Leiðin að hjarta ráðherra

¡Hola Señores y Señoritas!,
nú er komið að loka blogginu frá mér í þessari yndislegu ferð okkar suður um höfin.

Eftir fimmtudagskvöldið sem segir frá í síðasta bloggi hjá mér urðu dagarnir nokkuð rólegri eftir það enda væri ansi erfitt að halda uppi sama tempói og áður. Ég byrjaði föstudaginn á að gera ansi góða fjárfestingu eða að fjárfesta í tveimur miðum á King Bieber fyrir mig og Biebbjörgu.
Þar sem að menn voru ansi slakir eftir daginn áður var ákveðið svo að skella sér niður í sundlaugagarðinn. Sem betur fer hafði ég tekið með mér uppblásnu dýnuna mína og hugsaði að hún myndi heldur betur koma sér vel í sundlauginni. Þegar að ég skellti mér í laugina sem enginn var í, var ég strax rekinn upp úr henni og sagt við mig að ég mætti bara vera með uppblásna dýnu í krakkalauginni.
Ég fór því yfir valkostina hjá mér og tók þá rökréttu ákvörðun að skvetta mér í barnalaugina. Þar var töluvert meira líf en í fullorðinslauginni og fékk ég því reglulegar gusur yfir mig sem var unaðslegt.

Þegar að ég kíkti uppúr lágu Bakkabjörg,  P-Boy og Bralli ansi róleg á sólbekkjunum.
Um garðinn gekk kona sem var að reyna að fá fólk í snyrtimeðferð og nudd til sín. Eins og fyrri daginn gat Brandurinn ekki sagt nei og því þurfti hann að hlusta á heilan fyrirlestur um verðskrá snyrtistofunnar þar sem að konan benti á hvert einasta atriði og sýndi honum verðið.  Þegar að hún byrjaði að þylja upp allskonar naglasnyrtingu  þá var Brandurinn orðinn nokkuð þreyttur á þessu og sagðist ekki vilja naglasnyrtingu. Hún lét eins og hún heyrði það ekki og hélt áfram að nefna alls konar naglasnyrtingar.
Eftir hinn mikla verðlista fyrirlestur gekk skemmtanastjóri hótelsins fram hjá okkur og bauð okkur strákunum að kíkja við í skotfimi. Við kynntum okkur sem Jonás(lesist með spænskum hreim), Party og Brandy sem vakti mikla kátínu, sérstaklega hjá Englendingunum. Fyrstir til að skjóta af voru töffarar frá Póllandi. Þar sem að fyrsta manninum gekk svo vel  ákvað skemmtanastjórinn að þeir væru frá pólsku mafíunni(ekkert rasistalegt við það). Við kynntum okkur hins vegar sem íslensku partýmafíuna og var skot hitnin í samræmi við það en það sem að skipti máli var að fólkið hafði gaman af nafninu.

Skemmtanastjórinn tilkynnti okkur það að seinna um daginn ætti svo að búa til spænska paella og sangríu. Þegar að hafist var handa við að gera paella(sem leit nokkurn veginn svona út: https://pipedreamsfromtheshire.files.wordpress.com/2012/02/paella1.jpg)  var hent fullt af mat í einn risastóran pott og byrjað að elda hann.
Aðrir skemmtanastjórar sem voru á hótelinu „hétu“ þeim yndislegu nöfnum Hot Chocolate og Bambino sem okkur fannst mjög skemmtilegt.  Að sama skapi kölluðu þeir Ingibjörgu, Maria þar sem að þeim fannst erfitt að segja nafn hennar, ótrúlegt en satt. Þar sem að mikið þurfti að hræra í paella voru skemmtanastjórarnir duglegir að koma verkinu yfir á okkur. Þegar að þeir vildu að við hristum upp í matnum kölluðu þeir því til okkar, „tjékkí, tjékkí!“ sem að ég hef ekki hugmynd um hvað þýði og hvort að hafi jafnvel yfir höfuð hafi einhverja merkingu.  Allavega virkaði þetta líka vel á aðra hótelgesti þegar við nenntum ekki lengur að hræra.

Sangría var einnig löguð fyrir gesti og gangandi en fyrir þá sem ekki vita er það spænskur drykkur þar sem rauðvíni er blandað saman við aðra drykki og ávextir settir út í. Þegar að Hot Chocolate spurði einn hótelgestinn sem var sjálfskipaður smakkari hvort að henni fyndist sangrían vera „good or no good“(lesist með vestur-afrískum hreim) var svar hennar einfalt: „more  brandy!“(lesist með skoskum hreim) sem vakti mikla kátínu meðal gesta.  Þegar að bæði var tilbúið var alls ekki óvinsælt hjá hótelgestum að skófla þessu létt í sig.

Um kvöldið fórum við drengirnir aðeins í smá göngu um bæinn en ungfrú Slappbjörg var eitthvað slöpp og dvaldi því upp á hóteli. Á göngu okkar sagði Bralli okkur frá ýmsum skemmtilegum bröndurum úr Krakkaskaupinu sem hann sagði jafnvel betra en „fullorðins“ áramótaskaupið. Þar gekk einn brandarinn út á „Jústín Bíebre“ spænska gítarleikarann. Þannig að þegar að við gengum inná einn barinn bað Bralli um hvort að ekki væri hægt að skella „Jústin Bíbre, the famous spanish guitar player“ á fóninn.  Barþjónninn áttaði sig engan veginn á hvað Bralli var að meina enda ekki furða en ég og P-bone höfðum virkilega gaman af.
Á leið okkar til baka upp á hótelið labbaði vel sjúskaður maður upp að okkur og spurði: „You want to cheat?“ þegar að við neituðum því hélt hann áfram og spurði „You want some weed?“. Það var auðsjáanlega ekki verið að fela neitt þarna.

Daginn eftir tókum ég og queen of the Krútts ansi krúttlegan dag saman. Fyrri helmingur dagsins gekk út á að liggja á sólbekk og láta sólina kitla aðeins freknurnar mínar. En eftir það fórum við í tennis . Gaman að segja frá því að þar sem að við vorum búin að umgangast Brallan svo mikið sem hefur stundum mjög sérstakan orðaforða og raddblæ var ég farinn að taka eftir því að Talbjörg var farinn að tala töluverða Brallísku. Orð eins og ruslbúðir, fitlandi fínn og bjur komu því reglulega upp sem var mjög fyndið fannst mér.
Í tennisnum tókum við klassíska endurgerð  af leik Björn Borg og John McEnroe á Wimbledon 1979 sem allir ættu að muna eftir þar sem að ég tók hina frægu belgísku bakhönd hans Björns en Inga gerði sér lítið fyrir og tók ungversku uppgjöfina hans McEnroe.

Um kvöldið gerðum við okkur lítið fyrir og fórum á veitingastað með útsýni yfir sjóinn þar sem að sjórinn brotnaði á klettunum og sjórinn skaust upp í loft líkt og Geysir. Þetta var því ótrúleg fegurð þar sem að það sást alveg yfir á næstu eyju í myrkrinu. Að máltíð lokinni var svo haldið á Route 66 þar sem næstum því einungis er fólk yfir 65 ára. Það spillti heldur ekki fyrir að þetta kvöld bar yfirskriftina „old dogs, new tricks“.
Mikið af sprell lifandi fólki átti þar dansgólfið og er ég ekki frá því að margir, þá sérstaklega kallarnir voru að skvetta í austur-þýska apann og nýsjálensku næpuna.

Síðasti heili dagurinn rann svo að lokum upp og hugðumst við ætla að njóta hans út í ystu æsar. Því var ákveðið að fara í Siam Park sem er vatnsrennibrautagarður á Las Americas ströndinni. Við ákváðum því að taka strætó þangað. Þar sem að við héldum að 45 mínútur mundu líða á milli hvers strætó urðum við örvæntingafull þegar að hann keyrði fram hjá okkur og við ekki á stoppustöð. Ég spretti því á eftir honum  og byrjaði að banka í gluggann þegar að hann stoppaði. Konan sem að keyrði strætóinn hafði auðsjáanlega aldrei komið til Íslands, boraði í hausinn á sér, horfði á mig og kallaði til mín „¡Loco!“(brjálaður). Ég verð að viðurkenna að ég hafði mjög gaman af því.
Sem betur fer kom annar strætó á innan við kortéri seinna og þetta því bara skemmtilegt ævintýri að vera kallaður „¡Loco!“.
Strætóferðin var mjög löng þar sem að leiðin meðfram ströndinni er alls ekki skilvirk og mikið af beygjum upp og niður. Einnig hjálpaði það ekkert rosalega að Brandurinn verður ekki glaðasti hundur í heimi þegar að hann er svangur. Því glöddust nokkrir duglegir krakkar þegar þau sáu að Burger King var á næsta leyti. Því miður reyndist hann vera lokaður næsta hálftímann og því breyttist brosið fljótt í fýlusvip. Sem betur fer var stutt röð inná Siam Park og vorum við því snögg að henda okkur á næsta veitingastað og fylla þarfir mallans.

Við nýttum daginn í ítarlegar rannsóknir á áhrifum vatns, þyngdarafls og öskurs á líkamann með því að prófa hinar ýmsu rennibrautir. Þar sem að low-season tímabil var í gangi þarna í janúar þýddi það að rannsóknirnar fóru óhindraðar fram og lítið þurfti að bíða í biðröðum. Ég verð þó að segja að ég var fyrir vonbrigðum með hópinn hjá mér sem voru spenntari fyrir að fara svona slökunarhring í kringum garðinn heldur en í the tower of power sem var stór turn sem maður fór mjög hratt niður í. Ótrúlegt en satt mátti Bralli ekki vera með AfStaðFagmanninn(GoPro myndavél) með sér í  slökunarhringinn þar sem við fórum áfram á svona 3 kílómetra hraða.
Það sem að bætti þó þá reynslu var plötusnúðurinn í garðinum því hann gerði ekki annað en að spila frábæra tónlist. Loksins gátum við fengið ABBA á færibandi, sem gladdi mitt litla hjarta og öll hin hjörtun í garðinum(Smá áminning: Mamma mia söngleikurinn verður frumsýndur í mars í borgarleikhúsinu).
Seint er þó hægt að kalla Bralla óvilltan þar sem að hann gerðist ansi lúmskur og fór undir sveppinn í barnalauginni sem er ekki ósvipaður og sveppurinn í sundlauginni á Selfossi.

Eftir að hafa safnað nógu miklum gögnum frá rannsókn okkar í Siam Park var förinni aftur heitið inn á Amerísku ströndina. Þar settumst við niður við sjóinn og horfðum á sólarlagið og brimbretta gæja vera að gera listir sínar, það var yndisleg stund.
Þar tók við svipuð reynsla og við áttum nokkrum kvöldum áður sem gekk út á það að fá tilboð frá töffurum sem vildu spila ABBA fyrir okkur og stukkum við því á þann fyrsta sem vildi spila það fyrir okkur. Því miður sveik hann loforð sitt um að spila en nenntum við ekki að rífast við hann og þar við sat.

Að lokum kom svo loks sá dagur að við þurftum að skilja við hina yndislegu eyju Tenerife.  Það fór því svo að leigubíll kom og sótti okkur og fór með okkur á flugvöllinn. Leigubílstjórinn þekkti örugglega flesta leigubílstjóra á eyjunni því að hann flautaði á næstum alla leigubíla sem við mættum og vinkaði þeim. Meira að segja var það svo að á meðan  við vorum að keyra á svona 50 kílómetra hraða skrúfaði hann niður rúðuna hjá sér og fór bara að spjalla við leigubílstjórann í bílnum við hliðina á okkur sem hefur verið á sama hraða.
Nú tala ég enga spænsku en ég er eiginlega alveg viss um að þeir hafi ekki verið að tala um hvar kjarnorkuvopn voru geymd í Sýrlandi eða höfðu eitthvað annað umræðuefni sem réttlætti það að spjalla saman á jafn miklum hraða og stofna farþegunum í hættu.

Í flugvélinni á leiðinni heim settist herra Kristján Júlíusson heilbrigðisráðherra fyrir aftan okkur og var Starbjörg jafn starstruck og fyrri daginn. Þið getið því rétt ímyndað ykkur viðbrögð hennar þegar að hann tekur í spaðann á henni og segir „Sæl Ingibjörg“.  Hún vissi ekki sitt rjúkandi ráð og spyr hann hvort að hann þekki hana í gegnum mömmu hennar sem er læknir. Hann hélt nú ekki og sagðist þekkja hana í gegnum mig.
Ég vissi að ég hafði orðið landsþekktur fyrir að hafa komist í undanúrslit skotkeppninnar á Shellmótinu í Vestmannaeyjum í fótbolta  árið ´99 þá 7 ára gamall en ég gerði samt ekki ráð fyrir að Kristján hefði munað eftir því. Því varð ég forvitinn og vildi endilega vita hvaðan hann þekkti mig. Þá sagðist hann hafa séð fyrsta bloggið mitt þar sem að ég minnist á að hafa séð hann á flugvellinum vel dressaðann og fínan. Hann hefur svo eitthvað forrit sem lætur hann vita í hvert skipti sem eitthvað er skrifað um hann á netinu. Ég geri því fastlega ráð fyrir því að hann sé að lesa þetta hérna og væri gaman að fá eina athugasemd eða svo frá þeim ágæta manni hér neðst.
Þið vitið því kæru lesendur hvernig er gott að ná sambandi við hina ýmsu ráðamenn þjóðarinnar. Bara að búa til saklaust ferðablogg og minnast á þá.
Mér fannst líka stórskemmtilegt þegar að konan hans sagði við mig að henni fyndist gaman að hvað ég gæfi ungfrú Nafnabjörgu mörg nöfn. Sem hvatti mig að sjálfsögðu en fremur til dáða að gefa henni fleiri falleg nöfn. Í lok flugs óskaði ég og honum góðs gengis með nýja spítalann og hann óskaði mér góðs gengis bloggið.

Að lokum vil ég þakka þessu yndislega fólki sem fór í þessa háskaför með mér, ferðin var dásamleg. Einnig vil ég benda fólki á sem nennir að halda áfram að kynna sér þessa ferð okkar og hefur gaman af ABBA, Justin Bieber, Queen og Steinda að horfa á myndband sem að hann Bralli setti saman og ættu lesendur að kannast við mörg atriði úr myndbandinu: https://www.youtube.com/watch?v=nh44XpsFGNU

Fastir liðir:

Spænska dagsins: ¡Leche!(sem þýðir einfaldlega mjólk en á sumum stöðum í S-Ameríku er mjög slæmt að vera kallaður mjólk og þýðir það einfaldlega að þú fékkst slæma brjóstamjólk þegar að þú varst lítill)

Mynd dagsins:
IMG_2556

 

 

 

 

 

 

 

Strákabandið Þrír lúmskir heilsa frá suðrænum höfum við sólgyllta strönd


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband