Ótrúlegur gestgjafi

Góðan daginn kæra fólk,
nú er leikdagur númer tvö runninn upp hér í Marseille og því gráupplagt að segja frá hvað á daga okkar hefur drifið síðan síðast.

Síðast þegar að ég bloggaði þá vorum við í þann mund að upplifa stórkostlega lífsreynslu. Dagurinn byrjaði á því að allur herskarinn vígvæddist og fór í alls konar Íslandsbúninga. Það var svo heldur betur ekki leiðinlegt að labba niður að vellinum þar sem horft var á okkur eins og við værum einhyrningar eða eitthvað álíka sjaldgæft og enginn þekkti búninginn.

Áður en við fórum inn á völlinn í St. Etienne var öllum kindunum smalað inn í svokölluð Fan Zone og var það hin besta skemmtun að vera þar. Þá fyrst tók maður eftir hvað það var rosalega mikið af Íslendingum á svæðinu.
Einhver staðar heyrði ég það að 1 af hverjum 2000 karlmönnum á Íslandi á aldrinum 20-40 ára væri í íslenska landsliðshópnum. Ég get því ímyndað mér að hlutfallið af sama hópi á vellinum sé u.þ.b. 1 af hverjum fjórum. Það sem gæti þó hafa blekkt mig að einhverju leyti var það að mikið var af Englendingum í íslensku treyjunni og sumir voru meira segja í Iceland innkaupa poka sem var mjög flott og sungu íslenska stuðningsmanna söngva.

Inn á vellinum er ég nokkuð viss um að ég tala fyrir allan hópinn þegar að ég segi að það var rosalegur fiðringur sem fór um mann. Ég og Tólfubjörg vorum á sama svæði og tólfan(Stuðningsmanna klúbbur Íslands) og það var því ekki sest niður allan leikinn. Það var yndislegt. Stemmningin var gífurleg og hef ég farið á nokkra leiki í útlöndum en enginn er samanburðarhæfur við þennan.

Portúgalarnir voru fleiri en við á vellinum en þar sem að þeir gerðu ráð fyrir einföldum sigri á Íslandi var mjög takmarkað líf í þeim. Það er því auðvelt að ímynda sér líðan þeirra þegar Birkir jafnaði leikinn og allt varð gjörsamlega vitlaust í Íslands stúkunni. Fyrir framan mig og Fótboltabjörgu í stúkunni voru 5 Portúgalar og var eins og þeir vildu vera með leiðindi. Í fyrsta lagi þá reyktu þeir allan tímann þrátt fyrir að það væri bannað og það var ekki fyrr en vörðurinn var búinn að þurfa að segja þeim það þrisvar að þeir mættu ekki reykja sem þeir hættu. Anti-reykingabjörg gekk líklegast harðast fram í þessum málum og uppskar hún fyrir erfiðið eina stóra löngutöng beint frá fimmtugum portúgala.
Eftir að þeir hættu að reykja stóðu þeir í staðinn upp á stólinn og lokuðu á útsýnið fyrir litla íslenska stráka sem voru fyrir aftan. Við báðum þá um nokkrum sinnum að fara niður og var það ekki fyrr en Ísland jafnaði sem þeir fóru niður.

Í stúkunni var mikið gert út á klappa tvisvar og öskra svo „HÚ!“. Við fengum allskonar spurningar um þetta frá útlendingu og héldu sumir að það væri einhver djúp merking á bakvið þetta. T.d. að við værum að segja „blár“ eða „hvalur“. Því miður þýðir þetta ekki neitt meira en bara „HÚ!“

Daginn eftir var förinni heitið til Marseille. Þar tók við okkur líklegast hjálplegasti maður allra tíma að nafni Guy. Hann sótti okkur á lestarstöðina og fór með okkur að húsinu sínu. Hann hafði keypt fullt af mat og drykkjarföng fyrir okkur því hann vissi að við værum svöng. Einnig hafði hann sérstaklega keypt fótbolta rásina fyrir okkur því hann vissi að við vildum horfa á fótboltann. Eins og það væri ekki nóg þá krafðist hann þess að daginn eftir myndi hann fara með okkur og hjálpa okkur að leigja bílaleigubíl og gaf sér góðan tíma í að segja okkur hvað hægt væri að gera í húsinu og í hverfinu.

Dagarnir hér í Marseille hafa verið ósköp notalegir.  Mikið slakað á og haft það notalegt auk þess sem að herra Guy hefur hjálpað okkur með hina og þessa hluti eins og að kaupa lestarmiða, prenta út miða og eyða fjórum klukkutímum í að finna bílaleigubíl. Við erum því ótrúlega þakklát honum.

Guy er fyrrverandi lýtalæknir sem er sestur í helgan stein en hann segist ekki hafa neinn tíma til að leggjast í helgan stein. Það hefur líklegast eitthvað að gera með hversu hjálplegur hann er.
Húsið sem við höfum er virkilega flott og er heitur pottur í kjallaranum.

Í gær fórum við niður í bæ og hittum þar fyrir fullt af drengjum sem við könnuðumst við. Voru þeir allir hinir peppuðustu. Því var farið í söngstríð við Ungverjana, þar sem stutt er síðan Rússarnir voru hérna í Marseille er lögreglan tilbúin öllu. Það munaði því kannski ekki svo miklu að lögreglan hefði skorist í leikinn þrátt fyrir að söngstríðið fór fram í miklum frændskap.

Nú er staðan þannig að við erum farin að undirbúa brottför á leikinn og er mannskapurinn orðinn ansi peppaður, sérstaklega þar sem mikið er hlustað á íslensk ættjarðarlög.

Au revoir

 

Lag dagsins(Texti: Where are you Netherlands?, Lag: Rigoletto La Dona e mobile):

Where are you Netherlands?,
where are you Netherlands?,
you did not qualify,
you did not qualify,
is it because of us?,
is it because of us?,
yes it‘s because of us,
yes it‘s because of us.

Mynd dagsins:

Næ ekki að setja inn mynd en hún er af hópnum fyrir leikinn gegn Portúgal


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband