Heppni í háskaför

Hola góðir hálsar,
þar sem að ég er núna staddur á Tenerife ásamt ungfrúnni góðu Tenebjörgu(Ingibjörg Ásta, kærastan mín) og fleiri góðum ferðafélögum sem ég kem að síðar, hafði ég hugsað mér að vera eins lúmskur og það gerist og skrifa blogg hér bæði á internetinu og netinu. Litli frændi minn Brexterinn(Breki Grétarsson) sagði mér að hann og vinir hans hefðu farið í spurningakeppni þar sem að það var spurt upp úr blogginu mínu. Meiri heiður er varla hægt að finna, finnst mér allavega. Hvatning mín til að skrifa þetta er því u.þ.b. fjall á skalanum sjávarbotn til sjávarmál.

Ævintýrið byrjaði þannig að þremur dögum fyrir brottför sem mundi verða 5. jan var ég og Bílbjörg slök að keyra og mér dettur í hug hvort við eigum ekki bara að skella okkur út í sólina. Sólbjörg var jafn auðveldlega seld og sandurinn sem er seldur til Dúbaí til að búa til skýjakljúfana(Semsagt mjög léttilega, ekkert grín).

Ég fór því í barnatanna safnið hans litla bróðir míns Patreks, tók allar tennurnar, setti þær undir koddann hans þegar hann var sofnaður og tók svo peninginn sem tannálfurinn kom með áður en hann vaknaði. Moneybjörg fór hefðbundnari leiðir í fjármögnun sinni.

Á Leifsstöð hittum við fyrir ótrúlega tilviljun Bralla(Bragi Þórðarson), vin minn úr verkfræðinni í Hí. Hann var með félaga sínum P-Boy(Patrekur Ísak Ólafsson). Eftir stutt spjall komst ég að því að þeir keyptu sama tilboð og við og því á sama hóteli. Þvílík veisla!

Ég og Bralli erum saman í aðdáendaklúbb KGE(King Gísli Einarsson, Landalávarður og Íslandsmeistari í grænu rennibrautinni(Græna þruman) í Borgarnesi) ásamt fleiri góðum í verkfræðinni.
Í afmælisgjöf gaf Bralli og bróðir hans Magnús móðir hans(Bralli kallar bróðir sinn alltaf móður sína) tvær innrammaðar myndir. Annars vegar KGE fyrir framan eldgos í samlitri ullarpeysu og hins vegar mynd af Venna Páer og Bjössa frá samnefndum sjónvarpsþátt þar sem Venni var að kenna Bjössa að borða grænar baunir með því að húða baunirnar í súkkulaði og þynna lagið svo á hverjum degi. Hægt er jú að búa til orðið Lúsífer með því að taka orðið súkkulaði, breyta röðun stafanna, taka nokkra í burtu og setja nokkra inn í staðinn. Ég þarf varla að taka það fram en gleði mín við að fá þessar myndir er ekki mæld í kíló-gleðieiningum, ætli tera-gleðieiningar væri ekki réttara.

Það var yndislegt að mæta til landsins og varla þarf að taka fram hversu starstruck starbjörg var þegar hún áttaði sig á því að heilbrigðisráðherra Íslands Kristján Þór Júlíusson var við hliðina á okkur í rútunni og sáum við líka Nóa albinóa á Leifsstöð. Hótelið er frábært miðað við verð og erum við staðsett í Los Gigantes bænum á norðvestur strönd Tenerife. Að sama skapi er veðrið alltaf bara yndislegt og ávallt í 20+ gráðum.

Það fyrsta sem við gerðum þegar að við(Ég, Krúttbjörg, Bralli og P-Boy) mættum á svæðið var að bomba okkur beint á veitingastað enda mallakútur farinn að minnka full lítið hjá okkur. Þegar að reikningurinn kom brá þjóninum heldur betur í brún þegar að hann sá að Borgunarbjörg dró upp evruseðil til að taka þátt í reikningum. Hann sá bara þrjá drengi með einni yngismey og sagði að á Spáni borguðu dömurnar aldrei. Við svöruðum bara til baka að það er mikið jafnrétti á Íslandi og minni launamismunur kynjanna en á Spáni, þar af leiðandi geta og vilja íslenskar konur borga sína reikninga.

Um kvöldið skiptum við okkur upp og fór ég og Restaurantbjörg á veitingastað þar sem að tvífari Obama þjónaði okkur, P-boy og Bralli tóku það hins vegar á sig að þræða ölhús bæjarins og gátu því með góðri samvisku sagt við okkur að það ætti alls ekki að panta sér Bloody Mary kokteilinn á einum staðnum enda hafði strengjabrúða Satans líklegast búið hann til eins og þeir vitnuðu um. Ég sagði Brallanum líka eftir á að það meikaði engan sens að vera að blanda tómatsafa, gini, tabasco sósu, pipar og sellerí saman. Hann var alveg sammála mér. Ég og Barbjörg hittum svo drengina seinna um kvöldið á stað sem hét Route 66. Þar hittum við fyrir tvífara Steinda svo sem var samt bara tvífari hans ef maður horfði á hann í 1,3 sek. Ef maður horfði lengur þá var hann ekkert líkur honum. Þegar að reikningurinn kom fannst okkur hann ansi skrautlegur enda ekki mikið verið að flækja hlutina hér á Spáni. Það eina sem stóð í reikningnum var bara refrescos(drykkur) fyrir hverja færslu. Reikningurinn leit því svona út:
Refrescos...3€
Refrescos...2,5€
Refrescos...4,5€
Refrescos...3,5€ O.s.frv.

Daginn eftir hittum ég og Lovebjörg á strákana og fórum við saman á ströndina. Ég spurði þá hvað þeir höfðu gert fyrr um morguninn. Bralli sagðist hafa tekið „quick twenty“. Ég spurði hvort hann hafði þá meint 20 armbeygjur. Nei sagði hann, ég tók „quick twenty miles“.
Áramótin 2010/2011 var ég á Tenerife með Bjarma frænda mínum og Aroni Ellert félaga mínum. Við vorum þá ansi duglegir að fara á ströndina með vindsængur. Fúgtið við að gera það var það að maður lenti stundum í stórum öldum sem rústuðu manni það mikið að maður snerist nokkra hringi í sjónum og vissi maður þá ekki hvað snéri upp og hvað snéri niður. Eftir eina ölduna þá, var ég ekki viss um að ég myndi lifa hana af. Því var það gífurlegt adrenalínsjokk og eintóm hamingja að átta sig á að maður gat andað súrefni að sér.

Vegna þessarar reynslu var ég manna peppaðastur af okkur að drífa okkur á ströndina og fjárfesta í vindsæng. Þið getið því ímyndað ykkur vonbrigði mín þegar að strandvörðurinn flautaði í flautuna sína(sem hann átti eftir að gera mjög oft) og sagði mér að það væri stranglega bannað að vera með vindsæng í sjónum.
Við höfðum því ekkert vopn á okkur til að busla í sjónum en þá reyndust góð ráð dýr og var aðalleikurinn að vera á hnjánum þar sem að þá litu allar öldur út fyrir að vera miklu stærri. Eftir að strandvörðurinn hafði flautað á mig í fjórða skiptið var þetta komið gott(það eru fleiri reglur en þið haldið hér á ströndinni á Los Gigantes).

Við kíktum á veitingastaðinn á ströndinni og ákvað ég að taka flippkisann á þetta og pantaði steiktan risa smokkfisk. Þetta var mjög gott, sérstaklega fyrstu bitarnir. En þegar að ég var lengra kominn inn í réttinn var þetta orðið pínu þreytt. Áferðin á matnum er líka mjög sérstök og var þetta líkt amerísku hlaupi(jelly). Seinasta bitanum var svo mjög erfitt að kyngja, það voru griparmar fisksins.
Á ströndinni hafði ég fengið nuddsár á milli lappana en geri ég fastlega ráð fyrir því að það sé refsing frá einhverjum æðri máttarvöldum fyrir að hafa gleymt að fara 10 sinnum með Maríubænirnar mínar kvöldinu áður eins og ég geri hvert kvöld. Til að halda áfram að svekkja mig voru öll apótek lokuð þann daginn þar sem að spanjólarnir halda þrettándann mjög heilagann og hef ég meira að segja heyrt að hann sé mikilvægari heldur en jóladagur. Ég get þó ekkert vottað til um sannleika þess.

Um kvöldið var svo haldið á veitingastað þar sem að ég lét allt úr sjónum algjörlega vera eftir reynslu dagsins. Við höfðum mjög gaman af þjónustu stúlkunni henni Evu sem ruglaði í okkur reglulega og við til baka. Hafði hún sérstaklega gaman af því þegar að hún lét kerti á milli mín og Kertabjargar og sagði „Romantic“. Ég tók í höndina á P-Boy og sagði á móti „Yes, very romantic for me and Patty“. Þegar að hún skellti upp úr við þennan klassíska brandara leist Bralla heldur betur vel á hana. Þetta álit á henni hríðféll þó hjá honum þegar að Bralli spurði hana ekki hvort, heldur hvar Abba klúbbur bæjarins væri. Þá sagðist hún ekki hafa hugmynd um hvað Abba væri. Þá vorum við fljót að borga reikninginn og stauluðumst upp á hótel.

Á hótelinu var Bítla cover band að spila. Það gladdi okkur gífurlega og sátum við hugfangin við að horfa og hlusta á þá. Hver einasti hljómsveitameðlimur geislaði nema sá sem átti að vera George Harrison. Hann var ekkert sáttur og taldi greinilega niður mínúturnar þangað til að hann gat sest niður og horft á nýjasta þáttinn af Hringekjunni þar sem að Gói tók viðtal við Brynjar bárujárnssmið á Blönduósi og fékk að spyrja hann spjörunum úr varðandi bárujárnssmíði og fluguveiðar.

Fastir liðir:

Brallíska dagsins. Bralli hefur yfir mjög skemmtilegum orðaforða að ráða og notar hann mjög sjaldan venjuleg orð, hér koma nokkur dæmi:

  • Sigra = Að stunda venjulega dagvinnu. Dæmi: Í gær var ég að sigra í Fjarðarkaup...
  • Ruslbúð = Búðir sem selja allskonar dót hér á Tenerife eins og sólgleraugu, vindsængur o.s.frv.
  • Hann talar reglulega um að vera „fitlandi fínn“
  • Fyrir hverja einustu öldu sem skellur á okkur í sjónum segir hann „Oh dear!“ sem verður aldrei þreytt
  • Hann segir aldrei laugardagur eða þriðjudagur bara lau eða þri. Þegar hann er svo í extra góðu skapi getur hann þó sagt þriðjud
  • Aldrei talar hann um bíl heldur segir hann bara bifreið
  • Oft þegar að hann talar um bróðir sinn hann Magnús talar hann um Magnús móðir sína og kærustuna hans kallar hann líka Hafdís móðir mín.

Mynd dagsins: 
IMG_2353

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Menn smokkfiska sig í gang. Þetta var mjög gott fyrst en svo var þetta bara orðið þreytt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband