Af svindlurum og skemmtilegum sölumönnum

Bonjour kæra fólk,
nú eru menn staddir á þeim öndvegis stað Lyon í Frakklandi ásamt Frakklandsbjörgu, Einari Þór Gunnlaugssyni, Einari Sigurvinssyni, Aroni Val Jóhannssyni og Kristjáni Högna Kristjánssyni. Það fer að líða að því að haldið verður út á völl að horfa á Ísland-Portúgal. Fyrst ætla ég samt að segja frá ferðinni til þessa.

Svaðilförin byrjaði á því að ég og Flugbjörg mættum út til Parísar á Charles de Gaulle flugvöllinn um 5 leytið um morguninn 10 júní. Á Leifsstöð hafði einhver sadisti troðið ljótum EM Carlsberg höttum upp á allt starfsfólkið og af einhverjum ástæðum taldi Hattabjörg það vera mjög sniðugt að við fengum svona líka, þeir voru jú ókeypis. Í dag eru þessir hattar sem betur fer „týndir“. Er til Parísar var komið ákváðum við að taka neðanjarðar lestina á hótelið okkar. Til að lífga upp á ferðalagið vorum við svo heppinn að sjá það var maður í passamynda klefa sem var búinn að girða niður um sig en var samt í nærbuxum. Þetta var því mjög góð byrjun á ferð.

Á leið okkar á hótelið undruðumst við mjög hversu góðir allir Frakkarnir voru í ensku og hvað allt gekk vel fyrir sig auk þess að þeir voru allir mjög almennilegir. Ein stoppistöðin hét Stalingrad og var ég mjög spenntur fyrir að kíkja á hana en því miður sá Ingibjörg ekki alveg jafn mikla þörf fyrir að kíkja á hana.

Eftir að við vorum búin að tékka okkur inná hótelið fórum við í góða skoðunarferð um París og vorum við líklegast ekkert betri en hinir túristarnir. Inga gerði mér þó grein fyrir því að ef ég ætti að sjást með henni þá skildi ég ekki vera í hvítum tennis sokkum og mokkasíum. Ég fjárfesti því í ökklaháum sokkum og allir voru sáttir.

Eins og gengur og gerist þegar komið er til jafn stórar borgar og Parísar þá er allt að gerast, sérstaklega yfir sumartímann. Af öllu því sem gerðist þá vakti líklegast skeljaleikurinn mesta kátínuna hjá okkur. Skeljaleikurinn er svindlara leikur sem spilaður hefur verið allt frá miðöldum í Evrópu. Þá er einn spilari sem heldur á þremur bollum og hefur einn bolta. Síðan ruglar hann hvar boltinn er og fólk á að veðja á hvar boltinn er. Það sem margir grunlausir túristar vita oft hins vegar ekki er að spilarinn kippir boltanum upp og er því enginn bolti undir. Sjá: https://www.youtube.com/watch?v=P6Hnm5s4tCY

Það sem var hvað skemmtilegast við að fylgjast með þessu var að það var fullt af fólki sem var auðsjáanlega með spilaranum í liði og voru að veðja á hvar boltinn væri auk þess sem einn gerði ekki annað en að fylgjast með hvort að lögreglan væri að koma.
Ég prófaði upp á grínið að leggja 1 evru undir en ég mátti víst bara leggja 100 evrur undir. Þessi teymi voru svo út um alla París.

Til að halda áfram með svindlið þá kom hópur af fólki upp að okkur og sagðist vera frá International deaf organisation og báðu okkur bara um að skrifa undir. Svo kom það víst í ljós að við áttum líka að borga þeim eitthvað smotterí. Við sögðumst ekki hafa pening og sem betur fer. Um kvöldið lásum við um túrista gildrur í París og þá var akkúrat talað um þetta að þegar búið var að borga fara svo vasaþjófar og ræna veskinu því þeir vita hvar það er staðsett.

Við héldum óhrædd ferð okkar áfram um París og skoðuðum hluta af Louvre og Eiffel turninn. Við Louvre safnið hittum við einn ansi skemmtilegan mann frá Jamaíka. Hann fór að troða einhverju armbandi upp á Armbandsbjörgu og sagði við mig: „You‘re lucky to have such a sexy wife, it‘s good for the bonga, bonga“. Ég spurði hann hvað „bonga, bonga“ þýddi og hann svaraði að sjálfsögðu „gillí,gillí, hakúna matata“. Lesendur mega skilja þetta á hvaða hátt sem er.
Ingibjörg fékk Frakklands armaband en ég fékk Jamaíka armband. Ingibjörg spurði af hverju ég fékk ekki líka Frakklands armband en það kom víst upp úr dúrnum að ég væri „Jamaica man“ eins dökkur á hörund og ég er.

Hjá Eiffel turninum fórum við í lauflétta göngutúr við Signu, í raun var eina ástæðan fyrir því svo ég gæti sungið „Our last summer“ með Abba án þess að vera að ljúga því, ...by the Eiffel tower...walks along the Seine...
Til að halda áfram þessum útópísku Abba draumum gangandi fórum við í siglingu um Signu og var það hin fínasta skemmtun að vera duglegur með hinum Asíu búunum að taka mynd af sér að þykjast halda á Eiffel turninum eða eitthvað álíka.
Í lok siglingar fórum við að Notre Dame kirkjunni og fengum okkur að borða þar rétt hjá. Ég get með stolti sagt að ég er búinn að krossa út af bucket listanum hjá mér að borða snigla.

Eftir að hafa haldið til í höfuðborg rómantíkur og lista í tvo daga fórum við Parísarbjörg til Lyon til að hitta fyrir fyrrnefnda vini okkar sem verða ferðafélagar okkar restina af ferðinni. Vegna ýmiskonar verkfalla hér í Frakklandi er ekkert grín að fara á milli staða og enduðum við á að taka 6,5 klst rútu til Lyon. Það var svo sem allt í góðu þar sem við sváfum stærsta part ferðarinnar.

Lyon er töluvert öðruvísi borg en París. Að sjálfsögðu minni en auk þess eru allar götur þrengri og metro kerfið lélegra auk þess sem það eru miklar brekkur hérna. Við höfum því gjörnýtt tækifærið og hamast vel á tveimur jafnfljótum. Hér í Lyon er belgíska stuðningsmannaliðið langsýnilegast, þeir eru allir rauðklæddir og mjög skemmtilegir. Belgar töpuðu þó í gær gegn Ítalíu og gaman verður að sjá hvort að stuðningsmennirnir halda uppteknum hætti í dag.

Au revoir

Franska dagsins: Ne parlent pas l‘anglais(Tala ekki ensku)
Gerist óþægilega oft hér í Lyon en eiginlega aldrei í París.

Mynd dagsins:

SDC12463

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ein klassísk túristamynd af okkur Parísarbjörgu


Leiðin að hjarta ráðherra

¡Hola Señores y Señoritas!,
nú er komið að loka blogginu frá mér í þessari yndislegu ferð okkar suður um höfin.

Eftir fimmtudagskvöldið sem segir frá í síðasta bloggi hjá mér urðu dagarnir nokkuð rólegri eftir það enda væri ansi erfitt að halda uppi sama tempói og áður. Ég byrjaði föstudaginn á að gera ansi góða fjárfestingu eða að fjárfesta í tveimur miðum á King Bieber fyrir mig og Biebbjörgu.
Þar sem að menn voru ansi slakir eftir daginn áður var ákveðið svo að skella sér niður í sundlaugagarðinn. Sem betur fer hafði ég tekið með mér uppblásnu dýnuna mína og hugsaði að hún myndi heldur betur koma sér vel í sundlauginni. Þegar að ég skellti mér í laugina sem enginn var í, var ég strax rekinn upp úr henni og sagt við mig að ég mætti bara vera með uppblásna dýnu í krakkalauginni.
Ég fór því yfir valkostina hjá mér og tók þá rökréttu ákvörðun að skvetta mér í barnalaugina. Þar var töluvert meira líf en í fullorðinslauginni og fékk ég því reglulegar gusur yfir mig sem var unaðslegt.

Þegar að ég kíkti uppúr lágu Bakkabjörg,  P-Boy og Bralli ansi róleg á sólbekkjunum.
Um garðinn gekk kona sem var að reyna að fá fólk í snyrtimeðferð og nudd til sín. Eins og fyrri daginn gat Brandurinn ekki sagt nei og því þurfti hann að hlusta á heilan fyrirlestur um verðskrá snyrtistofunnar þar sem að konan benti á hvert einasta atriði og sýndi honum verðið.  Þegar að hún byrjaði að þylja upp allskonar naglasnyrtingu  þá var Brandurinn orðinn nokkuð þreyttur á þessu og sagðist ekki vilja naglasnyrtingu. Hún lét eins og hún heyrði það ekki og hélt áfram að nefna alls konar naglasnyrtingar.
Eftir hinn mikla verðlista fyrirlestur gekk skemmtanastjóri hótelsins fram hjá okkur og bauð okkur strákunum að kíkja við í skotfimi. Við kynntum okkur sem Jonás(lesist með spænskum hreim), Party og Brandy sem vakti mikla kátínu, sérstaklega hjá Englendingunum. Fyrstir til að skjóta af voru töffarar frá Póllandi. Þar sem að fyrsta manninum gekk svo vel  ákvað skemmtanastjórinn að þeir væru frá pólsku mafíunni(ekkert rasistalegt við það). Við kynntum okkur hins vegar sem íslensku partýmafíuna og var skot hitnin í samræmi við það en það sem að skipti máli var að fólkið hafði gaman af nafninu.

Skemmtanastjórinn tilkynnti okkur það að seinna um daginn ætti svo að búa til spænska paella og sangríu. Þegar að hafist var handa við að gera paella(sem leit nokkurn veginn svona út: https://pipedreamsfromtheshire.files.wordpress.com/2012/02/paella1.jpg)  var hent fullt af mat í einn risastóran pott og byrjað að elda hann.
Aðrir skemmtanastjórar sem voru á hótelinu „hétu“ þeim yndislegu nöfnum Hot Chocolate og Bambino sem okkur fannst mjög skemmtilegt.  Að sama skapi kölluðu þeir Ingibjörgu, Maria þar sem að þeim fannst erfitt að segja nafn hennar, ótrúlegt en satt. Þar sem að mikið þurfti að hræra í paella voru skemmtanastjórarnir duglegir að koma verkinu yfir á okkur. Þegar að þeir vildu að við hristum upp í matnum kölluðu þeir því til okkar, „tjékkí, tjékkí!“ sem að ég hef ekki hugmynd um hvað þýði og hvort að hafi jafnvel yfir höfuð hafi einhverja merkingu.  Allavega virkaði þetta líka vel á aðra hótelgesti þegar við nenntum ekki lengur að hræra.

Sangría var einnig löguð fyrir gesti og gangandi en fyrir þá sem ekki vita er það spænskur drykkur þar sem rauðvíni er blandað saman við aðra drykki og ávextir settir út í. Þegar að Hot Chocolate spurði einn hótelgestinn sem var sjálfskipaður smakkari hvort að henni fyndist sangrían vera „good or no good“(lesist með vestur-afrískum hreim) var svar hennar einfalt: „more  brandy!“(lesist með skoskum hreim) sem vakti mikla kátínu meðal gesta.  Þegar að bæði var tilbúið var alls ekki óvinsælt hjá hótelgestum að skófla þessu létt í sig.

Um kvöldið fórum við drengirnir aðeins í smá göngu um bæinn en ungfrú Slappbjörg var eitthvað slöpp og dvaldi því upp á hóteli. Á göngu okkar sagði Bralli okkur frá ýmsum skemmtilegum bröndurum úr Krakkaskaupinu sem hann sagði jafnvel betra en „fullorðins“ áramótaskaupið. Þar gekk einn brandarinn út á „Jústín Bíebre“ spænska gítarleikarann. Þannig að þegar að við gengum inná einn barinn bað Bralli um hvort að ekki væri hægt að skella „Jústin Bíbre, the famous spanish guitar player“ á fóninn.  Barþjónninn áttaði sig engan veginn á hvað Bralli var að meina enda ekki furða en ég og P-bone höfðum virkilega gaman af.
Á leið okkar til baka upp á hótelið labbaði vel sjúskaður maður upp að okkur og spurði: „You want to cheat?“ þegar að við neituðum því hélt hann áfram og spurði „You want some weed?“. Það var auðsjáanlega ekki verið að fela neitt þarna.

Daginn eftir tókum ég og queen of the Krútts ansi krúttlegan dag saman. Fyrri helmingur dagsins gekk út á að liggja á sólbekk og láta sólina kitla aðeins freknurnar mínar. En eftir það fórum við í tennis . Gaman að segja frá því að þar sem að við vorum búin að umgangast Brallan svo mikið sem hefur stundum mjög sérstakan orðaforða og raddblæ var ég farinn að taka eftir því að Talbjörg var farinn að tala töluverða Brallísku. Orð eins og ruslbúðir, fitlandi fínn og bjur komu því reglulega upp sem var mjög fyndið fannst mér.
Í tennisnum tókum við klassíska endurgerð  af leik Björn Borg og John McEnroe á Wimbledon 1979 sem allir ættu að muna eftir þar sem að ég tók hina frægu belgísku bakhönd hans Björns en Inga gerði sér lítið fyrir og tók ungversku uppgjöfina hans McEnroe.

Um kvöldið gerðum við okkur lítið fyrir og fórum á veitingastað með útsýni yfir sjóinn þar sem að sjórinn brotnaði á klettunum og sjórinn skaust upp í loft líkt og Geysir. Þetta var því ótrúleg fegurð þar sem að það sást alveg yfir á næstu eyju í myrkrinu. Að máltíð lokinni var svo haldið á Route 66 þar sem næstum því einungis er fólk yfir 65 ára. Það spillti heldur ekki fyrir að þetta kvöld bar yfirskriftina „old dogs, new tricks“.
Mikið af sprell lifandi fólki átti þar dansgólfið og er ég ekki frá því að margir, þá sérstaklega kallarnir voru að skvetta í austur-þýska apann og nýsjálensku næpuna.

Síðasti heili dagurinn rann svo að lokum upp og hugðumst við ætla að njóta hans út í ystu æsar. Því var ákveðið að fara í Siam Park sem er vatnsrennibrautagarður á Las Americas ströndinni. Við ákváðum því að taka strætó þangað. Þar sem að við héldum að 45 mínútur mundu líða á milli hvers strætó urðum við örvæntingafull þegar að hann keyrði fram hjá okkur og við ekki á stoppustöð. Ég spretti því á eftir honum  og byrjaði að banka í gluggann þegar að hann stoppaði. Konan sem að keyrði strætóinn hafði auðsjáanlega aldrei komið til Íslands, boraði í hausinn á sér, horfði á mig og kallaði til mín „¡Loco!“(brjálaður). Ég verð að viðurkenna að ég hafði mjög gaman af því.
Sem betur fer kom annar strætó á innan við kortéri seinna og þetta því bara skemmtilegt ævintýri að vera kallaður „¡Loco!“.
Strætóferðin var mjög löng þar sem að leiðin meðfram ströndinni er alls ekki skilvirk og mikið af beygjum upp og niður. Einnig hjálpaði það ekkert rosalega að Brandurinn verður ekki glaðasti hundur í heimi þegar að hann er svangur. Því glöddust nokkrir duglegir krakkar þegar þau sáu að Burger King var á næsta leyti. Því miður reyndist hann vera lokaður næsta hálftímann og því breyttist brosið fljótt í fýlusvip. Sem betur fer var stutt röð inná Siam Park og vorum við því snögg að henda okkur á næsta veitingastað og fylla þarfir mallans.

Við nýttum daginn í ítarlegar rannsóknir á áhrifum vatns, þyngdarafls og öskurs á líkamann með því að prófa hinar ýmsu rennibrautir. Þar sem að low-season tímabil var í gangi þarna í janúar þýddi það að rannsóknirnar fóru óhindraðar fram og lítið þurfti að bíða í biðröðum. Ég verð þó að segja að ég var fyrir vonbrigðum með hópinn hjá mér sem voru spenntari fyrir að fara svona slökunarhring í kringum garðinn heldur en í the tower of power sem var stór turn sem maður fór mjög hratt niður í. Ótrúlegt en satt mátti Bralli ekki vera með AfStaðFagmanninn(GoPro myndavél) með sér í  slökunarhringinn þar sem við fórum áfram á svona 3 kílómetra hraða.
Það sem að bætti þó þá reynslu var plötusnúðurinn í garðinum því hann gerði ekki annað en að spila frábæra tónlist. Loksins gátum við fengið ABBA á færibandi, sem gladdi mitt litla hjarta og öll hin hjörtun í garðinum(Smá áminning: Mamma mia söngleikurinn verður frumsýndur í mars í borgarleikhúsinu).
Seint er þó hægt að kalla Bralla óvilltan þar sem að hann gerðist ansi lúmskur og fór undir sveppinn í barnalauginni sem er ekki ósvipaður og sveppurinn í sundlauginni á Selfossi.

Eftir að hafa safnað nógu miklum gögnum frá rannsókn okkar í Siam Park var förinni aftur heitið inn á Amerísku ströndina. Þar settumst við niður við sjóinn og horfðum á sólarlagið og brimbretta gæja vera að gera listir sínar, það var yndisleg stund.
Þar tók við svipuð reynsla og við áttum nokkrum kvöldum áður sem gekk út á það að fá tilboð frá töffurum sem vildu spila ABBA fyrir okkur og stukkum við því á þann fyrsta sem vildi spila það fyrir okkur. Því miður sveik hann loforð sitt um að spila en nenntum við ekki að rífast við hann og þar við sat.

Að lokum kom svo loks sá dagur að við þurftum að skilja við hina yndislegu eyju Tenerife.  Það fór því svo að leigubíll kom og sótti okkur og fór með okkur á flugvöllinn. Leigubílstjórinn þekkti örugglega flesta leigubílstjóra á eyjunni því að hann flautaði á næstum alla leigubíla sem við mættum og vinkaði þeim. Meira að segja var það svo að á meðan  við vorum að keyra á svona 50 kílómetra hraða skrúfaði hann niður rúðuna hjá sér og fór bara að spjalla við leigubílstjórann í bílnum við hliðina á okkur sem hefur verið á sama hraða.
Nú tala ég enga spænsku en ég er eiginlega alveg viss um að þeir hafi ekki verið að tala um hvar kjarnorkuvopn voru geymd í Sýrlandi eða höfðu eitthvað annað umræðuefni sem réttlætti það að spjalla saman á jafn miklum hraða og stofna farþegunum í hættu.

Í flugvélinni á leiðinni heim settist herra Kristján Júlíusson heilbrigðisráðherra fyrir aftan okkur og var Starbjörg jafn starstruck og fyrri daginn. Þið getið því rétt ímyndað ykkur viðbrögð hennar þegar að hann tekur í spaðann á henni og segir „Sæl Ingibjörg“.  Hún vissi ekki sitt rjúkandi ráð og spyr hann hvort að hann þekki hana í gegnum mömmu hennar sem er læknir. Hann hélt nú ekki og sagðist þekkja hana í gegnum mig.
Ég vissi að ég hafði orðið landsþekktur fyrir að hafa komist í undanúrslit skotkeppninnar á Shellmótinu í Vestmannaeyjum í fótbolta  árið ´99 þá 7 ára gamall en ég gerði samt ekki ráð fyrir að Kristján hefði munað eftir því. Því varð ég forvitinn og vildi endilega vita hvaðan hann þekkti mig. Þá sagðist hann hafa séð fyrsta bloggið mitt þar sem að ég minnist á að hafa séð hann á flugvellinum vel dressaðann og fínan. Hann hefur svo eitthvað forrit sem lætur hann vita í hvert skipti sem eitthvað er skrifað um hann á netinu. Ég geri því fastlega ráð fyrir því að hann sé að lesa þetta hérna og væri gaman að fá eina athugasemd eða svo frá þeim ágæta manni hér neðst.
Þið vitið því kæru lesendur hvernig er gott að ná sambandi við hina ýmsu ráðamenn þjóðarinnar. Bara að búa til saklaust ferðablogg og minnast á þá.
Mér fannst líka stórskemmtilegt þegar að konan hans sagði við mig að henni fyndist gaman að hvað ég gæfi ungfrú Nafnabjörgu mörg nöfn. Sem hvatti mig að sjálfsögðu en fremur til dáða að gefa henni fleiri falleg nöfn. Í lok flugs óskaði ég og honum góðs gengis með nýja spítalann og hann óskaði mér góðs gengis bloggið.

Að lokum vil ég þakka þessu yndislega fólki sem fór í þessa háskaför með mér, ferðin var dásamleg. Einnig vil ég benda fólki á sem nennir að halda áfram að kynna sér þessa ferð okkar og hefur gaman af ABBA, Justin Bieber, Queen og Steinda að horfa á myndband sem að hann Bralli setti saman og ættu lesendur að kannast við mörg atriði úr myndbandinu: https://www.youtube.com/watch?v=nh44XpsFGNU

Fastir liðir:

Spænska dagsins: ¡Leche!(sem þýðir einfaldlega mjólk en á sumum stöðum í S-Ameríku er mjög slæmt að vera kallaður mjólk og þýðir það einfaldlega að þú fékkst slæma brjóstamjólk þegar að þú varst lítill)

Mynd dagsins:
IMG_2556

 

 

 

 

 

 

 

Strákabandið Þrír lúmskir heilsa frá suðrænum höfum við sólgyllta strönd


Loforð um ABBA er loforð sem maður svíkur ekki

Hello Europe,
Tenerife calling.

Á fimmtudaginn síðasta (7. jan) áttum við yndislegan dag. Hann byrjaði á gífurlega góðum misskilningi. Við ætluðum í Go-kart og eins og maður gerir þegar maður ætlar í svona ferð spyr maður lobbyið hvernig best er að komast í svoleiðis. Ég spurði starfsmanninn þar því um Go-kart og fékk aldrei svör sem meikuðu sens. Hann var nefnilega alveg viss um að ég væri að spyrja um „Goat caring“. Því miður þá höfðum við ekki ætlað okkur að hugsa um geitur þennan daginn en það hefði samt auðvitað verið geggjað. Það var því ekki fyrr Bæklingabjörg kom með Go-Kart bæklinginn sem hann reif upp tólið og henti í símtal á næsta leigubíl.

Ótrúlegt en satt þá fór Go-kartið eins og við höfðum gert ráð fyrir, þ.e.a.s. að Brallinn flengdi okkur í andlitið með stól (rústaði okkur semsagt) þar sem að hann er jú fyrrverandi Íslandsmeistari í rallý. Skemmtilegt að segja frá því að síðast þegar að ég keppti í Go-kart var það gegn Íslandsmeistara í Go-kart honum Hinrik Wöhler og ótrúlegt en satt þá vann ég það ekki heldur.

Að Go-kart loknu fórum við á Los Americas ströndina þar sem að markmiðið var að vera eins lúmsk og við gátum. Þar sem að ungfrú Börgerbjörg var farin  að dreyma um Burger King á nóttunni var ferðinni fyrst heitið þangað. Ég hafði verið áður á Las Americas og vissi því hvar sá staður var. Því miður þegar við mættum þangað hafði honum verið lokað fyrir einhverjum árum síðan. Þá skammaðist ég mín heldur betur fyrir að vera ekki löngu búinn að gúggla hvort að Burger king væri enn á sínum stað.
Þá reyndust góð ráð dýr og fórum við á McDonalds í staðinn og urðum því ekki strengjabrúður Satans (Sjá: https://www.youtube.com/watch?v=EOg3lPpJUYk).  Á McDonalds labbaði maður upp að okkur sem sagðist heita Alibaba og var frá Kenía. Tilboðsbjörg og Bralli gerðu kosta kaup af honum þar sem falleg úr urðu fyrir valinu. Alibaba the clocksmith tók eftir því að Bralli og Áhyggjubjörg höfðu áhyggjur af því að úrin myndu bila fljótt. Sérstaklega þar sem að það heyrðist heldur mikið í úrinu hans Bralla ef maður hristi það. Þá lofaði hann sem betur fer tveggja ára ábyrgð og sagði bara að ef eitthvað vesen kæmi upp gætum við farið í útibúið hans í Kenía og látið laga það þar. Ef þið haldið að þau hafi verið seld þá, þá getið þið ímyndað ykkur hversu mikið þau voru seldi þegar Alibaba sagði(í gríni held ég) að úrið færi klukkutímann á 55 mín svo góð væru úrin.

Við kíktum svo í lauflétta strandferð. Á leiðinni labbaði annar maður sem var líklegast líka frá Kenía og setti armbönd utan um hendurnar okkar og sagði að konan hans hafði búið þau til. Einnig tók hann það fram að þau væri frí. Ekki þótti okkur það verra og því var lítið mál að tipsa manninn þegar að hann sagði „give me change“.
Á ströndinni byrjaði McDonaldsinn að gera árás til baka á herra P-boy (Patta) og því gat hann bara legið á ströndinni og grafið sig ofan í sandinn. Nuddbjörg fékk sér lauflétt nudd frá taílenskum manni sem byrjaði svo að nudda á mér axlirnar með tælandi tilboðum þegar að hann hafði lokið sér af með the queen of massage. Ég bauð syndinni ekki í kaffi og náði að standast freistinguna sem gerðist of sjaldan í þessari ferð.

Eftir ströndina var förinni heitið á Hard Rock. Þegar að ég segist aldrei hafa upplifað annan eins kvöldverð er ég eiginlega alveg viss um að ég sé ekki að bulla.
Í fyrsta lagi var byggingin sjálf alveg rosaleg enda í laginu eins og pýramídi. Hver vill ekki borða á stað sem lítur út eins og grafhýsi fyrrum faraóa þar sem að fjöldi þræla dóu við gerð þeirra og aðra sem voru fórnað með hinum látna faraói til að hjálpa honum í framhaldslífinu?
Í öðru lagi þá var eins og við værum á rokktónleikum. Þegar „We will rock you“ var spilað steig starfsfólkið upp á borð og klappaði, flautaði og söng í takt við lagið sem var frábært!
Þar sem að ég var orðinn svo rosalega spenntur eftir allt þetta pepp þá þurfti ég því að sjálfsögðu að kíkja á klósettið. Þegar að ég fór svo að þvo á mér hendurnar brá mér heldur betur í brún. Ég setti hendurnar undir vaskinn en hann hefur auðsjáanlega verið eitthvað vitlaust tengdur því að vatnið sprautaðist bara í staðinn út úr speglinum. Ég tel mjög líklegt að ég hef aldrei verið jafn lengi að þvo mér um hendurnar þar sem að það var tóm gleði.
Einnig var það skemmtilegt að bæði kynin notuðu þessa vaska nema bara sitt hvoru megin frá. Því finnst mér ekki ólíklegt að einhver ástarsambönd hafa byrjað svona enda fátt jafn rómantískt og að þvo óvart hendi hjá ókunnugum. Ég sagði svo krökkunum frá þessu og fóru þau eins og byssubrenndir að þvo sér um hendurnar enda mikill spenningur fyrir að prófa spegilinn.

Eftir að við vorum komin langt inn í aðalréttinn okkar gekk maður upp að okkur, tók sólgleraugun hans Bralla og lyfti þeim upp frá borðinu án þess að snerta þau á nokkurn hátt og labbaði svo bara í burtu. Við hugsuðum bara að þetta væri einhver þjónn sem kynni eitt trikk og spáðum ekki frekar í þessu.
Stuttu seinna labbaði þó annar maður upp að okkur og byrjaði með galdrasýningu. Hann spurði mig hvaða spil ég vildi og svaraði ég að ég vildi spaðaás. Á svona þriðjung úr sekúndu var hann kominn með spilið  úr vasanum hjá sér. Svo lét hann spilið sem Spilabjörg hafði dregið birtast undir úrinu hjá henni og þannig hélt hann bara áfram og áfram. Eftir sýninguna kíktum við í vasa og veski okkar en allt var þar á sínum stað.

Maðurinn sem að lyfti gleraugunum hans Bralla kom svo aftur til okkar með aðra sýningu. Þar gerðist eitt og annað meðal annars að hann tók venjulegan pappír, kveikti í honum og birtist þá allt í einu sleikjó!  P-boy sagðist hafa unnið í pappírsverksmiðju í langan tíma en aldrei séð pappír breytast í sleikjó.
Þegar að reikningurinn kom var hann svoldið hár en alveg þess virði engu að síður. Mér datt því það snjallræði í hug hvort að galdramennirnir gætu ekki látið hann hverfa þar sem að þeir væru jú svo lunknir með pappír. Ég spurði þá en þá sögðu þeir að það væri mikil áhætta fólgin í því þar sem þeir höfðu reynt það áður en lent þá í því að reikningurinn hafði tvöfaldast. Ég er ekki nógu mikill gambler í mér og urðum því ekki að ósk okkar í það skiptið.

Eftir Hard Rock fórum við í göngu um bæinn. Á leiðinni sáum við söngvara sem var að syngja inn á veitingastað sem var ekki alveg jafn peppaður og Hard Rock. Bralli ákvað því að nota peppið sem hann hafði fengið frá Hard Rock, setti upp Tom Jones gleraugun, setti AfStaðFagmaður(það sem Bralli kallar GoPro myndavélina sína) í upptöku og reif í hljóðnemann með söngvaranum.
Það var eins og við manninn mælt, áhorfendurnir ærðust og mikil gleði færðist yfir mannskapinn. Söngvarinn tók AfStaðFagmanninn af honum og tók upp allt sjálfur og Bralli hélt áfram að trylla lýðinn.

Að lok göngu okkar enduðum við á aðaldjammgötunni sem ég held að heiti Veronicas. Við fengum hvert gylliboðið á fætur öðrum  varðandi drykki en við sögðumst ekki fara inn á neinn stað nema ef hann myndi spila ABBA.  Hver staðurinn á fætur öðrum neitaði okkur um ósk okkar fyrr en einn lofaði okkur. Því fórum við þar inn en heyrðum enga breytingu í tónlistarstefnunni eftir því sem líða tók á kvöldið.
P-Boy var farinn að ókyrrast  og spurði nokkrum sinnum plötu snúðinn og manninn sem lokkaði okkur inn hvort að ABBA væri nú ekki fara að koma. Plötusnúðurinn harðneitaði en veiðarinn(maðurinn sem lokkaði okkur inn) sagðist reyna að gera allt sem hann gæti. Taktíkin hans Patta var mjög skemmtileg. Fór hún þannig fram að hann spurði plötusnúðinn: „Why is there nobody dancing? I‘ll tell you why nobody is dancing. You‘re not playing Abba. Everybody in here are a dancing queen. “ Eftir fjórða skiptið var plötusnúðurinn orðinn ansi þreyttur á honum.
Taktíkin hans Bralla var aðeins ýktari. Þá sagði hann við mennina að þeir myndu hafa „problem“ ef þeir færu ekki bráðum að spila ABBA. Þegar Bralli fattaði svo hvað þetta hljómaði alveg eins og að hann ætlaði að ganga í skrokk á manninum, sá hann nú reyndar að sér. Sérstaklega þegar tekið er til hliðsjónar að Bralli hefur aldrei lent í slag á sinni ævi.

Á borðinu við hliðina á okkur voru svo 18 ára Norðmenn. Þegar að þeir heyrðu  hversu mikið við vorum tilbúin til að kvarta yfir því að fá ekki ABBA á fóninn voru þeir djúpt snortnir og tóku þátt í þessu með okkur.  Á endanum fór það svo að við fengum eina ókeypis kampavínsflösku til að þagga niður í okkur. Þá urðum við samt að lofa því að hætta að væla um ABBA. Skemmtilegt er að segja frá því að Bralli getur farið að gráta hvenær sem hann vill og sé ég mikið eftir því að hafa ekki beðið hann um að gera það í leit okkar. Áttum við eftir þetta mjög notalega stund með Norðmönnunum og voru þeir yfir sig hrifnir þegar að ég sagðist vera mikill aðdáandi Jan Egeland(Sjá: https://www.youtube.com/watch?v=Yn-oemgzlEU)

Þegar að ég fór svo á klósettið var það mjög sérstök reynsla. Þá elti maður mig inn á klósettið og opnaði hurðina að klósett básnum mínum. Ég var í þann mund að fara að svara kalli náttúrunnar þegar að hann spurði mig hvort ég vildi ekki fá eitthvað í nös. Ég var lúmskur og afþakkaði pent. Þegar að ég var svo búinn að þvo mér um hendurnar krafðist hann þess að fá að þurrka þeim. Ég samþykkti það en samt með þeim fyrirvara að ég væri ekki með neinn pening á mér. Þá var hann ekki alveg jafn spenntur fyrir að gera það en gerði það þó samt.

Inn á staðnum fór ég og Bragi í danskeppni. Þar sem að tvísýnt var um hver sigurvegarinn myndi verða ákvað ég að krydda aðeins upp á atriðið til að fá samkeppnisforskot. Mér fannst eins og Dansibjörg væri fyrir aftan mig og ákvað ég því að taka í hendina sem birtist þar og ætlaði að snúa henni. Því miður fyrir alla aðila var þetta alls ekki blómadrottningin heldur sköllóttur kall í leðurjakka sem kæmi mér ekki á óvart að mundi ekki vinna venjulega 9 til 5 vinnu. Ég var sem betur fer fljótur að hugsa og tók þrefalda rúmba sveiflu með vott af taílenskum tangó og náði þar með að snúa mér útúr þessu og engum varð meint af.

Þegar tími var svo kominn til að fara til baka upp á hótelið fengum við þá flugu í hausinn að taka leigubíl til baka en til þess þurftum við að labba fram hjá nokkrum skemmtistöðum. Þar af leiðandi var okkur boðið gull og græna skóga ef við kæmum inn. Bragi getur ekki sagt nei og tók upp á því í staðinn að bjóða sölumönnunum tilboð á móti. Til dæmis er klassík: „Do you own a car? What‘s wrong with your car? I can fix it, 10€ an hour. Special prize for you my friend.“

Á leiðinni til baka fórum við mjög hlykkjóttan veg og þar sem að Brandurinn er mikill rallýmaður ákvað hann að vera aðstoðarökumaður leigubílstjórans. Það fannst mér mjög skemmtilegt. (Sjá: https://www.youtube.com/watch?v=Z0tlJtjtquc&feature=youtu.be)
Þegar að við vorum komin á hótelgarðinn fannst okkur alveg gráupplagt að skella okkur í sund. Það fór ekki betur en svo að um leið og við vorum dottin ofan í laugina kom alveg snarvitlaus hótel starfsmaður og kallaði á okkur „Policia, policia“. Sem betur fer hafði P-boy stundað spænsku nám og var því fljótur að leggja saman tvo og sjö.
Við drifum okkur því eins og við gátum upp á hótel herbergi og slökktum öll ljós svo að Polica gæti nú örugglega ekki fundið okkur.
Bragi var fljótur að sofna þegar að hann lagðist í rúmið og dreymdi þá að starfsmaðurinn hefði komið inn á herbergið þeirra og  skammað þá. Þið getið þá ímyndað ykkur misskilninginn og hversu skringilega Patta leið þegar Bragi fór að spyrja hann seinna um kvöldið hvort starfsmaðurinn hefði gert eitthvað meira.

Fastir liðir:
Spænska dagsins: Mañana(Þýðir á morgun en getur samt líka þýtt bara einhvern tímann seinna. Spanjólinn er í eðli sínu mjög slakur svo að ef þú spyrð iðnaðarmann hvenær hann kemur og hann segir Mañana þá þarf það ekkert að þýða að hann komi á morgun)
Mynd dagsins:

eg

 

 

 

 

 

 

 

Sá sem að svíkur loforð um að spila ABBA verður umkringdur og kvartað í þangað til að hópurinn fær sínu framgengt

 


Heppni í háskaför

Hola góðir hálsar,
þar sem að ég er núna staddur á Tenerife ásamt ungfrúnni góðu Tenebjörgu(Ingibjörg Ásta, kærastan mín) og fleiri góðum ferðafélögum sem ég kem að síðar, hafði ég hugsað mér að vera eins lúmskur og það gerist og skrifa blogg hér bæði á internetinu og netinu. Litli frændi minn Brexterinn(Breki Grétarsson) sagði mér að hann og vinir hans hefðu farið í spurningakeppni þar sem að það var spurt upp úr blogginu mínu. Meiri heiður er varla hægt að finna, finnst mér allavega. Hvatning mín til að skrifa þetta er því u.þ.b. fjall á skalanum sjávarbotn til sjávarmál.

Ævintýrið byrjaði þannig að þremur dögum fyrir brottför sem mundi verða 5. jan var ég og Bílbjörg slök að keyra og mér dettur í hug hvort við eigum ekki bara að skella okkur út í sólina. Sólbjörg var jafn auðveldlega seld og sandurinn sem er seldur til Dúbaí til að búa til skýjakljúfana(Semsagt mjög léttilega, ekkert grín).

Ég fór því í barnatanna safnið hans litla bróðir míns Patreks, tók allar tennurnar, setti þær undir koddann hans þegar hann var sofnaður og tók svo peninginn sem tannálfurinn kom með áður en hann vaknaði. Moneybjörg fór hefðbundnari leiðir í fjármögnun sinni.

Á Leifsstöð hittum við fyrir ótrúlega tilviljun Bralla(Bragi Þórðarson), vin minn úr verkfræðinni í Hí. Hann var með félaga sínum P-Boy(Patrekur Ísak Ólafsson). Eftir stutt spjall komst ég að því að þeir keyptu sama tilboð og við og því á sama hóteli. Þvílík veisla!

Ég og Bralli erum saman í aðdáendaklúbb KGE(King Gísli Einarsson, Landalávarður og Íslandsmeistari í grænu rennibrautinni(Græna þruman) í Borgarnesi) ásamt fleiri góðum í verkfræðinni.
Í afmælisgjöf gaf Bralli og bróðir hans Magnús móðir hans(Bralli kallar bróðir sinn alltaf móður sína) tvær innrammaðar myndir. Annars vegar KGE fyrir framan eldgos í samlitri ullarpeysu og hins vegar mynd af Venna Páer og Bjössa frá samnefndum sjónvarpsþátt þar sem Venni var að kenna Bjössa að borða grænar baunir með því að húða baunirnar í súkkulaði og þynna lagið svo á hverjum degi. Hægt er jú að búa til orðið Lúsífer með því að taka orðið súkkulaði, breyta röðun stafanna, taka nokkra í burtu og setja nokkra inn í staðinn. Ég þarf varla að taka það fram en gleði mín við að fá þessar myndir er ekki mæld í kíló-gleðieiningum, ætli tera-gleðieiningar væri ekki réttara.

Það var yndislegt að mæta til landsins og varla þarf að taka fram hversu starstruck starbjörg var þegar hún áttaði sig á því að heilbrigðisráðherra Íslands Kristján Þór Júlíusson var við hliðina á okkur í rútunni og sáum við líka Nóa albinóa á Leifsstöð. Hótelið er frábært miðað við verð og erum við staðsett í Los Gigantes bænum á norðvestur strönd Tenerife. Að sama skapi er veðrið alltaf bara yndislegt og ávallt í 20+ gráðum.

Það fyrsta sem við gerðum þegar að við(Ég, Krúttbjörg, Bralli og P-Boy) mættum á svæðið var að bomba okkur beint á veitingastað enda mallakútur farinn að minnka full lítið hjá okkur. Þegar að reikningurinn kom brá þjóninum heldur betur í brún þegar að hann sá að Borgunarbjörg dró upp evruseðil til að taka þátt í reikningum. Hann sá bara þrjá drengi með einni yngismey og sagði að á Spáni borguðu dömurnar aldrei. Við svöruðum bara til baka að það er mikið jafnrétti á Íslandi og minni launamismunur kynjanna en á Spáni, þar af leiðandi geta og vilja íslenskar konur borga sína reikninga.

Um kvöldið skiptum við okkur upp og fór ég og Restaurantbjörg á veitingastað þar sem að tvífari Obama þjónaði okkur, P-boy og Bralli tóku það hins vegar á sig að þræða ölhús bæjarins og gátu því með góðri samvisku sagt við okkur að það ætti alls ekki að panta sér Bloody Mary kokteilinn á einum staðnum enda hafði strengjabrúða Satans líklegast búið hann til eins og þeir vitnuðu um. Ég sagði Brallanum líka eftir á að það meikaði engan sens að vera að blanda tómatsafa, gini, tabasco sósu, pipar og sellerí saman. Hann var alveg sammála mér. Ég og Barbjörg hittum svo drengina seinna um kvöldið á stað sem hét Route 66. Þar hittum við fyrir tvífara Steinda svo sem var samt bara tvífari hans ef maður horfði á hann í 1,3 sek. Ef maður horfði lengur þá var hann ekkert líkur honum. Þegar að reikningurinn kom fannst okkur hann ansi skrautlegur enda ekki mikið verið að flækja hlutina hér á Spáni. Það eina sem stóð í reikningnum var bara refrescos(drykkur) fyrir hverja færslu. Reikningurinn leit því svona út:
Refrescos...3€
Refrescos...2,5€
Refrescos...4,5€
Refrescos...3,5€ O.s.frv.

Daginn eftir hittum ég og Lovebjörg á strákana og fórum við saman á ströndina. Ég spurði þá hvað þeir höfðu gert fyrr um morguninn. Bralli sagðist hafa tekið „quick twenty“. Ég spurði hvort hann hafði þá meint 20 armbeygjur. Nei sagði hann, ég tók „quick twenty miles“.
Áramótin 2010/2011 var ég á Tenerife með Bjarma frænda mínum og Aroni Ellert félaga mínum. Við vorum þá ansi duglegir að fara á ströndina með vindsængur. Fúgtið við að gera það var það að maður lenti stundum í stórum öldum sem rústuðu manni það mikið að maður snerist nokkra hringi í sjónum og vissi maður þá ekki hvað snéri upp og hvað snéri niður. Eftir eina ölduna þá, var ég ekki viss um að ég myndi lifa hana af. Því var það gífurlegt adrenalínsjokk og eintóm hamingja að átta sig á að maður gat andað súrefni að sér.

Vegna þessarar reynslu var ég manna peppaðastur af okkur að drífa okkur á ströndina og fjárfesta í vindsæng. Þið getið því ímyndað ykkur vonbrigði mín þegar að strandvörðurinn flautaði í flautuna sína(sem hann átti eftir að gera mjög oft) og sagði mér að það væri stranglega bannað að vera með vindsæng í sjónum.
Við höfðum því ekkert vopn á okkur til að busla í sjónum en þá reyndust góð ráð dýr og var aðalleikurinn að vera á hnjánum þar sem að þá litu allar öldur út fyrir að vera miklu stærri. Eftir að strandvörðurinn hafði flautað á mig í fjórða skiptið var þetta komið gott(það eru fleiri reglur en þið haldið hér á ströndinni á Los Gigantes).

Við kíktum á veitingastaðinn á ströndinni og ákvað ég að taka flippkisann á þetta og pantaði steiktan risa smokkfisk. Þetta var mjög gott, sérstaklega fyrstu bitarnir. En þegar að ég var lengra kominn inn í réttinn var þetta orðið pínu þreytt. Áferðin á matnum er líka mjög sérstök og var þetta líkt amerísku hlaupi(jelly). Seinasta bitanum var svo mjög erfitt að kyngja, það voru griparmar fisksins.
Á ströndinni hafði ég fengið nuddsár á milli lappana en geri ég fastlega ráð fyrir því að það sé refsing frá einhverjum æðri máttarvöldum fyrir að hafa gleymt að fara 10 sinnum með Maríubænirnar mínar kvöldinu áður eins og ég geri hvert kvöld. Til að halda áfram að svekkja mig voru öll apótek lokuð þann daginn þar sem að spanjólarnir halda þrettándann mjög heilagann og hef ég meira að segja heyrt að hann sé mikilvægari heldur en jóladagur. Ég get þó ekkert vottað til um sannleika þess.

Um kvöldið var svo haldið á veitingastað þar sem að ég lét allt úr sjónum algjörlega vera eftir reynslu dagsins. Við höfðum mjög gaman af þjónustu stúlkunni henni Evu sem ruglaði í okkur reglulega og við til baka. Hafði hún sérstaklega gaman af því þegar að hún lét kerti á milli mín og Kertabjargar og sagði „Romantic“. Ég tók í höndina á P-Boy og sagði á móti „Yes, very romantic for me and Patty“. Þegar að hún skellti upp úr við þennan klassíska brandara leist Bralla heldur betur vel á hana. Þetta álit á henni hríðféll þó hjá honum þegar að Bralli spurði hana ekki hvort, heldur hvar Abba klúbbur bæjarins væri. Þá sagðist hún ekki hafa hugmynd um hvað Abba væri. Þá vorum við fljót að borga reikninginn og stauluðumst upp á hótel.

Á hótelinu var Bítla cover band að spila. Það gladdi okkur gífurlega og sátum við hugfangin við að horfa og hlusta á þá. Hver einasti hljómsveitameðlimur geislaði nema sá sem átti að vera George Harrison. Hann var ekkert sáttur og taldi greinilega niður mínúturnar þangað til að hann gat sest niður og horft á nýjasta þáttinn af Hringekjunni þar sem að Gói tók viðtal við Brynjar bárujárnssmið á Blönduósi og fékk að spyrja hann spjörunum úr varðandi bárujárnssmíði og fluguveiðar.

Fastir liðir:

Brallíska dagsins. Bralli hefur yfir mjög skemmtilegum orðaforða að ráða og notar hann mjög sjaldan venjuleg orð, hér koma nokkur dæmi:

  • Sigra = Að stunda venjulega dagvinnu. Dæmi: Í gær var ég að sigra í Fjarðarkaup...
  • Ruslbúð = Búðir sem selja allskonar dót hér á Tenerife eins og sólgleraugu, vindsængur o.s.frv.
  • Hann talar reglulega um að vera „fitlandi fínn“
  • Fyrir hverja einustu öldu sem skellur á okkur í sjónum segir hann „Oh dear!“ sem verður aldrei þreytt
  • Hann segir aldrei laugardagur eða þriðjudagur bara lau eða þri. Þegar hann er svo í extra góðu skapi getur hann þó sagt þriðjud
  • Aldrei talar hann um bíl heldur segir hann bara bifreið
  • Oft þegar að hann talar um bróðir sinn hann Magnús talar hann um Magnús móðir sína og kærustuna hans kallar hann líka Hafdís móðir mín.

Mynd dagsins: 
IMG_2353

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Menn smokkfiska sig í gang. Þetta var mjög gott fyrst en svo var þetta bara orðið þreytt.


Allt er gott sem vel er sænskt

Hej allihopa,
þar sem að ég var staddur ásamt mömmu minni í landinu sem hefur allt það besta sem vestræn menning hefur uppá að bjóða. Þar að segja ABBA, IKEA(sérstaklega Billy bókahillurnar úr bananatrefjum) , Fjällbacka og Basshunter þá ákvað ég að skella í eitt lauflétt blogg.

Ástæðan fyrir veru minni í landinu sem drýpur smjör af hverju strái er sú að frá því að ég var 11 ára hef ég ekki getað snúið hendinni frá olnboga niður að úlnlið. Töfralæknarnir hér í heilaga landinu fengu víst vitrun fyrir ekki svo löngu í transi við taktfastann taktinn í laginu Money, money, money um hvernig ætti að gera við þetta mein mitt. Um tímamótaaðgerð er víst að ræða þar sem að nákvæmlega þessi aðgerð hefur ekki verið framkvæmd í Svíþjóð og á mjög fáum stöðum í heiminum. Sérstaklega eftir svona langan tíma.

Ferðin hófst eins og margar aðrar góðar ferðir í Leifsstöð, aldrei hef ég séð jafn mikið af fólki þar. Eftir veru mína þar get ég gert mér í hugarlund hvers vegna þeir vilja stækka flugstöðina. Til að koma okkur upp á Leifsstöð fengum við far með Guðmundi Jónassyni, ótrúlegt en satt þá var það ekki rútufyrirtækið heldur pabbi minn. Hann var svo elskulegur að vera með okkur þangað til að yfir lauk, þar að segja þangað til að við komumst alla leið upp að vegabréfs tékki.

Við gistum eina nótt í Stokkhólmi á hosteli. Það var draumi líkast enda gott að geta loksins sloppið við öll þessi nútímaþægindi sem halda svo aftan að okkur í daglega lífinu. Eitt af því fyrsta sem að við gerðum í Stokkhólmi var að hoppa upp í Sightseeing bus. Sem betur fer hafði Ingibjörg sagt við mig að Stokkhólmur væri ekkert sérstök borg og hafði ég því ekki miklar væntingar. Ég hefði varla getið beðið um það mikið betra. Öll þessi stórglæsilegu gömlu hús og magnað útsýni einkenndu ferðina auk þess sem að ABBA tónlist skipaði stóran sess á milli þess sem að leiðsögumaðurinn talaði.

Að strætótúr loknum leigðum við okkur hjól og hjóluðum á þá staði sem við vildum skoða betur frá ferðinni. Það var rosalegt að hjóla uppá brekkuna sem trónir yfir afföllunum úr vötnunum við Stokkhólm og sjá haustlitina skarta sínu fegursta enda mikið af trjám í Stokkhólmi.
Við einn útsýnis staðinn rákumst við á hlut sem ég væri til að borga alltof mikið fyrir. Þetta var sjálfvirkur garðslátturs róbot sem virkar alveg eins og ryksugu róbót nema slær bara gras í staðinn. Sem betur fer er þetta vel varið leyndamál sem aðeins finnst í hinu útópíska landi. Ef þessi bylting kæmi til Íslands yrðum við í Grænni Garði fljótt atvinnulausir.
Þegar að við ætluðum að skila hjólunum rákumst við á lögreglumann á mótorhjóli sem sagði „Stopp“ við gatnamót. Fólkið sem var við gatnamótin hélt samt áfram ferð sinni og skil ég það fullkomlega þar sem að lögreglumaðurinn gleymdi að segja „hammertime!“. Þegar að hann áttaði sig á þessum reginmistökum reyndi hann að bæta þessi mistök sín og sagði „Stopp, Jag sa!“.

Skilaboðin skiluðu sér loksins til fólkskarans en þó að sjálfsögðu með vonbrigðum. Stuttu seinna keyrði heillöng bílalest fram hjá okkur með lögreglufylgd. Mér finnst mjög líklegt að þarna hafði S-Afríski forsetinn verið á ferð. Hvað hann var að gera veit ég ekki en mér finnst ekki ólíklegt að yfirskin ferðarinnar hafi eitthvað að gera með pólitík. Innst inni vonaðist hann samt örugglega eftir því að fundirnir væru nógu stuttir svo hann hefði tíma til að geta kíkt á ABBA safnið. Slagorð safnsins segir allt: „Walk in,dance out!“

Um kvöldið fórum við svo í lest til Uppsala sem er ágætlega stór háskóla og sjúkrahús bær rétt fyrir utan Stokkhólm. Við tókum leigubíl upp á hótel. Leigubílstjórinn spurði okkur frá hvaða landi við vorum og við sögðum auðvitað „Island“. Þá svaraði hann að bragði: „Ja, Tyskland“. Eftir að þessi orðaskipti höfðu átt sér stað þrisvar sinnum sögðum við bara „Ja, Tyskland“.

Við fórum á spítalann daginn eftir. Það sem kom okkur hvað helst á óvart var hvað það var alltaf stutt bið, eiginlega bara óþægilega stutt. Ég hafði gert ráð fyrir því að getað klárað bókina mína þennan daginn á biðstofunum en í staðinn var ég bara í stöðugum rannsóknum og engin biðá biðstofum. Rannsóknirnar tóku því ekki nema um einhverja 2-3 tíma. Í rannsóknunum hittum við fyrir læknana sem ætluðu að skera mig. Þeir eru víst einhverjir rosa kallar hérna í Uppsala auk íslenskrar konu sem var í sérnámi þarna. Ég varð því mjög sáttur með að þau skyldu vilja taka mig að sér og gat ég andað léttar. Læknarnir sögðu mér meira að segja að þeir ætluðu ekki að gera neitt allan daginn heldur en að hugsa um mig.

Að rannsóknum loknum fórum við í göngutúr um Uppsala. Það sem að einkennir þennan bæ er auðvitað hvað það er rosalega mikið af ungu fólki þar sem að þetta er jú háskólabær. Bærinn er því víst mjög dauður á sumrin þegar allir fara í sumarfrí. Ég hef heldur örugglega aldrei séð jafn mikla hjólamenningu í einum bæ, töluvert meira en í Kongens.

Morguninn eftir fór ég í aðgerðina. Sem betur fer var hún snemma um morguninn og því þurfti ég ekki einu sinni að hugsa um að fasta. Aðgerðin tók einhverja sex til sjö tíma enda þurfti að fjarlægja einhverja 12 rúmsentímetra af beini í hendinni á mér, sem er víst mjög mikið.
Þegar að ég vaknaði var ég líklegast uppdópaður en gleðin var örugglega sjálfsprottin þegar læknirinn sagði að aðgerðin hafði heppnast betur en þeir höfðu vonast eftir. Nú var loksins hægt að snúa hendinni eftir 12 ára bið. Það sem að skelfdi mig örugglega hvað mest á þeim tímapunkti var að ég uppgötvaði að ég hafði fengið þvaglegg. Það er ekki draumur neins karlmanns!

Næstu dagar voru hálf ömurlegir þar sem að ég gat ekki gert neitt, var með þvaglegg og til að gera illt verra var heilabiluð kona í rúminu við hliðina á mér sem elskaði að spyrja hvað klukkan væri. Sérstaklega á nóttinni. Það tók á sálina hjá mér örugglega jafn mikið og hjá Hérastubbi bakara þegar að hann fattaði að bakaradrengur hafði sett kíló af pipar í stað kíló sykurs.
Sem betur fer var mamma mikið með mér á hverjum degi, hún hjálpaði mikið til með bæði andlega og líkamlega heilsu og er ég mjög þakklátur fyrir það. Við getum örugglega núna bæði farið í Íslandsmótið í „Hver er maðurinn?“ án teljandi vandræða. Finnski flóttinn(bragð sem er oft notað í "Hver er maðurinn") mundi örugglega ekki einu sinni virka á okkur.
Síðasta daginn minn í Svíþjóð var ég svo bara orðinn nokkuð góður. Ég gat farið í sturtu án teljandi vandræða og ég var orðinn álíka spenntur fyrir heimferðinni eins og Mikki refur fyrir kökunum hjá Hérastubbi bakara.
Þennan dag flugum við heim og gekk ferðin bara eins og best var á kosið. Ferðin gekk það vel að það hefði mátt halda að íslenskt flugfélag sem var stofnað í kringum 1940 og hefur heitið t.d. Loftleiðir hefði flogið með okkur.

Að lokum vil ég þakka mömmu minni Hönnu Ingibjörgu opinberlega kærlega fyrir allan hennar stuðning. Mér finnst mjög ólíklegt að svona vel hefði gengið ef hún hefði ekki komið með.

„The winner takes it all!“

Sænska dagsins: Biðjið einhvern Svía að segja 777. Það er yndislegt.

Mynd dagsins:12177124_1058486564170976_1227446170_o_1271871.jpg

Sæll og glaður á leiðinni heim.


Ef maður er ekki Dancing queen, þá er eins gott að maður sé Chiquitita

Mackvöldið maclesendur,

Þegar þetta er skrifað má segja að staðan á okkur sé 5-5 eða steindautt jafntefli á flugvellinum hér í Split. Síðan að síðasta blogg var skrifað má með sanni segja að eitt og annað hafi komið upp á hjá okkur Króatíubjörgu.

Á miðvikudaginn voru bæði ég og Inga frekar mikið brennd og því nokkuð þakklát fyrir hvað það rigndi mikið þann daginn. Því ákváðum við að það væri ekki annað hægt heldur en að fara í river rafting og vonað eftir því að fólk með ofnæmi fyrir vatni væri með okkur í för.

Bílstjórinn byrjaði á að sækja okkur niður á höfn og pikkaði svo upp nokkra fleiri á leiðinni upp að ánni. Þegar að ég ætlaði að reyna að fara að setja bílbelti á mig sagði hann: „You don‘t need this, you‘re in Croatia“. Það fannst mér mjög fyndið. Í rútunni ríkti ágætlega vandræðaleg stemning sem má örugglega rekja til tungumálaörðugleika. Þá ákvað þessi mikli meistara að lífga aðeins uppá andrúmsloftið. Ég hefði eiginlega ekki getað beðið um meira, höfðinginn setti á Abba Gold. Dancing queen og öll hin meistaraverkin fengu því að óma um bílinn eins og áróðursmyndbönd um af hverju Kim Jong Un sé betri en stangarstökksdrottningin Vala Flosadóttir í hreintóna niðursveiflu á Palo 3000 stöngum. Einu sinni þurfti bílstjórinn að skreppa aðeins út og tók lykilinn úr svissinum. Hann gekk svo af stað en eftir að hafa gengið svona 10 metra áttaði hann sig á því að hafði gert sig sekan um reginmistök. Það má aldrei slökkva á Money, money, money í miðju viðlagi og því var hann fljótur að kveikja á því aftur.

Í lok bílferðirnar þegar allir brosvöðvar voru orðnir of strekktir vegna gleðinnar sem ríkti hittum við river rafting leiðsögumanninn. Hann var u.þ.b. 25 ára og virkilega fínn. Hann, eins og flestir bæjarbúar, er mjög mikill aðdándi Hadjuk Split sem er aðalfótboltaliðið hér í Split. Þegar að hann komst að því að ég þekkti manninn sem var næstum því búinn að kaupa liðið varð hann mjög spenntur. Sá maður heitir Glover og er pabbi Marjani, sem er kærasta frænda míns hans Daníels Taylors(Danni Deutsch). Leiðsögumaðurinn sagði að aðdáendur Split sem mynda elsta official stuðningsmannaklúbb í Evrópu vilja frekar að liðið þeirra falli í 5. deild frekar en að selja það til einhverja bandarískra fjárfesta. Það er ekta hugarfar!
Í riverraftinginu sagði hann við okkur að þegar að hann öskraði „BOMBA“ áttu allir að leggjast niður. Hann sagði að auðveldast væri að kenna Albönum þetta, þá öskraði hann bara „Police!“ Við sigldum svo fram hjá eyju þar sem að nútíma hippar búa. Þeir hafa leyfi til að vera þarna allt sumarið og gera allt þetta sem að hipparnir gerðu, búa í tjöldum, anda að sér öðruvísi lofti, ganga um á Adamsfötunum og kaupa hlutabréf.
Neðar í ánni benti leiðsögumaðurinn okkur á hvar Game of Thrones var tekið upp. Hann fékk víst að leika í einhverju áhættuatriðinu þar. Hann sagði okkur það að oftast þegar hann sagði Bandaríkjamönnum frá þessu væru þeir ekki lengi að rífa upp eiginhandaráritunarbók. Í lok ferðarinnar hoppuðum við svo ofan af kletti, það er ákvörðun sem ég er ennþá að velta fyrir mér hvort sé réttmæt eður ei.
Á leiðinni heim var svo auðvitað spilað Abba til að toppa þessa unaðslegu ferð.

Daginn eftir fórum við svo til eyjunnar Brac sem er hluti af eyjaklasa rétt fyrir utan Króatíu. Það er virkilega falleg eyja sem gæti vel passað inn í frönsku ríveríuna nema auðvitað töluvert ódýrari. Á eyjunni leyfðum við ungfrú sól að lita aðeins líkama okkar (sérstaklega Tanbjargar auðvitað því ég verð eiginlega bara rauður). En ef þið lesendur góðir eruð farin að velta fyrir ykkur næsta sumri mæli ég hiklaust með því að taka siglingu um þessar eyjar. Þær eru unaður!

Um kvöldið kíktum svo aftur út á lífið í Split. Ungfrú Dansibjörg tók upp þann klassíska sið að segja „Stop......hammer time!“ við alls konar fólk og var misvel tekið í það. Það var reyndar mjög fyndið að sjá fólkið stoppa og halda að Stopbjörg væri einhverslags öryggisvörður, en ruglaði hún svo aðeins í þeim.

Í dag var svo síðasti dagurinn okkar í Split. Við pökkuðum dótinu okkar saman og röltum niður á strönd. Á leiðinni hittum við fyrir hund í annað skipti á nákvæmlega sama stað á nákvæmlega sama tíma dags að labba upp við vegg fram og til baka nokkrum sinnum til að klóra sér. Svo tók hann rassinn vel fyrir á sama hátt og labbaði aftur inn til sín. Klassa dagsverk og virkilega krúttlegt að sjá.

Við lögðum okkur svo í hina hinstu hvílu á ströndinni. Margir gætu sagt að það sé vegna þess að Brúnkubjörgu langar að vera brún sem hún getur legið tímunum saman í sólinni en það er mun einfaldari skýring á því máli. Hún þarf einfaldalega að byggja upp steinefna þörf brissins hjá sér auk þess að henni finnst gott að hafa nóg af kalsíum í mænukylfunni. Þegar að við fórum gaf ég svo tveimur krökkum uppblásnu dýnuna mína og voru þau mjög glöð með það. Ég fattaði svo stuttu að þessi gjöf mín reyndist vera tvíeggja . Gleði fyrir börnin en vandræði fyrir foreldarna því nú voru krakkarnir komnir með eitthvað nýtt til að rífast um. Mitt ráð til ykkar er því að hafa frekar einn hníf á hendi en tvo á borði.

Að strönd lokinni þurftum við aðeins að kveðja bæinn og gengum því um í Diocletian‘s palace.Þessi staður er hreint út sagt magnaður. Hann var byggður af Rómverjum fyrir u.þ.b. 2.000 árum síðan en hann er ennþá notaður sem híbýli fólks og sem verslunarstaður. Það hefur verið búið á þessum stað í allan þennan tíma en samt alltaf passað upp á að halda í gamla útlitið.

Fæðubjörg hafði að sjálfsögðu tekið með sér brauð til að gefa „bíbbunum“ eins og hún kallar dúfurnar en þetta er hún búin að gera alla ferðina. Já, Krúttbjörgu finnst fátt skemmtilegra en að gefa dýrum að borða og er það mjög sætt. Það kom henni því portúgalskt fyrir sjónir en þó skemmtilega þegar að hún sá að það var búið að gefa köttum mat í skál. En svo kom köttur og kúkaði í ókláraða skálina, líklegast til að passa upp á að aðrir kettir fái sér örugglega ekki úr henni.

Munið eftir að klára grænmetið ykkar,
ykkar drengur Jónas

Fastir liðir:

Orð dagsins: Kako þýðir "hvernig" á króatísku. Mér fannst það skemmtilegt

Mynd dagsins: Ég og Raftingbjörg áður en við riverröftuðum og eftir að hafa hlustað á Abba.

SDC12198

 


Að vera kærður eða vera ekki kærður, það er spurningin

Dobra vecer kæra fólk,
nú sit ég hér inn á herbergi og skrifa blogg til ykkar vel sólbrenndur og fínn jafnvel pínu krúttlegur ef heppnin er með mér í liði.

Ég og Flugbjörg flugum síðastliðinn laugardag(15 ágúst) frá Berlín til Split (ef þið haldið að þið séuð fyrsta fólkið til að fatta bananaSplit brandarann þá hafið þið rangt fyrir ykkur) í Króatíu. Þegar að við komum út af flugvellinum áttuðum við okkur strax á því að við værum ekki lengur í hinni vel skipulögðu Berlín og komin í staðinn til Austur-Evrópu. Flugrútan sem að við fórum upp í var látin bíða þangað til að hún yrði sneisafull. Ekki bara sætin heldur líka allur gangurinn. Það tók dágóðann tíma. Þá fór rútubílstjórinn fyrst af stað að rukka alla sem tók heillangann tíma. Við hittum svo konuna sem að við pöntuðum íbúðina hjá í gegnum Airbnb og sýndi hún okkur hana. Rétt hjá íbúðinni okkar er lögreglustöð, konan sagði að stöðin ætti að fylla okkur af öryggiskennd. Við vorum bæði sammála um það að ef eitthvað er þá dregur lögreglustöðin úr okkur öryggiskenndina þar sem að löggur í A-Evrópu eru ekki beint þekktastar í heimi fyrir að vera óspilltar. Einu löggurnar sem við höfum reyndar séð í bænum voru að hanga fyrir framan „Gentlemen‘s club“

Daginn eftir vöknuðum við og hlustuðum eftir fuglasöng. Sá fuglasöngur var ekki þessi eðlilegi fuglasöngur þar sem að þeir að tísta á hvern annan til að berjast um yfirráðarsvæði, neibb þetta var sjúklega mikil rigning. Áður en við komum hingað hafði verið mjög mikil sól og hlýindi en núna þegar að við mættum rigndi bara eins og ef það væri verið að vinda klútinn hjá bæjarstjóranum í Latabæ þegar hann var að elta Íþróttaálfinn. Því hugsuðum við að nú væru góð ráð dýr og kíktum því í verslunarmiðstöðunina City center hér í bænum. Ótrúlegt en satt þá var eiginlega það fyrsta sem ég sá í verslunarmiðstöðinni var einn af þeim fáu króatísku mönnum sem að ég þekki. Ég var að vinna með honum á veitingastað í Austurríki. Það er svona, lífið er fullt af tilviljunum sérstaklega ef maður kannast við herra Jovic sem vinnur sem þúsundþjalasmiður á Salm Braü í Vín. Í verslunarmiðstöðinni var okkur svo bent á að skipta evrunum okkar frekar í spilavítinu heldur en hjá gjaldeyrisbúð. Mér fannst það mjög skemmtilegt. Á leiðinni heim settumst við svo niður og ætluðum að fá okkur einhverja drykki. Súkkulaðibjörg ákvað að vera ekki með neitt rugl og pantaði sér heitt súkkulaði. Þá sagði þjónninn að þeir væru ekki með svoleiðis en þeir hefðu samt heitt súkkulaði með mintu eða rommi. Við erum ekki ennþá búinn að komast til botns í þessu máli. Um kvöldið fórum við út að borða á króatískum/mexíkóskum stað sem „meikar að sjálfsögðu fullkomin sens“. Þar reif þjónninn í spaðann á mér í lok kvölds og sagði: „You are a lucky man, you have a very beautiful wife“. Ég brosti til hans og svaraði með Ragnars Reykás hroka „I know“.

Daginn eftir átti líka að rigna til þrjú um daginn svo að við fórum aftur í verslunarmiðstöðina og kláruðum öll innkaupin okkar þá. Eitt af því sem að mér finnst frábært við þessa stóru verslunarmiðstöð er að einungis einn strætó fer þangað. Hann er því örugglega næstum alltaf 100% troðinn. Strætóbílstjórinn var líka alveg magnaður því að á meðan að við keyptum hjá honum miðann skipti hann um pappír í prentaranum, talaði í síma, gaf til baka, gaf út leiðarlýsingar og til að toppa allt keyrði hann fullan strætó af fólki á sama tíma um þröngar götur. Kæmi mér ekkert á óvart ef hann hefði líka verið að hugsa um á sama tíma af hverju Sigurjón Kjartansson fékk ekki líka að leika Magga Mjóa í Glanni Glæpur í Latabæ.

Um kvöldið kíktum við svo á næturlíf bæjarins. Það var hreint út sagt yndislegt og voru meðal annars gömlu dansarnir rifjaðir upp. Þegar okkur fannst að fólkið inn á staðnum var orðið þreytt á 24. versinu í hringdansinum við kvæðið Ólafur Liljurós ákváðum við að fara út af staðnum. Við hittum þá fyrir nokkra króatíska krakka og þrjá stráka frá Marokkó. Við spjölluðum heillengi við þau og þá sérstaklega maróskosku strákana. Þeir voru á svipuðum aldri og við og einn af þeim hafði það af lifibrauði sínu að opna marokkóska veitingastaði og selja þá svo þegar vel er byrjað að ganga, pínu töff finnst mér. Hann var staðráðinn í að opna stað á Íslandi eftir að hafa talað við okkur. Það verður svo bara að koma í ljós hvort að það gerist eða ekki. Annar strákurinn sagði okkur svo frá því að hann á yfir höfði sér að vera kærður í Marokkó fyrir að stunda kynlíf án hjónabands þar sem að hann er búinn að gera dóttir einhverja hjóna ófýsilegri gagnvart hjónabandi. Hann ætlar því að reyna að forðast Marokkó um sinn. Öll vitleysan er ekki eins.

Í dag kíktum við svo á ströndina. Á ströndinni sáum við töluvert af Asíubúum sem voru alveg viss um það að þau ætluðu ekki að fá snefil af lit. Mörg lágu undir sólhlíf, voru alklædd og höfðu þykkt lag af sólarvörn. Það var því eins gott að þau voru að fara til sólarlanda á ströndina. Bæði ég og Sólbjörg vorum reyndar svo góð að sofna í sólbaðinu og við því álíka rauð á líkamanum og Halla hrekkjusvín var í framan þegar að Solla stirða spurði hana hvort hún væri að gráta. Það eru því Asíubúarnir sem hlæja að okkur í kvöld.

Shoutout til strákanna á Snæfellsstöðum!

Fastir liðir:

Orð dagsins: Hrvatska, það þýðir einfaldlega Króatía á króatísku.

Mynd dagsins:

Ég og Regnbjörg eins slök og það gerist eftir klikkuðustu rigningu sem ég hef upplifað

SDC12163


Dolli frændi hefur marga fjöruna sopið

Sæl verið þið kæra fólk, vegna fjölda áskorana þá hugsaði ég með mér að það væri ekki annað hægt en að byrja aftur á bloggi fyrst ég er kominn á ferðina.

Þegar þetta er skrifað eru 9.906 flettingar frá upphafi og tel ég það aðallega vera vegna þess að þetta er líklega hluti af internet hring pabba á hverjum degi og er hann áreiðanlega alltaf jafn svekktur á hverjum degi að ekki sé komið nýtt blogg. Hann hefur því verið bænheyrður þennan dag u.þ.b. tveimur og hálfu ári eftir að síðasta blogg var skrifað.

Í gær(14. Ágúst) fór ég og queen of the krútts, Ingibjörg eða Krúttbjörg eins og hún vill að allir í útlandinu kalli hana í námsferð tengda arkitektúr og þjóðdönsum um Evrópu. Í þessari ferð munum við koma til með að fara til Berlínar, Split í Króatíu og Rómar.

Ferðin hófst á miðnætti í gær þegar að téður pabbi(Good to the man) skutlaði mér og Listbjörgu uppá flugvöllinn. Á flugvellinum var allt pakkað, allt frá indíána kúrekum að fólki með alltof stóra bakpoka miðað við skóstærð. Í Leifsstöð bannaði Inga mér trekk í trekk að rugla aðeins í flugvallarstarfsmönnum og náði ég að halda öllum sprengju bröndurum í skefjum. Eitthvað sem félagi minn hann Baldur Björnsson hefði betur mátt gera þegar að hann var út í Skotlandi og sagði að körfuboltinn sinn væri sprengja.

Við lentum svo í Berlín kl 6 um morgun eða 4 á íslenskum tíma. Við gátum ekki tékkað okkur inn á hótelið fyrr en kl 15 um daginn svo við fórum því í góðan túr um höfuðborgina í staðinn. Eftir að hafa ráfað um borgina í dágóðan tíma var kallað á okkur af vel lyktandi Breta sem flestir myndu kalla Fergus en Inga ákvað að kalla Kanslarann. Hann bauð okkur upp á frían túr um Berlín ásamt hópi en lét okkur samt vita að hann hefði ekkert á móti því í lokin að kíkja aðeins ofan í veskin hjá fólki og létta þau aðeins. Fólk myndi samt fá að ráða hversu mikið buddan myndi léttast.

Túrinn byrjaði ekkert sérstaklega vel. Kanslarinn sýndi okkur hótelið Adlon sem er hjá Brandenburgar hliðinu og spurði okkur hvað við myndum halda að það kostaði að gista í svítunni. Ég svaraði að Michael Jackson hefði örugglega efni á því. Þá sagði hann því að ég hefði rétt í þessu eyðilagt besta brandarann hans og héðan í frá yrði túrinn bara lélegur því hann myndi aldrei ná hápunkti. Þeir sem kannast ekki við þetta geta fræðst betur hér: https://www.youtube.com/watch?v=6Zl0T8jxWOw

Þau ykkar sem eru orðin hrædd um að okkur hundleiddist í ferðinni geta samt tekið gleði sína á ný því svo reyndist ekki vera. Eftir góða göngu um borg múra og Reichsmarka komum við að stóru bílastæði. Þar stoppuðum við og fannst flestum frekar sérstakt að stoppa þar. Hugarfar hópsins breyttist þó þegar að það kom í ljós að við stóðum ofan á neðanjarðar byrgi Dolla frænda sem var mjög stórt. Eftir stríðið hafði byrgið verið fyllt með sandi til að nýnasistar gætu ekki gert þetta að einhvers lags hofi.

Að túr loknum sem var alls ekki af verri endanum þar sem skoðað var allt það helsta í miðbæ Berlínar var haldið til baka á hótelið og tékkað sig inn. Sumir myndu segja að það sé gott hvað hótelið er merkilegt en ég myndi þó segja að það sé merkilegt hvað það er gott. Það bætir alla veganna ósættið milli austur og vesturlands og það á hrós skilið fyrir það.

Eins og flestir ættu að kannast við þá fer mallakútur oft í dýpri hugleiðingar heldur en hann á skilið þegar þarmarnir hafa lítið að gera. Það sem mér finnst hjálpa hvað mest þegar að maður er í þessu ástandi er að fá sér eitthvað matarkyns (það er kannski bara ég samt). Við enduðum í Mall of Berlin með hjálp ásgarnarinnar og gæddum okkur á pítum hjá grískri konu sem af einhverjum ástæðum kennir sig við Zeus Pita. Við uppgötvuðum þó nokkru seinna að við höfðum getað farið í staðinn á veitingastaðinn Hummus sem var mikill skellur.

Þegar hyggjuvitið fór að tala betur við okkur ákváðum við loksins að uppfylla æskudraum Cutebjargar og fjárfesta í mest notaða tóli ferðarinnar, selfiestickinu. Nú getum við varla farið neitt án þess að hún taki í stöngina og vídeóbloggi (áhugasamir geta nálgast þetta hjá okkur í lok ferðar) eða hendi í selfie. Einnig keyptum við berlínskt skot glas en við ætlum að gera það að hefð að kaupa alltaf skotglas fyrir hvern stað sem við förum á. Eftir dágóðan tíma á rölti um borgina ákváðum við að gefa herra Þorsteini annan séns eins og Superbjörg kallar meltingarfærin sín. Þá var farið á asískan hlaðborðsstað sem bauð bæði upp á sushi og kínverska kjötrétti. Til að gera stutta sögu stutta þá lærði ég ekki neitt frá sushi hlaðborðinu í Vín. Sushiið gerði einfalda „Blietzkrieg“ árás á mig með hrísgrjónunum sínum þegar ég bjóst hvað minnst við því. Þá var bara eitt að gera og kíkja til baka á hótelið. Svartabeltisbjörg var heldur ekkert að deyja úr spenningi yfir því að kíkja á gamlar verksmiðjur í gamla Austur-Berlín sem búið var að breyta í risa stóra technostaði. Á leiðinni sáum við svo okkur til gamans lengstu asísku nuddlest sem við höfðum séð eða u.þ.b. 20 Asíubúar sem mynduðu halarófu og nudduðu axlirnar á næsta manni fyrir framan sig.

Við vöknuðum því jafn spræk og Angela Merkel þegar að hún horfði á Þýskaland-Brasilía á HM daginn eftir. Við kíktum í árbít og veltum því fyrir okkur hví það sé alltaf tekið milliskref á milli 7. og 8. hopps í Polka. Sumir myndu segja að það væri vegna Maóskra áhrifa en flestir spekingar eru á því máli að þetta sé einfaldlega í eðli mannsins.

Að mat loknum var ferðinni heitið niður í bæ. Við ætluðum að kíkja í „guided“ hjólaferð um borgina en þar sem að við vorum of sein í hana ákváðum við í staðinn að kíkja á stuttan segway túr í staðinn. Það var mjög skemmtilegt að prófa bæði tækið og kynnast borginni um leið. Einnig vildi svo til að Vélbjörg datt af tækinu en það hafði engin áhrif á hana. Eins og hún sagði sjálf: „Ég er vön þessu, ég æfi Karate!“. Stelpan sem fylgdi okkur skildi hana alveg og sagði: „Ég þekki þetta sjálf, ég æfi Aikido“. Þá hló Hláturbjörg nú inn í sér(Fyrir þá sem vita ekki hvað Aikido er: https://www.youtube.com/watch?v=eX0yseYpoBA). Við kíktum svo í gyðingasafnið sem er undir risastóra gyðingaminnisvarðanum í Berlín sem er ókeypis. Sem betur fer náði Brandarabjörg að halda öllum gyðingabröndurum fyrir sjálfan sig og er ég mjög stoltur af henni fyrir það.

Ég tók eftir nokkrum hlutum í Berlín sem mér fannst áhugaverðir. Í fyrsta lagi þá ganga mjög margir hundar lausir með eiganda sínum og væri því mjög gaman að hafa menn eins og Ævar Hrafn Ingólfsson sem elska hunda með sér hér í borg. Ég sá líka ansi skemmtilegan hjólandi bar þar sem menn sátu við barborð og drukku bjór á sama tíma og þeir hjóluðu( Sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=WyzG59dZZZ0). Einnig var sérstök upplifun að fara á Donkin‘ Donuts án þess að einhver röð væri.
Að lokum má segja að Berlín var bara geggjað, mjög flott og frábært veður.

Ich bin ein Berliner Jónas og Þýskubjörg 

Fastir liðir:

Orð dagsins: Kartofelpuffel(Fallegasta nafn á mat sem ég hef heyrt)

Mynd dagsins:

Við á Segway um borgina. Ég var ekki að reyna að snúa bakinu að Segbjörgu, það bara gerðist.

SDC12136

 


Maður verður að passa sig hvað maður er að segja þegar maður er á spjalli-sérstaklega við tollverði

Góðan daginn kæru lesendur og velkomin í síðasta bloggið mitt,
nú sit ég hér á flugvellinum í Kaupmannahöfn og bíð eftir því að geta tékkað mig inn og horfi yfir mannflóðið á meðan ég set hér í hásæti mínu á Burger King.

Á miðvikudaginn síðasta vaknaði ég um morguninn og skellti mér í úlpu og fór svo í skólann. Eftir stutta stund áttaði ég mig þó á því að það voru mikil mistök að hafa farið í þessa úlpu því að það var 15°C úti. Það er mjög ótrúlegt miðað við það að það var -5°C fjórum dögum áður. Mér leið því bara eins og ég væri kominn til Spánar. Mér svo vel í veðrinu að ég ákvað að labba heim í stað þess að taka sporvagninn eftir skóla.
Miðvikudagurinn fór að mestu leyti í það að undirbúa mig undir heimferðina tveim dögum seinna en einnig fór ég á mína síðustu jógaæfingu og undirbjó mig undir þýskupróf sem ég var að fara í síðasta skóladaginn.

Daginn eftir var svo 10°C svo að ég gerði ekki aftur sömu mistökin og hélt mig frá því að taka úlpuna með mér. Ég fór í skólann og í lok dags hugsaði ég að yrði að gera eitthvað sem klassískur túristi mundi gera í Vín. Ég skellti mér því á svona Hop on-Hop off bus og fór í klukkutíma ferð um borgina. Ég hafði séð næstum allt sem maður gat séð þarna en gaman var þá að heyra ýmsan fróðleik um borgina.

Á leiðinni kom ég við í matarbúð þar sem að ég hafði skipulagt matarboð fyrir 15 manns, fyrir það fólk sem ég hafði kynnst vel hér í Vín. Þannig að það var nóg að kaupa inn. Ég hafði áður haldið matarboð fyrir fjóra, þannig að fara frá fjórum yfir í fimmtán var ágætisstökk. Ég hafði spurt Silju(íslensk stelpa sem býr í húsinu) hvort að það væri hægt að halda boðið í íbúðinni hennar því að íbúðin hennar er mun stærri en mín. Hún var meira en til í það og hjálpaði mjög mikið til.
Ég bauð fólkinu upp á tortilla kökur og eins og mig grunaði þá voru allir mjög sáttir með það. Það elska allir tortilla, það er bara einfalt. Þarna voru Ítalir, Frakkar, Spánverjar, Íslendingar, Þjóðverjar og Hollendingur. Það voru því nóg af tungumálum töluð yfir borðið þetta kvöldið. Þegar líða fór á kvöldið var svo skálað fyrir mér á öllum tungumálum og hafði ég mjög gaman að því.
Í lok matarboðsins kom svo svissnesk vinkona mín(sem ég kynntist í málaskólanum) og kærastinn hennar að kveðja mig en þau höfðu verið í Sviss og komu beint frá flugvellinum til að kveðja mig. Þannig að það var ansi vel gert af þeim.

Ég lagði mig svo aðeins en þurfti að vakna um þrjú leytið til að koma mér út á flugvöll. Fyrst ætlaði ég alltaf að taka næturstrætó út á rútustöð en hætti við og ákvað frekar að taka leigubíl. Þegar ég ætlaði að panta bílinn lenti ég í töluverðum vandamálum. Öll leigubílanúmer sem ég fann á netinu virkuðu ekki. Prófaði bæði að hringja úr símanum mínum og skype-inu. Það var því ansi óþægilegt staða að vera staddur þarna heima hjá sér og vita að strætóinn sem fer niður á flugvöll færi eftir 20 mínútur und kein Taxi! Ég hugsaði þá með mér að eina vitið væri bara að koma sér út og reyna að finna leigubíl. Leigubíllinn fannst eftir svona 5 mínútna labb þannig að ég var mjög heppin með það. Ég rétt náði að komast upp í rútuna sem fór á flugvöllinn þannig að lukkan mín hélt áfram þar.

Ég var svo mættur á flugvöllinn í Vín á góðum tíma og skellti mér upp í flugvélina. Ekki vissi ég svo af fyrr en vélin var lent á Kaastrup enda var ég sofnaður áður en flugvélin fór í loftið og vaknaði þegar að hún lenti.
Hérna á flugvellinum ætlaði ég svo að fá til baka vaskinn sem sem ég hafði keypt fyrir í Austurríki, en heilladísirnar voru auðsjáanlega búnar að gefa mér of mikla heppni þennan daginn og þurftu að fá eitthvað til. Þar lenti ég í því pirrandi vandamáli að spjallarinn í mér fór í gang. Ég fór að segja tollverðinum frá því að ég hafði verið í Austurríki í þrjá mánuði í þýskuskóla og hafði líka verið að vinna þar í óspurðum fréttum. Hún hlustaði með athygli á allt það sem ég var að segja og um leið og ég hafði lokið ræðu minni náði hún í blað sem stóð á að ef maður hefði stundað nám í landinu eða hefði verið að vinna sem maður hafði keypt vörurnar í væri ekki hægt að fá vaskinn til baka. Þannig að ef ég hefði bara haldið munninum á mér lokuðum í þetta skiptið eins og maður ætti að gera í svona aðstöðu þá væri ég núna nokkrum Burger King hamborgurum ríkari. Þannig að mitt ráð til ykkar kæru lesendur er bara almennt að spjalla ekki við tollverði. Það getur alltaf komið í bakið á ykkur seinna.

Ég hoppaði svo upp í flugvélina og flaug heim. Það var bara hið þægilegasta flug enda svaf ég næstum allan tímann. Þegar ég lenti beið eftir mín rosalega falleg sjón, þá var hún Ingibjörg þarna að bíða eftir mér með rosalega stórt bros. Ég henti því bara töskunum frá mér og kastaði mér á hana. Eftir að við höfðum faðmast og kysst í nokkurn tíma lítum við upp og þar er hann Gunni Skarp, fyrrverandi íslensku kennarinn minn úr Verzló búinn að vera að horfa á okkur, þannig að það var nokkuð skemmtilegt. Auk þess sem að annar kennari úr Verzló var þarna hann Sigurður Hlíðar, líffræðikennari, Hveragerðisbúi og ábyrgðarkennari.
Við fórum svo upp í bílinn og héldum leið okkar áfram í Bláa Lónið. Það var rosa góð stund sem við áttum þar, þrátt fyrir að mér hafi verið bannað að vera í Borat sundskýlunni minni sem ég fékk í afmælisgjöf frá Steina Grand pabba Alexöndru vinkonu minnar. Eftir Bláa lónið skelltum við okkur heim til mín þar sem að mamma var búinn að undirbúa þessa fínustu lambasteik. Ekki nóg með að kjarnafjölskyldan var þar heldur var amma og afi og Óskar frændi öll mætt. Það var líka rosa góðu stund.

Ég vil svo nýta tækifærið og þakka ykkur fyrir að hafa nennt að lesa þetta blogg hjá mér síðustu þrjá mánuðina, ég veit að það getur oft verið í svoldið lengri kantinum.  En hver veit kannski blogga ég aftur á ferðum mínum en þá vona ég innilega að Ingibjörg mín verði með mér.

Fastir liðir:
Þýska dagsins:Wir müssen noch ein Hühnchen rupfen(bein þýðing væri, „við verðum að fara að rífa fjaðrirnar af kjúklingunum“ en þetta merkir samt„nú verðum við að fara að tala saman“
Mynd dagsins:
IMG_1177

Mínir helstu vinir sem búa í Vín saman komnir í íbúð 18 í Kastnergasse 9 að borða Tortilla

P.s. Mig hefur alltaf langað til að segja frá því þegar að ég var einu sinni í partýi hér út í Vín. Þá missti ég niður drykkinn minn og það sullaðist út um allt. Eins og siður er þá náði ég mér í tusku og ætlaði að byrja að þurrka upp. Þá hrifsaði ein búlgörsk stelpa af mér tuskuna og sagði orðrétt „don‘t let a man do a womens job“ og þreif þetta upp. Mjög absúrt og auðsjáanlegt að kvenréttindabaráttan er ekki þar upp á marga fiska.


Hversu mörg mínusstig fær maður í himnaríki ef maður jarðar óvart skinkusalat í staðinn fyrir ösku móður sinnar?

Hejsa,
á sunnudaginn síðasta var allt fólkið í húsinu hans Jóns vaknað um átta leytið þrátt fyrir að hafa verið að skemmta sér nokkuð seint fram á nótt kvöldið áður. Ég og Steinn gátum því heldur ekki verið minni menn og rifum okkur upp þennan morguninn enda þarf maður að nýta daginn þegar að maður er á skíðaferðarlagi. Jón var að vinna þannig að við gátum alveg kysst hann bless.

Ég og Steinn skelltum okkur í fjallið hérna í Zell am See og var það alls ekki verra en það sem var í Kisztsteinhorn. Endalaust nóg af flottum brekkum, enda er þetta vinsælasta skíðasvæðið í Austurríki hef ég heyrt. Steinn var nýbúinn að láta vaxa brettið sitt svo að hann var farinn að upplifa nýjar víddir á brettinu og get ég með nokkuð mikilli vissu sagt að tilfinningin hjá honum var svipuð og þegar að Aladeen í myndinni „The Dictator“ uppgötvaði sjálfsfróun í fyrsta skipti rúmlega fertugur að aldri (http://www.youtube.com/watch?v=FT4h8FnRBao).
Eftir að hafa skíðað allan daginn þurfti ég svo að skila skíðaskónum sem ég hafði fengið leigða. Þegar að ég skilaði skónum komst ég að því mér til mikilla óþæginda og leiðinda að nýju Timberland skórnir sem ég hafði fengið í jólagjöf frá mömmu og pabba voru horfnir. Konan sem var að vinna þarna fór öll í kerfið og hjálpaði mér að leita útum allt og leit það allt út fyrir að ég mundi ekki ganga meira í þeim skónum. Að lokum mundi hún þó eftir því að einhver maður hafði komið og tekið mjög marga skó með sér þar sem að hann var með stórum hóp hérna. Hún hafði upp á því á hvaða hóteli hann gisti en því miður kom það í ljós að hann var þá farinn frá Zell am See. Hann hafði sem betur fer skilið eftir netfang og náðist því þannig í hann. Ég bað hann svo vinsamlegast bara að senda skóna mína heim til mín til Íslands og vona ég að hann geri það. Þessi ferð hefur því ekki beint verið alltaf einhver dans á rósum og hefur pirrmælirinn stundum sýnt nokkuð háa tölu.

Um kvöldið, eftir að við vorum búinn að borða var svo einhver snilldar Dani sem ákvað að henda Klovn þáttunum í gang og fyrir þau ykkar sem þekkja mig ágætlega hljóta að geta skilið það að ég gat ekki beðið um mikið betra sjónvarpsefni. Þetta var því ansi góð kvöldstund með mörgum klassískum bröndurum á borð við það þegar að Kasper spurði grænlenska lögregluþjóninn hvort að það væri satt að það væri hægt að binda um augun á Grænlendingum einungis með tannþræði(hehe). Fyrir svefninn spilaði ég svo FIFA 12(fótboltatölvuleikur) við hann Lars sem býr hérna með Jóni.

Eftir góðan nætursvefn kom svo mánudagurinn í öllu sínu veldi og gátum við þá loks sett bílinn inn á verkstæði þar sem að öll verkstæði eru lokuð yfir helgar. Eins ólöglegt og það er þá keyrðum við bílnum, númeralausir á verkstæði. Ég held að ég hafi aldrei séð Stein jafn stressaðan. T.d. tók Steinn alls ekki vel í það þegar að ég bað hann að leggja bílnum við hliðina á lögreglubílnum sem var lagður á verkstæðisbílastæðinu. Mér fannst það nefnilega mjög fyndið en Steinn var ekki sammála því, ekki á þessum tíma allavega(seinna hló hann þó rækilega með þessu).
 Þeir inná verkstæðinu gátu ekkert sagt til um það hvort að bíllinn verði tilbúinn á dag eða á morgun en auðvitað óskaði maður þess að hann væri tilbúinn sem allra fyrst því að það er ekkert frábært að búa inn á fólki sem hafði þegar fyrir ekkert rosalega mikið pláss.

Þannig að dagurinn einkenndist af því að við þurftum að spá mikið í þessu bílaveseni en auk þess þurfti ég að kaupa mér nýja skó þar sem að skórnir sem ég fór í hingað eru núna einhvers staðar í Vestur-Austurríki eða á leiðinni heim til Íslands.
Ég og Steinn skildumst svo frá hvorum öðrum, hann hélt áfram að spá í þessu með bílavesenið en ég skellti mér inn á kaffihús því að mig langaði til komast aðeins inn á netið og setja t.d. inn bloggið sem ég hafði skrifað fyrr um daginn. Á kaffihúsinu fékk ég hringingu frá honum Steini sem var þannig að að það væri búið að gera við bílinn það þyrfti bara að setja ný dekk undir hann en þar sem að Bjarki(maðurinn sem Steinn vinnur hjá) var búinn að finna mjög ódýr dekk á netinu vildi Bjarki frekar koma með þau dekk til okkar í staðinn fyrir að kaupa dýr dekk frá verkstæðinu.

Við strákarnir hættum því bara að stressa okkur á þessu þá og skelltum okkur í staðinn á veitingastað. Á veitingastaðnum fékk Steinn hringingu frá Bjarka sem sagði honum það að þessi dekk mundu bara alls ekki passa undir pólóinn, þannig að vandræðin héldu áfram.
Þar sem að ég er í alveg rándýrum þýskuskóla og er þegar búinn að missa af einum degi auk þess að ég var kominn með nettan nennisolnboga gagnvart því að vera þarna lengur hugsaði ég því með mér að ég yrði að komast heim og tók því lestina heim til Vínar. Lestin kostaði mig reyndar u.þ.b. eitt nýra plús litlu tánna í þokkabót en ég komst þó heim að endalokum. Mér líður þó illa yfir því að hafa skilið Stein svona eftir í skítnum en ég veit það fullkomlega að hann spjarar sig alveg enda mjög vanur maður þrátt fyrir að árin telja aðeins 21 ár(skeggrótin segir allt sem segja þarf).
Á meðan að ég beið eftir lestinni fórum við aftur upp í hús. Þar hafði einhver meistari skellt „Waterboy“ í gang með Adam Sandler og verð ég því að segja að ég er mjög hrifinn af kvikmyndasmekk fólksins í húsinu hans Jóns.
Lestarferðin tók svo fjóra tíma, ég þurfti að skipta um lest tvisvar sinnum á leiðinni en þetta hafðist þó á endanum.

Ég vaknaði svo í dag(þriðjudagur) til að drífa mig í skólann og eftir það var bara komið að síðustu fótboltaæfingunni minni. Ég fór á hana og hafði gaman að.
Ég get svo ekki beðið eftir því að föstudagurinn komi því að þá skelli ég mér heim aftur á klakann. Í millitíðinni ætla ég svo að halda tortilla matarboð fyrir mína helstu vini sem ég hef eignast hérna

Fastir liðir:
Þýska dagsins:Diese Burgparty war so geil!(Þetta kastalapartý var geggjað!)
Mynd dagsins:
IMG_1168

 

 

 

 

 

 

 

Steini fannst sniðugt að detta allrækilega á nývaxaða brettinu sínu til að leika jólasveininn 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband