Ef maður er ekki Dancing queen, þá er eins gott að maður sé Chiquitita

Mackvöldið maclesendur,

Þegar þetta er skrifað má segja að staðan á okkur sé 5-5 eða steindautt jafntefli á flugvellinum hér í Split. Síðan að síðasta blogg var skrifað má með sanni segja að eitt og annað hafi komið upp á hjá okkur Króatíubjörgu.

Á miðvikudaginn voru bæði ég og Inga frekar mikið brennd og því nokkuð þakklát fyrir hvað það rigndi mikið þann daginn. Því ákváðum við að það væri ekki annað hægt heldur en að fara í river rafting og vonað eftir því að fólk með ofnæmi fyrir vatni væri með okkur í för.

Bílstjórinn byrjaði á að sækja okkur niður á höfn og pikkaði svo upp nokkra fleiri á leiðinni upp að ánni. Þegar að ég ætlaði að reyna að fara að setja bílbelti á mig sagði hann: „You don‘t need this, you‘re in Croatia“. Það fannst mér mjög fyndið. Í rútunni ríkti ágætlega vandræðaleg stemning sem má örugglega rekja til tungumálaörðugleika. Þá ákvað þessi mikli meistara að lífga aðeins uppá andrúmsloftið. Ég hefði eiginlega ekki getað beðið um meira, höfðinginn setti á Abba Gold. Dancing queen og öll hin meistaraverkin fengu því að óma um bílinn eins og áróðursmyndbönd um af hverju Kim Jong Un sé betri en stangarstökksdrottningin Vala Flosadóttir í hreintóna niðursveiflu á Palo 3000 stöngum. Einu sinni þurfti bílstjórinn að skreppa aðeins út og tók lykilinn úr svissinum. Hann gekk svo af stað en eftir að hafa gengið svona 10 metra áttaði hann sig á því að hafði gert sig sekan um reginmistök. Það má aldrei slökkva á Money, money, money í miðju viðlagi og því var hann fljótur að kveikja á því aftur.

Í lok bílferðirnar þegar allir brosvöðvar voru orðnir of strekktir vegna gleðinnar sem ríkti hittum við river rafting leiðsögumanninn. Hann var u.þ.b. 25 ára og virkilega fínn. Hann, eins og flestir bæjarbúar, er mjög mikill aðdándi Hadjuk Split sem er aðalfótboltaliðið hér í Split. Þegar að hann komst að því að ég þekkti manninn sem var næstum því búinn að kaupa liðið varð hann mjög spenntur. Sá maður heitir Glover og er pabbi Marjani, sem er kærasta frænda míns hans Daníels Taylors(Danni Deutsch). Leiðsögumaðurinn sagði að aðdáendur Split sem mynda elsta official stuðningsmannaklúbb í Evrópu vilja frekar að liðið þeirra falli í 5. deild frekar en að selja það til einhverja bandarískra fjárfesta. Það er ekta hugarfar!
Í riverraftinginu sagði hann við okkur að þegar að hann öskraði „BOMBA“ áttu allir að leggjast niður. Hann sagði að auðveldast væri að kenna Albönum þetta, þá öskraði hann bara „Police!“ Við sigldum svo fram hjá eyju þar sem að nútíma hippar búa. Þeir hafa leyfi til að vera þarna allt sumarið og gera allt þetta sem að hipparnir gerðu, búa í tjöldum, anda að sér öðruvísi lofti, ganga um á Adamsfötunum og kaupa hlutabréf.
Neðar í ánni benti leiðsögumaðurinn okkur á hvar Game of Thrones var tekið upp. Hann fékk víst að leika í einhverju áhættuatriðinu þar. Hann sagði okkur það að oftast þegar hann sagði Bandaríkjamönnum frá þessu væru þeir ekki lengi að rífa upp eiginhandaráritunarbók. Í lok ferðarinnar hoppuðum við svo ofan af kletti, það er ákvörðun sem ég er ennþá að velta fyrir mér hvort sé réttmæt eður ei.
Á leiðinni heim var svo auðvitað spilað Abba til að toppa þessa unaðslegu ferð.

Daginn eftir fórum við svo til eyjunnar Brac sem er hluti af eyjaklasa rétt fyrir utan Króatíu. Það er virkilega falleg eyja sem gæti vel passað inn í frönsku ríveríuna nema auðvitað töluvert ódýrari. Á eyjunni leyfðum við ungfrú sól að lita aðeins líkama okkar (sérstaklega Tanbjargar auðvitað því ég verð eiginlega bara rauður). En ef þið lesendur góðir eruð farin að velta fyrir ykkur næsta sumri mæli ég hiklaust með því að taka siglingu um þessar eyjar. Þær eru unaður!

Um kvöldið kíktum svo aftur út á lífið í Split. Ungfrú Dansibjörg tók upp þann klassíska sið að segja „Stop......hammer time!“ við alls konar fólk og var misvel tekið í það. Það var reyndar mjög fyndið að sjá fólkið stoppa og halda að Stopbjörg væri einhverslags öryggisvörður, en ruglaði hún svo aðeins í þeim.

Í dag var svo síðasti dagurinn okkar í Split. Við pökkuðum dótinu okkar saman og röltum niður á strönd. Á leiðinni hittum við fyrir hund í annað skipti á nákvæmlega sama stað á nákvæmlega sama tíma dags að labba upp við vegg fram og til baka nokkrum sinnum til að klóra sér. Svo tók hann rassinn vel fyrir á sama hátt og labbaði aftur inn til sín. Klassa dagsverk og virkilega krúttlegt að sjá.

Við lögðum okkur svo í hina hinstu hvílu á ströndinni. Margir gætu sagt að það sé vegna þess að Brúnkubjörgu langar að vera brún sem hún getur legið tímunum saman í sólinni en það er mun einfaldari skýring á því máli. Hún þarf einfaldalega að byggja upp steinefna þörf brissins hjá sér auk þess að henni finnst gott að hafa nóg af kalsíum í mænukylfunni. Þegar að við fórum gaf ég svo tveimur krökkum uppblásnu dýnuna mína og voru þau mjög glöð með það. Ég fattaði svo stuttu að þessi gjöf mín reyndist vera tvíeggja . Gleði fyrir börnin en vandræði fyrir foreldarna því nú voru krakkarnir komnir með eitthvað nýtt til að rífast um. Mitt ráð til ykkar er því að hafa frekar einn hníf á hendi en tvo á borði.

Að strönd lokinni þurftum við aðeins að kveðja bæinn og gengum því um í Diocletian‘s palace.Þessi staður er hreint út sagt magnaður. Hann var byggður af Rómverjum fyrir u.þ.b. 2.000 árum síðan en hann er ennþá notaður sem híbýli fólks og sem verslunarstaður. Það hefur verið búið á þessum stað í allan þennan tíma en samt alltaf passað upp á að halda í gamla útlitið.

Fæðubjörg hafði að sjálfsögðu tekið með sér brauð til að gefa „bíbbunum“ eins og hún kallar dúfurnar en þetta er hún búin að gera alla ferðina. Já, Krúttbjörgu finnst fátt skemmtilegra en að gefa dýrum að borða og er það mjög sætt. Það kom henni því portúgalskt fyrir sjónir en þó skemmtilega þegar að hún sá að það var búið að gefa köttum mat í skál. En svo kom köttur og kúkaði í ókláraða skálina, líklegast til að passa upp á að aðrir kettir fái sér örugglega ekki úr henni.

Munið eftir að klára grænmetið ykkar,
ykkar drengur Jónas

Fastir liðir:

Orð dagsins: Kako þýðir "hvernig" á króatísku. Mér fannst það skemmtilegt

Mynd dagsins: Ég og Raftingbjörg áður en við riverröftuðum og eftir að hafa hlustað á Abba.

SDC12198

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband