Að vera kærður eða vera ekki kærður, það er spurningin

Dobra vecer kæra fólk,
nú sit ég hér inn á herbergi og skrifa blogg til ykkar vel sólbrenndur og fínn jafnvel pínu krúttlegur ef heppnin er með mér í liði.

Ég og Flugbjörg flugum síðastliðinn laugardag(15 ágúst) frá Berlín til Split (ef þið haldið að þið séuð fyrsta fólkið til að fatta bananaSplit brandarann þá hafið þið rangt fyrir ykkur) í Króatíu. Þegar að við komum út af flugvellinum áttuðum við okkur strax á því að við værum ekki lengur í hinni vel skipulögðu Berlín og komin í staðinn til Austur-Evrópu. Flugrútan sem að við fórum upp í var látin bíða þangað til að hún yrði sneisafull. Ekki bara sætin heldur líka allur gangurinn. Það tók dágóðann tíma. Þá fór rútubílstjórinn fyrst af stað að rukka alla sem tók heillangann tíma. Við hittum svo konuna sem að við pöntuðum íbúðina hjá í gegnum Airbnb og sýndi hún okkur hana. Rétt hjá íbúðinni okkar er lögreglustöð, konan sagði að stöðin ætti að fylla okkur af öryggiskennd. Við vorum bæði sammála um það að ef eitthvað er þá dregur lögreglustöðin úr okkur öryggiskenndina þar sem að löggur í A-Evrópu eru ekki beint þekktastar í heimi fyrir að vera óspilltar. Einu löggurnar sem við höfum reyndar séð í bænum voru að hanga fyrir framan „Gentlemen‘s club“

Daginn eftir vöknuðum við og hlustuðum eftir fuglasöng. Sá fuglasöngur var ekki þessi eðlilegi fuglasöngur þar sem að þeir að tísta á hvern annan til að berjast um yfirráðarsvæði, neibb þetta var sjúklega mikil rigning. Áður en við komum hingað hafði verið mjög mikil sól og hlýindi en núna þegar að við mættum rigndi bara eins og ef það væri verið að vinda klútinn hjá bæjarstjóranum í Latabæ þegar hann var að elta Íþróttaálfinn. Því hugsuðum við að nú væru góð ráð dýr og kíktum því í verslunarmiðstöðunina City center hér í bænum. Ótrúlegt en satt þá var eiginlega það fyrsta sem ég sá í verslunarmiðstöðinni var einn af þeim fáu króatísku mönnum sem að ég þekki. Ég var að vinna með honum á veitingastað í Austurríki. Það er svona, lífið er fullt af tilviljunum sérstaklega ef maður kannast við herra Jovic sem vinnur sem þúsundþjalasmiður á Salm Braü í Vín. Í verslunarmiðstöðinni var okkur svo bent á að skipta evrunum okkar frekar í spilavítinu heldur en hjá gjaldeyrisbúð. Mér fannst það mjög skemmtilegt. Á leiðinni heim settumst við svo niður og ætluðum að fá okkur einhverja drykki. Súkkulaðibjörg ákvað að vera ekki með neitt rugl og pantaði sér heitt súkkulaði. Þá sagði þjónninn að þeir væru ekki með svoleiðis en þeir hefðu samt heitt súkkulaði með mintu eða rommi. Við erum ekki ennþá búinn að komast til botns í þessu máli. Um kvöldið fórum við út að borða á króatískum/mexíkóskum stað sem „meikar að sjálfsögðu fullkomin sens“. Þar reif þjónninn í spaðann á mér í lok kvölds og sagði: „You are a lucky man, you have a very beautiful wife“. Ég brosti til hans og svaraði með Ragnars Reykás hroka „I know“.

Daginn eftir átti líka að rigna til þrjú um daginn svo að við fórum aftur í verslunarmiðstöðina og kláruðum öll innkaupin okkar þá. Eitt af því sem að mér finnst frábært við þessa stóru verslunarmiðstöð er að einungis einn strætó fer þangað. Hann er því örugglega næstum alltaf 100% troðinn. Strætóbílstjórinn var líka alveg magnaður því að á meðan að við keyptum hjá honum miðann skipti hann um pappír í prentaranum, talaði í síma, gaf til baka, gaf út leiðarlýsingar og til að toppa allt keyrði hann fullan strætó af fólki á sama tíma um þröngar götur. Kæmi mér ekkert á óvart ef hann hefði líka verið að hugsa um á sama tíma af hverju Sigurjón Kjartansson fékk ekki líka að leika Magga Mjóa í Glanni Glæpur í Latabæ.

Um kvöldið kíktum við svo á næturlíf bæjarins. Það var hreint út sagt yndislegt og voru meðal annars gömlu dansarnir rifjaðir upp. Þegar okkur fannst að fólkið inn á staðnum var orðið þreytt á 24. versinu í hringdansinum við kvæðið Ólafur Liljurós ákváðum við að fara út af staðnum. Við hittum þá fyrir nokkra króatíska krakka og þrjá stráka frá Marokkó. Við spjölluðum heillengi við þau og þá sérstaklega maróskosku strákana. Þeir voru á svipuðum aldri og við og einn af þeim hafði það af lifibrauði sínu að opna marokkóska veitingastaði og selja þá svo þegar vel er byrjað að ganga, pínu töff finnst mér. Hann var staðráðinn í að opna stað á Íslandi eftir að hafa talað við okkur. Það verður svo bara að koma í ljós hvort að það gerist eða ekki. Annar strákurinn sagði okkur svo frá því að hann á yfir höfði sér að vera kærður í Marokkó fyrir að stunda kynlíf án hjónabands þar sem að hann er búinn að gera dóttir einhverja hjóna ófýsilegri gagnvart hjónabandi. Hann ætlar því að reyna að forðast Marokkó um sinn. Öll vitleysan er ekki eins.

Í dag kíktum við svo á ströndina. Á ströndinni sáum við töluvert af Asíubúum sem voru alveg viss um það að þau ætluðu ekki að fá snefil af lit. Mörg lágu undir sólhlíf, voru alklædd og höfðu þykkt lag af sólarvörn. Það var því eins gott að þau voru að fara til sólarlanda á ströndina. Bæði ég og Sólbjörg vorum reyndar svo góð að sofna í sólbaðinu og við því álíka rauð á líkamanum og Halla hrekkjusvín var í framan þegar að Solla stirða spurði hana hvort hún væri að gráta. Það eru því Asíubúarnir sem hlæja að okkur í kvöld.

Shoutout til strákanna á Snæfellsstöðum!

Fastir liðir:

Orð dagsins: Hrvatska, það þýðir einfaldlega Króatía á króatísku.

Mynd dagsins:

Ég og Regnbjörg eins slök og það gerist eftir klikkuðustu rigningu sem ég hef upplifað

SDC12163


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband