Lukka í ólukku eða ólukka í lukku?

Hej alle sammen,
nú er þessi leiðangur minn um hina yndislegu sunnanverðu Skandinavíu senn að enda og því gráupplagt að skella í eitt blogg eða svo.

Á sunnudaginn hoppaði ég upp í lest frá Lund til Kaupmannahafnar að hitta þær Lovísu(Lobbu) og Ragnheiði(Röggu) ásamt kærasta Röggu hann Úlf og fékk að gista hjá þeim. Þau eru að læra ýmsar verkfræðigreinar í DTU(tækniháskóli í Kaupmannahöfn).
Í lestinni átti ég gott samtal við mann frá Los Angeles sem var 81 árs og var í eins árs heimsreisu. Hann er fyrrverandi lögfræðingur, hætti að vinna þegar hann var 80 ára og leit út fyrir að að vera í svona mesta lagi 55 ára. Hvílík fyrirmynd!

Að lestarferð lokinni hitti ég þær Lobbu og Röggu á Bagsværd station þar sem að þær komu fótgangandi og skælbrosandi að sækja mig. Förinni var heitið í næstu kjörbúð að versla inn alls konar góðmeti fyrir matarboðið sem haldið var hjá þeim um kvöldið. Þær sýndu mér hverfið sem þær bjuggu í og sögðu mér alls konar skemmtilegar sögur. Ég get svarið það að hverfið sem þær búa í er hverfið þar sem Klovn er tekið upp í, semsagt draumur í dós.
Lobba sagði mér líka að hún hafði neyðst til að kaupa sér hjálm þar sem að hún gat ekki talað við foreldra sína án þess að pabbi hennar spurði hana hvort hún væri búin að kaupa hjálm. Lobba er því líklegast eina manneskjan hérna í Kaupmannahöfn sem notar hjálm þegar að hún hjólar í bænum.

Um kvöldið var svo haldið matarboð þar sem að Arna Dýrfjörð og Ari Páll Ísberg sem eru líka að læra hér í DTU og voru með okkur í Verzló mættu í. Úlfur henti í eina rándýra kjúklingasúpu.
Það sem tók við af því var líklegast minnst nördalegasta partý sem ég hef farið í(sex verkfræðinemar saman). Ari bjó til pub quiz með 20 spurningum þar sem voru t.d. spurningar eins og hvað er (x+2)3.
Að því loknu var svo leystur fylkjareikningur sem að Úlfur hafði verið að brasa við í skólanum. Já, það er eins gott að hafa fjölbreytni í þessu. En það sem skiptir máli var að við skemmtum okkur konunglega og ef skemmtunin er konungleg þá skiptir ekki máli á hvaða formi hún er.

Dagurinn eftir það var svo í raun tilgangur ferðarinnar. Þá fór ég og kíkti á framtíðarskólann minn, DTU(Danmarks Tekniske Universitet). Ég var svo heppinn að Úlfur átti eitt aukahjól og fékk ég það lánað þegar Lobba sýndi mér allt það besta sem DTU hefur upp á að bjóða.
Í skólanum hitti ég fyrir Ara Pál Ísberg(Ari kál), Atli Páll Helgason og Hafþór Hákonarson(Haffi kaffi). Eftir að hafa snætt með þeim unaðslega mötuneytismáltíð héldu þeir áfram að læra en ég fór á vit ævintýranna, settist upp á hjólið og drakk í mig stemninguna í Lyngby(úthverfisbær frá Kaupmannahöfn þar sem DTU er staðsett).
Nokkru seinna fékk ég símtal frá fyrrverandi bekkjarbróður mínum úr Verzló honum Alexander Jóhannessyni(Lexi flex) og hitti ég hann á Ráðhústorginu. Við héldum rakleiðis áfram að hitta vini hans þau Bubbi Bergsteinsson og Ína Sturludóttir en ótrúlegt en satt þá eru þau líka í DTU. Stefnan var sett á staðinn Hviids Vinstue þar sem Jónas Hallgrímsson og félagar voru tíðir gestir á og Hr. Hallgrímsson fótbraut sig og dó, líklegast bláedrú. Já, það er gott að við Íslendingar höfum jafn merkan mann sem þjóðhetju!

Síðan var haldið í Tívolí sem skartaði heilmiklum Halloween skreytingum. Það var því mikið fyrir augað að vera það. Við keyptum okkur að sjálfsögðu passa í öll stóru tækin til að geta verið með hinum stóru krökkunum.
Það er komið nýtt tæki þar frá því að ég var síðast sem er einhver flugvél sem snýst í hringi, það var það klikkað að það mætti halda að sómalski sjóræninginn Shafar væri að stýra því. Allavega snérist hausinn á mér næsta hálftímann.

Eftir góða tívolíferð var kominn tími til að tía sig heim. Því miður ákvað ég á þeim tímapunkti að sannfæra sjálfan mig um það að væri ekkert sniðug hugmynd að stilla ekki vekjaraklukku í lestinni á leiðinni heim. Eins og gengur og gerist þá auðvitað sofnaði ég og fór einhverjum þrem stöðum of langt. Til að gera þetta að ennþá betra ævintýri þá voru lestarnar hættar að ganga og því bara um að gera og skella sér upp á reiðhjólið og reyna að finna húsið. Á endanum tókst það en það sem var hvað skemmtilegast var að hjólastígarnir voru lítið eða ekkert upplýstir og því þurfti ég oft að fylgja hvítu línunni á stígnum sem rétt sást vegna birtu frá tunglinu(mjög ljóðrænt!). Ferðin lengdist því um einhverja tvær klst en það var bara gaman að því.

Daginn eftir tók ég svo ennþá stærri skitu á mig. Á flugmiðanum mínum stóð að flugið átti að fara kl 13:05, af einhverjum ástæðum hafði ég í staðinn lesið 3:05. Ég lagði því svona tveimur klst of seint af stað og þegar ég var mættur á flugvöllinn var ekki lengur hægt að innrita sig og því gat ég ekki farið með heim í flugi og þurfti því að kaupa nýjan flugmiða. Ég gat þó allavega huggað mig við að þetta gerðist í Danmörku þar sem hægt var að fá nýjan ódýran miða heim næsta dag og ég var með gistingu. Lovísa, Ragga og Úlfur voru samt ekki jafn heppin að þurfa að hafa mig einn dag í viðbót.
En eins og sönnum góðum gestgjöfum sæmir þá gerðu þau bara gott úr þessu og buðu Gunnar Þorláki Þórssyni(Gull-Gunnar grjótharði) í mat þar sem að eldaður var hinn frægi paragvæski pasta réttur, pasta carbonara.
Þótti mér kvöldið heppnast með besta móti og var mjög gaman að því að einhver var auðsjáanlega nýbúinn að setja 100 kall í Gunnar því að hann gerði ekki annað allt kvöldið en að reita af sér brandara.

Í dag fór Ragga svo með mér niður á flugvöll til að sjá til þess að ég kæmist örugglega á flugvöllinn og reyndar líka til að sækja foreldra sína. Ég held að það hafi samt bara verið afsökun til að vera örugg um að ég kæmist heim.

Að lokum vil ég svo þakka öllum kærlega fyrir sem tóku á mér á þessari ferð minni. Yndislegt að fá að hitta á ykkur. Sérstaklega vil ég auðvitað þakka þeim sem hýstu mig kærlega þeim: Einari, Lobbu, Röggu og Úlf.

Fastir liðir:
Danska dagsins: Du må ikke komme ind fordi du er for sent(Mjög svekkjandi að lenda í þessu)

Mynd dagsins:

14793672_10154258606604219_1119801808_n

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd frá minnst nördalega partý allra tíma


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband