Dolli frændi hefur marga fjöruna sopið

Sæl verið þið kæra fólk, vegna fjölda áskorana þá hugsaði ég með mér að það væri ekki annað hægt en að byrja aftur á bloggi fyrst ég er kominn á ferðina.

Þegar þetta er skrifað eru 9.906 flettingar frá upphafi og tel ég það aðallega vera vegna þess að þetta er líklega hluti af internet hring pabba á hverjum degi og er hann áreiðanlega alltaf jafn svekktur á hverjum degi að ekki sé komið nýtt blogg. Hann hefur því verið bænheyrður þennan dag u.þ.b. tveimur og hálfu ári eftir að síðasta blogg var skrifað.

Í gær(14. Ágúst) fór ég og queen of the krútts, Ingibjörg eða Krúttbjörg eins og hún vill að allir í útlandinu kalli hana í námsferð tengda arkitektúr og þjóðdönsum um Evrópu. Í þessari ferð munum við koma til með að fara til Berlínar, Split í Króatíu og Rómar.

Ferðin hófst á miðnætti í gær þegar að téður pabbi(Good to the man) skutlaði mér og Listbjörgu uppá flugvöllinn. Á flugvellinum var allt pakkað, allt frá indíána kúrekum að fólki með alltof stóra bakpoka miðað við skóstærð. Í Leifsstöð bannaði Inga mér trekk í trekk að rugla aðeins í flugvallarstarfsmönnum og náði ég að halda öllum sprengju bröndurum í skefjum. Eitthvað sem félagi minn hann Baldur Björnsson hefði betur mátt gera þegar að hann var út í Skotlandi og sagði að körfuboltinn sinn væri sprengja.

Við lentum svo í Berlín kl 6 um morgun eða 4 á íslenskum tíma. Við gátum ekki tékkað okkur inn á hótelið fyrr en kl 15 um daginn svo við fórum því í góðan túr um höfuðborgina í staðinn. Eftir að hafa ráfað um borgina í dágóðan tíma var kallað á okkur af vel lyktandi Breta sem flestir myndu kalla Fergus en Inga ákvað að kalla Kanslarann. Hann bauð okkur upp á frían túr um Berlín ásamt hópi en lét okkur samt vita að hann hefði ekkert á móti því í lokin að kíkja aðeins ofan í veskin hjá fólki og létta þau aðeins. Fólk myndi samt fá að ráða hversu mikið buddan myndi léttast.

Túrinn byrjaði ekkert sérstaklega vel. Kanslarinn sýndi okkur hótelið Adlon sem er hjá Brandenburgar hliðinu og spurði okkur hvað við myndum halda að það kostaði að gista í svítunni. Ég svaraði að Michael Jackson hefði örugglega efni á því. Þá sagði hann því að ég hefði rétt í þessu eyðilagt besta brandarann hans og héðan í frá yrði túrinn bara lélegur því hann myndi aldrei ná hápunkti. Þeir sem kannast ekki við þetta geta fræðst betur hér: https://www.youtube.com/watch?v=6Zl0T8jxWOw

Þau ykkar sem eru orðin hrædd um að okkur hundleiddist í ferðinni geta samt tekið gleði sína á ný því svo reyndist ekki vera. Eftir góða göngu um borg múra og Reichsmarka komum við að stóru bílastæði. Þar stoppuðum við og fannst flestum frekar sérstakt að stoppa þar. Hugarfar hópsins breyttist þó þegar að það kom í ljós að við stóðum ofan á neðanjarðar byrgi Dolla frænda sem var mjög stórt. Eftir stríðið hafði byrgið verið fyllt með sandi til að nýnasistar gætu ekki gert þetta að einhvers lags hofi.

Að túr loknum sem var alls ekki af verri endanum þar sem skoðað var allt það helsta í miðbæ Berlínar var haldið til baka á hótelið og tékkað sig inn. Sumir myndu segja að það sé gott hvað hótelið er merkilegt en ég myndi þó segja að það sé merkilegt hvað það er gott. Það bætir alla veganna ósættið milli austur og vesturlands og það á hrós skilið fyrir það.

Eins og flestir ættu að kannast við þá fer mallakútur oft í dýpri hugleiðingar heldur en hann á skilið þegar þarmarnir hafa lítið að gera. Það sem mér finnst hjálpa hvað mest þegar að maður er í þessu ástandi er að fá sér eitthvað matarkyns (það er kannski bara ég samt). Við enduðum í Mall of Berlin með hjálp ásgarnarinnar og gæddum okkur á pítum hjá grískri konu sem af einhverjum ástæðum kennir sig við Zeus Pita. Við uppgötvuðum þó nokkru seinna að við höfðum getað farið í staðinn á veitingastaðinn Hummus sem var mikill skellur.

Þegar hyggjuvitið fór að tala betur við okkur ákváðum við loksins að uppfylla æskudraum Cutebjargar og fjárfesta í mest notaða tóli ferðarinnar, selfiestickinu. Nú getum við varla farið neitt án þess að hún taki í stöngina og vídeóbloggi (áhugasamir geta nálgast þetta hjá okkur í lok ferðar) eða hendi í selfie. Einnig keyptum við berlínskt skot glas en við ætlum að gera það að hefð að kaupa alltaf skotglas fyrir hvern stað sem við förum á. Eftir dágóðan tíma á rölti um borgina ákváðum við að gefa herra Þorsteini annan séns eins og Superbjörg kallar meltingarfærin sín. Þá var farið á asískan hlaðborðsstað sem bauð bæði upp á sushi og kínverska kjötrétti. Til að gera stutta sögu stutta þá lærði ég ekki neitt frá sushi hlaðborðinu í Vín. Sushiið gerði einfalda „Blietzkrieg“ árás á mig með hrísgrjónunum sínum þegar ég bjóst hvað minnst við því. Þá var bara eitt að gera og kíkja til baka á hótelið. Svartabeltisbjörg var heldur ekkert að deyja úr spenningi yfir því að kíkja á gamlar verksmiðjur í gamla Austur-Berlín sem búið var að breyta í risa stóra technostaði. Á leiðinni sáum við svo okkur til gamans lengstu asísku nuddlest sem við höfðum séð eða u.þ.b. 20 Asíubúar sem mynduðu halarófu og nudduðu axlirnar á næsta manni fyrir framan sig.

Við vöknuðum því jafn spræk og Angela Merkel þegar að hún horfði á Þýskaland-Brasilía á HM daginn eftir. Við kíktum í árbít og veltum því fyrir okkur hví það sé alltaf tekið milliskref á milli 7. og 8. hopps í Polka. Sumir myndu segja að það væri vegna Maóskra áhrifa en flestir spekingar eru á því máli að þetta sé einfaldlega í eðli mannsins.

Að mat loknum var ferðinni heitið niður í bæ. Við ætluðum að kíkja í „guided“ hjólaferð um borgina en þar sem að við vorum of sein í hana ákváðum við í staðinn að kíkja á stuttan segway túr í staðinn. Það var mjög skemmtilegt að prófa bæði tækið og kynnast borginni um leið. Einnig vildi svo til að Vélbjörg datt af tækinu en það hafði engin áhrif á hana. Eins og hún sagði sjálf: „Ég er vön þessu, ég æfi Karate!“. Stelpan sem fylgdi okkur skildi hana alveg og sagði: „Ég þekki þetta sjálf, ég æfi Aikido“. Þá hló Hláturbjörg nú inn í sér(Fyrir þá sem vita ekki hvað Aikido er: https://www.youtube.com/watch?v=eX0yseYpoBA). Við kíktum svo í gyðingasafnið sem er undir risastóra gyðingaminnisvarðanum í Berlín sem er ókeypis. Sem betur fer náði Brandarabjörg að halda öllum gyðingabröndurum fyrir sjálfan sig og er ég mjög stoltur af henni fyrir það.

Ég tók eftir nokkrum hlutum í Berlín sem mér fannst áhugaverðir. Í fyrsta lagi þá ganga mjög margir hundar lausir með eiganda sínum og væri því mjög gaman að hafa menn eins og Ævar Hrafn Ingólfsson sem elska hunda með sér hér í borg. Ég sá líka ansi skemmtilegan hjólandi bar þar sem menn sátu við barborð og drukku bjór á sama tíma og þeir hjóluðu( Sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=WyzG59dZZZ0). Einnig var sérstök upplifun að fara á Donkin‘ Donuts án þess að einhver röð væri.
Að lokum má segja að Berlín var bara geggjað, mjög flott og frábært veður.

Ich bin ein Berliner Jónas og Þýskubjörg 

Fastir liðir:

Orð dagsins: Kartofelpuffel(Fallegasta nafn á mat sem ég hef heyrt)

Mynd dagsins:

Við á Segway um borgina. Ég var ekki að reyna að snúa bakinu að Segbjörgu, það bara gerðist.

SDC12136

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var mjög ánægður með að sjá að bloggsíðan er aftur virk.  Gaman að fá að fylgjast með ferðalaginu ykkar.cool

Guðmundur Jónasson (IP-tala skráð) 16.8.2015 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband