Allt er gott sem vel er sænskt

Hej allihopa,
þar sem að ég var staddur ásamt mömmu minni í landinu sem hefur allt það besta sem vestræn menning hefur uppá að bjóða. Þar að segja ABBA, IKEA(sérstaklega Billy bókahillurnar úr bananatrefjum) , Fjällbacka og Basshunter þá ákvað ég að skella í eitt lauflétt blogg.

Ástæðan fyrir veru minni í landinu sem drýpur smjör af hverju strái er sú að frá því að ég var 11 ára hef ég ekki getað snúið hendinni frá olnboga niður að úlnlið. Töfralæknarnir hér í heilaga landinu fengu víst vitrun fyrir ekki svo löngu í transi við taktfastann taktinn í laginu Money, money, money um hvernig ætti að gera við þetta mein mitt. Um tímamótaaðgerð er víst að ræða þar sem að nákvæmlega þessi aðgerð hefur ekki verið framkvæmd í Svíþjóð og á mjög fáum stöðum í heiminum. Sérstaklega eftir svona langan tíma.

Ferðin hófst eins og margar aðrar góðar ferðir í Leifsstöð, aldrei hef ég séð jafn mikið af fólki þar. Eftir veru mína þar get ég gert mér í hugarlund hvers vegna þeir vilja stækka flugstöðina. Til að koma okkur upp á Leifsstöð fengum við far með Guðmundi Jónassyni, ótrúlegt en satt þá var það ekki rútufyrirtækið heldur pabbi minn. Hann var svo elskulegur að vera með okkur þangað til að yfir lauk, þar að segja þangað til að við komumst alla leið upp að vegabréfs tékki.

Við gistum eina nótt í Stokkhólmi á hosteli. Það var draumi líkast enda gott að geta loksins sloppið við öll þessi nútímaþægindi sem halda svo aftan að okkur í daglega lífinu. Eitt af því fyrsta sem að við gerðum í Stokkhólmi var að hoppa upp í Sightseeing bus. Sem betur fer hafði Ingibjörg sagt við mig að Stokkhólmur væri ekkert sérstök borg og hafði ég því ekki miklar væntingar. Ég hefði varla getið beðið um það mikið betra. Öll þessi stórglæsilegu gömlu hús og magnað útsýni einkenndu ferðina auk þess sem að ABBA tónlist skipaði stóran sess á milli þess sem að leiðsögumaðurinn talaði.

Að strætótúr loknum leigðum við okkur hjól og hjóluðum á þá staði sem við vildum skoða betur frá ferðinni. Það var rosalegt að hjóla uppá brekkuna sem trónir yfir afföllunum úr vötnunum við Stokkhólm og sjá haustlitina skarta sínu fegursta enda mikið af trjám í Stokkhólmi.
Við einn útsýnis staðinn rákumst við á hlut sem ég væri til að borga alltof mikið fyrir. Þetta var sjálfvirkur garðslátturs róbot sem virkar alveg eins og ryksugu róbót nema slær bara gras í staðinn. Sem betur fer er þetta vel varið leyndamál sem aðeins finnst í hinu útópíska landi. Ef þessi bylting kæmi til Íslands yrðum við í Grænni Garði fljótt atvinnulausir.
Þegar að við ætluðum að skila hjólunum rákumst við á lögreglumann á mótorhjóli sem sagði „Stopp“ við gatnamót. Fólkið sem var við gatnamótin hélt samt áfram ferð sinni og skil ég það fullkomlega þar sem að lögreglumaðurinn gleymdi að segja „hammertime!“. Þegar að hann áttaði sig á þessum reginmistökum reyndi hann að bæta þessi mistök sín og sagði „Stopp, Jag sa!“.

Skilaboðin skiluðu sér loksins til fólkskarans en þó að sjálfsögðu með vonbrigðum. Stuttu seinna keyrði heillöng bílalest fram hjá okkur með lögreglufylgd. Mér finnst mjög líklegt að þarna hafði S-Afríski forsetinn verið á ferð. Hvað hann var að gera veit ég ekki en mér finnst ekki ólíklegt að yfirskin ferðarinnar hafi eitthvað að gera með pólitík. Innst inni vonaðist hann samt örugglega eftir því að fundirnir væru nógu stuttir svo hann hefði tíma til að geta kíkt á ABBA safnið. Slagorð safnsins segir allt: „Walk in,dance out!“

Um kvöldið fórum við svo í lest til Uppsala sem er ágætlega stór háskóla og sjúkrahús bær rétt fyrir utan Stokkhólm. Við tókum leigubíl upp á hótel. Leigubílstjórinn spurði okkur frá hvaða landi við vorum og við sögðum auðvitað „Island“. Þá svaraði hann að bragði: „Ja, Tyskland“. Eftir að þessi orðaskipti höfðu átt sér stað þrisvar sinnum sögðum við bara „Ja, Tyskland“.

Við fórum á spítalann daginn eftir. Það sem kom okkur hvað helst á óvart var hvað það var alltaf stutt bið, eiginlega bara óþægilega stutt. Ég hafði gert ráð fyrir því að getað klárað bókina mína þennan daginn á biðstofunum en í staðinn var ég bara í stöðugum rannsóknum og engin biðá biðstofum. Rannsóknirnar tóku því ekki nema um einhverja 2-3 tíma. Í rannsóknunum hittum við fyrir læknana sem ætluðu að skera mig. Þeir eru víst einhverjir rosa kallar hérna í Uppsala auk íslenskrar konu sem var í sérnámi þarna. Ég varð því mjög sáttur með að þau skyldu vilja taka mig að sér og gat ég andað léttar. Læknarnir sögðu mér meira að segja að þeir ætluðu ekki að gera neitt allan daginn heldur en að hugsa um mig.

Að rannsóknum loknum fórum við í göngutúr um Uppsala. Það sem að einkennir þennan bæ er auðvitað hvað það er rosalega mikið af ungu fólki þar sem að þetta er jú háskólabær. Bærinn er því víst mjög dauður á sumrin þegar allir fara í sumarfrí. Ég hef heldur örugglega aldrei séð jafn mikla hjólamenningu í einum bæ, töluvert meira en í Kongens.

Morguninn eftir fór ég í aðgerðina. Sem betur fer var hún snemma um morguninn og því þurfti ég ekki einu sinni að hugsa um að fasta. Aðgerðin tók einhverja sex til sjö tíma enda þurfti að fjarlægja einhverja 12 rúmsentímetra af beini í hendinni á mér, sem er víst mjög mikið.
Þegar að ég vaknaði var ég líklegast uppdópaður en gleðin var örugglega sjálfsprottin þegar læknirinn sagði að aðgerðin hafði heppnast betur en þeir höfðu vonast eftir. Nú var loksins hægt að snúa hendinni eftir 12 ára bið. Það sem að skelfdi mig örugglega hvað mest á þeim tímapunkti var að ég uppgötvaði að ég hafði fengið þvaglegg. Það er ekki draumur neins karlmanns!

Næstu dagar voru hálf ömurlegir þar sem að ég gat ekki gert neitt, var með þvaglegg og til að gera illt verra var heilabiluð kona í rúminu við hliðina á mér sem elskaði að spyrja hvað klukkan væri. Sérstaklega á nóttinni. Það tók á sálina hjá mér örugglega jafn mikið og hjá Hérastubbi bakara þegar að hann fattaði að bakaradrengur hafði sett kíló af pipar í stað kíló sykurs.
Sem betur fer var mamma mikið með mér á hverjum degi, hún hjálpaði mikið til með bæði andlega og líkamlega heilsu og er ég mjög þakklátur fyrir það. Við getum örugglega núna bæði farið í Íslandsmótið í „Hver er maðurinn?“ án teljandi vandræða. Finnski flóttinn(bragð sem er oft notað í "Hver er maðurinn") mundi örugglega ekki einu sinni virka á okkur.
Síðasta daginn minn í Svíþjóð var ég svo bara orðinn nokkuð góður. Ég gat farið í sturtu án teljandi vandræða og ég var orðinn álíka spenntur fyrir heimferðinni eins og Mikki refur fyrir kökunum hjá Hérastubbi bakara.
Þennan dag flugum við heim og gekk ferðin bara eins og best var á kosið. Ferðin gekk það vel að það hefði mátt halda að íslenskt flugfélag sem var stofnað í kringum 1940 og hefur heitið t.d. Loftleiðir hefði flogið með okkur.

Að lokum vil ég þakka mömmu minni Hönnu Ingibjörgu opinberlega kærlega fyrir allan hennar stuðning. Mér finnst mjög ólíklegt að svona vel hefði gengið ef hún hefði ekki komið með.

„The winner takes it all!“

Sænska dagsins: Biðjið einhvern Svía að segja 777. Það er yndislegt.

Mynd dagsins:12177124_1058486564170976_1227446170_o_1271871.jpg

Sæll og glaður á leiðinni heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband