Maður verður að passa sig hvað maður er að segja þegar maður er á spjalli-sérstaklega við tollverði

Góðan daginn kæru lesendur og velkomin í síðasta bloggið mitt,
nú sit ég hér á flugvellinum í Kaupmannahöfn og bíð eftir því að geta tékkað mig inn og horfi yfir mannflóðið á meðan ég set hér í hásæti mínu á Burger King.

Á miðvikudaginn síðasta vaknaði ég um morguninn og skellti mér í úlpu og fór svo í skólann. Eftir stutta stund áttaði ég mig þó á því að það voru mikil mistök að hafa farið í þessa úlpu því að það var 15°C úti. Það er mjög ótrúlegt miðað við það að það var -5°C fjórum dögum áður. Mér leið því bara eins og ég væri kominn til Spánar. Mér svo vel í veðrinu að ég ákvað að labba heim í stað þess að taka sporvagninn eftir skóla.
Miðvikudagurinn fór að mestu leyti í það að undirbúa mig undir heimferðina tveim dögum seinna en einnig fór ég á mína síðustu jógaæfingu og undirbjó mig undir þýskupróf sem ég var að fara í síðasta skóladaginn.

Daginn eftir var svo 10°C svo að ég gerði ekki aftur sömu mistökin og hélt mig frá því að taka úlpuna með mér. Ég fór í skólann og í lok dags hugsaði ég að yrði að gera eitthvað sem klassískur túristi mundi gera í Vín. Ég skellti mér því á svona Hop on-Hop off bus og fór í klukkutíma ferð um borgina. Ég hafði séð næstum allt sem maður gat séð þarna en gaman var þá að heyra ýmsan fróðleik um borgina.

Á leiðinni kom ég við í matarbúð þar sem að ég hafði skipulagt matarboð fyrir 15 manns, fyrir það fólk sem ég hafði kynnst vel hér í Vín. Þannig að það var nóg að kaupa inn. Ég hafði áður haldið matarboð fyrir fjóra, þannig að fara frá fjórum yfir í fimmtán var ágætisstökk. Ég hafði spurt Silju(íslensk stelpa sem býr í húsinu) hvort að það væri hægt að halda boðið í íbúðinni hennar því að íbúðin hennar er mun stærri en mín. Hún var meira en til í það og hjálpaði mjög mikið til.
Ég bauð fólkinu upp á tortilla kökur og eins og mig grunaði þá voru allir mjög sáttir með það. Það elska allir tortilla, það er bara einfalt. Þarna voru Ítalir, Frakkar, Spánverjar, Íslendingar, Þjóðverjar og Hollendingur. Það voru því nóg af tungumálum töluð yfir borðið þetta kvöldið. Þegar líða fór á kvöldið var svo skálað fyrir mér á öllum tungumálum og hafði ég mjög gaman að því.
Í lok matarboðsins kom svo svissnesk vinkona mín(sem ég kynntist í málaskólanum) og kærastinn hennar að kveðja mig en þau höfðu verið í Sviss og komu beint frá flugvellinum til að kveðja mig. Þannig að það var ansi vel gert af þeim.

Ég lagði mig svo aðeins en þurfti að vakna um þrjú leytið til að koma mér út á flugvöll. Fyrst ætlaði ég alltaf að taka næturstrætó út á rútustöð en hætti við og ákvað frekar að taka leigubíl. Þegar ég ætlaði að panta bílinn lenti ég í töluverðum vandamálum. Öll leigubílanúmer sem ég fann á netinu virkuðu ekki. Prófaði bæði að hringja úr símanum mínum og skype-inu. Það var því ansi óþægilegt staða að vera staddur þarna heima hjá sér og vita að strætóinn sem fer niður á flugvöll færi eftir 20 mínútur und kein Taxi! Ég hugsaði þá með mér að eina vitið væri bara að koma sér út og reyna að finna leigubíl. Leigubíllinn fannst eftir svona 5 mínútna labb þannig að ég var mjög heppin með það. Ég rétt náði að komast upp í rútuna sem fór á flugvöllinn þannig að lukkan mín hélt áfram þar.

Ég var svo mættur á flugvöllinn í Vín á góðum tíma og skellti mér upp í flugvélina. Ekki vissi ég svo af fyrr en vélin var lent á Kaastrup enda var ég sofnaður áður en flugvélin fór í loftið og vaknaði þegar að hún lenti.
Hérna á flugvellinum ætlaði ég svo að fá til baka vaskinn sem sem ég hafði keypt fyrir í Austurríki, en heilladísirnar voru auðsjáanlega búnar að gefa mér of mikla heppni þennan daginn og þurftu að fá eitthvað til. Þar lenti ég í því pirrandi vandamáli að spjallarinn í mér fór í gang. Ég fór að segja tollverðinum frá því að ég hafði verið í Austurríki í þrjá mánuði í þýskuskóla og hafði líka verið að vinna þar í óspurðum fréttum. Hún hlustaði með athygli á allt það sem ég var að segja og um leið og ég hafði lokið ræðu minni náði hún í blað sem stóð á að ef maður hefði stundað nám í landinu eða hefði verið að vinna sem maður hafði keypt vörurnar í væri ekki hægt að fá vaskinn til baka. Þannig að ef ég hefði bara haldið munninum á mér lokuðum í þetta skiptið eins og maður ætti að gera í svona aðstöðu þá væri ég núna nokkrum Burger King hamborgurum ríkari. Þannig að mitt ráð til ykkar kæru lesendur er bara almennt að spjalla ekki við tollverði. Það getur alltaf komið í bakið á ykkur seinna.

Ég hoppaði svo upp í flugvélina og flaug heim. Það var bara hið þægilegasta flug enda svaf ég næstum allan tímann. Þegar ég lenti beið eftir mín rosalega falleg sjón, þá var hún Ingibjörg þarna að bíða eftir mér með rosalega stórt bros. Ég henti því bara töskunum frá mér og kastaði mér á hana. Eftir að við höfðum faðmast og kysst í nokkurn tíma lítum við upp og þar er hann Gunni Skarp, fyrrverandi íslensku kennarinn minn úr Verzló búinn að vera að horfa á okkur, þannig að það var nokkuð skemmtilegt. Auk þess sem að annar kennari úr Verzló var þarna hann Sigurður Hlíðar, líffræðikennari, Hveragerðisbúi og ábyrgðarkennari.
Við fórum svo upp í bílinn og héldum leið okkar áfram í Bláa Lónið. Það var rosa góð stund sem við áttum þar, þrátt fyrir að mér hafi verið bannað að vera í Borat sundskýlunni minni sem ég fékk í afmælisgjöf frá Steina Grand pabba Alexöndru vinkonu minnar. Eftir Bláa lónið skelltum við okkur heim til mín þar sem að mamma var búinn að undirbúa þessa fínustu lambasteik. Ekki nóg með að kjarnafjölskyldan var þar heldur var amma og afi og Óskar frændi öll mætt. Það var líka rosa góðu stund.

Ég vil svo nýta tækifærið og þakka ykkur fyrir að hafa nennt að lesa þetta blogg hjá mér síðustu þrjá mánuðina, ég veit að það getur oft verið í svoldið lengri kantinum.  En hver veit kannski blogga ég aftur á ferðum mínum en þá vona ég innilega að Ingibjörg mín verði með mér.

Fastir liðir:
Þýska dagsins:Wir müssen noch ein Hühnchen rupfen(bein þýðing væri, „við verðum að fara að rífa fjaðrirnar af kjúklingunum“ en þetta merkir samt„nú verðum við að fara að tala saman“
Mynd dagsins:
IMG_1177

Mínir helstu vinir sem búa í Vín saman komnir í íbúð 18 í Kastnergasse 9 að borða Tortilla

P.s. Mig hefur alltaf langað til að segja frá því þegar að ég var einu sinni í partýi hér út í Vín. Þá missti ég niður drykkinn minn og það sullaðist út um allt. Eins og siður er þá náði ég mér í tusku og ætlaði að byrja að þurrka upp. Þá hrifsaði ein búlgörsk stelpa af mér tuskuna og sagði orðrétt „don‘t let a man do a womens job“ og þreif þetta upp. Mjög absúrt og auðsjáanlegt að kvenréttindabaráttan er ekki þar upp á marga fiska.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband