inn á skemmtistað í miðbænum. Þar lenti ég í því að ég var að dansa við einn dreng í smá tíma sem ég hafði ekki hugmynd um hver væri. Fannst þó eitthvað einkennilegt hvað flest allir aðrir störðu mikið á þennan strák. Ég komst svo að því í dag að þetta væri Matthias Schweighöfer(http://en.wikipedia.org/wiki/Matthias_Schweigh%C3%B6fer) en það er mjög þekktur leikari í hinum þýskumælandi löndum en hann hefur leikið í bíómyndum með bæði Brad Pitt og Tom Cruise auk þess sem að hann lék aðalhlutverkið í Rauða Barónum. Þannig að þrátt fyrir að Manfred von Richtofen hafi verið skotinn niður í fyrri heimstyrjöldinni þá heldur hann áfram að lifa í mynd ungs drengs sem dansar í takt við íslenskan kollega.

Daginn eftir(sunnudagur) reif ég mig svo upp til að klifra ásamt honum Hannesi og fjölskyldunni hans(þessi fjölskylda á húsið sem að við leigðum þegar að fjölskyldan mín og Ingibjörg vorum stödd hér í Kaumberg síðustu jól). Við fórum í klifurhús og hafði ég bara gaman að því. Þetta tók að sjálfsögðu rosalega á en mér fannst ég bara vera orðinn nokkuð góður í þessu í lokin. Aðalmálið var líklegast að komast yfir lofthræðsluna og átta sig á því að maður væri alveg öruggur. Litla stelpan þeirra sem er rétt rúmlega fimm ára tók að sjálfsögðu líka mjög virkan þátt og var hún ansi góð. Reyndar alveg ótrúlega góð fannst mér. Hannes var svo sjálfur ekkert að klifra og var bara þarna til að hjálpa mér og litlu stelpunni þeirra, algjör fagmaður.
Í Austurríki er klifur mjög vinsæl íþrótt og eru til alveg rosalega mikið af klifurhöllum út um allt auk þess sem að fólk fer mikið upp í fjöllin til að klifra, sérstaklega í Vestur-Austur/ríki(hehe). Í höllinni sá ég einnig fjórar „manneskjur“ þar sem að ég var bara alls ekkert viss hvort að þetta voru karlmenn eða kvenmenn. Voru með karlmanns líkama en samt sýndist mér andlitið þeirra minna eitthvað á kvenleika. Hannes gat heldur alls ekki borið kennsl á hvort að þetta voru karlmenn eða kvenmenn.
Að klifrinu loknu var svo kominn tími til að fara heim og bauð Hannes mér með sér og fjölskylduni hans á skíði næstu helgi og gat ég að sjálfsögðu ekki gert annað en að þakka fyrir það boð og segja já.

Í dag fóru svo Ítalarnir heim til sín í tveggja vikna frí. Þeir koma svo hingað aftur þann 31. janúar, deginum áður en að ég fer heim. Flytja samt ekki aftur í sömu íbúð heldur fundu þeir einhvern stúdentagarð sem að þeir ætla að búa á. Í morgun var svo í fyrsta skiptið sem að það kyngir niður snjó á meðan á dvöl minni hefur staðið og líkt og heima þá fer öll borgin í rugl. Þannig að mjög margir komu seint í skólann í dag, en ég var bara á mjög flottum tíma. Í skólanum í dag talaði kennarinn um Vínarböll sem eru mjög lík því og voru hérna áður fyrr(eitthver svona týpa: http://en.wikipedia.org/wiki/Cotillion). Ég hafði virkilega hugsað mér að fara á eitt svona áður en ég fer enda er balla tímabilið að byrja næstu helgi. En kennarinn sagði okkur frá því að karlmenn þyrftu að klæðast smóking eða kjólfötum og það kostaði allt frá 70 € til 120 € að fara þannig að ég held að ég sleppi því bara.
Ég fór svo áðan út að hlaupa í stuttbuxum í snjónum vegna þess að ég hafði sett íþróttabuxurnar mínar út á svalir um daginn til að lofta um þær en svo þegar ég ætlaði að ná í þær þá voru þær horfnar. Ég fékk því töluvert af skrítnum augnaráðum á meðan að á hlaupinu stóð. Fólk ekki vant því að sjá gaur vera hlaupandi þegar snjórinn er töluverður.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Ottakringer strasse, heute macht ma Party((Ottakringer gata, hérna skemmtum við okkur í dag) uppáhalds austurríska lagið mitt)
Mynd dagsins:

SAM_9820

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það var alltaf draumur hjá mér þegar að ég var lítill að klifra upp á Mount Everest, stundum verður maður þó að gera málamiðlanir(ég er þessi þarna í rauðu buxunum)


Það eru ekki allir Spánverjar sem geta sungið með lögunum "Lífið er yndislegt" og "Viltu dick?"

Sæl öll,
á mánudaginn síðasta var fyrsti skóladagurinn hjá mér í nýja skólanum og var allt gott að frétta þaðan.

Ég var mættur í skólann í dag kl. 9 í byggingu sem væri ekki beint hægt að lýsa sem hinni klassísku skólabyggingu. Skólinn er nefnilega staðsettur í skýjakljúf sem er beint á móti óperunni.
Ég fór í minn fyrsta tíma og gaman er að segja frá því að ég þekkti kennarann því að hún hafði kennt mér í þýskuskólanum sem ég var í síðast.
Í upphafi tímans kynntum okkur hvert fyrir öðru, þarna var fólk frá hinum ýmsu löndum en þó aðallega frá Austur-Evrópu. Rússnesk stelpa sem býr í Moskvu og að læra í háskólanum í Moskvu germanska málfræði(hversu steikt?), ungverskur maður sem tekur lestina á hverjum degi frá Ungverjalandi í tvo tíma til að koma í skólann, óeðlilega hress kona frá Venezúela, rúmensk stelpa um tvítugt sem er gift austurrískum manni, ítalskur maður með hökutopp og íranskur maður sem er að læra tónsmiðar. Jább mjög marglitaður hópur.

Þegar klukkan sló svo 12 þurfti ég að færa mig yfir í aðra stofu því að ég er líka í öðrum þýskuhóp sem er á aðeins hærra stigi. Þar var kennarinn alveg rugl samkynhneigður og hafði ég bara mjög gaman að honum. Páll Óskar er bara nokkuð gagnkynhneigður miðað við þennan. Ég er svo mjög sáttur með það að þetta er fyrsta manneskjan sem hefur einhvern tímann leiðrétt mig á þýskunni og það er ekki útaf því að þetta er í fyrsta skipti sem ég tala málfræðilega vitlaust.
Sömu sögu var að segja um þennan hóp. Þarna var kona frá Kosta Ríka, stelpur frá Ítalíu, Slóvakíu og Kosovo, strákar frá Tyrklandi og Íran og maður frá Kúbu sem kennir latneska dansa hér í Vín. Þetta var erfiðasti þýskutími sem ég hef farið í en ég tel það bara af hinu góða. Hann var samt ekki þannig að ég skildi ekki neitt og lærði ég því bara fullt held ég. Ég fór svo beint heim eftir skóla og á leiðinni leit ég inn í einn kebab sölubás þar sem að gaur blés reyknum frá sígarettunni bara beint á kjötið. Ég held því að ég haldi mér frá því að kaupa Kebab á þessum stað.

Um kvöldið var mér og herbergisfélögum mínum boðið í mat upp til hina Ítalanna. Boðið var að sjálfsögðu upp á spaghetti og í eftirrétt var einhver geggjaður eftirréttur sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir. Þetta var allavega svona ítalskt brauð og ofan á það var sett einhverslags eggja og sykurskrem, á erfitt með að lýsa þessu en var allavega mjög gott. Þar sagði hún Francesca mér að það er kínverskur strákur að nafni Wu að fara að flytja inní herbergið með mér seinna í vikunni sem er bara snilld. Þegar nokkuð var liðið á kvöldið kom svo þýskur strákur til okkar og átti ég ansi gott spjall við hann. Hann heitir Kai og er frá Stuttgart og er að læra að vera leikskólakennari.

Þriðjudagurinn var svo bara nokkuð klassískur og lítið sem í raun gerðist. En svo kom miðvikudagurinn með ágætis skriðþunga. Eftir skóla var fyrsti jógatími ársins 2013. Því miður gerðist ekkert kraftaverk í sambandi við liðleikann minn yfir jólin og er kennarinn ennþá dugleg að koma með dæmi um hvernig á að gera einhverja teygju og hvernig á ekki að gera sömu teygjuna. Þið getið ímyndað ykkur í hvaða flokki ég enda í.

Um kvöldið var okkur aftur boðið í mat. Ég ætlaði bara að vera örstutt því ég átti eftir að gera heilmikið af heimavinnu enda er ég á tvöföldu námskeiði en í þetta skiptið hitti ég spænskan strák sem hafði búið á Íslandi. Hann var mjög hress gæi og dróst þetta matarboð mjög á langinn. Hann hafði verið í HR á tölvubraut þar, en hann fór víst aldrei í skólann því að það var svo mikið að gera í félagslífinu hjá honum víst. Það var auðsjáanlegt að hann var mjög hrifinn af íslenskri menningu og sem dæmi þá gat hann rappað við allt lagið „Viltu dick“ með Blaz Roca þrátt fyrir að hann kynni varla íslensku. Einnig sagði hann mér að hann fílaði Ingó Veðurguð, Frikka Dór, Retro Stefson og FM Belfast auk þess sem hann kunni allan textann við „Lífið er yndislegt“.
Einnig heldur hann mjög góðu sambandi ennþá við vini sína á Íslandi þrátt fyrir að það séu rúmlega tvö ár liðin síðan að hann fór. Hann þoldi þó ekki í sambandi við Ísland hvað margir strákar vilja alltaf fara í slag á djamminu og er það eitthvað sem ég held að ég sé bara fullkomlega sammála honum með.

Fastir liðir:
Franska/þýska dagsins: Le Vasistas(Gluggi sem er fyrir ofan hurðar(þegar þýskir hermenn voru í seinni heimstyrjöldinni í Frakklandi spurðu þeir stundum Frakka „Was ist das?“(Hvað er þetta?) og bentu á þessa glugga. Því varð þetta orð til á frönsku)
Mynd dagsins:

b

 

 

 

 

 

 

 

 

 Húsið sem að skólinn minn er í. 


Það verður seint sagt að kveðjustundir séu frábærar

Sæl verið þið,
nú er þetta síðasta bloggið frá því að Ingibjörg og fjölskyldan voru hjá mér.

Miðvikudaginn 2. janúar vöknuðum ég og Ingibjörg heima hjá mér í Vín eftir að við höfðum kíkt út að tjútta daginn áður. Við freistuðumst til þess að hrista aðeins slenið af okkur og var það gert með því að refsa járnunum sem voru staðsett í ræktinni sem er rétt hjá mér. Þar var einn gæi í ræktinni með sjúkasta ræktarsvip sem ég hef séð, mætti halda að hann ætlaði að drepa einhvern á meðan að hann var að lyfta en það var bara gaman að því. Einnig stundi hann rosalega hátt.

Við höfðum svo ákveðið það mörgum dögum áður að við mundum einhvern tímann kíkja í aida sem er rosalega bleikt konditori og er út um allt hérna í Austurríki. Við skelltum okkur þar á Berlínarbollu sem var mjög girnileg en var þó ekki með venjulegri sultu inn í heldur einhvers lags vanillu smjör, heitir Krapfen.
Við fórum svo og hittum fjölskylduna aftur upp í miðbæ Vínar en þau höfðu farið í svona hop on-hop off strætó þar. Þar héldum við áfram göngu okkar um Vín og enduðum á safninu um hana Sissi, fyrrverandi keisaraynju Austurríkis og er í raun hægt að segja að hún sé þekktust allra þeirra sem hafa tilheyrt austurrísku keisarafjölskyldunni. Á safninu var heljarinnar mikið vesen vegna þess að einn miðinn gilti ekki og það var búið að loka afgreiðsluborðinu en það blessaðist þó fyrir rest.
Að því loknu ákváðum við að fara á sushi train sem að var hægt að borða eins mikið á og maður gat. Á leiðinni þangað sáum við mér til mikillar gleði fjóra vini taka ghosting upp á næsta level með því að vera allir í kjólfötum, það var mjög töff fannst mér. Þeir sem þekkja ekki hina frábæru og virðulegu ghosting íþrótt geta fræðst um hana betur hér: http://www.youtube.com/watch?v=gYjn5QBfAUQ og fyrir þá sem nenna ekki að horfa á allt þetta vídeó geta líka séð annað styttra hér: http://www.youtube.com/watch?v=BzPRO4921So

Við fórum svo á þetta frábæra sushi train í Praterstern sem er garður svipaður og Central Park í New York og lærði ég af fyrri mistökum og reyndi að belgja mig sem minnst út og halda mig eins langt frá lestinni og ég gat. Fólk var almennt bara mjög sátt með þennan stað og fannst alveg fáránlegt að svona sé ekki komið til Íslands. Við fórum svo heim að mat loknum og lögðumst til hvílu.

Fimmtudagurinn var svo síðasti heili dagurinn sem að þau áttu eftir. Við fórum fyrst í óperuna og þar fengum við leiðsögn um óperuna. Þar var margt áhugavert að heyra fannst mér og það mest áhugaverðasta fannst mér var að heyra hversu mikið fólk var að borga fyrir sumar uppákomurnar þar. Við krakkarnir ætluðum svo í dýragarðinn að óperu lokinni en vegna þess hve mikið var byrjað að rigna ákváðum við að hætta við það og fundum okkur skjól inn í verslunarmiðstöðum Vínarborgar. Við skelltum okkur svo aðeins inn á Starbucks og svolgruðum niður hinum ýmsu aðföngum.

Svo var bara komið að því að þau þurftu að fara. Við höfðum pakkað niður deginum áður svo að það var ekkert vesen þegar að við vöknuðum. Fjölskyldan sem á húsið kom svo rétt áður en að við tókum af stað. Þau voru bara mjög hress og buðu mér að koma einhvern tímann yfir helgi og vera hjá þeim og fara að klifra aðeins.
Við héldum svo á flugvöllinn með smá stoppi heima hjá mér þar sem að ég henti af mér farangrinum mínum. Þegar þangað var komið lentum við í svakalegu veseni með að ná virðisaukaskattinum til baka og þegar að við héldum að það væri komið, komumst við loksins að því í lokinn að það þurfti að vera gert í Danmörku því að maður fær bara vaskinn til baka þegar að maður fer út úr Evrópu sambandinu. Þetta er allavega gott fyrir mig að vita þegar ég fer sjálfur heim 1 feb. Er núna búinn að panta flug heim og allt.
Við kvöddumst svo og fannst mér mjög leiðinlegt að sjá þau öll hverfa svona frá mér eftir góðar tvær vikur. En jæja, ég kem þó heim núna eftir tæplega fjórar vikur.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Wie viel kostet diese Hund in das Fenster, woof woof?(Hvað kostar þessi hundur út í glugga, voff voff?)

Mynd dagsins:
SDC10787

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Salur keisarans í óperunni, hann var ansi töff. Það er líka rugl dýrt að leigja hann en það er þó mögulegt ef einhver hefur áhuga 

Af áramótum í Kaumberg

Heil verið þið kæru lesendur,
á mánudaginn síðasta var svo komið að gamlársdegi hjá okkur í Kaumberg, reyndar var gamlársdagur líklegast liðinn á Nýja Sjálandi en við vorum ekki að hafa miklar áhyggjur af því.

Dagurinn byrjaði á góðum göngutúr um bæinn. Þar sem að bærinn var ekki ýkja stór var hringurinn því ekki langur og líka kannski bara eins gott því að Ingibjörg hafði slasast á fætinum deginum áður en hún harkaði þetta ansi vel af sér og á hún hrós skilið fyrir það.
Við fundum miðbæinn og þar var alveg þokkalega mikið af fólki sem var allt í kringum einn Glühwein sölubás. En þessi sölubás var hringlaga og úr snjó-Grænland style, mjög töff fannst mér. Það var verið að undirbúa þar bæjarhátíðina sem átti að vera þar um kvöldið og við ákváðum að við ætluðum þangað þetta kvöldið.

Um kvöldið eldaði svo mamma ofan í okkur krómhjört, hún varð vægast sagt mjög ósátt með hann en hafði þó gert ráðstafanir með því að elda kalkún vegna þess að þetta var fyrsta skipti sem að hún eldaði krómhjört. Allir fóru því saddir og sáttir frá borði.
 Svo var hafist handa við að sprengja flugelda. Pabbi og Patti sáu um að kveikja á flugelda á meðan að við hin héldum á „stjörnuljósunum“ okkar, en það var semsagt reykelsis stangir sem að við héldum að væri stjörnuljós þegar að þau voru keypt. Stjörnuljós eru nefnilega alls ekkert það frábær fyrirbrigði finnst mér og reykelsisstangir eru sko miklu verri útgáfa, þið getið því ímyndað ykkur hversu frábær mér fannst þau. Á meðan að á sprengingunum stóð gekk hópur stelpna um svona 13 ára aldurinn fram hjá okkur og var það mjög fyndið að heyra hversu hátt þær öskruðu alltaf í hvert skipti sem að við sprengdum flugeld.
Eftir þessa mikilfenglegu flugeldasýningu hjá okkur var aðeins farið inn í hús til að skála. Þar var dropið á kampavíni, nema hjá honum Patta sem fékk sér „party for kids“. Síðan reyndi amma með ágætis árangri að fylla mig með Baileys og það var bara gaman að því.
Svo var rölt af stað á hverfishátíðina í Kaumberg. Justin Bieber hlýtur að hafa verið að spila þarna fyrr um kvöldið eða verið að dreifa ókeypis unglingabólulyfi eða eitthvað því að það voru örugglega allir unglingar sem eiga heima í svona 30 km radíus voru saman komnir þarna og ekki mikið var um manneskjur yfir svona 16-17 ára. Amma var því ansi góð á því þarna á dansgólfinu!
Eftir að hafa horft á flugeldasýninguna sem hófst um miðnætti hélt fjölskyldan heim á leið nema ég og Inga.

Okkur fannst það algjör skömm að inn í partýtjaldinu var fullt af fólki og brjáluð tónlist en enginn að dansa. Því fannst okkur við hafa skyldu gagnvart fólkinu í Kaumberg að kveikja í dansgólfinu og þrátt fyrir að ég segi sjálfur frá fannst mér við hafa náð því. Við vorum búin að fá fullt af fólki með okkur í lið og allir farnir að hafa rosa gaman. Svo var eitthvað um það að fólk bað okkur um að láta taka myndir af sér með okkur svo að okkur leið eins og við værum orðin smá celebs þarna. Ingibjörg olli mér svo smá vonbrigðum þegar að lagið „99 Luftballons“ (http://www.youtube.com/watch?v=9whehyybLqU) var spilað og spurði mig hvort að þetta væri þýska útgáfan af „99 red balloons“. Ég gat þó alveg fyrirgefið það stuttu seinna en það tók samt á þegar að hún sagði að enska útgáfan væri betri!
Þegar að við ætluðum svo heim bað ein stelpan mig um nafnið hjá okkur svo að hún gæti addað okkur á facebook. Þar sem að ég heiti örugglega einu algengasta nafni Íslands finnst mér mjög ólíklegt að hún muni einhvern tímann finna mig. Við komum okkur svo heim eftir ævintýri kvöldsins.

Daginn eftir skelltum við okkur svo til Vínar. Þar var gert eitt og annað til dundurs. T.d. þá skoðuðu þau veitingastaðinn sem ég vann á en hélt ég mig fyrir utan þar sem að mig langaði bara alls ekkert þangað inn. Þau höfðu þó gaman af að kíkja þangað inn og Ingibjörg útskýrði núna fyrir mér hvernig Frau Eliz tekst alltaf að vera 45 mínútur á klósettinu því að hún sá það gerast.
Eftir að þau höfðu dvalið í Austurríki í eina og hálfa viku fannst okkur vera kominn tími á Wiener Schnitzel enda mjög vandræðalegt að koma heim til Íslands án þess að meltingarkerfið hefði fengið að takast á við þann yndislega mat. Við leituðum því að stað sem matreiddi svoleiðis og fundum við einn mjög fínan ítalskan/austurrískan stað. Eftir máltíðina gengum við aðeins um Vín og sáum þar risastóran skjá sem hafði verið settur á óperuna til að sýna í beinni hina árlegu Nýárstónleika Vínaróperunnar sem voru að gerast á sama tíma inn í óperunni. Hversu svekkjandi að borga fullt til að komast inn þegar að þú getur horft á það sama á stórum skjá fyrir utan á sama tíma?

Ég og Ingibjörg urðum svo eftir í Vín á meðan að restin af fjölskyldunni fóru aftur til Kaumberg. Við prófuðum að glöggva eftir einhverjum skemmtistöðum sem voru opnir um kvöldið og við fundum einn sem hélt partýið „Tuesday 4 Club“. Við skelltum okkur því þangað og var þetta hin besta skemmtun. Sjúkrasaga Ingibjargar hélt svo aðeins áfram þarna því að inn á skemmtistöðum í Austurríki má reykja og fólk dansar með sígaretturnar á sér og lenti hún í því að stelpa inn á staðnum brenndi hana með sígarettunni. Já maður er vanur ansi góðu heima að hafa þetta reykingarbann. Eftir það ákváðum við að kíkja aðeins í smá ferskt loft og lentum við þar á góðu spjalli við dyraverðina sem voru króatískir og voru að horfa á uppáhalds grínmyndina mína allra tíma „You don‘t mess with the Zohan“.
Við héldum svo heim á leið nokkru seinna eftir gott kvöld.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Hier darfst du immer rauchen(Hérna máttu alltaf reykja)
Mynd dagsins:

P1030103

 


 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Ég og Ingibjörg á gamlárskvöld 

Best er að enda fyrstu ferðirnar sínar á skíðum í austurrískum sjúkrabíl

Góðan daginn kæru lesendur,
nú sit ég hér á járnbrautarstöðinni á flugvellinum í Vín nýbúinn að kveðja fjölskylduna og Ingibjörgu. Ég hafði mjög mikla ánægju af þessari heimsókn og er ég mjög þakklátur fyrir að hafa fengið þau til mín. Það var leiðinlegt að kveðja þau en gott til þess að hugsa að ég kem heim eftir fjórar vikur.

Á síðasta laugardag(29 des.) fórum við á skíði í Schladming, skíðasvæði sem er frekar nálægt þar sem að við bjuggum í Kaumberg. Skíðaólánið hélt áfram að elta okkur og mun ég koma betur að því seinna. Það fyrsta sem við sáum þegar að við mættum voru fullt af slökkviliðsmönnum út um allt og mátti jafnvel halda að það hefði kviknað í einhverju en svo reyndist ekki vera heldur var heimsbikarsmótið á skíðum í gangi. Ég sá t.d. nokkra alveg eins bíla eins og Steinn Orri á þarna(30 ára gamlir Volkswagen slökkviliðsbílar).
Við leigðum okkur skíði og keyptum okkur miða í brekkurnar. Ég var fyrir því óláni að setjast á eitthvað járn sem að skíði voru á og runnu þau þannig til að þau skullu á hausnum á svona fjögurra ára strák og getum við bara orðað það þannig að ég fékk ekkert rosalega fallegan svip frá mömmu hans auk þess sem strákurinn fór að hágráta. Frábær leið til að byrja daginn! Síðan var hafist handa við að renna sér. Flestar brekkurnar voru lokaðar útaf þessu heimsmeistaramóti og því bara tvær brekkur til að velja á milli. Við völdum óvart erfiðari brekkuna og er það kannski ekki alveg það sniðugasta þegar að skíðabyrjandi er í hópnum. Ferðin þurfti því að enda á rassinum en það er bara gaman að því. Við vorum svo sniðugari að velja auðveldari leiðina næst og var hún líka bara ansi skemmtileg.Svo var brekkunum lokað klukkan fjögur því að það þurfti að troða brekkurnar. Þá var komið rugl mikið fólk því að allir voru komnir að horfa á skíðakeppnina(ég hélt með Michaelu Kirschgasser en Ingibjörg með Yurgoslevu Lovelenu).

Klukkan sex byrjuðum við svo að renna okkur aftur í brekkunum því að þær voru upplýstar. Það var samt ekkert rosalega sniðugt að skíða þá því að það var mjög erfitt að komast aftur niður að skíðalyftunni því að það var svo mikið af fólki fyrir. Það gerðist t.d. þrisvar fyrir Ingibjörgu að reka skíðin í hausinn á öðru fólki. Hún vann mig því 3-1 þennan daginn í að reka skíði í hausinn á fólki.
Þegar við vorum ekki búin að vera lengi að skíða þá datt Inga á skíðunum og meiddi sig ansi illa. Hún náði þó að harka af sér og gat skíðað alveg niður. Þar var þetta orðið það sárt hjá henni að ég náði í lækni til að kíkja á þetta. Læknirinn bað okkur um að koma inn í sjúkratjaldið sem var þarna rétt hjá. Eftir að þó nokkuð margir læknar höfðu kíkt á þetta var ákveðið það að senda hana upp á næsta spítala í sjúkrabíl til að taka röntgen mynd til að vera alveg viss að það væri í lagi með hana.

Þetta var því í fyrsta skipti sem að bæði ég og Ingibjörg höfum farið upp í austurrískan sjúkrabíl. Í sjúkrabílnum var svona 23 ára strákur sem var alveg út úr heiminum vegna áfengisneyslu og rosalega blóðugur í framan auk þess sem að sjúkraliðinn hét Günther.
Það tók þennan dreng svona örugglega þrjár mínútur að átta sig að rosa skvísa var komið í rúmið við hliðina á honum. Þá tók hann við sér og byrjaði að tala við hana. Það eina sem hann sagði við hana var reyndar „wie geht‘s?“(hvernig hefur þú það?) svona tíu sinnum en það var bara gaman að því. Svo var hann líka mikið að snerta hana en þá fannst mér og Günther félaga okkar hann ganga yfir strikið og vorum við því mikið í því að fjarlæga krumlurnar þessar 25 mínútur sem bílferðin tók.

Síðan þegar að við mættum á spítalann var tekið mynd af fætinum hennar og reyndist hann bara vera í góðu lagi. Við gátum því farið heim og Inga gat prísað sig sæla með að fóturinn var ekki í einhverju rugli.

Daginn eftir vildi Patrekur svo ólmur halda til Bratislava í Slóvakíu sem er rétt hjá til að sjá hvort ímynd hans af bænum væri eins og raunveruleikinn. Það var farið í skoðunarferð og tók keyrslan um tvær klst. Hópurinn var kominn með ansi háa standarda eftir að hafa skoðað bæði Vín og Búdapest sem eru báðar ótrúlega fallegar borgir.
Við komumst að því að svipað var uppá teningnum í Bratislava og í Austurríki, mest allt var lokað á sunnudögum, við tókum þó reyndar gott rölt á þetta og fundum loks H&M búð sem var ekki lokuð og var að sjálfsögðu kíkt aðeins við í henni.
Síðan var gengið inn í litla miðaldagötu sem hefur líklegast verið aðalverslunargatan hér áður fyrr. Þar var mest allt opið og fórum við inn á veitingastað þar. Það var einhvers konar slóvakískt steikhús og var ég mjög sáttur með réttina þar sem að þeir voru vel útilátnir. Í miðri máltíð varð svo rafmagnslaust og því alveg dimmt inn á staðnum. Ég var alveg viss um það að þegar ljósin yrði kveikt að þá væri allt horfið úr öllum vösum og veskjum hjá okkur en okkur til mikillar gleði reyndist svo ekki vera.

Við fórum svo útaf staðnum og röltum meðfram Dóná, þar sýndi ég þeim bátinn þar sem að ég og Steinn rötuðum óvart inn á eitthvað mafíupartý síðast þegar að við vorum þar. Við héldum svo göngutúrnum áfram og enduðum inn í kirkju sem var eins og allar aðrar kaþólskar kirkjur, alveg rosalega falleg og með jólalandi sem var allt á hreyfingu, mjög flott. Þetta var þó ekki sama kirkja og ég og Steinn fórum í messu í síðast sem við vorum þarna.
Eftir góðan göngutúr um Bratislava að kvöldi til var svo haldið heim á leið og voru allir nokkuð sammála um það að þeim líkaði mjög vel við borgina þótt að það eigi þó aðeins eftir að taka til hendinni þarna.

Fastir liðir: !
Þýska dagsins: Sie mussen mit dem Krankenwagen fahren!(Þú ferður að fara með sjúkrabíl)
Mynd dagsins:

SDC10748

 


 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Skíðaferðir sem enda ekki uppá spítala eru tímaeyðsla 

Sumir ungverskir karlmenn vinna í Laugarásbíó

Á jóladag var svo vaknað og hrist af sér slenið með því að göngutúra sig í gang. Steinn skildi við okkur eftir góða heimsókn og gengum við upp að kastala sem er hérna í grenndinni sem heitir Araburg. Hann var upp á hárri hæð og var því ágætis mál að fara alla leið þar upp, reyndar var amma sem er orðin 74 ára svo góð að komast þangað upp en hún er líka í hörkuformi þar sem að hún gerir mjög mikið af því að fara í gönguferðir, t.d. upp í gettóið í Mosfellsbæ.

Annan í jólum var svo haldið að Schönbrunn höllinni sem er inn í miðri Vín og er hún í svipuðum stíl og Versalir, semsagt nóg af gulli og öðru blingi. Þar var ákveðið að gerast túristar og fórum við í skoðunarferð um höllina með heyrnartæki í eyrunum þar sem að var sagt frá ýmsu fróðlegu. Ég t.d. vissi ekki að það tæki Sisi keisaraynju tvo klukkutíma á dag að greiða á sér hárið, en nú veit ég það.

Síðan var haldið heim á leið og borðað restina af gæsinni sem var enn mjög góð. Að máltíð lokinni var síðan haldið upp á annan í jólum með því að horfa á Steindann okkar 3 sem Patti gaf mér í jólagjöf. Við ýttum bara á spila allt og föttuðum við því ekki hvenær einn þáttur endaði og sá næsti hófst. Þannig að þrátt fyrir að okkur finnist þetta vera ansi skemmtilegir þættir þá var þetta orðið nokkuð leiðigjarnt þegar að við föttuðum að við vorum komin á fimmta þátt.

Þann þriðja jóladag var svo haldið til Vínar þar sem að farandsölu maður sá auðsjáanlega að við vorum menningarþyrst og bauð okkur að kaupa miða á eitt stykki óperu sem var þar rétt hjá. Þar sem að við vorum jú þarna gátum við ekki gert annað en að kaupa miða af þessum manni sem var í ansi skemmtilegum 18. aldar búning. Á meðan að við biðum eftir að klukkan mundi slá átta var hent í sig einum McDonalds Mcdaginn(engar strengjabrúður Satans þarna á ferð sem fá sér Burger King(http://www.youtube.com/watch?v=EOg3lPpJUYk)).
Óperan hófst og var þetta ansi tilkomu mikið verk, svo tilkomumikið að það var stelpa sem sat þarna ein og grét allan tímann. Hún bað svo í lok sýningar einn starfsmann sem hún þekkti auðsjáanlega ekki fyrir og var með gullkeðju um hálsinn að fylgja sér á hótelið sitt.
Um miðja sýningu verð ég þó að segja að ég var orðinn nokkuð skelkaður því að karlkyns ballett dansarinn var örugglega búinn að líma eitthvað á sér andlitið eða var á einhverjum töflum sem lét hann vera með mjög sjúkt sólheima glott á sér allan tímann, en það var bara gott grín. Eftir að hafa skipst á skoðunum um óperuna sem voru almennt mjög jákvæðar fyrir utan það að ég og Pattarinn tókum gott sessíon í því að grínast aðeins með karlkyns ballett dansarann með sjúka svipinn héldum við heim á leið.

Fimmtudagurinn síðasti var svo tekinn eldsnemma enda var hugmyndin að fara til Búdapest og tók það þrjá og hálfan tíma að keyra þangað. Við lögðum því af stað og þar sem að fólk var ansi þreytt sveif andi Óla lokbrá yfir fólkinu í bílnum, sem betur fer hélt pabbi sér þó vakandi allan tímann. Fyrsta sem ég svo sé þegar að ég vakna í Ungverjalandi er tannlaus maður að þrífa framrúðuna á bílnum okkar alveg óumbeðið. Það var því frekar sjúkt og fór hann svo ekki fyrr en mamma var búin að borga honum.

Við lögðum svo bílnum á bílastæðahúsi í miðri Búdapest sem var ansi þröngt og á pabbi skilið gott hrós fyrir að leggja svona vel þessari 9 manna rútu í þetta níðþrönga bílastæði. Við vissum ekki alveg hvað við áttum að gera af okkur þarna í Búdapest þannig að við leituðum því að hop off-hop on strætó eins og er í flest öllum stórborgum. Fyrsti sölumaðurinn sem yrti á okkur vildi svo skemmtilega til að væri að selja miða í svona strætóa en ekki sólgleraugu og Rolex úr. Þannig að við keyptum af honum miða og tókum rúnt um borgina.
Þar var margt skemmtilegt að sjá, sérstaklega hina ótrúlega fegurð Búdapest. Strætóinn stoppaði svo upp á einni hæðinni og gátum við farið þar út. Við gerðum það því að við gátum svo farið aftur upp í hann stuttu seinna. Á hæðinni löbbuðum við framhjá einum veitingastað og maðurinn sem var þar fyrir utan byrjaði aðeins að spjalla við okkur. Þá kom það upp úr krafsinu að þessi ungverski maður hafði verið að vinna í Laugarásbíó í Reykjavík, rétt hjá þar sem ég bý. Skemmtileg tilviljun? Þar sem að við vorum svo upprifin að hann hafði verið að vinna þar þá gátum við ekki gert annað en að fara inn á veitingastaðinn sem hann vann á. Það var alveg rosalega flottur, gamaldags staður í kjallara. Við gæddum okkur þar að sjálfsögðu á eitt stykki „special Gullas Suppe“.
Síðan var ferðinni haldið áfram og var endað á lokastöð. Þá var bara orðið dimmt og röltum við því í áttina að bílnum og keyrðum heim á leið.

Þar sem að fólki fannst það mögulega ekki hafa fengið nóg af gjöfum þetta árið þrátt fyrir að enginn hafði farið í jólaköttinn þetta árið var ákveðið að skella sér í stórt outlet mall þennan daginn. Það er rosalega gott að fara þarna, er á ameríska vísu og selur merkjaföt á útsölu allan ársins hring. Það var því hægt að kaupa allt frá Nike til Prada(strákurinn var duglegur þar) á útsölu.
Ég henti mér á nýja Timberland skó og þrjár Calvin Klein skyrtur allt á góðum afslætti, á meðan að Ingibjörg skellti sér á Ralph Lauren vesti og húfu, Calvin Klein buxur og Nike íþróttatopp. Auk þess sem að Patti fjárfesti í einu Burton snjóbretti. Þannig að þetta var bara hin besta verslunarferð.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Ich habe in Laugarásbíó gearbeitet(Ég vann í Laugarásbíó) 

P1020982

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd dagsins: Við að taka túristamynd í Búdapest


Að skvetta vatni á messu gesti: Ómetanlegt

Góðan daginn kæru lesendur,
frá því að ég bloggaði síðast hef ég lifað hinu ljúfa lífi í faðmi fjölskyldunnar og Ingibjargar hér í Kaumberg(kaum þýðir varla og berg þýðir fjall þannig að þorpið heitir því Varlafjall) þúsund manna þorpi suðvestan af Vín.

Semsagt þá fór ég á þar síðasta föstudag(21. des) á flugvöllinn með lest og sótti fjölskylduna og Ingibjörgu. Það var rosalega góð stund að vera loks sameinaður með þeim öllum. Við fórum og ætluðum að ná í bílaleigubílinn, en svo kom í ljós að hann var bara rugl skítugur og alls ekki í sama stærðarflokki og hann átti að vera í. Við sættum okkur svo sannarlega ekki við það og eftir mikið samningaferli kom það uppúr krafsinu að með því að borga smá aukagjald fengum við eitt stykki níu manna rútu.
Ég og Ingibjörg komum okkur svo fyrir heima hjá mér og fjölskyldan á hóteli í grenndinni því að við þurftum að bíða eina nótt eftir því að fólkið sem á húsið í Kaumberg myndi fara útúr því. Við nýttum þetta kvöld til að fara á jólamarkað fyrir framan ráðhúsið í Vín. Það er einn stór markaður með fullt af handunnum vörum en auðvitað vorum við mest í því að kaupa matinn sem var þarna eins og allir aðrir þarna.

Daginn eftir tókum við svo léttan göngutúr um nágrennið við íbúðina mína og skoðuðum vínekrur sem eru bara inn í miðri borginni, stórfurðulegt! Síðan var keyrt útúr borginni og komið sér fyrir í Kaumberg sveitasælunni með borgarbrag. Þar hittum við hjónin sem áttu heima þar og voru þau bara mjög fersk. Húsið sem við búum í er alveg sjúklega stórt og kósý hús.
Eftir að hafa dáðst að húsinu í ágætis tíma þurftum við að drífa okkur í matbúðina því að allar matbúðir voru lokaðar næstu fjóra daga útaf jólunum og sunnudögum(allar búðir eru lokaðar á sunnudögum í Austurríki).

Þar sem að við erum í Austurríki var ekki annað í stöðunni en að kíkja aðeins á skíði á Þorláksmessu. Við fórum í fjall sem hét Anneberg en reyndist heppnin ekki vera mjög hliðholl okkur því að það rigndi á meðan og snjórinn því blautur og leiðinlegur. En við þetta hardcore fólk létum ekki smá „let it rain over me“ aðstæður aftra okkur og dembdum ég, Inga og Pattinegger okkur í fjallið. Þetta var í fyrsta skipti sem að Ingibjörg fer á skíði og verð ég að hrósa henni fyrir að vera bara ansi lunkinn byrjandi. Síðan var haldið til Vínar því að hugmyndin var að fara á jólamarkað sem er á Karlsplatz sem er í miðbæ Vínar en þar sem að við keyrðum fram hjá öðrum fyrir framan Schönbrunn höllina var frekar farið þangað. Sömu sögu var að segja af þessari jólamarkaðsferð og síðustu, það var til fullt af fallegu handgerðu dóti en auðvitað vorum við samt mesti í því að kaupa mat.

Svo var runnin upp aðfangadagur. Ég og Steinn höfðum talast á deginum áður og buðum við fjölskyldan honum að vera með okkur á aðfangadag. Hann kom svo til okkar uppáklæddur og flottur á því um fjögur leytið og var honum hent í það verkefni að kveikja strax í arninum. Það verkefni leystu Patti og Steinn með glæsibrag með því að hella bara djöfulli nóg af hreinu etanóli á eldinn og það virkaði. Um sex leytið hringdu svo jólin inn og var mamma búin að elda þessar dýrindis gæsabringur sem voru ekki af verri endanum. Auk þess sem að forrétturinn bauð upp á súpu og eftirrétturinn upp á Rísalamand. Eins og flestum fjölskyldum er lagið þá héldum við upp í stofu til að opna pakkana. Ég held að allir hafi bara verið nokkuð sáttir með sína og brutust ekki út ein einustu slagsmál vegna þess að fólk var ósátt með sinn pakka, sem ég tel nokkuð jákvætt.
Eftir að hafa opnað alla pakkana og spilað spil sem ég fékk í gjöf var haldið á vit ævintýranna í miðnæturmessu í Kaumberg. Við höfðum hugsað okkur fyrr um daginn að fara í messu í miðri Vín(Stephansdom) klukkan hálf fimm en vegna þess að okkur fannst það bjóða upp á fullmikið stress var hætt við það. Ég er mjög þakklátur fyrir að hætta við það því að miðnæturmessan í Kaumberg var ekki af verri endanum, þegar að við komum inn í kirkjuna var verið að spila bara mjög poppuð kirkjulög í eldgamalli sveitakirkju. Veislan hélt svo áfram þegar messuhaldið hófst, presturinn hafði þá kveikt í reykelsi og spúði því framan í öll verðandi fermingarbörnin sem voru þarna og hóstuðu þau alltaf þegar að hann gerði það. Þegar fólkið vildi svo signa sig fór það alltaf niður á annað hnéð og signaði sig, eitthvað sem ég hef aldrei séð áður. Ég og pabbi fórum svo að sjálfsögðu í altarisgöngu því að maður verður jú að borða hold krists. Reyndar fylgdi ekkert vín með í kaupbæti því að djákninn hafði örugglega drukkið það allt því að hann gerði ekki neitt annað alla messuna nema að drekka messuvínið.
Í lok messunnar mátti svo halda að við værum á rokktónleikum með smá votti af poppmenningu inn á milli. Því að presturinn skvetti vatni yfir alla sóknina auk þess sem að tónlistin undir var ekki þessi klassíska tónlist sem að maður er vanur í kirkjum, mætti jafnvel halda að gítarleikarinn í Bee Gees væri að spila.

Við héldum svo heim á leið eftir viðburðarríkt kvöld sem að ég held verði ekki endurtekið í bráð.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: Alles ist auf Sonntags geschlossen(Allt er lokað á sunnudögum)
Mynd dagsins:
P1020920

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Steinn, Patti, Ingibjörg og ég fyrir framan jólatréð okkar(Við erum ekki öll svona lítil, Steinn er bara stór) 


Part of the ship, part of the crew

Sæl verið þið öll,
nú sit ég hér í lest og er á leiðinni að sækja fjölskylduna og Ingibjörgu. Atburður sem ég hef beðið spenntur eftir ansi lengi. Í gær kvaddi ég og Steinn strákana og þökkuðum þeim fyrir góðar stundir. Þetta var rosalega skemmtileg ferð og hafði ég mjög gaman að félagsskapnum. Mér fannst mjög gott að upplifa hversu sterkur og samheldinn vinahópur þetta er og þakka ég þeim einnig fyrir að taka mig jafnvel inn í hjörðina.

En já gærdagurinn var þannig að við vöknuðum og tókum allt til í íbúðinni. Eins og við mátti búast þegar að sjö drengir búa saman þá á eldhúsið til að vera svoldið skítugt. Það tók því ágætis grettistak að koma eldhúsinu í lag en það hófst á endanum og var það orðið alveg silky smooth. Við lögðum svo af stað og þurfti í þetta skiptið ekkert að ýta bílnum. Við keyrðum svo til Vínar án frekari vandræða. Þar kíktum við drengirnir við á McDuff eins og Þjóðverjarnir kalla hann víst og voru sumir þar ansi sáttir að komast í smá internet tengingu.
Við kvöddum þá svo og reyndi þessi viðskilningur þó nokkuð mikið á strákana.

Ég og Steinn keyrðum svo inn í Vín þar sem að hann skilaði mér út á neðanjarðarjárnbrautarstöð og kom ég mér heim. Spjölluðum við Steinn um hvað hann ætlaði að gera yfir jólin og fékk ég það uppúr honum að hann ætlaði að vera á bretti. Ég bauð honum því að kíkja líka yfir jólin til okkar í Kaumberg og þakkaði hann mér ansi vel fyrir það.

Ég kom mér svo heim og kláraði ýmis mál sem ég átti eftir að gera. Lagði mig svo og vaknaði eldferskur í morgun til að gera mig kláran fyrir að hitta Vínarfaranna. En jæja þá er lestarferðin á enda komin og nýtt ævintýri að hefjast.

Fastir liðir:
Þýska dagsins: In Kaumberg gibt es nur Frölichkeit(Það er bara hamingja í Kaumberg)
Mynd dagsins:

IMG_1157

 

 

 

 

 

 

 

 

Hluti af hópnum að stíga hinsta dans dagsins


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband