Loforð um ABBA er loforð sem maður svíkur ekki

Hello Europe,
Tenerife calling.

Á fimmtudaginn síðasta (7. jan) áttum við yndislegan dag. Hann byrjaði á gífurlega góðum misskilningi. Við ætluðum í Go-kart og eins og maður gerir þegar maður ætlar í svona ferð spyr maður lobbyið hvernig best er að komast í svoleiðis. Ég spurði starfsmanninn þar því um Go-kart og fékk aldrei svör sem meikuðu sens. Hann var nefnilega alveg viss um að ég væri að spyrja um „Goat caring“. Því miður þá höfðum við ekki ætlað okkur að hugsa um geitur þennan daginn en það hefði samt auðvitað verið geggjað. Það var því ekki fyrr Bæklingabjörg kom með Go-Kart bæklinginn sem hann reif upp tólið og henti í símtal á næsta leigubíl.

Ótrúlegt en satt þá fór Go-kartið eins og við höfðum gert ráð fyrir, þ.e.a.s. að Brallinn flengdi okkur í andlitið með stól (rústaði okkur semsagt) þar sem að hann er jú fyrrverandi Íslandsmeistari í rallý. Skemmtilegt að segja frá því að síðast þegar að ég keppti í Go-kart var það gegn Íslandsmeistara í Go-kart honum Hinrik Wöhler og ótrúlegt en satt þá vann ég það ekki heldur.

Að Go-kart loknu fórum við á Los Americas ströndina þar sem að markmiðið var að vera eins lúmsk og við gátum. Þar sem að ungfrú Börgerbjörg var farin  að dreyma um Burger King á nóttunni var ferðinni fyrst heitið þangað. Ég hafði verið áður á Las Americas og vissi því hvar sá staður var. Því miður þegar við mættum þangað hafði honum verið lokað fyrir einhverjum árum síðan. Þá skammaðist ég mín heldur betur fyrir að vera ekki löngu búinn að gúggla hvort að Burger king væri enn á sínum stað.
Þá reyndust góð ráð dýr og fórum við á McDonalds í staðinn og urðum því ekki strengjabrúður Satans (Sjá: https://www.youtube.com/watch?v=EOg3lPpJUYk).  Á McDonalds labbaði maður upp að okkur sem sagðist heita Alibaba og var frá Kenía. Tilboðsbjörg og Bralli gerðu kosta kaup af honum þar sem falleg úr urðu fyrir valinu. Alibaba the clocksmith tók eftir því að Bralli og Áhyggjubjörg höfðu áhyggjur af því að úrin myndu bila fljótt. Sérstaklega þar sem að það heyrðist heldur mikið í úrinu hans Bralla ef maður hristi það. Þá lofaði hann sem betur fer tveggja ára ábyrgð og sagði bara að ef eitthvað vesen kæmi upp gætum við farið í útibúið hans í Kenía og látið laga það þar. Ef þið haldið að þau hafi verið seld þá, þá getið þið ímyndað ykkur hversu mikið þau voru seldi þegar Alibaba sagði(í gríni held ég) að úrið færi klukkutímann á 55 mín svo góð væru úrin.

Við kíktum svo í lauflétta strandferð. Á leiðinni labbaði annar maður sem var líklegast líka frá Kenía og setti armbönd utan um hendurnar okkar og sagði að konan hans hafði búið þau til. Einnig tók hann það fram að þau væri frí. Ekki þótti okkur það verra og því var lítið mál að tipsa manninn þegar að hann sagði „give me change“.
Á ströndinni byrjaði McDonaldsinn að gera árás til baka á herra P-boy (Patta) og því gat hann bara legið á ströndinni og grafið sig ofan í sandinn. Nuddbjörg fékk sér lauflétt nudd frá taílenskum manni sem byrjaði svo að nudda á mér axlirnar með tælandi tilboðum þegar að hann hafði lokið sér af með the queen of massage. Ég bauð syndinni ekki í kaffi og náði að standast freistinguna sem gerðist of sjaldan í þessari ferð.

Eftir ströndina var förinni heitið á Hard Rock. Þegar að ég segist aldrei hafa upplifað annan eins kvöldverð er ég eiginlega alveg viss um að ég sé ekki að bulla.
Í fyrsta lagi var byggingin sjálf alveg rosaleg enda í laginu eins og pýramídi. Hver vill ekki borða á stað sem lítur út eins og grafhýsi fyrrum faraóa þar sem að fjöldi þræla dóu við gerð þeirra og aðra sem voru fórnað með hinum látna faraói til að hjálpa honum í framhaldslífinu?
Í öðru lagi þá var eins og við værum á rokktónleikum. Þegar „We will rock you“ var spilað steig starfsfólkið upp á borð og klappaði, flautaði og söng í takt við lagið sem var frábært!
Þar sem að ég var orðinn svo rosalega spenntur eftir allt þetta pepp þá þurfti ég því að sjálfsögðu að kíkja á klósettið. Þegar að ég fór svo að þvo á mér hendurnar brá mér heldur betur í brún. Ég setti hendurnar undir vaskinn en hann hefur auðsjáanlega verið eitthvað vitlaust tengdur því að vatnið sprautaðist bara í staðinn út úr speglinum. Ég tel mjög líklegt að ég hef aldrei verið jafn lengi að þvo mér um hendurnar þar sem að það var tóm gleði.
Einnig var það skemmtilegt að bæði kynin notuðu þessa vaska nema bara sitt hvoru megin frá. Því finnst mér ekki ólíklegt að einhver ástarsambönd hafa byrjað svona enda fátt jafn rómantískt og að þvo óvart hendi hjá ókunnugum. Ég sagði svo krökkunum frá þessu og fóru þau eins og byssubrenndir að þvo sér um hendurnar enda mikill spenningur fyrir að prófa spegilinn.

Eftir að við vorum komin langt inn í aðalréttinn okkar gekk maður upp að okkur, tók sólgleraugun hans Bralla og lyfti þeim upp frá borðinu án þess að snerta þau á nokkurn hátt og labbaði svo bara í burtu. Við hugsuðum bara að þetta væri einhver þjónn sem kynni eitt trikk og spáðum ekki frekar í þessu.
Stuttu seinna labbaði þó annar maður upp að okkur og byrjaði með galdrasýningu. Hann spurði mig hvaða spil ég vildi og svaraði ég að ég vildi spaðaás. Á svona þriðjung úr sekúndu var hann kominn með spilið  úr vasanum hjá sér. Svo lét hann spilið sem Spilabjörg hafði dregið birtast undir úrinu hjá henni og þannig hélt hann bara áfram og áfram. Eftir sýninguna kíktum við í vasa og veski okkar en allt var þar á sínum stað.

Maðurinn sem að lyfti gleraugunum hans Bralla kom svo aftur til okkar með aðra sýningu. Þar gerðist eitt og annað meðal annars að hann tók venjulegan pappír, kveikti í honum og birtist þá allt í einu sleikjó!  P-boy sagðist hafa unnið í pappírsverksmiðju í langan tíma en aldrei séð pappír breytast í sleikjó.
Þegar að reikningurinn kom var hann svoldið hár en alveg þess virði engu að síður. Mér datt því það snjallræði í hug hvort að galdramennirnir gætu ekki látið hann hverfa þar sem að þeir væru jú svo lunknir með pappír. Ég spurði þá en þá sögðu þeir að það væri mikil áhætta fólgin í því þar sem þeir höfðu reynt það áður en lent þá í því að reikningurinn hafði tvöfaldast. Ég er ekki nógu mikill gambler í mér og urðum því ekki að ósk okkar í það skiptið.

Eftir Hard Rock fórum við í göngu um bæinn. Á leiðinni sáum við söngvara sem var að syngja inn á veitingastað sem var ekki alveg jafn peppaður og Hard Rock. Bralli ákvað því að nota peppið sem hann hafði fengið frá Hard Rock, setti upp Tom Jones gleraugun, setti AfStaðFagmaður(það sem Bralli kallar GoPro myndavélina sína) í upptöku og reif í hljóðnemann með söngvaranum.
Það var eins og við manninn mælt, áhorfendurnir ærðust og mikil gleði færðist yfir mannskapinn. Söngvarinn tók AfStaðFagmanninn af honum og tók upp allt sjálfur og Bralli hélt áfram að trylla lýðinn.

Að lok göngu okkar enduðum við á aðaldjammgötunni sem ég held að heiti Veronicas. Við fengum hvert gylliboðið á fætur öðrum  varðandi drykki en við sögðumst ekki fara inn á neinn stað nema ef hann myndi spila ABBA.  Hver staðurinn á fætur öðrum neitaði okkur um ósk okkar fyrr en einn lofaði okkur. Því fórum við þar inn en heyrðum enga breytingu í tónlistarstefnunni eftir því sem líða tók á kvöldið.
P-Boy var farinn að ókyrrast  og spurði nokkrum sinnum plötu snúðinn og manninn sem lokkaði okkur inn hvort að ABBA væri nú ekki fara að koma. Plötusnúðurinn harðneitaði en veiðarinn(maðurinn sem lokkaði okkur inn) sagðist reyna að gera allt sem hann gæti. Taktíkin hans Patta var mjög skemmtileg. Fór hún þannig fram að hann spurði plötusnúðinn: „Why is there nobody dancing? I‘ll tell you why nobody is dancing. You‘re not playing Abba. Everybody in here are a dancing queen. “ Eftir fjórða skiptið var plötusnúðurinn orðinn ansi þreyttur á honum.
Taktíkin hans Bralla var aðeins ýktari. Þá sagði hann við mennina að þeir myndu hafa „problem“ ef þeir færu ekki bráðum að spila ABBA. Þegar Bralli fattaði svo hvað þetta hljómaði alveg eins og að hann ætlaði að ganga í skrokk á manninum, sá hann nú reyndar að sér. Sérstaklega þegar tekið er til hliðsjónar að Bralli hefur aldrei lent í slag á sinni ævi.

Á borðinu við hliðina á okkur voru svo 18 ára Norðmenn. Þegar að þeir heyrðu  hversu mikið við vorum tilbúin til að kvarta yfir því að fá ekki ABBA á fóninn voru þeir djúpt snortnir og tóku þátt í þessu með okkur.  Á endanum fór það svo að við fengum eina ókeypis kampavínsflösku til að þagga niður í okkur. Þá urðum við samt að lofa því að hætta að væla um ABBA. Skemmtilegt er að segja frá því að Bralli getur farið að gráta hvenær sem hann vill og sé ég mikið eftir því að hafa ekki beðið hann um að gera það í leit okkar. Áttum við eftir þetta mjög notalega stund með Norðmönnunum og voru þeir yfir sig hrifnir þegar að ég sagðist vera mikill aðdáandi Jan Egeland(Sjá: https://www.youtube.com/watch?v=Yn-oemgzlEU)

Þegar að ég fór svo á klósettið var það mjög sérstök reynsla. Þá elti maður mig inn á klósettið og opnaði hurðina að klósett básnum mínum. Ég var í þann mund að fara að svara kalli náttúrunnar þegar að hann spurði mig hvort ég vildi ekki fá eitthvað í nös. Ég var lúmskur og afþakkaði pent. Þegar að ég var svo búinn að þvo mér um hendurnar krafðist hann þess að fá að þurrka þeim. Ég samþykkti það en samt með þeim fyrirvara að ég væri ekki með neinn pening á mér. Þá var hann ekki alveg jafn spenntur fyrir að gera það en gerði það þó samt.

Inn á staðnum fór ég og Bragi í danskeppni. Þar sem að tvísýnt var um hver sigurvegarinn myndi verða ákvað ég að krydda aðeins upp á atriðið til að fá samkeppnisforskot. Mér fannst eins og Dansibjörg væri fyrir aftan mig og ákvað ég því að taka í hendina sem birtist þar og ætlaði að snúa henni. Því miður fyrir alla aðila var þetta alls ekki blómadrottningin heldur sköllóttur kall í leðurjakka sem kæmi mér ekki á óvart að mundi ekki vinna venjulega 9 til 5 vinnu. Ég var sem betur fer fljótur að hugsa og tók þrefalda rúmba sveiflu með vott af taílenskum tangó og náði þar með að snúa mér útúr þessu og engum varð meint af.

Þegar tími var svo kominn til að fara til baka upp á hótelið fengum við þá flugu í hausinn að taka leigubíl til baka en til þess þurftum við að labba fram hjá nokkrum skemmtistöðum. Þar af leiðandi var okkur boðið gull og græna skóga ef við kæmum inn. Bragi getur ekki sagt nei og tók upp á því í staðinn að bjóða sölumönnunum tilboð á móti. Til dæmis er klassík: „Do you own a car? What‘s wrong with your car? I can fix it, 10€ an hour. Special prize for you my friend.“

Á leiðinni til baka fórum við mjög hlykkjóttan veg og þar sem að Brandurinn er mikill rallýmaður ákvað hann að vera aðstoðarökumaður leigubílstjórans. Það fannst mér mjög skemmtilegt. (Sjá: https://www.youtube.com/watch?v=Z0tlJtjtquc&feature=youtu.be)
Þegar að við vorum komin á hótelgarðinn fannst okkur alveg gráupplagt að skella okkur í sund. Það fór ekki betur en svo að um leið og við vorum dottin ofan í laugina kom alveg snarvitlaus hótel starfsmaður og kallaði á okkur „Policia, policia“. Sem betur fer hafði P-boy stundað spænsku nám og var því fljótur að leggja saman tvo og sjö.
Við drifum okkur því eins og við gátum upp á hótel herbergi og slökktum öll ljós svo að Polica gæti nú örugglega ekki fundið okkur.
Bragi var fljótur að sofna þegar að hann lagðist í rúmið og dreymdi þá að starfsmaðurinn hefði komið inn á herbergið þeirra og  skammað þá. Þið getið þá ímyndað ykkur misskilninginn og hversu skringilega Patta leið þegar Bragi fór að spyrja hann seinna um kvöldið hvort starfsmaðurinn hefði gert eitthvað meira.

Fastir liðir:
Spænska dagsins: Mañana(Þýðir á morgun en getur samt líka þýtt bara einhvern tímann seinna. Spanjólinn er í eðli sínu mjög slakur svo að ef þú spyrð iðnaðarmann hvenær hann kemur og hann segir Mañana þá þarf það ekkert að þýða að hann komi á morgun)
Mynd dagsins:

eg

 

 

 

 

 

 

 

Sá sem að svíkur loforð um að spila ABBA verður umkringdur og kvartað í þangað til að hópurinn fær sínu framgengt

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband