Loksins skilur maður mr. 305, mr. Worldwide

Góðan daginn kæru lesendur,
nú sit ég eins slakur og það gerist á þilfari Norwegian Epic sem er skemmtiferðaskip sem siglir suður um höfin að sólgylltri strönd nánar tiltekið um Karabíska hafið. Best af öllu, það er jóladagur og það eina sem ég þarf að pæla í er hvort að ég þurfi sólarvörn nr. 15 eða 30.

Síðast þegar að ég skildi við ykkur vorum við fjölskyldan á leiðinni frá köldum stað(St. Louis, Missouri) að hlýjum stað(Fort Lauderdale, Flo-Rida) í US and A.

Það fyrsta sem maður þarf alltaf að pæla í hér í US and A er hvernig maður getur reddað bíl enda ekki séns að vera án þeirra. Síðan var KEYRSLA enda allar vegalengdir alveg gífurlegar. Fyrsti staðurinn sem við keyrðum að heitir Marathon(ég veit, nóg af bröndurum hægt að segja um það bæjarnafn en ég ætla að leyfa ykkur að sleppa við það). Marathon er lítill strandbær staðsettur á Florida Keys. Að keyra eftir þessu rifi er hreint út sagt ótrúlegt, virkilega fallegt. Skil í raun og veru ekki af hverju þetta er ekki frægari staður. Um kvöldið þá enduðum við fyrir ótrúlega tilviljun á heimilisbát hjá fólki sem lifði mjög klassísku bóhem lífi. Maðurinn, Chris hafði átt veitingastað en seldi hann svo bara og keypti sér svo bara bát og siglir um höfin og vinnur fyrir sér með því að elda á hinum og þessum veitingastöðum. Konan, Erin var með meistara gráðu í viðskiptafræði en ákvað að snúa sér bara algjörlega við og búa þessu lífi. Þau fullyrtu bæði að þau höfðu aldrei verið jafn hamingjusöm á ævinni þrátt fyrir að eiga næstum ekki neitt. Fallegur hugsunarháttur finnst mér.
Ég hafði líka mjög gaman að því að þessi Chris var mjög hjátrúarfullur og t.d. þá gjörsamlega hataði hann banana ekki vegna þess að honum finnst þeir vera vondir heldur einfaldlega segir hann að mikil ógæfa fylgi banönum út á sjó. Þess vegna fannst mér mjög fyndið að lauma bönunum á þilfarið hjá þeim og lét hann ekki vita fyrr en seint um kvöldið að það væri banani um borð. Þá varð hann virkilega hræddur og bað vinsamlegast að fjarlægja þennan banana eins og skot!

Daginn eftir keyrðum við um þetta Florida rif og enduðum á Key West. Það er staður sem ég mæli virkilega með.  Ótrúleg fegurð líka að keyra eftir þessu rifi! Við snerum svo við og keyrðum til Miami.

Miami er í einu orði rosaleg. Það er ekki að ástæðulausu sem kúbverski kvennaljómurinn og textakóngurinn Pitbull minnist á Miami í hverju einasta lagi hjá sér. Það er staður sem ég ætla skjalfest að fara aftur á. Gjörsamlega geggjuð strönd og allt að frétta með allt annað. Um kvöldið kíktum ég og Patti litli bróðir út á lífið í Miami. Þar sem að Miami varð ekki stórborg fyrr en á 6. áratugnum með tilkomu innflutnings mikils magn af hvítu dufti sem er ekki hveiti og ekki bökunarsódi þá kom það okkur ekki á óvart að við vorum spurðir þrisvar hvort við vildum „bökunarsóda“  á fyrstu fimm mínútunum okkar þar.

Morguninn eftir vorum ég og pabbi einstaklega lúmskir og skelltum okkur í lauflétt útihlaup. Eins og gengur og gerist þá hoppaði stór hundur á pabba sem meiddi hann töluvert. Svo er alltaf talað um hvað það sé gott fyrir mann að fara út að hlaupa!

Það var síðan keyrt á næsta hótel sem staðsett er í Florida mall. Við þurftum þó fyrst að skila bílaleigubílnum. Maðurinn sem við fengum far með frá bílaleigunni að hótelinu var frá Jamaíka og algjör eðal töffari sem elskaði að segja „ya, man!“ með jamaíkískum hreim. Var hreint út sagt yndislegt. Við höfðum líka sameiginlegan grundvöll að tala um þar sem að við vorum báðir mjög hrifnir af „Cool runnings“ bíómyndinni og auðvitað Bob Marley.
Á hótelinu hittum við svo leiðsögumanninn okkar sem er gamall vinur mömmu úr menntaskóla og heitir Skúli, ég var ekki að hata hversu mikill brandakarl hann er. Fjölskyldan hans var þó orðinn aðeins þreytt á bröndurunum hans. T.d. slær það alltaf í gegn þegar að hann er spurður hvort að dætur hans séu dætur hans, þá svarar hann alltaf: „Tja, konan mín segir það allavega“.
Okkur var svo ekki til setunnar boðið heldur en að undirbúa okkur fyrir siglinguna sem myndi verða daginn eftir.

Mynd dagsins:

15820760_10207882358633014_1310860115_o

 

 

 

 

 

 

 

Við að njóta þess að hafa aðgang að sólarvörn á Miami beach

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband